Nýtum hreina, innlenda orkugjafa á samgöngutæki
Orkuskipti í samgöngum eru mikilvægur hluti alþjóðlegra skuldbindinga í loftslagsmálum á Íslandi. Orkuskipti í samgöngum snúast um að draga úr notkun á innfluttu jarðefnaeldsneyti og nota í staðinn innlenda hreina orkugjafa á bíla, skip og flugvélar.
Orkan sem nýtt er innanlands kemur að langmestu leyti frá endurnýjanlegum orkugjöfum, jarðhita og vatnsafli, eða 91%. Hlutfallið er 85% ef eldsneyti á millilandaflug og farskip eru tekin með. Þessu má þakka þeim orkuskiptum sem á sínum tíma var ráðist í á öðrum sviðum samfélagsins. Aðeins 9% prósent orkunnar sem notuð er innanlands er innflutt eldsneyti, sem nýtt er á samgöngutæki; á bíla, fiskiskip og sjósamgöngur innanlands auk innanlandsflugs.
Samkvæmt aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum til að uppfylla Parísarsamninginn á að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum á landi um 21% miðað við árið 2005, en vegna þess hversu mikið útblástur hefur aukist frá árinu 2005 er talan nú 37%, sem þarf að draga úr, miðað við stöðuna árið 2018. Með því að draga úr þessum útblæstri getur Ísland lagt enn frekar af mörkum til loftslagsmála, til viðbótar við að hafa húshitun og rafmagnsframleiðslu úr endurnýjanlegum orkugjöfum, og um leið sparað gjaldeyri og aukið orkuöryggi þjóðarinnar, sem þá verður ekki lengur eins háð innflutningi á eldsneyti.
Orku- og veitufyrirtæki landsins hafa hér stóru hlutverki að gegna og þau hafa unnið að undirbúningi orkuskipta um langt skeið og staðið að öflugum greiningum, rannsóknum og fjárfestingum til að leggja sitt af mörkum.. Þau hafa nú þegar lagt grunninn að nauðsynlegum hleðsluinnviðum um allt land fyrir rafbíla. Auk þess hafa fyrirtækin tekið þátt í að þróa og koma á fót innlendri framleiðslu á öðrum hreinorkugjöfum í formi rafeldsneytis og lífeldsneytis s.s. vetni, metanóli, metan og lífdísel fyrir hreinorkufarartæki framtíðarinnar.
Uppbygging hleðsluinnviða fyrir rafbíla, fjárhagslegir hvatar sem stjórnvöld hafa komið á og stóraukið úrval rafbíla og tengiltvinnbíla hafa nú þegar skilað Íslandi í fremstu röð á heimsvísu í rafbílavæðingu, næst á eftir Noregi sem er í fyrsta sæti. Þá hefur orðið hröð þróun í farartækjum sem nýta rafeldsneyti eða lífeldsneyti s.s. vöru- og hópferðabílum, ferjum, skipum og flugvélum.
Samorka kynnti á ársfundi sínum í gær niðurstöður greininga um orkuskipti í samgöngum á Íslandi. Greiningin byggir meðal annars á niðurstöðum úr nýrri, umfangsmikilli hleðslurannsókn sem staðið hefur yfir í eitt ár með þátttöku tvö hundruð rafbílaeigenda um allt land. Niðurstöðurnar gefa mikilvægar upplýsingar um við hverju megi búast þegar rafbílum fjölgar til muna með tilheyrandi álagi á raforkuframleiðslu-, flutnings- og dreifikerfi landsins.
Markmið stjórnvalda um orkuskipti í vegasamgöngum samkvæmt Parísarsamningnum kalla á um 300 MW (1,4 TWh á ári) samkvæmt greiningunni. Fjárfesta þarf um 15 milljarða árlega til ársins 2030 í uppbyggingu flutnings- og dreifikerfis, meðal annars fyrir orkuskipti. Til þess þarf að gera regluverk um þá skilvirkari. Þjóðarbúið sparar um 20-30 milljarða króna á ári vegna minni eldsneytiskaupa og heimilin spara einnig um 400.000 krónur árlega með því að skipta yfir í rafbíl og sleppa við að kaupa eldsneyti. Tveir af hverjum þremur bílum á götunni þurfa að vera orðnir rafbílar fyrir árið 2030. Útblástur myndi minnka um 37% frá samgöngum, eða um 365.000 tonn.
Ef skipta ætti alveg út jarðefnaeldsneyti fyrir innlenda hreina orkugjafa í öllum bílum, skipum og flugvélum innanlands fyrir árið 2030 þyrfti um 1200 MW (9TWh á ári). Þar með væri orkunotkun innanlands orðin nær 100% græn.
Rannsókn HR og HÍ, sem unnin var fyrir Samorku árið 2018, sýnir að rafbílavæðing er þjóðhagslega hagkvæm. Orkuskipti í samgöngum fela einnig í sér mikil sóknarfæri fyrir Ísland til verðmætasköpunar, atvinnusköpunar og nýsköpunar.