#MeToo: Stjórn Samorku hvetur til aðgerða
Stjórn Samorku hvetur aðildarfyrirtæki samtakanna til þess að taka ákall #metoo umræðunnar föstum tökum.
Frásagnir kvenna um áreitni og mismunun koma frá fjölbreyttum starfsstéttum og má því miður gera ráð fyrir að úrbóta sé einnig þörf innan orku- og veitustarfseminnar.
Kynferðisleg áreitni, ofbeldi og mismunun á aldrei rétt á sér og stjórn Samorku hvetur stjórnendur til að beita sér fyrir úrbótum og bættum samskiptum á sínum vinnustað. Þannig geti starfsfólk mætt öruggt og óttalaust til vinnu.
Konum hefur fjölgað mikið í orku- og veitustarfsemi á síðustu árum og til þess að sú góða þróun geti haldið áfram eru úrbætur á þessu sviði mikilvægar. Orku- og veitustarfsemi á að vera öruggur og eftirsóknarverður starfsvettvangur fyrir alla.