Auglýst eftir erindum á Norræna fráveituráðstefnu

Norrænu vatns og fráveitusamtökin standa fyrir sinni tíundu fráveituráðstefnu 12 – 14 nóvember nk. í Hamar í Noregi.  Efni ráðstefnunnar verður um nýjustu tækni í hreinsun skolps, meðhöndlun seyru, rekstur hreinsistöðva, rekstur fráveitukerfa og hrörnun þeirra, EB tilskipanir er varða fráveitur og hvaða eiturefni það eru sem valda mestum usla.

 

Ráðstefnan verður á skandínavísku og verður allt túlkað jafnóðum yfir á ensku.  Einnig má flytja fyrirlestrana á ensku. Bærinn Hamar er við stærsta vatn Noregs, Mjösa og er það um 90 km norður af flugvellinum á Gardemoen. Ferðin tekur um eina klukkustund með lest sem gengur beint frá flugvellinum.

 

Auglýst er eftir tillögum að erindum og veggspjöldum og er frestur til að skila þeim inn til 25. apríl nk. Senda skal tillögur til Ole Lien hjá Norvar tölvupóstfang: ola.lien@norvar.no

 

Upplýsingar um ráðstefnuna er að finna á heimasíðu NORVAR, norsku vatns- og fráveitusamtakanna  www.norvar.no/nak2007/forside

 

Er Finnland fyrirmynd?

Á blaðamannfundi Íslandshreyfingarinnar-lifandi lands  var því haldið fram að Finnar væru fegnir því að hafa hætt við virkjanaframkvæmdir og þess í stað einblínt á hátækni- og þekkingariðnaðinn. En er þetta svo, eru Finnar hættir að virkja?

Finnar stækka kjarnorkuver
Um þessar mundir eru þeir að byggja 1.600 MW viðbót við kjarnorkuver sitt í Olkiluoto sem er 1.720 MW. Viðbótin verður tekin í notkun árið 2009 og verður þetta eina kjarnorkuver þá 3.320 MW. En Finnar eru einnig með annað kjarnorkuver sem er 976 MW og er samanlagt afl kjarnorkuvera þeirra 4.300 MW. Hlutur kjarnorkunnar í raforkubúskap þeirra er nú tæp 25%. Finnar eru ekki hættir að virkja, en eru eins og aðrar Evrópuþjóðir að komast í veruleg vandræði vegna afltoppavandamála og vaxandi orkuþarfar. Í stað endurnýjanlegra orkugjafa virkja Finnar nú kjarnorkuna, og orku frá brennslu kola, olíu og fleiri orkugjöfum.

Tæplega fyrirmynd í orkumálum
Raforkubúskapur Finna árið 2006 var þannig að brennsla eldsneytis (að meðtalinni innfluttri orku) var um 50%, kjarnorka 25% og vatnsorka 12,6% (sjá nánar hér). Innflutt orka nemur 12,7% og stærstur hluti hennar kemur frá Rússlandi, þar sem orkan er væntanlega framleidd með brennslu jarðefnaeldsneytis. Ólíklegt er að Íslendingar geti, né vilji, taka sér Finna til fyrirmyndar í orkuframleiðslu.

Til fróðleiks má geta þess að öll raforkuframleiðsla Íslendinga er tæplega helmingur þess sem Finnar framleiða með kjarnorku og fjórðungur þess sem þeir framleiða með brennslu jarðefnaeldsneytis og flytja inn af slíkri orku. Orkuþörf Finna mun vaxa um 20 TWst. á næstu 20 árum og áætla þeir að mæta þessum vexti með frekari byggingu kjarnorkuvera og áætla að árið 2027 verð um helmingur orkunnar framleiddur með kjarnorku, sem er um tveir þriðju hlutar aukningarinnar.

Enn meiri hagvöxtur á Íslandi
Ábendingin um fordæmið frá Finnlandi sneri fyrst og fremst að þeirri áherslu sem þar hefur verið lögð á menntun og rannsóknir. Allir geta verið sammála um mikilvægi öflugs menntakerfis og öflugs rannsókna- og nýsköpunarumhverfis. Líkt og Ísland hefur Finnland náð gríðarlega góðum árangri á sviði efnahagsmála undanfarin ár. Undanfarinn áratug hefur meðalhagvöxtur í Finnlandi verið 3,8% á ári, sem er ekki langt frá íslenska meðaltalinu sem er 4,4%. Finnar verja nú um 3,5% af sinni þjóðarframleiðslu til rannsókna og þróunar, en á Íslandi er þetta hlutfall tæp 3%. Þarna er Finnland í öðru sæti OECD-ríkja en Ísland í því fjórða. Íslendingar geta lært margt af Finnum og þeir sömuleiðis af okkur. Blessunarlega þurfum við hins vegar ekki að fara svipaðar leiðir og Finnar hafa farið á sviði orkumála, en þær eru reyndar vandfundnar þjóðirnar sem búa að endurnýjanlegum orkulindum á borð við þær sem við Íslendingar gerum.

Að lokum. Nýting endurnýjanlegra orkulinda hefur einmitt verið kallaður fyrsti hátækniiðnaðurinn hér á landi, og sú þekking sem Íslendingar búa að á því sviði er nú virkjuð í verkefnum víða um heim.

Dagur vatnsins og Þúsaldarmarkmið SÞ – erindin af ráðstefnu Samorku

Fimmtudagurinn 22. mars var alþjóðlegur dagur vatnsins. Í ár höfðu Sameinuðu þjóðirnar ákveðið að baráttan gegn vatnsskorti yrði þema dagsins, til samræmis við Þúsaldarmarkmið samtakanna um markvisst alþjóðlegt samstarf til að auka lífsgæði íbúa í verst settu ríkjum heims, meðal annars með auknu aðgengi að hreinu vatni. Samorka stóð af þessu tilefni fyrir ráðstefnu í Orkuveituhúsinu á degi vatnsins í ár, í samstarfi við íslenska aðila í þróunaraðstoð og fleiri. Íslendingar búa við gott aðgengi að hreinu vatni og mikla þekkingu á nýtingu þess. Íslensk þróunaraðstoð hefur jafnframt meðal annars beinst að aðstoð við að efla aðgengi að hreinu vatni í þróunarríkjum. Á ráðstefnunni voru leiddir saman fagaðilar í vatns- og fráveitumálum hér á landi og þeir íslensku aðilar sem starfa að og hafa áhuga á þróunaraðstoð erlendis. Fjallað var um Þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna og um mögulegt framlag Íslendinga til að auka aðgengi að hreinu vatni í þróunarlöndum. Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra fjallaði um stefnu stjórnvalda í Þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Á ráðstefnunni afhenti Eiríkur Bogason, framkvæmdastjóri Samorku, Jónasi Þ. Þórissyni, framkvæmdastjóra Hjálparstarfs kirkjunnar, styrk sem nemur kostnaði við gerð fjögurra brunna sem sjá munu allt að fjögur þúsund manns í Afríku fyrir aðgangi að hreinu neysluvatni.

Dagskrá ráðstefnunnar má skoða hér, og erindi ræðumanna er að finna hér að neðan:

Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra; ávarp

Þröstur Gylfason, Félagi Sameinuðu þjóðanna; Þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna

María J. Gunnarsdóttir, Samorku; Þúsaldarmarkmið í vatns- og fráveitumálum

Þórdís Sigurðardóttir, Þróunarsamvinnustofnun Íslands; Hreint vatn í þágu heilbrigðis: Verkefni í Malaví

Gestur Hrólfsson, Rauða krossi Íslands; Vatn í stríði og friði

Anna M.Þ. Ólafsdóttir, Hjálparstarfi kirkjunnar; Vatn á ótal vegu

Kristjón Þorkelsson, Rauða krossi Íslands; Vatn og hreinlæti í neyðaraðstoð í Eþíópíu

Fimm þúsund börn á dag, 54 þúsund milljarðar króna á ári!

Vatn er undirstaða lífs og velferðar. Hins vegar hefur 1,1 milljarður manna, um 18% jarðarbúa, ekki aðgang að öruggu drykkjarvatni. 2,6 milljarðar hafa ekki aðgang að viðunandi frárennslisaðstöðu, eða 41% jarðarbúa. Verst er ástandið í þróunarríkjum í Afríku sunnan Sahara og í Asíu. Þó hafa 144 milljónir Evrópubúa ekki vatn í hús og meira en 41 milljón hefur ekki aðgang að öruggu neysluvatni. Talið er að í heiminum öllum láti fimm þúsund börn lífið á degi hverjum vegna skorts á öruggu neysluvatni. Þetta er meðal þess sem fram kom í erindi Maríu J. Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra hita- og vatnsveitusviðs Samorku, á ráðstefnu samtakanna um Þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna á alþjóðlegum degi vatnsins, 22. mars.

Samkvæmt Þúsaldaryfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2.000 ætla ríki heims að minnka fátækt, misrétti, hungur og sjúkdómsáþján fyrir árið 2015. Markmiðin eru átta talsins og meðal þeirra er að helminga fyrir árið 2015 þann fjölda fólks sem ekki hefur aðgang að öruggu neysluvatni og frárennsli.

54.000 milljarðar króna á ári
Mikið vantar upp á að við náum þessum markmiðum, og horfur eru á að árið 2015 verði nær 2,3 milljarðar án viðunandi frárennslis. María greindi frá því að árlegur kostnaður af því að leysa ekki vatns- og frárennslismál heimsins hefur verið reiknaður út af Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni. Ef talinn er með kostnaður vegna tapaðra vinnustunda o.fl. er árlegur kostnaður áætlaður 820 milljarðar dollara á heimsvísu, eða um 54 þúsund milljarðar króna.

Maria sagði stærsta vandamálið þó ekki vera skort á vatni, heldur frekar fátækt og mismun í aðgangi að auðlindum. Hún sagði þetta vera kreppu sem hægt væri að leysa en til þess þyrfti alþjóðlegt átak og spurningin væri sú hvað Íslendingar gætu lagt þarna af mörkum, en ekki eru nema um 100 ár síðan taugaveiki var hér landlæg í sumum bæjum áður en lagðar voru þar vatnsveitur og fráveitukerfi.

Sjá erindi Maríu.
 

Samorka styrkir gerð brunna í Afríku – hreint vatn fyrir allt að 4.000 manns

Samorka hefur ákveðið að styrkja vatnsverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar í Afríku um kr. 600.000, eða sem nemur kostnaði við gerð fjögurra brunna sem samtals munu sjá allt að fjögur þúsund manns fyrir aðgangi að hreinu neysluvatni. Styrkurinn var afhentur á ráðstefnu Samorku um Ísland og Þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna í vatns- og fráveitumálum, sem haldin var á alþjóðlegum degi vatnsins 22. mars. Það var Eiríkur Bogason framkvæmdastjóri Samorku sem afhenti styrkinn Jónasi Þ. Þórissyni, framkvæmdastjóra Hjálparstarfs kirkjunnar.

Við afhendinguna sagði Eiríkur að þar sem Samorka hefði skilað nokkrum rekstrarafgangi á liðnu ári, einkum vegna tekna af norrænni ráðstefnu um öryggi drykkjarvatns, hefði stjórn samtakanna talið viðeigandi að verja hluta afgangsins til verðugs málefnis sem tengdist mikilvægi hreins drykkjarvatns. Eiríkur sagði ráðstefnu um Þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna í vatns- og fráveitumálum einkar viðeigandi tilefni og sagði Íslendinga búa við mikil forréttindi hvað varðaði aðgang að miklu og heilnæmu neysluvatni.

Um raforkuverð til stóriðju

Grein Gústafs Adolf Skúlasonar, aðstoðarframkvæmdastjóra Samorku, í Morgunblaðinu:

Varla líður sá dagur að ekki sé fullyrt í viðtölum og blaðagreinum að íslensk orkufyrirtæki sjái stóriðjufyrirtækjum fyrir raforku á útsöluverði, gjafverði eða einhverju álíka. Iðulega er fullyrt að verðið hér sé með allra lægsta móti í alþjóðlegum samanburði og loks er því gjarnan haldið fram að íslenskur almenningur, fyrirtæki og stofnanir niðurgreiði þetta meinta ódýra rafmagn til stóriðju með hærra raforkuverði en ella.

Áhugi á taprekstri trúlegur?
Miðað við þann fjölda fólks sem þátt tekur í þessum málflutningi mætti kannski draga þá ályktun að fólk trúi því í alvöru að íslensk orkufyrirtæki hafi áhuga á að leggja út í miklar fjárfestingar og stofna til umfangsmikils rekstrar til þess að selja raforku með tapi. En auðvitað stenst slík ályktun ekki skoðun. Eða hvers vegna ættu íslensk orkufyrirtæki að hafa áhuga á því? Hver ætti ávinningurinn að vera og fyrir hvern?

Hver sem ástæðan er fyrir slíkum málflutningi er ljóst að honum er haldið uppi með vísan til þess trúnaðar sem ríkir í samningum um raforkuverð til stóriðju. Um þá stöðu er margt að segja og vissulega kemur þar við sögu að orkufyrirtækin eru í eigu opinberra aðila og því af margra hálfu ríkari áhersla á gegnsæi í öllum rekstri en ella. Engu að síður eru þessi fyrirtæki rekin í samkeppni, innbyrðis jafnt sem við erlenda aðila í tilfelli raforkusölu til stóriðju. Í kjölfar nýlegra breytinga á raforkulögum er staðan jafnframt þannig að mörg íslensk fyrirtæki hafa gert samninga um raforkuverð og um þá ríkir trúnaður, líkt og gildir auðvitað um fjöldann allan af samningum fyrirtækja í milli. Varðandi stóriðjuna þá hefur komið fram að hinir erlendu raforkukaupendur leggja áherslu á trúnað um umsamið raforkuverð. Einnig hefur komið fram að af hálfu til dæmis Landsvirkjunar var þessi stefna um trúnað mótuð með einróma samþykki á vettvangi stjórnar fyrirtækisins um miðjan síðasta áratug, þar sem slík stefna var best talin þjóna hagsmunum fyrirtækisins í samningaviðræðum við erlenda raforkukaupendur. Sama fyrirtæki hefur hins vegar birt niðurstöður arðsemisútreikninga vegna Kárahnjúkavirkjunar sem sameiginleg nefnd eigenda vann með sjálfstæðum hætti, en arðsemin er auðvitað það sem mestu máli skiptir. Varla þarf þó að taka fram að trúnaðurinn nær ekki til fulltrúa eigenda orkufyrirtækjanna.

Orkuverð til stóriðju í meðallagi hérlendis
Þrátt fyrir trúnaðinn hafa þó ýmsar upplýsingar komið fram um þá samninga sem gerðir hafa verið milli íslenskra orkufyrirtækja og erlendra stóriðjufyrirtækja. Meðal annars hefur komið fram að verðið á raforku til stóriðju er í meðallagi hátt hérlendis í alþjóðlegum samanburði. Er þá byggt á niðurstöðum óháðra alþjóðlegra ráðgjafarfyrirtækja. Ennfremur hefur komið fram að samningar við álfyrirtæki eru með ýmsum hætti tengdir þróun heimsmarkaðsverðs á áli og raforku.

Einhverjir kunna að gagnrýna þessa niðurstöðu um raforkuverð sem er í meðallagi hátt á heimsvísu. Þarna er hins vegar einfaldlega um að ræða samninga í viðskiptum. Hér á landi er launakostnaður til dæmis hár og flutningsleiðir langar með hvoru tveggja hráefni og afurðir. Aðalatriðið er að samningarnir sem um ræðir eru eðli málsins samkvæmt sameiginleg niðurstaða raforkusala og raforkukaupenda um arðbær viðskipti og verðmætasköpun.

Lægra almennt raforkuverð vegna stóriðju
Loks ber að geta þess að þótt raforkuverð til almennra notenda sé ekki hátt hér á landi, þá er að sjálfsögðu eðlilegt að lang stærstu viðskiptavinir orkufyrirtækjanna, sem gert hafa langtímasamninga um föst kaup á tilteknu magni raforku, greiði lægra verð en langtum smærri og breytilegri viðskiptavinir. Ef ég opna litla matvöruverslun þá geng ég varla inn í sömu verð hjá birgjum og stærstu verslanakeðjurnar njóta. Þetta á þó ennþá frekar við um raforku en flesta aðra vöru, þar sem raforka hefur þá sérstöðu að hún er ekki geymd á lager. Framleiða þarf raforkuna samtímis nýtingu hennar, umframframleiðsla fer einfaldlega til spillis og jaðarkostnaður við mögulega viðbótareftirspurn á álagstímum er þess vegna hlutfallslega mjög hár. Stórir samningar um sölu á raforku til stóriðju hafa hins vegar í gegnum tíðina meðal annars gert íslenskum orkufyrirtækjum kleift að reisa virkjanir og flutningsvirki með hagkvæmari hætti en ella og þannig má færa rök fyrir því að raforkusala til stóriðju hafi beinlínis haft áhrif til lækkunar á raforkuverði til almennra notenda.

Arðbær viðskipti og verðmætasköpun
Fyrir sumt fólk er eflaust mikil stemning fólgin í því að fjalla um meint útsölurafmagn til „erlendra auðhringa“, um meintar niðurgreiðslur almennings á öllu saman, um „virkjanafíkn“ og um „álbrjálæði“. En slíkur málflutningur stenst auðvitað enga skoðun. Þegar samningar nást um sölu á raforku til stóriðju, þá gerist það á grundvelli þess að um sé að ræða arðbær viðskipti fyrir báða aðila (og raunar í leiðinni verðmætasköpun til hagsbóta fyrir landsmenn alla) en jafnframt í trausti þess að áhrif á náttúrufar viðkomandi virkjanasvæða verði metin ásættanleg af þar til bærum aðilum.

Standast forsendur í sáttmála Framtíðarlandsins?

Framtíðarlandið hefur sett fram það sem samtökin kalla sáttmála um framtíð Íslands. Þar er boðuð stöðvun allra mögulegra framkvæmda við virkjanir og stóriðju þar til samþykktur hafi verið annar áfangi rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og áætluninni gefið lögformlegt vægi. Samkvæmt þessu er væntanlega farið fram á að stöðvaðar verði framkvæmdir sem nú þegar hafa farið í gegnum mat á umhverfisáhrifum og hlotið ýmis tilskilin leyfi, með miklum kostnaði við rannsóknir, hönnun og svo framvegis.

Samorka gerir að sjálfsögðu ekki athugasemdir við að hópur fólks vilji aukna áherslu á náttúruvernd og setji fram þau sjónarmið. Ljóst er að Framtíðarlandið vill að náttúran njóti ávallt alls vafa og um þá afstöðu verður ekkert deilt, þótt aðrir geti verið þessari afstöðu ósammála. Margt af meintum röksemdafærslum Framtíðarlandsins er á hinn bóginn fjarri því hafið yfir gagnrýni og skal hér tæpt á nokkrum atriðum í því sambandi, en af nógu er að taka.

Rétt að fækka ferðamönnum?
Í sáttmálanum er talað um þensluáhrif af stóriðjuframkvæmdum (virkjanaframkvæmdir væntanlega með taldar) og þær sagðar draga úr uppbyggingu þekkingarsamfélagsins. Nú hefur margoft komið fram að þenslu undanfarinna ára megi rekja til ýmissa þátta, svo sem breytinga á íbúðalánamarkaði og mikillar útlánaaukningar í bankakerfinu. Framkvæmdir vegna stóriðju og vegna nýtingar á endurnýjanlegum orkulindum koma þar einnig við sögu. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur raunar bent á þá sérstöðu að hagstjórnaráhrif slíkra framkvæmda eru að mestu fyrirséð og því hægt að bregðast við þeim í tíma. Þarna er hins vegar á ferðinni sú kenning að einhver ein eða tvær atvinnugreinar eigi að bera ábyrgð á stöðugleika í efnahagsmálum. Hagfræðingur Samtaka iðnaðarins benti nýlega á að þannig mætti eins leggja til að dregið yrði úr þorskveiðum eða reynt að fækka ferðamönnum, en að enn betra væri þó hemja bankana enda eru þeir miklu fyrirferðarmeiri í hagkerfinu en áliðnaður. Einstakar atvinnugreinar geta ekki borið ábyrgð á efnahagslegum stöðugleika.

Íslensk orkuþekking í útrás
Um þá fullyrðingu að framkvæmdir við virkjanir og stóriðju dragi úr uppbyggingu þekkingarsamfélagsins er margt að segja. Fleiri hundruð háskóla- og tæknimenntaðra sérfræðinga starfa hjá íslenskum orkufyrirtækjum og annar eins fjöldi starfar fyrir þau að ýmsum verkefnum. Svipaða sögu má segja um álfyrirtækin. Þekking Íslendinga á nýtingu endurnýjanlegra orkulinda er nú virkjuð í verkefnum um heim allan. Nýlega hafa meðal annars íslensk fjármálafyrirtæki blásið til útrásar í krafti þeirrar þekkingar sem hér er að finna á virkjun jarðvarma og vatnsafls, sem og á rekstri slíkra virkjana. Virkjun raforku og álframleiðslu hefur verið lýst sem fyrsta hátækniiðnaðinum á Íslandi, sem mótað hafi hér jarðveg fyrir aðrar hátækni- og þekkingargreinar.

Það geta væntanlega allir tekið undir með Framtíðarlandinu um að hér skuli byggja upp fjölbreytt og lifandi samfélag þar sem hugvit og sköpunargleði einstaklinga fái að njóta sín. En það stenst enga skoðun að stilla nýtingu endurnýjanlegra orkulinda eða uppbyggingu stóriðju upp sem einhvers konar hindrunum við þessa jákvæðu framtíðarsýn.

Ísland í einstakri stöðu með endurnýjanlega orku
Loks er rétt að nefna hér þann vilja Framtíðarlandsins að Ísland taki Evrópusambandið sér til fyrirmyndar hvað varðar losun gróðurhúsalofttegunda, en í sáttmálanum er vísað í nýleg markmið ESB í þeim efnum sem miðast við árið 2020. Fyrir þann tíma hyggst ESB hafa náð þeim áfanga að 20% orkunotkunar innan þess verði frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Hlutfallið er í dag 6-7% og lítið hefur komið fram um það hvernig ESB hyggst þrefalda hlut endurnýjanlegra orkugjafa á þessum tíma. Á Íslandi er þetta hlutfall í dag 72%.

Hlýnun á lofthjúpi jarðar er fyrst og fremst rakin til brennslu á jarðefnaeldsneyti – kolum, olíu og gasi – og þeirrar losunar gróðurhúsalofttegunda sem henni fylgir. Fyrir vikið er nú um allan heim lögð áhersla á mikilvægi þess að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa og stuðla að orkusparnaði, samanber fyrrnefnt markmið ESB. Ísland er í einstakri stöðu í heiminum hvað varðar hátt hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa og þarf ekki að taka ESB sér til fyrirmyndar þegar kemur að orku- og loftslagsmálum. Þau tengsl eru á hinn veginn. Ef dæma má af fréttaflutningi frá blaðamannafundi Framtíðarlandsins var hins vegar fjallað þar um losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi frá einhverjum langtum fleiri og stærri álverksmiðjum en hér eru starfandi eða aðilar hafa uppi áform um að reisa hér.

Dagur vatnsins – Þúsaldarmarkmið SÞ, ráðstefna Samorku fimtudaginn 22. mars

Fimmtudagurinn 22. mars er alþjóðlegur dagur vatnsins. Í ár hafa Sameinuðu þjóðirnar ákveðið að baráttan gegn vatnsskorti verði þema dagsins, til samræmis við Þúsaldarmarkmið samtakanna um markvisst alþjóðlegt samstarf til að auka lífsgæði íbúa í verst settu ríkjum heims, meðal annars með auknu aðgengi að hreinu vatni. Samorka mun af þessu tilefni standa fyrir ráðstefnu í Orkuveituhúsinu á degi vatnsins í ár, í samstarfi við Þróunarsamvinnustofnun og félagasamtök sem vinna að þróunaraðstoð í vatnsveitu- og fráveitumálum. Sjá nánar á sérstakri síðu um ráðstefnuna.

Hrein orka, þekkingariðnaður, sparnaður í olíuinnflutningi…

Orkumál færast nú óðum ofar á dagskrám ríkisstjórna og ríkjabandalaga um heim allan, ekki síst í samhengi við baráttuna gegn hlýnun lofthjúpsins. Vandinn sem þar er við að etja er fyrst og fremst til kominn vegna brennslu á jarðefnaeldsneyti – kolum, olíu og gasi – og þeirrar losunar gróðurhúsalofttegunda sem slíkri brennslu fylgir. Þá eru sums staðar uppi áhyggjur af ótryggu framboði á mikilvægum orkugjöfum, til dæmis gasi.

Hrein orka á Íslandi
Á Íslandi er hlutfall endurnýjanlegra innlendra orkugjafa í orkunotkun 72%, en um 6-7% innan Evrópusambandsins og um 13% á heimsvísu. Vegna losunar gróðurhúsalofttegunda við brennslu á jarðefnaeldsneyti er nú á alþjóðavettvangi lögð mikil áhersla á aukinn hlut endurnýjanlega orkugjafa, sem losa engar eða hverfandi litlar gróðurhúsalofttegundir út í andrúmsloftið. Þarna er Ísland í einstakri stöðu á heimsvísu.

Þekkingariðnaður – fyrsti hátækniiðnaðurinn – útrás
Fleiri hundruð háskóla- og tæknimenntaðra sérfræðinga starfa hjá íslenskum orkufyrirtækjum og annar eins fjöldi starfar fyrir þau að ýmsum verkefnum. Þekking Íslendinga á nýtingu endurnýjanlegra orkulinda er nú virkjuð í verkefnum um heim allan. Nýlega hafa meðal annars íslensk fjármálafyrirtæki blásið til útrásar í krafti þeirrar þekkingar sem hér er að finna á virkjun jarðvarma og vatnsafls, sem og á rekstri slíkra virkjana. Virkjun raforku og álframleiðslu hefur verið lýst sem fyrsta hátækniiðnaðinum á Íslandi, sem mótað hafi hér jarðveg fyrir aðrar hátækni- og þekkingargreinar (sjá erindi dr. Ágústs Valfells, lektors við Háskólann í Reykjavík).

Veitufyrirtæki greiða þriðju hæstu meðallaun á Íslandi
Ef horft er til átján atvinnugreinaflokka Hagstofunnar má sjá að í flokknum veitustarfsemi eru greidd þriðju hæstu meðallaunin á Íslandi (miðað við árið 2005, nýjustu tölur þegar þetta er ritað, sjá vef Hagstofunnar). Hæst trónir fjármálaþjónusta, en fiskveiðar og veitustarfsemi koma í næstu sætum þar á eftir, talsvert langt fyrir ofan næstu flokka.

Hitaveitur spara Íslendingum 10 til 20 milljarða á ári
Kynding með jarðhita hefur frá því um 1980 sparað Íslendingum 10 til 20 milljarða króna á ári sem ella færu í innflutning á olíu til brennslu – með tilheyrandi mengun (sjá erindi dr. Valgarðs Stefánssonar frá Orkustofnun). Í dag er mikið horft til kosta jarðhitans sem endurnýjanlegs orkugjafa sem gefur frá sér hverfandi lítið af gróðurhúsalofttegundum. Helsti hvatinn að virkjun jarðhitans hér á landi var hins vegar á sínum tíma fjárhagslegur og áratugum saman hefur nýting jarðhitans sparað þjóðarbúinu mikinn innflutning á olíu og þannig skapað hér mikil verðmæti, auk þess að stuðla að bættum lífsgæðum á marga vegu.

Dagur vatnsins 22. mars nk – ráðstefna Samorku

Fimmtudagurinn 22. mars er alþjóðlegur dagur vatnsins. Í ár hafa Sameinuðu þjóðirnar ákveðið að baráttan gegn vatnsskorti verði þema dagsins, til samræmis við Þúsaldarmarkmið samtakanna um markvisst alþjóðlegt samstarf til að auka lífsgæði íbúa í verst settu ríkjum heims, meðal annars með auknu aðgengi að hreinu vatni.

Þekking og þróunaraðstoð

Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja, mun af þessu tilefni standa fyrir ráðstefnu í Orkuveituhúsinu á degi vatnsins í ár, í samstarfi við Þróunarsamvinnustofnun og félagasamtök sem vinna að þróunaraðstoð í vatnsveitu- og fráveitumálum. Íslendingar búa við gott aðgengi að hreinu vatni og mikla þekkingu á nýtingu þess. Íslensk þróunaraðstoð hefur jafnframt meðal annars beinst að aðstoð við að efla aðgengi að hreinu vatni í þróunarríkjum. Ætlun ráðstefnunnar í Orkuveituhúsinu er að leiða saman fagaðila í vatns- og fráveitumálum hér á landi og þá íslensku aðila sem starfa að og hafa áhuga á þróunaraðstoð erlendis, fjalla um Þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna og mögulegt framlag Íslendinga til að auka aðgengi að hreinu vatni í þróunarlöndum.

 

Stefna stjórnvalda

Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra mun fjalla um stefnu stjórnvalda í Þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna en jafnframt munu fjölmargir aðilar flytja erindi og ræða í pallborði um Þúsaldarmarkmiðin, um íslenska þekkingu á þessu sviði og um verkefni íslenskra aðila á sviði þróunaraðstoðar sem tengjast þema degi vatnsins.

 

Sjá nánar á vef SÞ um dag vatnsins almennt.

Sjá nánar á vef SÞ um dag vatnsins árið 2007.