Samstarfsverkefni Samorku og Givewatts í tilefni af degi rafmagnsins í janúar 2017 hefur nú formlega verið hleypt af stokkunum í Mwanza í Tansaníu.
Samorka fjármagnaði gerð 160 sólarorkulampa sem koma í stað steinolíulampa við dagleg störf hjá fjölskyldum í Mwanza. Þannig verður heilsuspillandi orkugjafa skipt út fyrir hreinan, endurnýjanlegan og ódýran orkugjafa, líkt og við búum við hér á Íslandi.
Hægt er að sjá allar nánari upplýsingar um verkefnið á sérstakri síðu þess hjá Givewatts og fylgjast með framvindu þess næstu tvö árin. Upphaflega áttu lamparnir að fara á annað svæði, en eftir nánari skoðun kom í ljós að þörfin var meiri á öðrum stað einmitt nú.
Með ódýrari og heilnæmari birtugjafa verður meðal annars hægt að gefa börnum betra tækifæri til þess að stunda nám heima við eftir að skóla lýkur á daginn, sem leiðir til hærra menntunarstigs. Sólarorkulampinn getur einnig hlaðið farsíma.
Að meðaltali nýta fimm manneskjur hvern lampa á hverju heimili. Þannig breytist líf 800 manns til hins betra með þessu verkefni.
Framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 4 í Skútustaðahreppi stendur – úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafnaði í dag kröfu Landverndar og Fjöreggs um að leyfið yrði fellt úr gildi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landsneti í dag.
Það var mat nefndarinnar að sveitarfélagið hafi staðið rétt að útgáfu framkvæmdaleyfis fyrir Kröflulínu 4.
Með þessari niðurstöðu er allri óvissu um framkvæmdaleyfi Þeistareykjalínu 1 og Kröflulínu 4 eytt og öll framkvæmdaleyfi á leiðinni í gildi.
Framkvæmdir við línurnar hefjast aftur eftir páska.
Landsvirkjun og Félag íslenskra fiskmjölsframleiðenda (FÍF) hafa tekið höndum saman um að stuðla að aukinni notkun endurnýjanlegrar orku í fiskmjölsiðnaði.
Fiskmjölsframleiðendur hafa á undanförnum árum notast bæði við olíu og rafmagn í framleiðslu sinni, en þeir hafa keypt skerðanlegt rafmagn af raforkusölum sem Landsvirkjun hefur selt á heildsölumarkaði. Takmarkað framboð á slíku rafmagni og sveiflukennd eftirspurn hjá fiskmjölsframleiðendum hefur gert að verkum að olía hefur verið nauðsynlegur varaaflgjafi í mjölvinnslunni og komið í stað rafmagns þegar á hefur þurft að halda.
Með viljayfirlýsingu sem Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar og Jón Már Jónsson, formaður FÍF, skrifuðu undir í dag er markmiðið að gera fiskmjölsframleiðslu enn umhverfisvænni með því ýta undir notkun rafmagns við vinnsluna, draga þar með úr losun koltvísýrings og styðja um leið við markmið Parísarsamkomulagsins og skuldbindingar Íslands samkvæmt því.
Landsvirkjun lýsir því yfir að fyrirtækið muni á næstu árum stuðla eins og hægt er að auknu framboði á skerðanlegu rafmagni á heildsölumarkaði. Um leið ætlar FÍF að stuðla að því að félagsmenn horfi til þess að gera mjölframleiðsluna enn umhverfisvænni og noti endurnýjanlega orkugjafa í stað annarra mengandi orkugjafa. Stefnir FÍF að því að félagsmenn noti skerðanlegt rafmagn eins mikið og framboð og flutningar á slíku rafmagni leyfa.
Raforkunotkun almennings árið 2016 dróst saman um 4,3% miðað við árið á undan. Þá dróst raforkuvinnsla einnig saman um 1,3% og töp við flutning raforku til almenningsveitna og stórnotenda minnkuðu um 3,1%.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Orkuspárnefnd, sem er samstarfsvettvangur nokkurra helstu fyrirtækja, stofnana og samtaka í orkuiðnaði hér á landi auk Hagstofu Íslands, Fasteignamats ríkisins og fjármálaráðuneytisins.
Orkuspárnefnd hefur tekið saman þrjár mögulegar ástæður fyrir samdrættinum á milli ára. Í fyrsta lagi var veðurfar gott árið 2016, en lofthiti í Reykjavík var 1,5 gráðu hærri það ár en árið 2015. Í öðru lagi var loðnuafli mun minni árið 2016 en á árinu á undan, en loðnuvinnsla krefst mikillar raforkunotkunar. Loðnuaflinn var 100 þúsund tonn í fyrra en var 350 þúsund tonn árið 2015. Í þriðja lagi fluttist afhending raforku til gagnavera yfir á flutningskerfið ekki fyrr en um mitt árið 2016, en var áður í dreifikerfi raforku.
Orka náttúrunnar og N1 ætla í sameiningu að reisa hlöður fyrir rafbíla meðfram helstu þjóðvegum landsins. Stjórnendur fyrirtækjanna hafa skrifað undir samkomulag um að hlöður ON rísi á afgreiðslustöðvum N1 víðsvegar um land.
ON er í forystu um uppbyggingu innviða fyrir orkuskipti í samgöngum og hefur þegar reist 13 hlöður í samstarfi við ýmsa aðila, þar á meðal N1. ON stefnir að því að opna allan hringveginn fyrir rafbílum á næstu misserum. ON hefur líka aukið mjög upplýsingagjöf til rafbílaeigenda með útgáfu smáforritsins ON Hleðsla fyrir Android og iPhone. ON Hleðsla veitir meðal annars upplýsingar um vegalengd í næstu hlöðu, hvar hún er, hvaða hleðslubúnaður er í henni og hvort hún er laus eða upptekin.
N1 rekur 95 stöðvar á Íslandi og þar með víðtækustu þjónustu hér landi fyrir bíla og bifreiðaeigendur. N1 var fyrsta fyrirtækið til að koma upp afgreiðslu á metani og færir með samkomulaginu enn út kvíarnar í umhverfisvænni orku í samgöngum.
Bæði fyrirtækin fengu styrk úr Orkusjóði í lok síðasta árs til að byggja upp innviði fyrir orkuskipti í samgöngum.
Orka náttúrunnar hlaut í dag viðurkenningu sem það raforkusölufyrirtæki í landinu sem býr við mesta ánægju viðskiptavina sinna.
Bjarni Már Júlíusson framkvæmdastjóri ON tók við viðurkenningarskjali þessa efnis þegar niðurstaða Íslensku ánægjuvogarinnar 2016 voru kynntar. Bjarni Már sagði við það tækifæri að fyrirtækið legði sérstaka áherslu á gagnlega upplýsingagjöf í öllum samskiptum við viðskiptavini og tiltók þá nýjung að nú geta rafbílaeigendur sótt sér upplýsingar um stöðu hraðhleðslustöðva ON í gegnum smáforrit fyrir farsíma.
Markmið Íslensku ánægjuvogarinnar er að gera samræmdar og óháðar mælingar á ánægju viðskiptavina og gera niðurstöðurnar opinberar. Mælingar eru einnig gerðar á nokkrum öðrum þáttum sem hafa áhrif á ánægjuna, svo sem ímynd, mati viðskiptavina á gæðum og tryggð viðskiptavina við viðkomandi fyrirtæki.
ON og áður Orkuveita Reykjavíkur hafa tekið þátt í Íslensku ánægjuvoginni um árabil. Þetta er í fyrsta sinn sem fyrirtækin lenda í fyrsta sæti í þessari keppni um ánægðustu viðskiptavinina.
Orka náttúrunnar, sem er eitt af þremur dótturfyrirtækjum Orkuveitu Reykjavíkur, selur rafmagn um allt land. Rafmagnið er framleitt, ásamt heitu vatni fyrir höfuðborgarsvæðið, í virkjunum ON á Nesjavöllum og Hellisheiði. ON tók til starfa 1. janúar 2014 og er því nýorðið 3ja ára gamalt.
Landsnet og Landsvirkjun hafa gert samning um kaup og sölu á reiðuafli. Um er að ræða 40 MW af alls 100 MW reiðuafli sem Landsvirkjun hefur selt Landsneti á undanförnum árum. Nýi samningurinn tekur við af eldri samningi sem gerður var árið 2005.
Reiðuafl er afl sem notað er til þess að stýra tíðni flutningskerfisins með því að bregðast á fljótvirkan og sjálfvirkan hátt við sveiflum í notkun og framleiðslu raforku, en ómögulegt er að sjá nákvæmlega fyrir slíkar sveiflur.
Reiðuaflssamningar milli fyrirtækjanna eru þrír. Sá sem nú er endurnýjaður felur í sér 30 MW afl frá stöðvum á Þjórsársvæði og 10 MW afl frá Blöndustöð. Hinir samningarnir eru 30 MW hvor, frá Fljótsdalsstöð og Þjórsársvæði.
Tilgangur samningsins er að tryggja þennan lögboðna hluta kerfisþjónustu Landsnets sem er nauðsynlegur til þess að halda uppi gæðum rafmagns um land allt.
Breyttar aðstæður og þrengri aflstaða
Nýting íslenska raforkuvinnslukerfisins eykst stöðugt og eftirspurn eftir orku er meiri en framboð. Verð í hinum nýja samningi tekur mið af nýgerðum samningum Landsvirkjunar við sölufyrirtæki raforku og byggir m.a. á áætluðum kostnaði við fjárfestingu í auknu afli í raforkukerfinu við núverandi aðstæður.
Landsnet mun birta reiðuaflssamninginn á heimasíðu sinni.
Samorka mun koma 160 sólarorkulömpum til Kendu Bay í Kenýa, Afríku í samstarfi við GIVEWATTS og skipta þar með út heilsuspillandi steinolíulömpum fyrir endurnýjanlegan orkugjafa.
Ráðist var í verkefni í tilefni af degi rafmagnsins sem haldinn var hátíðlegur mánudaginn 23. janúar. Tilgangurinn með deginum er að vekja athygli á mikilvægi rafmagns í samfélaginu, í leik og starfi og þeim hreina endurnýjanlega orkugjafa sem Íslendingar hafa aðgang að á hverjum degi, ólíkt mörgum öðrum þjóðum. SAMORKA biðlaði til almennings um að vekja athygli á verkefninu með því að merkja mynd með #sendustraum á samfélagsmiðlum.
Um það bil 800 manns í bænum Kendu Bay munu því njóta góðs af degi rafmagnsins á Íslandi, þar sem að meðaltali fimm einstaklingar njóta góðs af hverjum lampa. Sólarorkulampi gefur næga birtu til að halda áfram daglegu amstri eftir að sólin er sest án þess að heimilisfólk hafi áhyggjur af heilsufari eða fjárhag. Að auki gefur hann næga orku svo hægt sé að hlaða farsíma.
Hægt verður að fylgjast með framvindu verkefnsins í nafni SAMORKU á heimasíðu GIVEWATTS þegar fram líða stundir.
GIVEWATTS eru samtök sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni (non-profit organization) og sérhæfa sig í heimilistækjum sem ganga fyrir endurnýjanlegri orku. Í lok árs 2016 hafði GIVEWATTS dreift rúmlega 25 þúsund lömpum til heimila og skóla í Kenýa og Tansaníu.
Hægt er að skoða þær myndir sem merktar voru #sendustraum á Instagram. Til gamans má einnig benda á aðrar merkingar sem notaðar eru á Norðurlöndunum á degi rafmagnsins, eins og #Elensdag í Svíþjóð og #Sähkönpäivä í Finnlandi, en dagur rafmagnsins hefur haldinn um nokkurra ára skeið í Svíþjóð, Danmörku, Noregi og Finnlandi.
Orkusalan verður aðalbakhjarl Vetrarhátíðar í Reykjavík í ár, en samstarfssamningur fyrirtækisins og Höfuðborgarstofu var undirritaður á dögunum.
Vetrarhátíð í Reykjavík verður haldin í 16. sinn dagana 2. – 5. febrúar. Megintilgangur Vetrarhátíðar er að skemmta fólki á höfuðborgarsvæðinu og gefa því tækifæri til að njóta ókeypis viðburða á sviði menningar, lista, íþrótta og útiveru í eigin sveitarfélagi og/eða heimsækja nágranna sína í nærliggjandi sveitarfélagi.
Norðurljósalitirnir, grænn og fjólublár eru einkennislitir Vetrarhátíðar og verða á þriðja tug bygginga á höfuðborgarsvæðinu upplýstar auk ljóslistaverka á þekktum byggingum á höfuðborgarsvæðinu.
Magnús Kristjánsson, framkvæmdastjóri Orkusölunnar, segir samninginn gera fyrirtækinu kleift að styðja við menningarlífið á höfuðborgarsvæðinu þar sem ljós og myrkur spili lykilhlutverk en einnig eigi hátíðin vel við hlutverk Orkusölunnar um að koma höfuðborgarbúum í stuð!
Hvernig væri lífið án rafmagns? Í nútíma samfélagi er svarið við þeirri spurningu líklega: Óhugsandi. Við tökum því sem sjálfsögðum hlut á hverjum degi. Langt skammdegið hefur engin áhrif á okkar daglega líf og við njótum þeirra forréttinda að orkan okkar er ódýr og um leið hrein, þar sem nær öll raforkuframleiðsla á Íslandi er með endurnýjanlegum hætti.
Stór hluti mannkyns býr við allt annan veruleika.
1,3 milljarður manna býr við takmarkað aðgengi að rafmagni. Steinolía er til dæmis aðalorkugjafi heimila í fjölmörgum löndum Afríku. Olían er dýr og gufurnar frá henni eru skaðlegar, sérstaklega börnum. Þrátt fyrir það eiga margar fjölskyldur ekki annan kost eftir að sólin er sest en birtu frá steinolíulampa til að geta athafnað sig við einföld heimilisstörf og börnin við heimanám.
Dagur rafmagnsins hefur verið haldinn hátíðlegur þann 23. janúar á Norðurlöndunum um nokkurra ára skeið. Honum er ætlað að minna á að rafmagn er ekki sjálfgefið og að við gefum því stóra hlutverki sem það spilar í lífi okkar meiri gaum. Um leið er tilvalið að láta gott af sér leiða.
Í tilefni af degi rafmagnsins ætlar SAMORKA, í samstarfi við sænsk-afríska félagið Givewatts, að hjálpa bæjarbúum í Kendu Bay í Kenýa að skipta yfir í endurnýjanlegan orkugjafa, líkt og þá sem við búum við hér á landi, í formi sólarorkulampa. Sólarorkulampinn gefur góða birtu fyrir heimili og skóla og hægt er að nota hann til að hlaða farsíma. Hann gefur kost á betri heilsu, hjálpar börnum að ná markmiðum sínum í námi og ýtir undir hraðari þróun samfélagsins. Að auki leggjum við okkar af mörkum í að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis í heiminum – margt smátt gerir eitt stórt.
Taktu þátt í degi rafmagnsins með okkur. Sendu straum þangað sem þörfin er mest með því að deila mynd af gildi rafmagns í þínu daglega lífi á Facebook/Instagram og merktu hana #sendustraum. Fyrir hverja mynd sem berst leggur SAMORKA 300 kr. til verkefnisins. Markmiðið er að koma yfir 100 sólarorkulömpum til fjölskyldna í Kendu Bay.
Til hamingju öll með dag rafmagnsins.
(Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 23. janúar 2017)