„Við gerð nýs alþjóðlegs samkomulags um loftslagsmál hljóta íslensk stjórnvöld að leggja áherslu á sérstöðu Íslands og þann árangur sem náðst hefur í nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa,“ segir í fréttabréfi Samtaka atvinnulífsins. „Endurnýjað íslenskt ákvæði verður að tryggja að hægt verði að ráðast í þau verkefni sem þegar eru áætlanir um og að hægt verði að halda áfram uppbyggingu hér á landi á þeim tíma sem nýju samkomulagi er ætlað að vara. Þannig tryggja stjórnvöld hagsmuni íslensks atvinnulífs og um leið þjóðarinnar í bráð og lengd.“
Sjá nánar á vef SA.
Vatnsveita Hafnarfjarðar bauð til John Snow fundar og hádegisverðar á Fjörukránni í Hafnarfirði. Á fundinn mættu átta félagar í John Snow og ræddu um markmið og leiðir til að vekja athygli á mikilvægi vatnsmála. John Snow Sociaty er alþjóðlegur félagsskapur sem er nefndur eftir þeim mikla lækni John Snow sem rakti útbreiðslu kóleru í London til mengaðs vatns www. johnsnowsociety.org . Þetta var árið 1852 þegar kólera geisaði í Soho í London. Þá var talið að veikin bærist með andadrætti á milli fólks en hann sannaði með faraldsfræðilegum rannsóknum að hún barst með menguðu vatni frá ákveðnum brunni.
Á fundinum var ályktað um mikilvægi þess að efla samvinnu á milli vatnsveitna, heilbrigðisyfirvalda, neytenda og annarra sem málið varða. Ákveðið að bjóða fleirum þátttöku í senatinu, þeim sem gegna lykilhlutverki og þeim sem hafa áhuga og eldimóð til að vinna að því að efla vatnsvernd og virðingu fyrir gæðum neysluvatns.
Sextán tillögur bárust að útilistaverki sem Samorka og Mosfellsbær hyggjast láta reisa á nýju torgi við Þverholt í Mosfellsbæ. Tilefni samkeppninnar eru 100 ára afmæli hitaveitu á Íslandi, sem miðast við frumkvöðulsstarf Stefáns B. Jónssonar á Suður-Reykjum í Mosfellssveit árið 1908, og 20 ára afmæli Mosfellsbæjar árið 2007.
Samkeppnin er tvískipt. Forvalsdómnefnd hefur nú valið þrjár tillögur og hefur höfundum þeirra verið boðið að þróa þær áfram gegn þóknun. Skiladagur er 21. desember og verða úrslit kynnt eigi síðar en 9. janúar 2008. Í samkeppnisreglum keppninnar segir meðal annars að Samorka vilji á þessum tímamótum einkum beina sjónum fólks að því mikilvæga hlutverki sem heita vatnið hefur gegnt í því skyni að bæta heilsufar og almenn lífsgæði Íslendinga. Er þá horft til þátta á borð við betur kynt hýbýli og því bætt heilsufar, hreinna andrúmsloft (í stað kola- og/eða olíureyks), sundlaugamenningu og þar með aukin tækifæri til útivistar, hreyfingar og félagslífs. Fram kemur að sameiginlega leiti Samorka og Mosfellsbær eftir gerð listaverks sem vísa myndi í þessa sögu, þetta hlutverk heita vatnsins, og að tenging við sögu Mosfellssveitar væri ákaflega vel við hæfi.
Niðurstöðu forvalsdómnefndar Mosfellsbæjar og Samorku má lesa hér.
Samkeppnisreglur keppninnar má lesa hér.
Ásgeir Sæmundsson fyrverandi stöðvarstjóri í Andakílsárvirkjun er látinn.
Hann var fæddur 1923 og lést á Landsspítala Íslands mánudaginn 26. nóvember.
Ásgeir var rafvélavirkji og rafmagnstæknifræðingur. Hann lærði iðn sína hjá Bræðrunum Ormsson og tæknifræði í Tekniske Institute í Stokkhólmi.
Hann vann að rafveitumálum og rafvæðingu landsins um langt skeið og var m.a. stöðvarstjóri Andakílsárvirkjunar. Samorka minnist áhugasams og tillögugóðs félaga um leið og hún vottar aðstendendum fyllstu samúðar.
Grein Gústafs Adolfs Skúlasonar í Morgunblaðinu:
Umhverfis- og loftslagsmál eru ofarlega á baugi um heim allan. Ísland er þar engin undantekning. Hérlendis er þessi umræða þó með allt öðrum og jafnvel öfugum formerkjum við það sem víða gerist annars staðar. Í nágrannalöndunum snýst umræðan öðru fremur um leiðir til að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa, enda talið að hlýnun jarðar stafi að stærstum hluta af brennslu jarðefnaeldsneytis. Hlutur endurnýjanlegra orkugjafa er þannig um 7% innan Evrópusambandsins, en hér á landi er hann 72% og Ísland í einstakri stöðu á þessu sviði. Hér á landi eru það þó óvart framleiðendur og flutningsaðilar endurnýjanlegu orkunnar sem öðrum fremur sitja undir gagnrýni þeirra sem tala í nafni umhverfisverndar.
Nú er það auðvitað svo að málefnalegt aðhald er orku- og veitufyrirtækjum hollt, líkt og öllum öðrum. Þá verða einstakar virkjunarframkvæmdir ávallt og réttilega tilefni til skoðanaskipta, meðal annars frá sjónarhorni náttúruverndar. En því miður er gagnrýni á störf þessara fyrirtækja oft fjarri því að vera málefnaleg. Engu að síður virðist hún oft eiga afar greiða leið inn í fjölmiðla.
Klifað gegn betri vitund um raforkuverð
Sumir sem tala í nafni umhverfisverndar klifa til dæmis sífellt á því í fjölmiðlum að hér sé raforka seld stóriðju á einhvers konar undirverði. Engu er skeytt um svör er lúta að samanburði við meðaltalsverð til stóriðju í heiminum, eða að augljósum atriðum er varða stöðugleika í viðskiptum og magninnkaup, eða um að salan til stóriðju sé óvart uppspretta nær alls hagnaðar umræddra fyrirtækja og mikilvæg forsenda uppbyggingar sem öðrum nýtist. Gegn betri vitund er fremur klifað áfram um það sem af vandlætingu er kallað niðurgreitt verð, en um leið er gjarnan krafist sama raforkuverðs til annarra valinna atvinnugreina, sem ekki væri hægt að verða við nema óvart með stórfelldum niðurgreiðslum enda um að ræða margfalt minni og óstöðugri viðskipti. Þá hafa þessi fyrirtæki og starfsfólk þeirra undanfarin misseri mátt sitja undir skrautlegum viðtölum og fréttaflutningi um burðarþol stíflumannvirkja, um meinta vá sökum brennisteinsvetnis í andrúmslofti (maður þorði varla í sturtu og alls ekki að heimsækja Hveragerði) og þannig mætti lengi telja.
Gagnrýni fyrir að fara að lögum
Nú er komin fram ný tegund af gagnrýni á hendur einu fyrirtæki vegna virkjanaframkæmda. Í fjölmiðlum, meðal annars á forsíðu Morgunblaðsins, var það gert tortryggilegt að umrætt fyrirtæki skyldi sjálft hafa látið vinna umhverfismat vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Þetta er afar athyglisverð gagnrýni, því óvart er mælt fyrir um það í lögum um mat á umhverfisáhrifum að framkvæmdaraðili láti vinna slíkt mat. Matsferlið er hins vegar langt og að því koma ýmsir umsagnaraðilar auk að sjálfsögðu skipulagsyfirvalda, og ekki skal farið nánar út í það hér. En varla getur það talist eðlilegt að fyrirtækið sé gert tortryggilegt fyrir að fara eftir þeim lagabókstaf sem við á. Það eru takmörk.
Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja, og Mosfellsbær auglýsa í sameiningu eftir þátttakendum í forvali fyrir lokaða samkeppni um gerð útilistaverks sem rísa á í maí 2008á nýju torgi við Þverholt í Mosfellsbæ. Tilefnið er 100 ára afmæli hitaveitu á Íslandi árið 2008, þar sem miðað er við frumkvöðulsstarf Stefáns B. Jónssonar á Suður-Reykjum í Mosfellssveit árið 1908. Ennfremur fagnaði Mosfellsbær 20 ára afmæli árið 2007 og ákvað bæjarstjórn af því tilefni standa að gerð útilistaverks í bænum. Ákveðið hefur verið að auglýsa eftir þátttakendum í forvali en að í kjölfarið fari fram lokuð samkeppni þriggja listamanna sem forvalsdómnefnd velur úr þátttakendum í forvali.
Bætt heilsufar og almenn lífsgæði
Samorka vill á þessum tímamótum einkum beina sjónum fólks að því mikilvæga hlutverki sem heita vatnið hefur gegnt í því skyni að bæta heilsufar og almenn lífsgæði Íslendinga og munu samtökin minnast 100 ára afmælisins með ýmsu móti á næsta ári. Tenging útilistaverksins við sögu Mosfellssveitar væri jafnframt ákaflega vel við hæfi.
Forvalið er opin samkeppni þar sem öllum myndlistarmönnum er heimilt að senda inn tillögur. Í lokaðri samkeppni taka þátt þeir þrír listamenn sem forvalsdómnefnd velur. Í störfum forvalsdómnefndar og dómnefndar lokaðrar samkeppni verður gætt nafnleyndar listamanna. Haldin verður sýning á öllum tillögum úr lokaðri samkeppni í Bókasafni Mosfellsbæjar.
Afhending tillagna
Tillögur í forval skal afhenda þann 21. nóvember og eigi síðar en kl. 16.00 umræddan dag á skrifstofu Samorku, Suðurlandsbraut 48, en trúnaðarmaður tekur þá við tillögunum. Fyrirspurnir vegna forvals berist eigi síðar en 1. nóvember. Greidd verður þóknun, kr. 200.000, hverjum þeirra þriggja listamanna sem þátt munu taka í lokaðri samkeppni. Sá listamaður (tillaga) sem fyrir valinu verður fær auk þess kr. 800.000 í þóknun fyrir að fullvinna módel eða vinnuteikningar þannig að verkið verði tilbúið til fullvinnslu og við þá greiðslu hafa Samorka og Mosfellsbær tryggt sér rétt til að nýta vinningstillöguna til að gera eftir því útilistaverk. Loks verða listamanninum tryggð 2ja mánaða laun, sem samsvarar launum bæjarlistamanns Mosfellsbæjar, á meðan á vinnslu verksins stendur, til að fylgja eftir fullvinnslu verksins. Greitt verður að aflokinni uppsetningu verksins. Hér er samtals um að ræða kr. 316.000. Heildargreiðsla til listamanns, þegar útilistaverkið er smíðað og uppsett verða því kr. 1.316.000.
Nánari upplýsingar
Samkeppnisreglur vegna keppninnar er að finna hér (pdf-skjal).
Föstudaginn 19. okt. sl. var haldið námskeið um innra eftilit og hreinlæti hjá vatnsveitum. Áherslan var á hvernig standa ætti að kerfisbundnu fyrirbyggjandi eftirliti til að tryggja gæði neysluvatns. Íslenskar vatnsveitur hafa staðis sig vel í að setja upp gæðakerfi í vatnsveitum og nú búa um 77% íbúa landsins við það að fá vatn frá vatnsveitu sem hefur slíkt fyrirbyggjandi eftirlit. En þar sem skóinn kreppir er helst hjá minni vatnsveitum. Samorka hefur þróað einfaldara kerfi fyrir minni vatnsveitur og hafa margar minni vatnsveitur verið að koma því á.
Farið var yfir hvaða lög og reglugerðir eru í gildi fyrir vatnsveitur, Hvernig best sé að standa að hreinlæti og eftirliti. Rætt var um hvaða er helst að varast og hvað það er sem getur mengað vatnið. Einnig var farið yfir vatnsbornar hópsýkingar sem hafa orðið á Íslandi og hvað olli þeim. Að lokum var farið yfir hvernig standa ber að sýnatöku og sýnd hentug mælitæki.
Jarðhitafélag Íslands heldur haustfund sinn þriðjudaginn 9. október um alþjóðlega þróun og horfur á sviði jarðhitanýtingar. Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra mun opna fundinn en í kjölfarið mun fjöldi erlendra og innlendra sérfræðinga flytja erindi um þróun og horfur á þessu sviði. Fundurinn verður haldinn í húsakynnum Orkuveitu Reykjavíkur að Bæjarhálsi 1 og hefst kl. 8:45. Öll erindi og umræður verða á ensku.
Fundurinn er haldinn í tengslum við aðal- og stjórnarfund Alþjóða jarðhitafélagsins (International Geothermal Association – IGA) hér á landi dagana 10. og 11. október. Um 50 erlendir gestir víðs vegar að úr heiminum sækja fundinn og um leið haustþing Jarðhitafélags Íslands, allt sérfræðingar á sviði jarðhitanýtingar. Munu þeir jafnframt sækja heim jarðhitavirkjanir og virkjanasvæði á Hellisheiði og Reykjanesi og fræðast um nýtingu jarðhita hér á landi.
Haustfundur JHFÍ er öllum opinn. Þátttaka tilkynnist til Samorku s. 588 4430 eða the@samorka.is
Þátttökugjald: 5.000 kr, 500 kr. fyrir nema og eldri borgara, hádegisverður og aðrar veitingar innifaldar.
Sjá dagskrá haustfundar JHFÍ hér.
Rafveituvirkjanám er nú hafið við Iðnskólann í Reykjavík.
Til náms eru skráðir 20 nemendur.
Kennslan fer fram í lotum, þannig að einungis er kennt eitt fag í hverri lotu. Á þann hátt er komið til móts við nemendur sem eru í fastri vinnu.
Ekki hefur nein kennsla í þessari löggiltu iðngrein farið fram á undanförnum árum. Hér er því virkilega verið að koma til móts við þarfir atvinnulífsins, sérstaklega raforkufyrirtækjanna.
Samningurinn um ljósastaurana er um afhendingu á að minnstakosti 8670 staurum á næstu þremur árum, fyrir kr. 178 milljónir. Að auki er í samningnum ákvæði um möguleika á framlengingu samningstíma um tvö ár.
Tilboðin í ljósaperuviðskiptin voru 8 frá 7 fyrirtækjum og eru um viðskiptin til þriggja ára. Tilboðin sem bárust voru á bilinu 10,6- 33,6 milljónir kr. Úrvinnsla tilboða fer nú fram.