Metnotkun á heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu
Notkunin á heitu vatni til húshitunar á fyrstu sex mánuðunum hefur verið 10% meiri en að meðaltali, sé litið til næstu fjögurra ára á undan. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Veitum.
Dagana 16. – 23. janúar fóru að jafnaði 15.161 rúmmetrar á klukkustund í gegnum hitaveitu Veitna á höfuðborgarsvæðinu sem er mesta vikunotkunin sem sést hefur. Met í sólarhringsnotkun og notkun á klukkustund voru einnig slegin í janúar.
Ástæða þessarar aukningar á notkun á heitu vatni ætti ekki að koma íbúum á höfuðborgarsvæðinu á óvart. Kuldatíð í janúar og febrúar og einstaklega rysjótt tíð í maí og júní á suðvesturhorni landsins hefur ekki farið fram hjá neinum. Þess utan hefur notkun á heitu vatni aukist mikið á síðustu árum, eða um tæplega 20% á síðustu fimm árum.