Ísland trónir á toppnum
Ísland stendur sig best allra þjóða þegar kemur að hlutfalli endurnýjanlegra orkugjafa í rafmagnsframleiðslu, samkvæmt nýjum tölum frá Alþjóða orkumálastofnuninni (IEA). Hér á landi er hlutfallið 99,99% og er mun hærra en í öðrum Evrópulöndum, að Noregi frátöldum þar sem hlutfallið er tæp 98%.
Að sama skapi skipar Ísland neðsta sætið þegar hlutfall jarðefnaeldsneytis (olíu, kola og gass) við rafmagnsframleiðslu er borið saman. Þar er hlutfallið 0,01%, hérlendis, en hjá rétt um helmingi samanburðarlanda er hlutfallið um og yfir 50%.
Á heimsvísu snýst baráttan gegn losun gróðurhúsalofttegunda einkum að því að minnka losun frá orkuframleiðslu og auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa. Þessar nýju tölur staðfesta sterka stöðu Íslands.
Eins og sjá má standa Eistland, Pólland og Holland frammi fyrir verðugu verkefni þegar kemur að því að auka hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í rafmagnsframleiðslu, en hlutfall kola, gass og olíu er þar í kringum 90%.