Hitaveitur spara losun á við eina og hálfa Kaupmannahöfn
Fyrir átak í uppbyggingu hitaveitna á áttunda áratug síðustu aldar var víða notast við olíu til húshitunar á Íslandi. Ef við værum að nýta sama orkumagn til húshitunar með brennslu olíu og við gerum í dag með nýtingu jarðhita hefði sú olíubrennsla í för með sér losun gróðurhúsalofttegunda sem nemur 18 milljónum tonna af koldíoxíði á ári. Það er á við eina og hálfa árlega losun Kaupmannahafnar.
Í vikunni fór fram alþjóðleg ráðstefna um jarðvarma í Hörpu í Reykjavík, þar sem samankomnir voru um 700 manns frá 45 löndum til að ræða kosti jarðvarmanýtingar og áskorunum sem þeim fylgja. Nú þegar heimsbyggðin stendur frammi fyrir því að gera gríðarlegar breytingar á orkunýtingu til að ná Parísarmarkmiðum í loftslagsmálum, er horft til þeirrar einstöku stöðu Íslands að 90% allra bygginga eru hituð með jarðvarma. Jarðvarmi finnst á fjölmörgum stöðum um allan heim og líta margir því til íslenskrar sérþekkingar í þeim geira – að hér höfum við á árangursríkan hátt skipt yfir í endurnýjanlegan og sjálfbæran orkugjafa á skömmum tíma.