Trúnaður um raforkuverð til stóriðju

Grein Gústafs Adolfs Skúlasonar, aðstoðarframkvæmdastjóra Samorku, í Fréttablaðinu:

Oft er gagnrýnt að trúnaður skuli ríkja um hvert raforkuverðið nákvæmlega sé í samningum íslenskra orkufyrirtækja vegna stóriðju. Þessi gagnrýni er kannski skiljanleg í því ljósi að orkufyrirtækin eru nær alfarið í eigu opinberra aðila. Almenna reglan í rekstri fyrirtækja er hins vegar sú að gerðir eru samningar við önnur fyrirtæki sem trúnaður ríkir um. Ástæðan er einföld og snýr að samningsstöðu fyrirtækjanna við aðra sambærilega viðskiptavini í nútíð og framtíð. Þótt orkufyrirtækin séu að mestu í opinberri eigu eru þau engu að síður rekin á samkeppnisgrunni og starfa á samkeppnismarkaði. Stefnan um trúnað í þessu samhengi þjónar best hagsmunum orkufyrirtækja og eigenda þeirra í samningaviðræðum við erlenda raforkukaupendur, þótt draga megi ályktanir um orkuverðið út frá þekktum stærðum.

Mörg íslensk fyrirtæki eru með samninga við orkufyrirtækin um raforkukaup. Innihald þeirra samninga er eðli málsins samkvæmt ekki öllum aðgengilegt á samkeppnismarkaði. Ríkisútvarpið ohf. er dæmi um fyrirtæki í opinberri eigu. Almenningur hefur ekki aðgang að öllum samningum sem það fyrirtæki gerir.

Arðsemin aðalatriðið
Verðið á raforku til álfyrirtækja er tengt heimsmarkaðsverði á áli og háð gengi á Bandaríkjadal. Gengi hans er fremur lágt um þessar mundir en álverð mjög hátt. Verðið á hins vegar ekki að skipta eigendur meginmáli, heldur arðsemin. Um hana höfum við greinargóðar upplýsingar frá þeim fyrirtækjum sem selja raforku til stóriðju. Samningarnir við hina erlendu raforkukaupendur eru sameiginleg niðurstaða kaupenda og seljenda um arðbær viðskipti og verðmætasköpun.

Á Íslandi er verð á raforku til almennings með því lægsta sem gerist á Vesturlöndum, en raforkuverð til stóriðju er hér í meðallagi á heimsvísu. Stórir samningar um sölu á raforku til stóriðju hafa gert íslenskum orkufyrirtækjum kleift að virkja með hagkvæmari hætti sem aftur þýðir að þau geta selt almennum neytendum raforku og heitt vatn á lægra verði en ella.

Garðar Sigurjónsson rafveitustjóri í Vestmannaeyjum er látinn

Garðar Sigurjónsson, fyrrverandi veitustjóri í Vestmannaeyjum lést 3. júní s.l.
Garðar fæddist í Vestmannaeyjum 22. október 1918.
Garðar tók við starfi rafveitustjóra í Eyjum árið 1946. Þetta var á miklum umbrotatímum hjá rafveitunni, breytingar úr jafnstraum í riðstraum og bygging nýrrar rafstöðvar við Heimatorg stóðu yfir. Garðar var rafveitustjóri í Eyjum á Heimaeyjargosinu 1973. Hann hætti vegna aldurs í byrjun árs 1986.
Eiginkona hans var Ásta Kristinsdóttir, sem lést 29. október s.l. og áttu þau tvö börn.

Uppspretta verðmæta, þekkingar og lífsgæða

Inngangsávarp Franz Árnasonar, formanns Samorku, í blaðinu Íslensk orka sem gefið er út af fyrirtækinu Landi og sögu ehf. og dreift er með Morgunblaðinu:

Orkumálin eru ofarlega á dagskrá ríkisstjórna og ríkjabandalaga um heim allan, ekki síst í samhengi við baráttuna gegn hlýnun lofthjúpsins. Vandinn sem þar er við að etja er ekki síst til kominn vegna brennslu á jarðefnaeldsneyti – kolum, olíu og gasi – og þeirrar losunar gróðurhúsalofttegunda sem slíkri brennslu fylgir. Þá eru víða uppi vaxandi áhyggjur af ótryggu framboði á mikilvægum orkugjöfum, til dæmis gasi. Við Íslendingar erum hins vegar svo lánsöm að búa að ríkulegum endurnýjanlegum orkulindum.

Hrein orka á Íslandi
Á Íslandi er hlutfall endurnýjanlegra innlendra orkugjafa í heildar orkunotkun 72%, en um 7% innan Evrópusambandsins og um 13% á heimsvísu. Vegna losunar gróðurhúsalofttegunda við brennslu á jarðefnaeldsneyti er nú á alþjóðavettvangi lögð mikil áhersla á aukinn hlut endurnýjanlega orkugjafa, sem losa engar eða hverfandi litlar gróðurhúsalofttegundir út í andrúmsloftið. Þarna er Ísland í einstakri stöðu á heimsvísu. Íslensk orkufyrirtæki leggja jafnframt áherslu á að umgangast landið með virðingu og að tekið sé tillit til náttúru og umhverfis í allri starfseminni.

Þekkingariðnaður í útrás
Mikil þekking hefur byggst upp hérlendis á nýtingu endurnýjanlegra orkulinda og sem dæmi má nefna að á liðnu ári voru unnin 500 ársverk verk- og tæknifræðinga á vegum íslenskra orku- og veitufyrirtækja. Afar ánægjulegt hefur verið að fylgjast með því að undanförnu hvernig íslensk orkufyrirtæki, fjármálafyrirtæki og verkfræðifyrirtæki hafa verið að sækja í sig veðrið í útrás á grundvelli þessarar þekkingar. Þá hefur íslenska háskólasamfélagið heldur betur tekið við sér varðandi möguleika á þessu sviði í samstarfi við íslensk orkufyrirtæki og virta erlenda háskóla. Tækifærin eru ótvíræð enda fer eftirspurnin eftir endurnýjanlegum orkugjöfum sífellt vaxandi.

Náttúruvernd og nýting orkulinda
Mikil umræða hefur farið fram hérlendis undanfarin ár um jafnvægi milli nýtingar á orkulindum annars vegar og náttúruverndar hins vegar. Flestir ef ekki allir munu sammála um mikilvægi verndunar. Jafnframt viljum við halda áfram að nýta okkar ríku auðlindir. Verði það ekki gert náum við ekki að viðhalda og þróa áfram þá miklu þekkingu sem við búum yfir á sviði nýtingar endurnýjanlegra orkulinda og halda þannig áfram að bæta lífskjör í landinu.

Lágt raforkuverð
Vel hefur tekist til með uppbyggingu raforkukerfis í okkar dreifbýla landi. Á Íslandi er verð á raforku til almennings með því lægsta sem gerist á Vesturlöndum, en raforkuverð til stóriðju er hér í meðallagi á heimsvísu. Stórir samningar um sölu á raforku til stóriðju hafa gert íslenskum orkufyrirtækjum kleift að virkja með hagkvæmari hætti sem aftur þýðir að þau geta selt almennum neytendum raforku á lægra verði en ella og veitt betri þjónustu vegna öflugra raforkukerfis. Þá er ljóst að kynding með jarðhita hefur um áratugaskeið sparað Íslendingum fleiri milljarða króna á ári sem annars færu í innflutning á olíu til kyndingar, með tilheyrandi mengun. Endurnýjanlegir orkugjafar eru uppspretta mikilla verðmæta hér á landi auk almennra lífsgæða og þeir menga ekki andrúmsloftið eins og gildir því miður um orkugjafa í flestum öðrum löndum.

Virkjanir og ferðaþjónusta

Hátt í eitt hundrað þúsund manns heimsækja íslensk orku- og veitufyrirtæki á ári hverju, einkum virkjanir. Aðdráttaraflið er nýting endurnýjanlegra orkugjafa og þær tæknilegu lausnir sem þróaðar hafa verið í því sambandi. Mörg orku- og veitufyrirtæki hafa enda lagt áherslu á að bæta innviði ferðamennsku og útivistar á virkjunarsvæðum og víðar. Nýlega greindi Samorka frá því að á árunum 2001-2006 greiddu orku- og veitufyrirtæki á Íslandi samtals rúman milljarð króna vegna sérstakra verkefna á eigin vegum á sviði umhverfismála, svo sem vegna landbætingar, göngustígagerðar og hreinsunarverkefna.

Hellisheiðavirkjun mun hafa mikla fjölgun í för með sér
Nesjavallavirkjun heimsækja nú um 25 þúsund manns á ári hverju og Orkuveita Reykjavíkur gerir ráð fyrir að margfalt fleiri muni á næstu árum heimsækja Hellisheiðavirkjun, þar sem tekið verður á móti ferðamönnum allt árið um kring, frá og með miðju þessu sumri. Þá tekur Landsvirkjun samtals á móti um 30 þúsund gestum á ári hverju í nokkrum virkjunum á landinu og í Végarði, upplýsingamiðstöð fyrirtækisins í Fljótsdal. Samtals heimsækja hátt í tíu þúsund manns Svartsengi og Reykjanesvirkjun á ári hverju og þá heimsækja þúsundir ferðamanna ýmsar aðrar virkjanir um land allt, til dæmis Fjarðaselsvirkjun á Seyðisfirði, Mjólkárvirkjun í botni Borgarfjarðar og Tungudalsvirkjun á Ísafirði, auk fjölda annarra. 

Gestir úr heimi vísinda, viðskipta og stjórnmála
Ennfremur taka íslensk orku- og veitufyrirtæki árlega á móti miklum fjölda gesta í sínum höfuðstöðvum. Stór hluti þessara gesta eru raunar ekki ferðamenn í hefðbundnum skilningi, heldur erlendir gestir úr heimum vísinda, viðskipta og stjórnmála, sem í fjölmörgum tilfellum hafa komið hingað til lands gagngert til að kynna sér nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa hér á landi.

Samandregið er því ekki óvarlegt að ætla að hátt í eitt hundrað þúsund manns, innlendir sem erlendir ferðamenn úr ýmsum ólíkum áttum, heimsæki virkjanir og önnur mannvirki íslenskra orku- og veitufyrirtæja ár hvert. Þá bendir allt til að mikil fjölgun sé framundan í þessu samhengi, ekki síst í tengslum við væntanlega opnun Heillisheiðavirkjunar í nágrenni Reykjavíkur og jafnframt í ljósi síaukinnar áherslu alþjóðasamfélagsins á mikilvægi nýtingar endurnýjanlegra orkulinda. Þess skal getið að hér eru ekki taldir með gestir vinsælla ferðamannastaða sem tengjast orku- og veitufyrirtækjum, svo sem þau hundruð þúsunda sem heimsækja Perluna og Bláa lónið á ári hverju.

Málþing um slys af völdum rafmagns

Málþingið er haldið í samvinnu við Rafiðnaðarsamband Íslands, Samorku, Rarik, Orkuveitu Reykjavíkur, SART, Neytendastofu, Læknadeild Háskóla Íslands, Landlæknisembættið, Slysadeild LHS, Heilbrigðistæknifélagið, Rafteikningu og Vinnueftirlit ríkisins.

Fyrirlestrar á erlendum málum verða túlkaðir á íslensku, í boði Rafiðnaðarsambands Íslands.

Óskir þú frekari upplýsinga, þá sendu fyrirspurn á sigurdur@stadlar.is

SKRÁNING

Formaður SA: Orkusala til erlendra stórfyrirtækja arðsöm – frestun á uppbyggingu orkufreks hátækniiðnaðar yrði ótrúleg skammsýni

„Því hefur verið haldið fram, að erlend stórfyrirtæki sæki hingað til lands vegna þess að rafmagn sé fáanlegt á gjafverði. Hið rétta er, að verðið stendur undir þeim kostnaði, sem öflun orkunnar hefur í för með sér, og skilar eigendum orkufyrirtækjanna hæfilegum arði.“ Þetta er meðal þess sem fram kom í ræðu Ingimundar Sigurpálssonar, formanns Samtaka atvinnulífsins, á aðalfundi samtakanna. Ingimundur fjallaði meðal annars um fjárfestingu í orkuöflun og uppbyggingu orkufreks hátækniiðnaðar sem legði drög að útflutningstekjum til langrar framtíðar, um hátekjustörf í slíkum greinum og sagði að mikill árangur undanfarinna áratuga á íslenskum vinnumarkaði hefði að stórum hluta verið borinn uppi af auknum umsvifum í orkufrekum hátækniiðnaði og afleiddum áhrifum þeirra. Ingimundur sagði það ótrúlega skammsýni ef íslensk stjórnvöld létu sér detta í hug að gefa út yfirlýsingu um það, að nú skyldi öllum hugmyndum um orkufrekan hátækniiðnað slegið á frest.

Úr ræðu Ingimundar Sigurpálssonar, formanns Samtaka atvinnulífsins, á aðalfundi samtakanna:

„Umfangsmesta fjárfesting hér á landi undanfarin ár hefur verið á sviði orkuöflunar og uppbyggingar orkufreks iðnaðar. Slík uppbygging er sérstakt fagnaðarefni, þar sem með henni er verið að leggja drög að útflutningstekjum til langrar framtíðar. Þau störf, sem þar verða til, eru raunveruleg hátekjustörf og getur verkafólk í þeirri atvinnugrein reiknað með um 350 þúsund króna föstum mánaðarlaunum, sem er hátt yfir meðallaunum. Undanfarinn áratug hafa þrjú fyrirtæki, sem teljast til orkufreks iðnaðar, starfað í landinu og hið fjórða er nýtekið til starfa. Ekki eru í hendi endanlegar ákvarðanir um frekari uppbyggingu í greininni, þótt vissulega séu nokkur verkefni á döfinni, en rétt er að hafa í huga, að á undanförnum áratugum hefur ítrekað verið leitað eftir uppbyggingu fyrirtækja í orkufrekum iðnaði hér á landi án þess að af henni hafi orðið. Í því sambandi er tilefni til þess að rifja það upp, að í aðdraganda Alþingiskosninga árið 1995 var atvinnuleysi hér á landi um 6%. Áhersluatriði stjórnmálanna á þeim tíma lágu fyrst og fremst í því að tryggja ný störf og settu metnaðarfullir stjórnmálaflokkar sér það markmið að tryggja um 12.000 ný störf fyrir árið 2000. Sá árangur hefur vissulega náðst og gott betur, þar sem störfum hefur fjölgað um tæplega 30.0000 síðan þá, en vert er að hafa í huga, að meðgöngutíminn hefur verið býsna langur og árangurinn á almennum vinnumarkaði er að
stórum hluta borinn uppi af auknum umsvifum í orkufrekum hátækniiðnaði og afleiddum áhrifum þeirra.

Því hefur verið haldið fram, að erlend stórfyrirtæki sæki hingað til lands vegna þess að rafmagn sé fáanlegt á gjafverði. Hið rétta er, að verðið stendur undir þeim kostnaði, sem öflun orkunnar hefur í för með sér, og skilar eigendum orkufyrirtækjanna hæfilegum arði. Erlend stórfyrirtæki sækjast vissulega eftir orkuverði, sem er alþjóðlega samkeppnishæft, en þau sækjast ekki síður eftir hátæknisamfélaginu á Íslandi, þar sem völ er á vel menntuðu og dugmiklu starfsfólki og nú í seinni tíð stöðugleika og hagstæðu almennu rekstrarumhverfi. Eins og menn hafa kynnst er undirbúningstími þessara verkefna langur og eru fjölmargir þættir skoðaðir ofan í kjölinn. Það væri því ótrúleg skammsýni, ef íslensk stjórnvöld létu sér detta í hug að gefa út yfirlýsingu um það, að nú skuli öllum hugmyndum um orkufrekan hátækniiðnað slegið á frest. Afleiðingin yrði fyrst og fremst
sú, að hætt yrði við þær athuganir, sem þegar eru hafnar eða í undirbúningi kunna að vera. Komi til þess að fjórum árum liðnum, að hefjast þurfi handa um frekari
atvinnuuppbyggingu, þá er ekki víst að neinn áhuga verði að finna og væri raunar líklegra að mörg ár tæki að byggja upp trúverðugleika gagnvart slíkri uppbyggingu. Tíu ár eru langur tími í pólitík, en þau eru ekki langur tími, þegar kemur að uppbyggingu atvinnulífs.“

Sjá ræðu Ingimundar í heild á vef Samtaka atvinnulífsins.

2,3 milljarðar til landeigenda – milljarður í umhverfisverkefni

Umhverfismálin skipa stóran sess í rekstri orku- og veitufyrirtækja, hvort sem um er að ræða virkjanir vegna nýtingar endurnýjanlegra orkulinda eða framkvæmdir vegna vatnsveitna og fráveitna. Áhersla er jafnan lögð á að umgangast landið með virðingu, að öllu raski sé haldið í lágmarki, frágangur í verklok sé til fyrirmyndar og raunar að tekið sé tillit til náttúru og umhverfis í allri starfseminni. Ennfremur hafa mörg orku- og veitufyrirtæki lagt áherslu á að bæta innviði ferðamennsku og útivistar á virkjunarsvæðum. Loks hafa fyrirtækin oft lagst í hreinsunarátak á einstökum svæðum áður en hafist hefur verið handa við framkvæmdir.

Yfir milljarður til sérstakra umhverfisverkefna
Kostnaður vegna slíkra verkefna er ekki alltaf sundurgreinanlegur og umframkostnað vegna almennra áherslna á umhverfismál – svo sem að vinnuflokkar fari helst fótgangandi um viðkvæm svæði – er útilokað að taka saman. Að beiðni Samorku hafa orku- og veitufyrirtæki hins vegar tekið saman hversu miklum fjármunum þau hafa verið að verja með beinum hætti til sérstakra verkefna á sviði umhverfismála. Niðurstaðan er sú að á árunum 2001-2006 greiddu orku- og veitufyrirtæki á Íslandi samtals um 1.050 milljónir króna vegna sérstakra verkefna á eigin vegum á sviði umhverfismála, svo sem vegna landbætingar, göngustígagerðar og hreinsunarverkefna.

2,3 milljarðar til landeigenda
Framkvæmdir við veitur og virkjanir hafa ávallt í för með sér ákveðin landnot. Á árunum 2001-2006 greiddu orku- og veitufyrirtæki samtals um 2,3 milljarða króna vegna landnota til landeigenda og veiðirétthafa. Þess eru þó fjölmörg dæmi að framkvæmdir hafi í raun aukið verðmæti aðliggjandi landsvæða, til dæmis með bættu aðgengi.

Líkt og áður hefur komið fram greiddu fyrirtækin á þessum sama tíma yfir 500 milljónir króna í styrki til annarra aðila vegna rannsókna og vísinda sem meðal annars hafa tengst umhverfismálum.

500 ársverk verk- og tæknifræðinga – yfir 15 milljarðar í rannsóknir, hönnun og vísindi

Samorka hefur tekið saman upplýsingar um fjölda háskólamenntaðra í hópi starfsfólks aðildarfyrirtækja sinna, sem og um fjármagn sem þessi fyrirtæki verja til rannsókna, hönnunar og vísinda. Tilefnið er hávær umræða þar sem orkufyrirtækjum er ítrekað stillt upp sem andstæðu við svonefnd þekkingarfyrirtæki, þrátt fyrir tíðar fréttir af útrás orkuþekkingar. Byggt er á upplýsingum úr bókhaldsgögnum íslenskra orku- og veitufyrirtækja. Ljóst er að engin innistæða getur talist fyrir því að stilla íslenskum orku- og veitufyrirtækjum upp sem einhvers konar andstæðu við þekkingarfyrirtæki.

Yfir 15 milljarðar í rannsóknir, hönnun og vísindi
Á árunum 2001 til 2006 vörðu orku-  og veitufyrirtækin alls um fimmtán milljörðum króna vegna rannsókna og hönnunar, auk fimm hundruð milljóna í styrki til rannsókna- og vísindastarfa á annarra vegum.

730 ársverk háskóla- og tæknimenntaðra
Hjá íslenskum orku- og veitufyrirtækjum starfa 330 manns með háskóla- og tæknimenntun, þar af 226 verk- og tæknifræðingar. Aðkeypt sérfræðiþjónusta árið 2006 nam 400 ársverkum háskóla- og tæknimenntaðra, þar sem ætla má að séu meðal annars 273 ársverk verk- og tæknifræðinga, auk fjölda ársverka viðskiptafræðinga, jarðfræðinga og fleiri hópa. Samtals gerir þetta 730 ársverk háskóla- og tæknimenntaðra, þar af 499 ársverk verk- og tæknifræðinga. Útrásarfyrirtæki á orkusviði eru ekki með í þessum tölum.

Iðnmenntaðir og „ófaglærðir“
Þá voru 475 ársverk iðnaðarmanna innt af hendi fyrir orku- og veitufyrirtæki á árinu 2006, og má þar telja rafvirkja, vélsmiði og vélfræðinga. Loks teljast tæplega 600 starfsmenn fyrirtækjanna til ófaglærðra.

Varðandi þá sem flokkast sem ófaglærðir skal þess getið að meðalstarfsaldur er með allra hæsta móti hjá orku- og veitufyrirtækjum, eða tæp sextán ár samanborið við sjö ára meðaltal á íslenskum vinnumarkaði. Þá hafa þessi fyrirtæki lengi verið í fararbroddi á sviðum endur- og símenntunar. Mikil þekking býr meðal starfsfólks orku- og veitufyrirtækja, hvort sem horft er til háskólamenntaðra eða annarra í þessum hópi.