Húshitunarkostnaður langlægstur í Reykjavík

Það kostar fimmfalt meira á ári að hita húsið sitt í Helsinki en í Reykjavík. Húshitunarkostnaður er langlægstur á Íslandi og er þrefalt minni en þar sem næstódýrast er að hita.

Þetta kemur fram í nýrri samantekt Samorku um húshitunarkostnað á Norðurlöndum. Stuðst er við tölur frá stærstu veitufyrirtækjum í hverri höfuðborg.

Árlegur kostnaður við að hita heimili á Íslandi er rúmar 85 þús krónur á ári fyrir íbúa á höfuðborgarsvæðinu . Íbúi í Helsinki þarf að borga hátt í hálfa milljón árlega, eða um 428 þús krónur. Í Stokkhólmi er næstdýrast að hita húsið sitt eða rúmlega 300 þús krónur á ári. Íbúar í Kaupmannahöfn og Osló borga svipað á ári, eða tæplega 300 þús krónur.

Skattar vega nokkuð þungt á húshitunarreikningi Norðurlandabúa, en auk virðisaukaskatts er innheimtur sérstakur orkuskattur. Á Íslandi er hann 2% á heitt vatn.

 

Langflest heimili landsins eru hituð upp með heitu vatni (jarðhita), eða 90%. Í Reykjavík er þetta hlutfall 100%. Auk þess að vera ódýr kostur, er jarðhiti endurnýjanlegur og umhverfisvænn orkugjafi. Á hinum Norðurlöndum er að mestu notast við raforku eða jarðefnaeldsneyti við upphitun húsa.