Sylvía Kristín Ólafsdóttir ráðin deildarstjóri jarðvarmadeildar Landsvirkjunar

Sylvía Kristín Ólafsdóttir hefur verið ráðin deildarstjóri jarðvarmadeildar á orkusviði Landsvirkjunar.

Hlutverk jarðvarmadeildar á orkusviði er að annast aflstöðvar Landsvirkjunar á sviði jarðvarma og vindorku þannig að þær skili tilgreindu hlutverki sínu. Deildin ber ábyrgð á rekstri, eftirliti og viðhaldi þessara orkuvirkja og leggur áherslu á öryggi og hagkvæmni, umhverfismál og samstarf við nærsamfélag.

Sylvía hefur starfað hjá Landsvirkjun frá árinu 2015 sem forstöðumaður tekjustýringar á markaðs- og viðskiptaþróunarsviði. Áður starfaði hún hjá höfuðstöðvum Amazon í Evrópu fyrst við rekstur og áætlanagerð um innviði vöruhúsa víðs vegar um Evrópu. Þaðan fór Sylvía í Kindle deild fyrirtækisins og sá um viðskiptagreind og vöruþróun fyrir vefbækur auk þess að leiða greiningar- og stefnumótunarvinnu fyrir samningagerð við bókaútgefendur. Áður starfaði Sylvía m.a sem forstöðumaður á fjármálastöðugleikasviði Seðlabanka Íslands og hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.

Sylvía er með M.Sc. próf í Operational Research frá London School of Economics og B.Sc. próf í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands. Hún hefur sinnt stundakennslu við verkfræðideild HÍ í rekstrarfræði, kvikum kerfislíkönum og verkefnastjórnun (MPM). Sylvía situr í stjórn Ölgerðarinnar og Orkufjarskipta.

Sylvía er gift Kjartani Björgvinssyni og eiga þau tvö börn.

Langódýrast að hita húsið sitt í Reykjavík

Húshitunarkostnaður á Íslandi er langt undir meðaltali á Norðurlöndunum. Fimmfalt dýrara er fyrir íbúa í Helsinki að hita húsið sitt en fyrir íbúa í Reykjavík.

 

Árlegur kostnaður við að hita heimili íbúa á höfuðborgarsvæðinu er 88 þús krónur á ári og hefur hann hækkað lítillega á milli ára. Íbúi í Helsinki þarf að borga 440 þúsund krónur á ári, í Stokkhólmi tæplega 300 þús krónur, í Kaupmannahöfn 272 þúsund krónur og í Osló tæplega 247 þúsund krónur á ári. Að meðaltali er kostnaðurinn 269.366 krónur á ári.

Þetta kemur fram í samantekt Samorku um húshitunarkostnað á Norðurlöndum þar sem stuðst er við nýjar tölur frá stærstu veitufyrirtækjum í hverri höfuðborg.

 

Íslendingar hita heimili sín vel en greiða hlutfallslega minnst af ráðstöfunartekjum í það miðað við aðra íbúa höfuðborga Norðurlandanna.

Langflest heimili landsins eru hituð upp með jarðhita, eða 90%. Í Reykjavík er þetta hlutfall 100%. Á hinum Norðurlöndum er að mestu notast við raforku eða jarðefnaeldsneyti við upphitun húsa. Losun koltvísýrings út í andrúmsloftið væri 13 sinnum meiri á Íslandi vegna raforku og húshitunar fyrir almenna notendur væri það framleitt með jafnháu hlutfalli óendurnýjanlegra orkugjafa og gert er að meðaltali á hinum Norðurlöndunum.

Auk þess að vera umhverfisvænn og ódýr kostur sparar jarðhiti til húshitunar þjóðarbúinu tugi milljarða árlega í hreinum gjaldeyri.

Hugmyndasamkeppni um nýtingu lághitavatns

EIMUR, í samstarfi við Íslensk verðbréf og Vaðlaheiðargöng hf, efnir til hugmyndasamkeppni um nýtingu lághitavatns á Norðurlandi eystra með áherslu á nýtingu heita vatnsins í Vaðlaheiðargöngum.

Um er að ræða almenna hugmyndasamkeppni og hún er öllum opin. Engar skorður eru settar varðandi það hverskonar nýting er lögð til, því ætlunin er að fá fram fjölbreyttar hugmyndir um hvernig nýta má lághitavatn.

Veitt verða verðlaun fyrir bestu hugmyndirnar, þar af nema fyrstu verðlaun ekki lægri upphæð en 1.500.000 kr.

 

Allar nánari upplýsingar um keppnina má finna á heimasíðu EIMS.

Aðdragandi keppninnar er sá að í febrúar árið 2014 komu bormenn verktaka Vaðlaheiðarganga inn á vatnsæð í göngunum sem er um 46°C heit. Nú hefur komið í ljós að hitastig og vatnsmagn virðist nokkuð stöðugt og ljóst að þarna er um töluverða auðlind að ræða sem í dag rennur ónýtt út i sjó. Sambærilegar ónýttar lághitaauðlindir liggja víðsvegar um svæðið og verður þess vegna einnig opið á að skila inn hugmyndum um nýtingu þeirra.

 

Viðskiptavinir ON ánægðastir

Starfsfólk ON fagnar niðurstöðu Ánægjuvogarinnar

Orka náttúrunnar hlaut í dag viðurkenningu sem það raforkusölufyrirtæki í landinu sem býr við mesta ánægju viðskiptavina sinna.

Bjarni Már Júlíusson framkvæmdastjóri ON tók við viðurkenningarskjali þessa efnis þegar niðurstaða Íslensku ánægjuvogarinnar 2016 voru kynntar. Bjarni Már sagði við það tækifæri að fyrirtækið legði sérstaka áherslu á gagnlega upplýsingagjöf í öllum samskiptum við viðskiptavini og tiltók þá nýjung að nú geta rafbílaeigendur sótt sér upplýsingar um stöðu hraðhleðslustöðva ON í gegnum smáforrit fyrir farsíma.

Markmið Íslensku ánægjuvogarinnar er að gera samræmdar og óháðar mælingar á ánægju viðskiptavina og gera niðurstöðurnar opinberar. Mælingar eru einnig gerðar á nokkrum öðrum þáttum sem hafa áhrif á ánægjuna, svo sem ímynd, mati viðskiptavina á gæðum og tryggð viðskiptavina við viðkomandi fyrirtæki.

ON og áður Orkuveita Reykjavíkur hafa tekið þátt í Íslensku ánægjuvoginni um árabil. Þetta er í fyrsta sinn sem fyrirtækin lenda í fyrsta sæti í þessari keppni um ánægðustu viðskiptavinina.

Orka náttúrunnar, sem er eitt af þremur dótturfyrirtækjum Orkuveitu Reykjavíkur, selur rafmagn um allt land. Rafmagnið er framleitt, ásamt heitu vatni fyrir höfuðborgarsvæðið, í virkjunum ON á Nesjavöllum og Hellisheiði. ON tók til starfa 1. janúar 2014 og er því nýorðið 3ja ára gamalt.

Ný bók um jarðhitalöggjöf

Lögmannsstofan BBA hefur gefið út handbókina „Geothermal Transparency Guide“. Í bókinni er veitt yfirsýn yfir helstu atriði jarðhitalöggjafar er varða rannsóknir, nýtingu og framleiðslu á raforku með jarðhita í 16 löndum, þ.m.t. á Íslandi. Löndin sem fjallað er um í bókinni eiga það sammerkt að nýta jarðhita til raforkuvinnslu nú þegar eða hafa möguleika og áhuga á slíkri nýtingu.

Markmið útgáfunnar er að auka gagnsæi og þekkingu á lagaumhverfi umræddra ríkja hvað varðar aðgang að auðlindum og önnur réttindi og skyldur aðila, bæði opinberra aðila og einkaaðila. Við vinnslu bókarinnar fékk BBA til liðs við sig  lögfræðistofur í hverju ríki fyrir sig til að geta lýst regluverki jarðvarma í hverjum stað.

Handbókin er án endurgjalds og má finna á heimasíðu BBA og einnig eftir óskum á bókarformi. Nánari upplýsingar beinist til ritstjóra bókarinnar, Hörpu Pétursdóttur, í netfangið harpa@bba.is.

Umhverfisvæn raforkuframleiðsla á Íslandi

Aðeins 22% allrar raforku í OECD ríkjum er framleitt með endurnýjanlegum hætti. Á Íslandi er þetta hlutfall 99,99% . Þetta kemur fram í nýjustu tölum frá Alþjóðaorkumálastofnuninni (IEA).

Tölur Alþjóðaorkumálastofnunarinnar ná yfir tímabilið 2014-2016. Þar kemur fram að 60% rafmagns í OECD ríkjum er framleitt með jarðefnaeldsneyti, 18% með kjarnorku, 14% með vatnsafli og loks rúmlega 8% með jarðvarma, vindi, sólarorku eða öðru. Athygli vekur hversu hægt dregur úr umfangi jarðefnaeldsneytis við rafmagnsframleiðsluna í ríkjum OECD, en jafnframt má sjá hlutfallslega aukningu í jarðvarma, vindi, sól og fleiru.

Þegar sama tímabil er skoðað fyrir Ísland sést að vatnsafl er að baki um 73% af heildarraforkuframleiðslu á Íslandi og jarðvarmi um 26%. Framleiðsla með jarðefnaeldsneyti er hverfandi. Þar sem hún mælist er líklega um varaaflstöðvar að ræða sem eru keyrðar í gang við rafmagnsleysi í flutnings- eða dreifikerfinu.

Að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis er eitt mikilvægasta verkefni sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir í loftslagsmálum. Ítarlegar rannsóknir hafa sýnt fram á hækkandi hitastig jarðarinnar með alvarlegum afleiðingum fyrir komandi kynslóðir.

Nýjar víddir jarðvarmans á haustfundi JHFÍ

Haustfundur JHFÍ verður haldinn fimmtudaginn 13. október næstkomandi, frá 15:00-16:30. Fundurinn verður haldinn hjá Orkuveitu Reykjavíkur, að Bæjarhálsi 1, 110 Reykjavík.

Þema fundarins er „Nýjar víddir jarðvarmans“ og kaffi og meðlæti er í boði OR.

Dagskrá:

15:00 – 15:05
Setning fundarins Kristín Vala Matthíasdóttir, formaður Jarðhitafélags Íslands

15:05 – 15:10
Úthlutun á styrk JHFÍ

15:10 – 15:15
Ávarp fundarstjóra Fulltrúi frá Konum í Orkumálum

15:15 – 15:30
Vistferilsgreining á rafmagni og heitu vatni frá Hellisheiðarvirkjun Marta Rós Karlsdóttir, forstöðumaður auðlinda, Orku Náttúrunnar

15:30 – 15:45
CarbFix verkefnið: Kolefnisbinding á jarðhitasvæðum Sandra Ósk Snæbjörnsdóttir, doktorsnemi í jarðefnafræði, Háskóla Íslands

15:45 – 15:55
Uppfærsla á þrívíðu hugmyndalíkani af jarðhitasvæðinu í Kröflu Unnur Þorsteinsdóttir, jarðfræðingur, ÍSOR

15:55 – 16:05
Efnisval og prófanir á húðunarefnum fyrir Jarðhitahverfla Helen Ósk Haraldsdóttir, meistaranemi, Háskóla Íslands

16:05 – 16:20
Role of multidisciplinary geothermal exploration for drilling, monitoring and modelling Maryam Khodayar, jarðfræðingur, ÍSOR

16:20 – 16:30
Lokaorð fundarstjóra og fundarslit

Ísland önnur umhverfisvænsta þjóð heims

Ísland er önnur umhverfisvænsta þjóð heimsins samkvæmt nýrri umhverfisvísitölu Yale háskólans í Bandaríkjunum. Þessi skemmtilega staðreynd þarf ekki endilega að koma á óvart því staða Íslands er mjög sterk í alþjóðasamhengi vegna gnægðar vistvænnar orku hér á landi.

Hlutfall endurnýjanlegrar orku við rafmagnsframleiðslu og húshitun er ríflega 99% á Íslandi og vegur þyngst í að skila Íslandi svo ofarlega á lista. Einnig er hlutfall útblásturs gróðurhúsalofttegunda vegna bruna jarðefnaeldsneytis við raforku- og varmaframleiðslu 0%. Í öðrum löndum Evrópu nær þessi tala allt að 80%.

Finnland kemur best út samkvæmt vísitölunni og Danmörk og Svíþjóð koma fast á hæla Íslandi.

 

 

Þorsteinn Þorsteinsson hjá Markaðsrýni vakti nýlega athygli á þessa nýju vísitölu Yale, Yale‘s Environmental Performance Index (EPI).

Þótt að vísitalan sýni hversu framarlega Ísland er þegar kemur að loftslagsmálum, þá má ná enn betri árangri. Eins og staðan er í dag er hlutfall endurnýjanlegrar orku í samgöngum lágt í samanburði við önnur lönd, eða 3,3%, en rafbílum fer þó hratt fjölgandi. Þarna liggja langstærstu tækifæri Íslands í loftlagsmálum; Að skipta um orkugjafa í bíla- og skipaflota landsins og minnka þannig útblástur gróðurhúsalofttegunda allverulega.

Hægt er að skoða skýrslu Yale í heild sinni á vefnum og lesa sér betur til um forsendur og niðurstöður EPI.

 

Húshitunarkostnaður langlægstur í Reykjavík

Það kostar fimmfalt meira á ári að hita húsið sitt í Helsinki en í Reykjavík. Húshitunarkostnaður er langlægstur á Íslandi og er þrefalt minni en þar sem næstódýrast er að hita.

Þetta kemur fram í nýrri samantekt Samorku um húshitunarkostnað á Norðurlöndum. Stuðst er við tölur frá stærstu veitufyrirtækjum í hverri höfuðborg.

Árlegur kostnaður við að hita heimili á Íslandi er rúmar 85 þús krónur á ári fyrir íbúa á höfuðborgarsvæðinu . Íbúi í Helsinki þarf að borga hátt í hálfa milljón árlega, eða um 428 þús krónur. Í Stokkhólmi er næstdýrast að hita húsið sitt eða rúmlega 300 þús krónur á ári. Íbúar í Kaupmannahöfn og Osló borga svipað á ári, eða tæplega 300 þús krónur.

Skattar vega nokkuð þungt á húshitunarreikningi Norðurlandabúa, en auk virðisaukaskatts er innheimtur sérstakur orkuskattur. Á Íslandi er hann 2% á heitt vatn.

 

Langflest heimili landsins eru hituð upp með heitu vatni (jarðhita), eða 90%. Í Reykjavík er þetta hlutfall 100%. Auk þess að vera ódýr kostur, er jarðhiti endurnýjanlegur og umhverfisvænn orkugjafi. Á hinum Norðurlöndum er að mestu notast við raforku eða jarðefnaeldsneyti við upphitun húsa.

Styrkir til að sækja alþjóðlegar jarðhitaráðstefnur

Jarðhitafélag Íslands veitir í ár háskólanemum, í fögum tengdum jarðhita, styrk til að sækja alþjóðlegar jarðhitaráðstefnur. Styrknum er ætlað að nýtast til að greiða ferða- og uppihaldskostnað og/eða ráðstefnugjöld.

Um er að ræða 2 styrki til framhaldsnema í háskólanámi (MS/Ph.D) að upphæð allt að kr. 300.000 fyrir hvern styrk. Stjórn félagsins mun velja styrkþega úr hópi umsækjenda.

Eftirtalin atriði geta orðið til að styrkja einstakar umsóknir:
– Umsækjandi verði með erindi eða annað slíkt hlutverk á viðkomandi ráðstefnu.
– Nám umsækjanda sé komið vel á veg.
– Umsækjandi sé í fullu námi.
– Lokaverkefni umsækjanda eða efni erindis geti haft hagnýtt gildi hérlendis.
– Umsækjandi búi að starfsreynslu tengdri jarðhitanýtingu.
– Umsækjandi sé félagsmaður í Jarðhitafélagi Íslands.

Umsóknum um styrki fyrir árið 2016 ber að skila til Sigurjóns Norberg Kjærnested, ritara stjórnar Jarðhitafélagsins, í netfangið sigurjon@samorka.is (eða með pósti til Sigurjóns á skrifstofu Samorku, merkt v. Jarðhitafélags Íslands, Borgartúni 35, 105 Reykjavík), eigi síðar en mánudaginn 12. september 2016. Umsóknum fylgi upplýsingar um námsferil, efni og stöðu lokaverkefnis eða ráðgerðs erindis á ráðstefnu, hagnýtt gildi verkefnis hérlendis, starfsreynslu tengda jarðhitarannsóknum eða -nýtingu ef við á, ásamt upplýsingum um þá ráðstefnu sem viðkomandi hyggst sækja.