Skólaverkefni þar sem börn í 6. og 7. bekk mæla gæði vatnsins í sínu nágrenni verður unnið á tímabilinu 18. september til 18. október. Þetta er gert að alþjóðlegri fyrirmynd – „World Monitoring Day.“ Verkefnið á uppruna í Bandaríkjunum en hefur breiðst út víða á undanförnum árum. (Sjá nánar á alþjóðlegri vefsíðu verkefnisins). Mælt er uppleyst súrefni, sýrustig, grugg og hitastig. Allir þessir þættir vísa á heilnæmi vatnsins fyrir lífríkið, en verkefninu er ætlað að efla vitund um mikilvægi góðrar umgengni við vatnið, hvað mengi vatnið og hvernig megi draga úr mengun vatns. Um leið vilja Samorka og vatnsveiturnar vekja athygli á heilnæmi íslenska vatnsins og virkja rannsóknaráhugann og „vísindamanninn“ í íslenskum skólabörnum.
Sex grunnskólar taka þátt
Í samstarfi við Samorku og vatnsveitur á hverjum stað hefur verið ákveðið að sex grunnskólar taki þátt í verkefninu í ár. Skólarnir sem nú taka þátt eru Melaskóli og Norðlingaskóli í Reykjavík, Klébergsskóli á Kjalarnesi, Hofsstaðaskóli í Garðabæ, Varmárskóli í Mosfellsbæ og Fellaskóli í Fellabæ.
Fræðsluefni unnið fyrir vef KHÍ
Sem fyrr segir er miðað við að verkefnið sé unnið á tímabilinu 18. sept. til 18. október og niðurstöðum skilað inn á alþjóðlegu vefsíðuna í desember. Samorka og vatnsveitan á viðkomandi stað leggja til mælisettin og fulltrúi vatnsveitunnar kemur í skólann og fræðir um vatnsveituna á staðnum og mikilvægi þess að ganga vel um vatnið. Opnuð hefur verið íslensk vefsíða fyrir verkefnið sem Orkuveita Reykjavíkur kostar. Sérstakt eyðublað er til að færa inn niðurstöðurnar og þær verða sendar til Samorku sem síðan setur þær inn á alþjóðlega vefsíðu verkefnisins. Einnig er fyrirhugað að bjóða nemenda í Kennaraháskóla Íslands að gera lokaverkefni með fræðsluefni um vatn til að hafa á vefsíðunni, en hafin er þróun fræðsluefnis um mikilvægi vatnsverndar sem vistað verður á vef verkefnisins.
Halldór Þorgeirsson, forstöðumaður hjá skrifstofu Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í Bonn, fjallaði um atvinnulíf og loftslagssamninga á fundi Samtaka atvinnulífsins. Halldór kom víða við í fyrirlestri sínum og fjallaði um kolefnismarkaði, stöðuna í alþjóðaviðræðum, hvað taki við eftir 2012 og svo framtíðarsýn um hvernig verði dregið úr útstreymi til lengri tíma. Halldór lagði áherslu á að loftslagsvandinn yrði leystur af atvinnulífi með nýrri tækni, rannsóknum og því að efnahagslegir hvatar leiði til hagkvæmra lausna. Hann sagði mikilvægt að alþjóðasamningar skapi ramma til langs tíma sem bæði hvetji til fjárfestinga í nýrri tækni og gefi þróunarríkjum tækifæri til þátttöku. Þá sagði Halldór miklar fjárfestingar framundan í orkukerfum jarðar.
Sjá erindi Halldórs á vef SA.
Námsfyrirkomulag er skipulagt þannig að kennt verður í lotum, ein námsgrein í einu, þannig að menn í fastri vinnu eiga auðveldara með að sækja námið. Sjá nánar á hlekk inn á auglýsinguna hér á síðunni.
Auglýsing um rafveituvirkjanámið, smellið hér
Vegna sumarleyfa verður skrifstofa Samorku lokuð dagana 27. júlí til 6. ágúst (að báðum meðtöldum), en svarað verður í símann og brugðist við áríðandi erindum.
Grein Gústafs Adolfs Skúlasonar í Fréttablaðinu:
Undanfarnar vikur höfum við fylgst með óhefðbundnum aðgerðum um það bil 30 manna hóps gegn álverum og ýmsu fleiru, með dyggri aðstoð sumra fjölmiðla. Í sumum tilvikum höfum við einnig hlýtt á viðtöl við talsmenn hópsins. Þar hefur meðal annars ítrekað komið fram að mótmæli gegn álverum snúist um að ál sé notað til vopnaframleiðslu og í „hernaði“.
Nú vitum við auðvitað öll að ál er notað til ótal margra hluta, til dæmis í matvæla- og lyfjaiðnaði, í bíla, skip, flugvélar, ljósastaura, hljómflutningstæki, myndavélar, úðabrúsa, farsíma… og þannig mætti afar lengi telja. Ætla verður að mótmælendurnir fyrrnefndu takmarki af fremsta megni eigin notkun á öllu sem áli tengist.
Hvað vopnaframleiðsluna varðar þá vitum við hins vegar líka öll að þar koma ýmis efni og aðrar bjargir til sögunnar en ál. Þess má til dæmis geta að íslensk hugbúnaðarfyrirtæki hafa þróað hugbúnað samkvæmt samningum við bæði breska og bandaríska herinn. Gott ef norski herinn átti ekki einhvern tímann samstarf við íslenska framleiðendur hlífðarfatnaðar. Allt er þetta gott og blessað. Þarna er um að ræða arðbær viðskipti við bandamenn, ríki sem við höfum áratugum saman starfað með í varnarbandalagi og höfum átt við beint samstarf um varnir Íslands.
Hlusta hermenn á Björk?
Eða hvað? Geta þessi hugbúnaðarfyrirtæki átt von á málningarslettum á sín húsakynni? Að starfsemi þeirra verði trufluð þar til fjölmiðlar hafa náð að mynda uppákomurnar? En hvað þá með aðra aðila sem hafa framleitt varning sem hermenn og jafnvel hershöfðingjar nota? Ætli bandarískir hermenn hlusti á Björk? Ætli sovéskir hershöfðingjar hafi jafnvel sporðrennt íslenskri saltsíld áður en haldið var með skriðdrekana inn í Búdapest eða Prag? Hver er þá samviska fólksins sem saltaði hér síldina niður í tunnur? Hvað ef jafnvel vopnaframleiðendur, til dæmis í Svíþjóð, borða fisk? Getum við þá verið að veiða hann og selja þangað út?
Er kannski orðið tímabært að fjölmiðlar fari að hlífa okkur við þessum málflutningi?
Grein Gústafs Adolfs Skúlasonar í Morgunblaðinu:
Að undanförnu hafa verið haldnir nokkrir íbúafundir um skipulagsmál í sveitarfélögum sem liggja að fyrirhuguðum virkjunum í Þjórsá. Af myndum og fréttum að dæma virðist hins vegar sem háværasta fólkið á þessum fundum séu óvart ekki íbúar viðkomandi sveitarfélaga. Fulltrúar ýmissa samtaka sem kenna sig við náttúruvernd virðast stunda að skipuleggja leiðangra á þessa fundi, leggja þar jafnvel fram ályktanir sínar og hafa sig þar mikið í frammi, enda athygli fjölmiðla tryggð. Athyglisvert er að oft eru talsmenn þessara sömu samtaka öðrum áhugasamari um það sem þeir kalla íbúalýðræði. Einhverra hluta vegna virðist þó sem þetta mikla áhugafólk um íbúalýðræði treysti íbúum viðkomandi sveitarfélaga ákaflega illa til að ráða sínum ráðum sjálfir. Á þessum fundum hafa meðal annars atvinnuuppbygging og verðmætasköpun verið til umfjöllunar. Engu að síður hafa samtök í atvinnulífi hingað til metið það sem svo að íbúafundir sveitarfélaga, haldnir að frumkvæði sveitarstjórna, séu einmitt vettvangur íbúa viðkomandi sveitarfélaga til að ráða sínum ráðum í friði – enda íbúarnir hverju sinni fullfærir um það.
Á fundi innkaupanefndar Samorku ,var í dag, 28. júní ákveðið að ganga til samninga við Sandblástur og Málmhúðun ehf á Akureyri um innkaup á ljósastaurum fyrir dreifiveitur Samorku.
Myndin er tekin þegar samkomulagið var handsalað.
Grein Gústafs Adolfs Skúlasonar, aðstoðarframkvæmdastjóra Samorku, í Morgunblaðinu:
Öruggt framboð á raforku, samdráttur í losun koltvísýrings og aukin samtvinnun markaða yfir landamæri, samhliða sívaxandi eftirspurn eftir raforku. Þetta eru mikilvæg verkefni sem Evrópuríkin standa frammi fyrir á sviði raforkumála og þetta voru jafnframt helstu umræðuefni ársfundar Eurelectric, Evrópusamtaka rafiðnaðarins, í Antwerpen á dögunum. Mismunandi áherslur eru uppi um æskilega forgangsröðun þessara þriggja verkefna og engan veginn ljóst að aðgerðir vegna eins verkefnanna styrki stöðuna gagnvart hinum.
Mörg Evrópuríki eru mjög háð innfluttu eldsneyti til raforkuframleiðslu. Misjöfn samskipti við sum helstu útflutningsríki á olíu og gasi eru þess vegna, ásamt mismunandi afstöðu gagnvart nýtingu kjarnorkunnar, meðal helstu ástæðna þess að margir setja spurningarmerki við öryggi í raforkuframboði samfara sívaxandi eftirspurn. Þá hefur Evrópusambandið sett sér háleitt markmið um heildarhlutfall endurnýjanlegra orkugjafa árið 2020 (20% af allri orkunotkun, hlutfallið er 7% í ESB í dag en 72% á Íslandi). Á ársfundi Eurelectric voru uppi miklar efasemdir um þetta markmið, nema hugsanlega ef gríðarlega miklu yrði kostað til, til dæmis í formi rannsókna og þróunar. Innan ESB eru nú um 15% raforku framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum og vegur vatnsaflið þar lang þyngst. Rúmur þriðjungur raforkunnar er framleiddur með kjarnorku og afgangurinn með brennslu jarðefnaeldsneytis á borð við kol, gas og olíu, en losun koltvísýrings í andrúmsloftið stafar öðru fremur af brennslu slíkra efna. Á Íslandi er nánast öll raforka framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum, eða um 99,9%.
Nýta þurfi alla orkumöguleika
Í stefnumörkun sinni segja Eurelectric hægt að ná verulegum árangri á öllum þessum sviðum ef horft sé til langs tíma, eða til ársins 2050. Samtökin leggja áherslu á að nýta beri alla möguleika til orkuöflunar og nefna kjarnorku annars vegar og hins vegar vatnsafl og aðra endurnýjanlega orkugjafa í því sambandi. Þá verði að gera stórátak í þágu raforkusparnaðar annars vegar og á sviði rannsókna og þróunar hins vegar. Loks þurfi að stórbæta regluumhverfi ESB sem í dag hamlar verulega samkeppni yfir landamæri enda víðs fjarri að hægt sé að tala um raunverulegan innri markað á sviði raforku.
Það var afar fróðlegt fyrir íslensku fulltrúana að taka þátt í störfum fundarins. Eflaust getum við dregið gagnlega lærdóma af reynslu einhverra annarra Evrópuríkja þegar kemur að markaðs- og samkeppnismálum á innanlandsmarkaði fyrir raforku, þótt ekki eigum við beinna hagsmuna að gæta hvað varðar þróun samevrópsks raforkumarkaðar (hér er ekki ætlunin að ræða hugmyndir um sæstreng). Þá er orkusparnaður göfugt markmið hvar sem er og rannsóknir og þróun í því skyni og í skyni minnkandi losunar á koltvísýringi eru mikilvæg verkefni hérlendis sem annars staðar. Blessunarlega erum við þó í ólíkt betri stöðu en þessi nágrannaríki okkar þegar kemur að spurningunum um hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa og öryggi í framboði á raforku. Þarna standa mörg Evrópuríki frammi fyrir miklum áskorunum, en geta einungis látið sig dreyma um þá sterku stöðu sem við Íslendingar njótum.
Á ársfundi Eurelectric, Evrópusamtaka rafiðnaðarins, í Antwerpen á dögunum tók Hans ten Berge við starfi framkvæmdastjóra af Paul Bulteel, sem gegnt hafði starfi framkvæmdastjóra í áratug. Hans ten Berge er fæddur árið 1951 í Hollandi og nam efnafræði og viðskiptafræði við þarlenda háskóla í Eindhoven og Delft. Hann hefur starfað fyrir fjölda alþjóðlegra fyrirtækja á sviði efnaiðnaðar en starfaði frá árinu 1998 hjá Eneco Energie í Hollandi. Þá hefur ten Berge árum saman gegn formennsku í nefnd Eurelectric um markaðsmál.
Rafael Miranda, forseti Eurelectric, bauð ten Berge velkominn á fundinum og óskaði honum velgengni í starfi. Jafnframt þakkaði hann fráfarandi framkvæmdastjóra mikið og gott starf í þágu samtakanna og ekki síst fyrir að hafa tryggt Eurelectric lykilstöðu sem samráðsaðila stofnana Evrópusambandsins á sviði raforkumála.