Ráðin forstöðukona Framtíðarsýnar og reksturs
Guðbjörg Sæunn Friðriksdóttir hefur verið ráðin forstöðukona Framtíðarsýnar og reksturs hjá Veitum. Hún útskrifaðist með BS próf í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2010 og með M.Sc próf í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands árið 2012. Að námi loknu hóf Guðbjörg störf á framleiðslusviði Össurar, fyrst sem ferilseigandi á CNC renniverkstæðinu þar til hún tók við öryggis- og umbótasviði framleiðslu og síðar starfaði hún sem framleiðslustjóri silikondeildar.
Guðbjörg Sæunn var ráðin forstöðumaður fráveitu Veitna árið 2019 en tekur nú við nýju sviði í breyttu skipulagi fyrirtækisins. Framtíðarsýn og rekstri er ætlað að stuðla að framúrskarandi þjónustu við viðskiptavini Veitna með stöðugum umbótum auk þess að leiða vegferð fyrirtækisins í átt að frekari skilvirkni í fjárfestingum og rekstrarkostnaði. Undir sviðið heyra svæðisfulltrúar, verkefnastjórar, fageftirlit, hönnun, vöruþjónusta, gagnagreining, stefnumótun og umhverfis- og skipulagsmál.