Jákvæð niðurstaða fyrir HS Orku
HS Orku hf. hefur borist jákvæð niðurstaða í gerðardómsmálinu sem varðaði gildi orkusölusamnings milli HS Orku hf. og Norðuráls Helguvíkur ehf. Þetta kemur fram á heimasíðu HS Orku í dag.
Gerðardómurinn komst að þeirri niðurstöðu að orkusölusamningurinn væri sökum tiltekinna kringumstæðna ekki lengur í gildi. Ennfremur var það niðurstaða gerðardómsins að lok samningsins væru ekki af völdum HS Orku og öllum gagnkröfum Norðuráls Helguvíkur ehf. í málinu var hafnað.
Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku hf., sagði af þessu tilefni: „Við erum ánægð að þetta langvinna mál sé nú að baki. Þessi niðurstaða mun gera okkur kleift að leita nýrra samningstækifæra á Íslandi án takmarkana eftir því sem ný orka verður til reiðu.“