Norræna vatnsveituráðstefnan í Hörpu
Fátt er mikilvægara en aðgengi að heilnæmu og góðu vatni. Til þess þarf góðar vatnsveitur, reglubundnar rannsóknir og framþróun.
Norræna vatnsveituráðstefnan, sú tíunda í röðinni, hófst í Hörpu í Reykjavík í dag, miðvikudaginn 28. september. Þar koma saman helstu vísindamenn og sérfræðingar Norðurlandanna í drykkjarvatni. Um 300 manns taka þátt í ráðstefnunni og flutt verða hátt í 100 erindi um helstu viðfangsefni vatnsveitna á Norðurlöndum.
Helgi Jóhannesson, stjórnarformaður Samorku og framkvæmdastjóri Norðurorku, setti ráðstefnuna og bauð gesti velkomna. Þá ávarpaði Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fundargesti. Hann ræddi mikilvægi drykkjarvatns og hversu mikilvægt hreint vatn er ímynd Íslands.
Aðalfyrirlesarar dagsins eru María Jóna Gunnarsdóttir frá Háskóla Íslands og Mia Bondelind hjá Chalmers Tekniske Högskola í Gautaborg í Svíþjóð.
María Jóna fjallaði um það sem huga þarf að hjá litlum vatnsveitum á Norðurlöndum (þ.m.t. á Íslandi), sem lúta oft öðrum eftirlitsreglum en þær stærri vegna þess að þær eru oft til einkanota eða þjónusta lítið landsvæði. Hins vegar sjá þær nú í auknum mæli töluvert stærri fjölda fólks fyrir vatni vegna fleiri ferðamanna. Fylgjast þurfi betur með þessu, því flest frávik sem mælast í drykkjarvatni á Norðurlöndum koma frá litlum vatnsveitum. Litlar vatnsveitur þjónusta um þrjár milljónir íbúa á Norðurlöndum.
María Jóna telur nauðsynlegt að skylda litlar vatnsveitur til að gangast undir reglubundið eftirlit og taka upp innra eftirlit, til að ganga úr skugga um að vatnið sem þær veita sé heilnæmt.
Mia Bondelind fjallaði um traust fólks á vatnsveitum, áhættumat almennings þegar kemur að drykkjarvatni og almennt um viðhorf til drykkjarvatns, þar sem Norðurlandabúar taki hreinu drykkjarvatni almennt sem sjálfsögðum hlut.
Bondelind sagði mikilvægt að almenningur hafi góðan aðgang að upplýsingum og að vatnsveitur leggi sig fram við að veita þær, bæði þegar allt gengur eðlilega fyrir sig og ef eitthvað fer úrskeiðis.
Norræna vatnsveituráðstefnan er haldin annað hvert ár og nú í tíunda sinn. Ráðstefnunni lýkur á föstudag. Nánari upplýsingar um dagskrá og almennar upplýsingar um ráðstefnuna má finna á heimasíðu hennar.