Fyrirlesarar óskast á alþjóðlega hitaveituráðstefnu
Dagana 23. – 25. október 2019 verður alþjóðlega hitaveituráðstefnan „Sustainble District Energy Conference“ haldin í Reykjavík. Ráðstefnan fer fram í fyrsta skipti hér á landi en tilgangur hennar er að vera samstarfsvettvangur Evrópuþjóða í rannsóknum og þróun á endurnýjanlegum orkugjöfum. Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja á Íslandi heldur ráðstefnuna í samstarfi við íslenska orkuklasann.
Óskað er eftir áhugaverðum fyrirlestrum á ráðstefnuna og opnað hefur verið fyrir tillögur á heimasíðu ráðstefnunnar, sdec.is. Í boði eru fjölbreytt umfjöllunarefni og mega erindin vera bæði um efni vísindalegra greina eða rannsókna, sem og byggð á reynslu fyrirlesarans. Frestur til að skila inn tillögu að erindi er 1. apríl 2019. Erindin verða flutt á ensku á ráðstefnunni.
Samhliða ráðstefnunni verða verðlaunin „Global District Energy climate Awards“ veitt í sjötta skipti. Verðlaunin eru veitt þeim sem þykja skara framúr í vinnslu og nýtingu á endurnýjanlegri orku. Það eru samtökin „Euroheat & Power“ og „EGEC (European Geothermal Energy Concil)“ sem standa að verðlaununum en bæði samtökin hafa það að markmiði að auka samkeppnishæfni endurnýjanlegra orkugjafa.