Laki Power fær 335 milljóna króna styrk frá ESB

 

Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Laki Power, sem þróar og framleiðir tæki til þess að fylgjast með ástandi háspennulína, hefur hlotið 2,1 milljóna evra styrk, jafnvirði um 335 milljóna króna, frá Evrópusambandinu til að þróa tæknina áfram og efla sölu- og markaðsstarf á erlendum mörkuðum. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, atvinnu- og nýsköpunarráðherra, afhenti Óskari H. Valtýssyni, stofnanda Laka Power, nýlega stuðningsbréf frá íslenskum stjórnvöldum sem auðveldar sókn á erlenda markaði.

Styrkurinn er hluti af sérstökum stuðningi Evrópusambandsins við nýsköpun þar sem markmiðið er að styrkja þau fyrirtæki sem eiga mesta möguleika á að vaxa á alþjóðlegum mörkuðum. Laki Power er eitt af 38 fyrirtækjum í Evrópu sem hljóta styrkinn eftir strangt matsferli, en alls bárust yfir 4,200 umsókn¬ir og hafa þær aldrei verið fleiri.

Laki Power var stofnað árið 2015 til að þróa uppfinningu Óskars H. Valtýssonar á tæknibúnaði sem er hengdur upp á háspennulínur og fylgist nákvæmlega með ástandi þeirra. Tæknin gerir fyrirtækjum sem annast flutning og dreifingu raforku kleift að hafa nákvæmt eftirlit með ísingu, eldi og umferð fólks við línurnar í rauntíma. Úrvinnsla gagnanna fer fram í skýjalausnum sem Laki Power hefur hannað og mun nú leggja áherslu á að þróa enn frekar með tilkomu styrksins.

Óskar H. Valtýsson, stofnandi Laki Power, og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra nýsköpunarmála í atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, atvinnu- og nýsköpunarráðherra: „Tæknin sem Laki Power hefur þróað er gott dæmi um þá krafta sem hægt er að leysa úr læðingi með góðu umhverfi og stuðningi við nýsköpun hér á landi. Nýsköpun skiptir gríðarlega miklu máli fyrir atvinnusköpun framtíðar og þar eru grænar lausnir og sjálfbærni ofarlega á blaði. Það verður mjög spennandi að fylgjast með sókn fyrirtækisins inn á alþjóðlega markaði um leið og til verða eftirsótt störf hér á landi.“

Björgvin Skúli Sigurðsson, framkvæmdastjóri Laka Power: „Þessi styrkveiting er mikil viðurkenning á starfi Laka Power undanfarin sex ár og á þeim sóknartækifærum sem fyrirtækið stendur nú frammi fyrir. Innan við eitt prósent fyrirtækja sem sækja um styrkinn fá hann þannig að við erum komin í hóp mest spennandi nýsköpunarfyrirtækja Evrópu. Styrkurinn mun hjálpa okkur að sækja fram á erlendum mörkuðum og við að ráða inn fleira starfsfólk á sviði hugbúnaðar, rafbúnaðar og framleiðslu til að sækja enn hraðar fram á mörkuðum um al

lan heim.“