Græn skírteini tækifæri til að hámarka virði orkunnar

Fræðslufundur Samorku um upprunaábyrgðir, eða græn skírteini, var haldinn á Icelandair Hótel Natura mánudaginn 4. nóvember. Upptökur af erindum má finna í þessari frétt.

Upprunaábyrgðir raforku urðu til sem liður í því að vinna á móti loftslagsbreytingum með því að vera fjárhagslegur hvati til að byggja upp græna orkukosti í Evrópu. Þau ganga út á það að gera hreinleika orku að sérstökum verðmætum og sjái einstaklingar eða fyrirtæki ávinning í því að segjast nota hreina orku þurfi að borga markaðsvirði fyrir það. Upprunaábyrgðir eru innifaldar í raforkuverði til heimila og fyrirtækja á almennum markaði á Íslandi og getur það verið tækifæri til samkeppnisforskots á markaði, vegna þess að viðskiptavinir verða sífellt meðvitaðri um virðiskeðju framleiðslunnar.

Á fundinum tóku til máls Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs, Eyrún Guðjónsdóttir, sérfræðingur hjá Dóttir Consulting, Lovísa Árnadóttir upplýsingafulltrúi Samorku og Alexandra Münzer framkvæmdastjóri Greenfact. Fundarstjóri var Björn Berg Gunnarsson, deildarstjóri Greininga hjá Íslandsbanka.

Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs, var meðal framsögumanna á fundinum. Mynd: Eyþór Árnason

Halldór fór yfir loftslagsmál og loftslagsaðgerðir í stóru myndinni í upphafi fundar. Hann sagði meðal annars í erindi sínu að þörf væri á að verðleggja aðgang að andrúmsloftinu m.a. með viðskiptum með losunarheimildir, kolefnisbindingar og skattlagningu losunar. Þá væri mikilvægt að ná fram beinum aðgerðum til að auka hlutdeild endurnýjanlegrar orku og grænu skírteinin séu liður í því. ,,Öll vegferðin fram að 2050 skiptir máli. Að gera ekkert er dýrasti valkosturinn. Við þurfum alla verkfærakistuna til að endurskapa orkukerfi,“ sagði Halldór.

Eyrún Guðjónsdóttir hjá Dóttir Consulting Mynd: Eyþór Árnason

Eyrún talaði um þátttakendur og virkni kerfisins upp­runa­ábyrgðir raf­orku þar sem kom fram að kaupendur grænna skírteina séu heimili og fyrirtæki í Evrópu, sem sækist eftir því að nota græna raforku. Eft­ir­spurn eft­ir end­ur­nýj­an­legri orku hefði auk­ist mikið, og þar með viðskipti með græn skír­teini.

Sagði hún að sí­fellt fleiri lönd taki þátt í kerf­inu um upp­runa­ábyrgðir og hlut­fall end­ur­nýj­an­legr­ar orku­vinnslu væri hærra í þeim lönd­um, sem sýn­ir að kerfið virk­ar. „Það er mik­il­vægt fyr­ir fyr­ir­tæki að vera með grænu skír­tein­in til að geta sýnt fram á stuðning sinn við upp­bygg­ingu end­ur­nýj­an­legr­ar orku og geta notað það í sitt græna bók­hald,“ sagði Eyrún á fund­in­um. Þá sagði hún að fyr­ir­tæki í fjöl­mörg­um geir­um kaupi græn skír­teini, bæði beint frá raf­orku­fram­leiðend­um og í gegn­um miðlara.

Lovísa Árnadóttir, upplýsingafulltrúi á Samorku, fjallaði um upprunaábyrgðir í íslensku samhengi. Mynd: Eyþór Árnason

Lovísa talaði meðal ann­ars um fjár­hags­leg­an  ávinn­ing­ Íslands sem væri tölu­verður í þessu kerfi og að líta eigi á það sem tæki­færi til að há­marka verðmæti þeirra orku sem hér er fram­leidd. ,,Það skipt­ir máli fyr­ir heim­inn all­an að á Íslandi sé fram­leidd græn orka og því eðli­legt að við njót­um ávinn­ings af því.“

Út frá markaðsvirði skír­tein­anna get­ur upp­hæðin sem ís­lensk­ir raf­orku­fram­leiðend­ur fá numið frá 0,5 – 5,5 millj­örðum á ári, en árið 2018 voru tekj­urn­ar af söl­unni í kring­um 800 – 850 millj­ón­ir króna. Í erindi hennar kom fram að sala grænna skírteina á Íslandi hefði engin áhrif á skuldbindingar Íslands eða annarra landa í loftslagsmálum og á Íslandi sé áfram framleidd raforka með endurnýjanlegum hætti.

Alexandra Münzer frá Greenfact, greiningafyrirtæki sem sérhæfir sig í markaði um upprunábyrgðir í Evrópu, fór yfir hvernig markaðurinn virkar og hvernig verð grænna skírteina hefur þróast í gegnum tíðina.

Alexandra Münzer frá Greenfact greiningarfyrirtækinu fjallaði um markaðinn með upprunaábyrgðir

 

Upptökur:

Alþjóðlegar loftslagsaðgerðir og græn skírteini – Halldór Þorgeirsson from Samorka on Vimeo.

Kerfið um græn skírteini: Virkni og þátttakendur – Eyrún Guðjónsdóttir from Samorka on Vimeo.

The Wholesale Market for Guarantees of Origin – Alexandra Münzer from Samorka on Vimeo.

 

 

 

Eggert Benedikt Guðmundsson og Kamma Thordarson frá Grænvangi.
Fundurinn var vel sóttur.
Birta Kristín Helgadóttir
Björn Berg Gunnarsson, deildarstjóri Greininga Íslandsbanka stýrði fundinum.
Gestir fundarins, meðal annars Páll Erland framkvæmdastjórji Samorku.
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar
Halldór Þorgeirsson og Eggert Benedikt Guðmundsson á spjalli í lok fundar.

 

Upptaka af fundinum í heild sinni:

 

Dafnandi græn orka – fræðslufundur um upprunaábyrgðir raforku from Samorka on Vimeo.

Upprunaábyrgðir raforku: Fræðslufundur

Samorka býður til fræðslufundar um upprunaábyrgðir raforku, eða græn skírteini eins og þau eru oft kölluð. Tilgangur fundarins er að fjalla um tilurð og markmið kerfisins um upprunaábyrgðir, af hverju Ísland tekur þátt í því og hvaða ávinning þátttakan getur haft fyrir Ísland og raforkukaupendur hér á landi.

Fundurinn hefst kl. 14 á Icelandair Hótel Natura og gert er ráð fyrir að hann standi í um 90 mínútur. Allir eru velkomnir á fundinn en skráningar er óskað. Þá verður fundinum einnig streymt á vef Samorku.

Dagskrá:

Alþjóðlegar loftslagsaðgerðir og græn skírteini – Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs
Kerfið um græn skírteini: Virkni og þátttakendur – Eyrún Guðjónsdóttir, sérfræðingur hjá Dóttir Consulting
Upprunaábyrgðir í íslensku samhengi – Lovísa Árnadóttir, upplýsingafulltrúi Samorku
Renewable Energy Certificates: The Wholesale Market for Guarantees of Origin – Alexandra Münzer, framkvæmdastjóri Greenfact

Fundarstjóri: Björn Berg Gunnarsson, deildarstjóri Greiningar Íslandsbanka

Tómas Már ráðinn forstjóri HS Orku

Tómas Már tekur við forstjórastól HS Orku um áramót.

Tómas Már Sigurðsson hefur verið ráðinn forstjóri HS Orku. Mun hann taka við starfinu frá og með næstu áramótum. .

Tómas Már hefur starfað um árabil hjá Alcoa, þar sem hann gegndi stöðum forstjóra Alcoa á Íslandi, í Evrópu og Mið-Austurlöndum, og nú síðast frá 2014 stöðu aðstoðarforstjóra fyrir Alcoa Corporation. Áður starfaði Tómas sem framkvæmdastjóri tæknisviðs hjá Norðuráli. Tómas Már er menntaður umhverfisverkfræðingur frá Háskóla Íslands og með meistarapróf í skipulagsverkfræði frá Cornell-háskólanum í New York. Hann hefur setið í fjölda stjórna og var m.a. formaður Viðskiptaráðs frá 2009-2012, sat í stjórn Samtaka iðnaðarins frá 2005-2011 og hefur verið í stjórn evrópskra álframleiðenda frá 2012.

 

Nýsköpun í hitaveitu verðlaunuð

Verðlaunahafar saman á sviðinu

Alþjóðlegu hitaveituverðlaunin Global District Energy Climate Awards voru afhent í sjötta sinn á Hilton Reykjavík Nordica í gær, samhliða ráðstefnunni Sustainable District Energy Conference. Samtökin Euroheat and Power standa fyrir verðlaununum og í þetta sinn í samstarfi við voru vinningshafar valdir í samstarfi við Alþjóðaorkumálastofnunina (IEA) og markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærar borgir og samfélög.

Fjölmargar tilnefningar bárust alls staðar að úr heiminum sem áttu allar það sameiginlegt að vera framlag til að bæta hitaveitu í nærsamfélagi sínu og skipta yfir í endurnýjanlega orku úr jarðefnaeldsneyti til að hita eða kæla húsnæði.

Fimm hitaveituverkefni voru verðlaunuð og tóku fulltrúar fyrirtækjanna við verðlaununum við hátíðlega athöfn í gær. Nánari upplýsingar um verkefnin og verðlaunahafana má sjá á heimasíðu Euroheat and Power.

Framtíð og möguleikar hitaveitu á SDEC 2019 í Reykjavík

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, ávarpaði ráðstefnugesti við opnun hennar í morgun.

Alþjóðlega hitaveituráðstefnan SDEC 2019, Sustainable District Energy Conference, var sett á Hilton Reykjavik Nordica í morgun.

Ráðstefnan fer fram í fyrsta skipti hér á landi en tilgangur hennar er að vera samstarfsvettvangur Evrópuþjóða í rannsóknum og þróun á endurnýjanlegum orkugjöfum. Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja á Íslandi heldur ráðstefnuna í samstarfi við íslenska orkuklasann.

Samhliða ráðstefnunni verða verðlaunin Global District Energy Climate Awards veitt í sjötta skipti. Verðlaunin eru veitt þeim sem þykja skara framúr í vinnslu og nýtingu á endurnýjanlegri orku. Það eru samtökin Euroheat & Power og EGEC (European Geothermal Energy Concil) sem standa að verðlaununum en bæði samtökin hafa það að markmiði að auka samkeppnishæfni endurnýjanlegra orkugjafa.

Orkan sem fer í húshitun er um 50% allrar orkunotkunar í löndum Evrópusambandins og ríður því á að skipta út jarðefnaeldsneyti í endurnýjanlega orkugjafa til að kynda og kæla húsnæði. Ráðstefnan er vettvangur fyrir umræðu um hvernig skal unnið að því, fjármögnun verkefna á sviði hitaveitu og tæknilegar útfærslur.

Umfangsmikil dagskrá er í boði um stöðu og framtíðarmöguleika hitaveitu í heiminum, en dagskrána má finna á heimasíðu ráðstefnunnar.

 

Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku á SDEC 2019

 

Ráðstefnugestir á opnunarmálstofu SDEC 2019

Orkusalan framúrskarandi fyrirtæki

Aðstandendur Orkusölunnar Hafliði Ingason sölustjóri, Magnús Kristjánsson framkvæmdastjóri og Heiða Halldórsdóttir markaðsstjóri taka við viðurkenningu Creditinfo fyrir framúrskarandi fyrirtæki

Orkusalan er framúrskarandi fyrirtæki árið 2019. Framúrskarandi fyrirtæki byggja rekstur sinn á sterkum stoðum og efla hag fjárfesta og hluthafa. 2% íslenskra fyrirtækja ná markmiðum Creditinfo um framúrskarandi fyrirtæki árið 2019 og því um ánægjulega viðurkenningu að ræða.

Árlega vinnur Creditinfo greiningu á rekstri íslenskra fyrirtækja og veitir Framúrskarandi fyrirtækjum viðurkenningu fyrir árangur. Listinn var nú unninn í tíunda sinn og kynntur í Hörpu þann 23. október.

Umhverfisverðlaun atvinnulífsins til Brims og Krónunnar

Umhverfisfyrirtæki ársins er Brim en framtak ársins á sviði umhverfismála á Krónan. Umhverfisverðlaun atvinnulífsins voru afhent við hátíðlega athöfn á Umhverfisdegi atvinnulífsins miðvikudaginn 9. október.

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti verðlaunin.

Aðstandendur fyrirtæksisins Brim taka við verðlaununum fyrir Umhverfisfyrirtæki ársins
Gréta María Grétarsdóttir framkvæmdastjóri Krónunnar tekur við verðlaununum fyrir Umhverfisframtak ársins frá forseta Íslands og Rögnu Söru Jónsdóttur, formanni valnefndar

 

Bein útsending frá Umhvefisdegi atvinnulífsins

Umhverfisdagur atvinnulífsins er haldinn í fjórða sinn miðvikudaginn 9. október í Hörpu. Um árlegan viðburð er að ræða en að honum standa Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu.

Dagskrá samtakanna hefst kl. 8.30 og stendur til að verða 10 þegar gert verður kaffihlé. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhendir m.a. Umhverfisverðlaun atvinnulífsins 2019, fyrirtækjum sem hafa staðið sig vel í umhverfismálum. Veitt verða tvenn verðlaun. Annars vegar verður umhverfisfyrirtæki ársins og hins vegar framtak ársins verðlaunað.

Dagskráin heldur áfram meðal annars með hvetjandi sögum af fyrirtækjum kl. 10.30 og stendur til kl. 12.

Hér er hægt að fylgjast með beinni útsendingu frá fundinum (útsendingin virkjast kl. 7 að morgni miðvikudags)

DAGSKRÁ FYRRI HLUTA

Setning
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins

Samstarfsvettvangur atvinnulífs og stjórnvalda um loftslagsmál og grænar lausnir
Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður samstarfsvettvangsins

Umhverfismál og auðlindanýting á Norðurslóðum
Heiðar Guðjónsson, formaður Efnahagsráðs Norðurskautsins

Loftslagsbreytingar, lífríki hafsins og auðlindir
Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi

Tækifæri og áskoranir vegna loftslagsbreytinga
Brynjólfur Stefánsson, sjóðstjóri hjá Íslandssjóðum

Umhverfisverðlaun atvinnulífsins 2019
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhendir verðlaunin

Valnefnd verðlaunanna skipuðu Ragna Sara Jónsdóttir, Bryndís Skúladóttir og Sigurður M. Harðarson

Kaffihlé kl. 10-10.30

DAGSKRÁ SEINNI HLUTA

Jákvæðar fyrirmyndir
Októ Einarsson, stjórnarformaður Ölgerðarinnar
Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar
Þorsteinn Jóhannesson, framkvæmdastjóri Farfugla

Úrgangsmál, samkeppni og hringrásarhagkerfið
Bryndís Skúladóttir, verkfræðingur hjá VSÓ

Orkuskipti í flutninga- og hópferðabílum
Jón Björn Skúlason, framkvæmdastjóri Íslenskrar Nýorku

Aðlögun að loftslagsbreytingum
Gestur Pétursson, framkvæmdastjóri Veitna ohf.

12.00 Súpa, spjall og netagerð

Fundarstjóri er Lovísa Árnadóttir, upplýsingafulltrúi Samorku.

Kristín Linda Árnadóttir nýr aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar

Kristín Linda Árnadóttir

Kristín Linda Árnadóttir hefur verið ráðin aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar.

Kristín Linda hefur verið forstjóri Umhverfisstofnunar frá árinu 2008. Þar áður gegndi hún starfi sviðsstjóra lögfræði- og stjórnsýslusviðs stofnunarinnar og var staðgengill forstjóra. Hún starfaði sem lögfræðingur í umhverfisráðuneytinu á skrifstofu laga og upplýsingamála frá 1998 til 2007.

Kristín Linda lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1998, meistaranámi í alþjóðlegum umhverfisfræðum (LUMES) frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð árið 2002 og LL.M. meistaragráðu í Evrópurétti við lagadeild Háskólans í Lundi árið 2003. Hún hefur lagt stund á stjórnunarnám við Saïd Business School í Oxford háskóla. Kristín var jafnframt um tíma stundakennari og prófdómari í námskeiðum í umhverfisrétti við háskólastofnanir á Íslandi.

Kristín Linda hefur tekið þátt í ýmsu alþjóðasamstarfi á vettvangi umhverfismála. Meðal annars sem fulltrúi Íslands í evrópsku neti ábyrgðaraðila á innleiðingu vatnatilskipunar Evrópusambandsins, evrópsku neti forstjóra evrópskra umhverfisstofnana, fulltrúi Íslands í stýrihópi um norræna umhverfismerkið Svaninn og stýrir nú vinnuhópi í Norðurskautsráðinu sem vinnur að því að draga úr losun sóts og metans (EGBMC) á norðurslóðum.

Þeistareykjavirkjun hlaut gullverðlaun IPMA

Þeistareykjavirkjun, jarðvarmavirkjun Landsvirkjunar á Norðausturlandi, hefur hlotið gullverðlaun Alþjóðasamtaka verkefnastjórnunarfélaga – IPMA Global Project Excellence Award. Verðlaunin eru stærstu verðlaun sem veitt eru í fagi verkefnastjórnunar á heimsvísu. Meginstef verðlaunanna í ár var sjálfbærni.

Þeistareykjavirkjun hlaut verðlaunin í flokknum „Large-Sized Projects“ – stór verkefni. Úrskurður dómnefndar tilgreinir sem helstu styrkleika verkefnisins framúrskarandi samskipti við hagsmunaaðila á undirbúnings- og framkvæmdastigi og samhentan verkefnishóp með áherslur á öryggis- og umhverfismál, í anda stefnu Landsvirkjunar um ábyrga nýtingu endurnýjanlegra orkuauðlinda með sjálfbærni að leiðarljósi.

Verðlaunin þykja mikill heiður fyrir Landsvirkjun og alla þá sem að verkefninu komu; starfsfólk, ráðgjafa og verktaka.

Um IPMA-verðlaunin
Hin alþjóðlega IPMA-verðlaunahátíð fór nú fram í 18. skipti og var haldin í Mexíkó í ár. Yfir 250 fagmenn á sviði verkefnastjórnunar, hvaðanæva að úr heiminum, sóttu hátíðina. Landsvirkjun sendi inn umsókn um að taka þátt í samkeppninni í mars á þessu ári og í framhaldinu kom hingað til lands fimm manna sendinefnd á vegum IPMA til að taka verkefnið út. Í úttektinni fólst meðal annars heimsókn á verkstað og ítarleg samtöl við innri og ytri hagsmunaaðila verkefnisins.

Um Þeistareykjastöð
Þeistareykjastöð er fyrsta jarðvarmastöðin sem Landsvirkjun hefur byggt frá grunni en hún samanstendur af tveimur 45 MW vélasamstæðum og er því alls 90 MW. Frá upphafi hönnunar og undirbúnings að uppbyggingu stöðvarinnar var meginmarkmiðið að reisa hagkvæma og áreiðanlega aflstöð sem tekur mið af umhverfi sínu og náttúru. Rekstur stöðvarinnar hefur gengið vel og er virkni búnaðar umfram væntingar.
Frumkvæði að nýtingu náttúruauðlindarinnar á Þeistareykjum kom frá heimamönnum, en sveitarfélög og íbúar stofnuðu Þeistareyki ehf. árið 1999. Landsvirkjun kom fyrst að verkefninu árið 2005 en hefur frá árinu 2011 haft forgöngu um undirbúning og framkvæmd þess.
Rannsóknir á jarðhitasvæðinu á Þeistareykjum teygja sig áratugi aftur í tímann. Við mat á umhverfisáhrifum var miðað við allt að 200 MW virkjun á svæðinu, en núverandi verkefni var um byggingu 90 MW virkjunar í tveimur áföngum. Framkvæmdir stóðu í rúm þrjú ár.
Þeistareykjastöð er fyrsta jarðvarmastöð í heimi sem metin hefur verið samkvæmt drögum að nýjum GSAP-matslykli um sjálfbærni jarðvarmavirkjana (Geothermal Sustainability Assessment Protocol). Niðurstöður matsskýrslunnar gáfu til kynna að undirbúningsferlið við Þeistareykjastöð hafi almennt fallið vel að alþjóðlegum viðmiðum um sjálfbæra þróun samkvæmt sjálfbærnisvísum lykilsins. Af þeim 17 vísum sem metnir voru fengu 11 þeirra hæstu einkunn sem lykillinn veitir, eða „proven best practice.“ Þá þykir verkefnið til fyrirmyndar m.a. hvað varðar samskipti og samráð við hagsmunaraðila og nýtingu á jarðhitaauðlindinni.