Græn raforka til áliðnaðar sparar yfir 6 milljónir tonna á ári í losun
Loftslagsmálin eru ofarlega á baugi þessi misserin, ekki síst í kjölfar loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París. Stærsta viðfangsefnið á heimsvísu er að draga úr brennslu jarðefnaeldsneyta á borð við olíu og kol og auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa á borð við vatnsafl, jarðvarma og vindorku. Hér á landi er staðan mjög sérstök í þeim efnum, þar sem nær öll raforkuframleiðsla og húshitun grundvallast á nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa. Ýmis tækifæri eru þó til að gera enn betur, ekki síst á sviði samgangna.
Athyglisvert er að bera losun tengda stóriðju, að meðtalinni losun vegna orkuframleiðslunnar, saman við meðaltalslosun í heiminum af sömu sökum. Álframleiðsla á Íslandi, á grundvelli raforku frá endurnýjanlegum orkugjöfum, sparar á hverju ári losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu sem nemur um sex milljónum tonna af koldíoxíði (CO2), sé miðað við meðaltalslosun raforkuframleiðslu í heiminum til álframleiðslu, að meðtalinni raforkuframleiðslu. Árleg heildarlosun Íslands er um 4,5 milljónir tonna. Sparnaðurinn nemur því meiru en allri losun Íslands.
Samkvæmt Alþjóðaorkumálstofnuninni (IEA) er losun á koldíoxíði við álframleiðslu á Íslandi 0,1 tonn á hvert tonn af áli, samanborið við 7,6 tonn að meðaltali á heimsvísu, að meðtalinni losun vegna raforkuframleiðslu.
Meðal orkusamsetning vegna álframleiðslu á heimsvísu er með eftirfarandi hætti skv. IEA: kol (58%), endurnýjanlegir orkugjafar (31%), gas (9,7%), kjarnorka (1,2%) og olía (0,1%). Á Íslandi er hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa 100% í álframleiðslu.