Málþing: Örplast í skólpi

Vatns- og fráveitufélag Íslands, VAFRÍ, og Samorka halda opið málþing þann 15. nóvember um örplast í skólpi. Málþingi er haldið í Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35, og stendur frá 13.30-16.

Málþinginu er ætlað að varpa ljósi á þá þekkingu sem til er um málefnið hér á landi, um upptök og afdrif örplasts í skólpi og mögulegum hreinsiaðferðum til verndar lífríkis í viðtaka skólps.

Nánari upplýsingar um dagskrá og skráningu má sjá á heimasíðu VAFRÍ.

 

 

Menntun og mannauður: Starfsþjálfun í fyrirtækjum

Fundaröðin Menntun og mannauður heldur áfram í Húsi atvinnulífsins fimmtudaginn 20. október frá kl. 8.30-10.

Að þessu sinni verður kynning á TTRAIN (Tourism training) verkefninu, en það snýst um að mennta einstaklinga innan ferðaþjónustufyrirtækjanna og endurmennta þá sem fyrir eru. Sambærilegt verkefni hefur verið útfært fyrir verslunina á Íslandi þannig að það getur haft breiða skírskotun, þ.e.a.s. hentar ekki endilega einungis aðilum í ferðaþjónustu.

Nánari upplýsingar og dagskrá má sjá á vef Samtaka atvinnulífsins.

Samtök atvinnulífsins, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök iðnaðarins, Samorka og Samtök verslunar og þjónustu standa að fundaröðinni Menntun og mannauður sem mun standa til vors 2017.

Nýjar víddir jarðvarmans á haustfundi JHFÍ

Haustfundur JHFÍ verður haldinn fimmtudaginn 13. október næstkomandi, frá 15:00-16:30. Fundurinn verður haldinn hjá Orkuveitu Reykjavíkur, að Bæjarhálsi 1, 110 Reykjavík.

Þema fundarins er „Nýjar víddir jarðvarmans“ og kaffi og meðlæti er í boði OR.

Dagskrá:

15:00 – 15:05
Setning fundarins Kristín Vala Matthíasdóttir, formaður Jarðhitafélags Íslands

15:05 – 15:10
Úthlutun á styrk JHFÍ

15:10 – 15:15
Ávarp fundarstjóra Fulltrúi frá Konum í Orkumálum

15:15 – 15:30
Vistferilsgreining á rafmagni og heitu vatni frá Hellisheiðarvirkjun Marta Rós Karlsdóttir, forstöðumaður auðlinda, Orku Náttúrunnar

15:30 – 15:45
CarbFix verkefnið: Kolefnisbinding á jarðhitasvæðum Sandra Ósk Snæbjörnsdóttir, doktorsnemi í jarðefnafræði, Háskóla Íslands

15:45 – 15:55
Uppfærsla á þrívíðu hugmyndalíkani af jarðhitasvæðinu í Kröflu Unnur Þorsteinsdóttir, jarðfræðingur, ÍSOR

15:55 – 16:05
Efnisval og prófanir á húðunarefnum fyrir Jarðhitahverfla Helen Ósk Haraldsdóttir, meistaranemi, Háskóla Íslands

16:05 – 16:20
Role of multidisciplinary geothermal exploration for drilling, monitoring and modelling Maryam Khodayar, jarðfræðingur, ÍSOR

16:20 – 16:30
Lokaorð fundarstjóra og fundarslit

Norræna vatnsveituráðstefnan í Hörpu

Helgi Jóhannesson, stjórnarformaður Samorku, setur Norrænu vatnsveituráðstefnuna í Hörpu
Helgi Jóhannesson, stjórnarformaður Samorku, setur Norrænu vatnsveituráðstefnuna í Hörpu

Fátt er mikilvægara en aðgengi að heilnæmu og góðu vatni. Til þess þarf góðar vatnsveitur, reglubundnar rannsóknir og framþróun.

Norræna vatnsveituráðstefnan, sú tíunda í röðinni, hófst í Hörpu í Reykjavík í dag, miðvikudaginn 28. september. Þar koma saman helstu vísindamenn og sérfræðingar Norðurlandanna í drykkjarvatni. Um 300 manns taka þátt í ráðstefnunni og flutt verða hátt í 100 erindi um helstu viðfangsefni vatnsveitna á Norðurlöndum.

Helgi Jóhannesson, stjórnarformaður Samorku og framkvæmdastjóri Norðurorku, setti ráðstefnuna og bauð gesti velkomna. Þá ávarpaði Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fundargesti. Hann ræddi mikilvægi drykkjarvatns og hversu mikilvægt hreint vatn er ímynd Íslands.

Aðalfyrirlesarar dagsins eru María Jóna Gunnarsdóttir frá Háskóla Íslands og Mia Bondelind hjá Chalmers Tekniske Högskola í Gautaborg í Svíþjóð.

María Jóna fjallaði um það sem huga þarf að hjá litlum vatnsveitum á Norðurlöndum (þ.m.t. á Íslandi), sem lúta oft öðrum eftirlitsreglum en þær stærri vegna þess að þær eru oft til einkanota eða þjónusta lítið landsvæði. Hins vegar sjá þær nú í auknum mæli töluvert stærri fjölda fólks fyrir vatni vegna fleiri ferðamanna. Fylgjast þurfi betur með þessu, því flest frávik sem mælast í drykkjarvatni á Norðurlöndum koma frá litlum vatnsveitum. Litlar vatnsveitur þjónusta um þrjár milljónir íbúa á Norðurlöndum.

María Jóna Gunnarsdóttir flytur erindi sitt um litlar vatnsveitur á Norðurlöndum.
María Jóna Gunnarsdóttir flytur erindi sitt um litlar vatnsveitur á Norðurlöndum.

María Jóna telur nauðsynlegt að skylda litlar vatnsveitur til að gangast undir reglubundið eftirlit og taka upp innra eftirlit, til að ganga úr skugga um að vatnið sem þær veita sé heilnæmt.

Mia Bondelind fjallaði um traust fólks á vatnsveitum, áhættumat almennings þegar kemur að drykkjarvatni og almennt um viðhorf til drykkjarvatns, þar sem Norðurlandabúar taki hreinu drykkjarvatni almennt sem sjálfsögðum hlut.

Mia Bondelind flytur erindi sitt um viðhorf til drykkjarvatns
Mia Bondelind flytur erindi sitt um viðhorf til drykkjarvatns

Bondelind sagði mikilvægt að almenningur hafi góðan aðgang að upplýsingum og að vatnsveitur leggi sig fram við að veita þær, bæði þegar allt gengur eðlilega fyrir sig og ef eitthvað fer úrskeiðis.

Norræna vatnsveituráðstefnan er haldin annað hvert ár og nú í tíunda sinn. Ráðstefnunni lýkur á föstudag. Nánari upplýsingar um dagskrá og almennar upplýsingar um ráðstefnuna má finna á heimasíðu hennar.

Nýjungar í starfsmenntun

Fundaröðin Menntun og mannauður hefst þriðjudaginn 20. september í Húsi atvinnulífsins. Fjallað verður um nýjungar í starfsmenntun að þessu sinni og hvað er í gangi í málaflokknum þetta haustið. Samtök atvinnulífsins, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök iðnaðarins, Samorka og Samtök verslunar og þjónustu standa að fundaröðinni sem mun standa til vors 2017.