Kalda vatnið ódýrast á Íslandi
Heimili í Danmörku þarf að greiða rúmlega þrefalt meira fyrir notkun kalda vatnsins á ári hverju en á Íslandi. Ódýrast er að nota kalt vatn á Íslandi af Norðurlöndunum.
Þetta kemur fram í árlegri samantekt Samorku um kaldavatnsnotkun þar sem stuðst er við nýjar tölur frá stærstu veitufyrirtækjum á Norðurlöndum.
Eins og sjá má er sker kostnaðurinn sig úr í Danmörku með tæplega 78 þúsund krónur árlega fyrir kaldavatnsnotkun. Skattar og gjöld hækka þessa tölu mikið, eins og sjá má á næstu mynd hér fyrir neðan, en jafnvel án þeirra er kostnaðurinn mestur þar.
Í Finnlandi kostar kalda vatnið um 45 þúsund á hverju ári og svipað í Noregi, eða um 42 þúsund. Í Svíþjóð og á Íslandi er rukkað minnst fyrir þessa þjónustu. Í Svíþjóð má búast við að greiða rúmlega 25 þúsund krónur árlega fyrir notkun á köldu vatni og á Íslandi 24 þúsund, eða tvö þúsund krónur á mánuði.
Íslendingar eru ein vatnsríkasta þjóð heims og landsmenn nota kalda og heilnæmt vatnið óspart. Meðalnotkun á heimili er um 500 lítrar á sólarhring sem er það mesta sem gerist í Evrópu. Kalt vatn er ekki selt um rennslismæla hérlendis eins og víðast hvar annars staðar, heldur er kostnaður áætlaður út frá fasteignamati. Þrátt fyrir mikinn vatnsauð og lítinn kostnað, hvetja veitufyrirtæki þó til þess að almenningur beri virðingu fyrir auðlindinni og noti vatnið skynsamlega, til að halda viðhaldskostnaði í skefjum.