Orkusalan aðalbakhjarl Vetrarhátíðar 2017
Orkusalan verður aðalbakhjarl Vetrarhátíðar í Reykjavík í ár, en samstarfssamningur fyrirtækisins og Höfuðborgarstofu var undirritaður á dögunum.
Vetrarhátíð í Reykjavík verður haldin í 16. sinn dagana 2. – 5. febrúar. Megintilgangur Vetrarhátíðar er að skemmta fólki á höfuðborgarsvæðinu og gefa því tækifæri til að njóta ókeypis viðburða á sviði menningar, lista, íþrótta og útiveru í eigin sveitarfélagi og/eða heimsækja nágranna sína í nærliggjandi sveitarfélagi.
Norðurljósalitirnir, grænn og fjólublár eru einkennislitir Vetrarhátíðar og verða á þriðja tug bygginga á höfuðborgarsvæðinu upplýstar auk ljóslistaverka á þekktum byggingum á höfuðborgarsvæðinu.
Magnús Kristjánsson, framkvæmdastjóri Orkusölunnar, segir samninginn gera fyrirtækinu kleift að styðja við menningarlífið á höfuðborgarsvæðinu þar sem ljós og myrkur spili lykilhlutverk en einnig eigi hátíðin vel við hlutverk Orkusölunnar um að koma höfuðborgarbúum í stuð!