Ályktun stjórnar Samorku vegna úrskurðar umhverfisráðherra

Ályktun stjórnar Samorku vegna úrskurðar umhverfisráðherra um sameiginlegt
umhverfismat vegna virkjana, háspennulína og álvers á Norðausturlandi

Á stjórnarfundi Samorku í dag, 4. september, var til umfjöllunar úrskurður umhverfisráðherra frá 31. júlí síðastliðnum um að umhverfisáhrif álvers á Bakka við Húsavík, Þeistareykjavirkjunar, Kröfluvirkjunar II og háspennulína frá Kröflu og Þeistareykjum til Húsavíkur skulu metin sameiginlega samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, sbr. 5. gr. laga nr. 75/2005. Með úrskurði ráðherra er felld úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 13. febrúar 2008 um að ekki sé þörf á sameiginlegu mati á umhverfisáhrifum áðurnefndra framkvæmda.

Orkufyrirtækin hafa undanfarin ár unnið að undirbúningi virkjana og háspennulína á Norðausturlandi í góðri samvinnu við Skipulagsstofnun og heimamenn. Minna má á í því sambandi að staðfest svæðisskipulag er fyrir hendi þar sem afmörkuð eru orkuvinnslusvæði og háspennulínuleiðir. Svæðisskipulagið hefur farið í gegnum umhverfismat áætlana í samræmi við lög nr. 105/2006 og verið staðfest af umhverfisráðherra.

Stjórn Samorku telur að ráðherra hafi kveðið upp afar íþyngjandi úrskurð, sem byggist á heimildarákvæði í lögum en ekki skýrum lagafyrirmælum. Úrskurðurinn tengir saman framkvæmdir fjögurra lögaðila á svæðum sem eru í tuga kílómetra fjarlægð frá hvort öðru. Það er einnig yfirlýst stefna orkufyrirtækjanna að rannsaka og undirbúa virkjanir og háspennulínur óháð því hver kemur til með á endanum að kaupa orkuna. Hafa verður í huga að það tekur mörg ár, jafnvel áratugi, að rannsaka og undirbúa virkjanir og orkuflutning en í flestum tilvikum aðeins örfá ár, jafnvel nokkur misseri, að undirbúa og byggja t.d. verksmiðju eða setja upp netþjónabú. Það er þess vegna óásættanlegt fyrir orkufyrirtækin að geta ekki stundað rannsóknir og undirbúning á eigin forsendum óháð hugsanlegum orkukaupanda.

Standi úrskurðurinn óhaggaður, og falli rannsóknarboranir undir hann, mun það hafa verulegar tafir í för með sér við undirbúning verkefna á Norðausturlandi, um sem nemur a.m.k. einu ári, og valda orkufyrirtækjunum og sveitarfélögunum aukakostnaði er nemur hundruðum milljóna króna.

Stjórn Samorku skorar á stjórnvöld að endurskoða ákvörðun sína til að lágmarka þann skaða sem að óbreyttu gæti hlotist af úrskurðinum. Náist ekki ásættanleg niðurstaða í þeim efnum telur stjórn Samorku nauðsynlegt, með hliðsjón af alvarleika málsins, að dómstólar verði látnir skera úr um lögmæti úrskurðar ráðherra, vegna framtíðarhagsmuna orkuiðnaðarins.

100 ára afmælisdagskrá á alþjóðlegri ráðstefnu um hitaveitur

Þriðjudaginn 2. september stóð Samorka fyrir dagskrá í tilefni af 100 ára afmæli hitaveitu á Íslandi, innan ramma alþjóðlegu ráðstefnunnar 11th International Symposium on District Heating and Cooling. Háskóli Íslands skipulagði ráðstefnuna í samstarfi við Samorku og Nordic Energy Research, og var hún haldin á Háskólatorgi dagana 1.-2. september (auk skoðunarferðar sunnudaginn 31. ágúst, þar sem m.a. var komið við í Hellisheiðarvirkjun).

Opnun iðnaðarráðherra
Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra opnaði afmælisdagskránna. Fjallaði hann um þessa 100 ára þekktu sögu, en jafnframt um 800 ára langa sögu ef talin væri með jarðhitanýting Snorra Sturlusonar! Össur fjallaði vítt og breytt um íslensk orkumál, mikilvægi jarðhitaveitunnar, þekkingu Íslendinga á nýtingu jarðhita, tækifæri í útrás, djúpborunarverkefnið og margt fleira. Að loknu opnunarávarpi iðnaðarráðherra tóku við fjögur erindi, sem nálgast mér hér að neðan, en dagskráin fór fram á ensku.

On Geothermal Energy in Iceland
Ólafur G. Flóvenz, General Director, ÍSOR – Iceland Geosurvey

100 Years of Geothermal Space Heating
Sveinn Þórðarson, historian

Geothermal Space Heating in Iceland – Closing the Circle
Haukur Jóhannesson, Chief Geologist, ÍSOR – Iceland Geosurvey

The Icelandic Deep Drilling Project
Guðmundur Ómar Friðleifsson, Chief Geologist, representing IDDP

Afmælisdagskrá hitaveitu á alþjóðlegri ráðstefnu, þriðjudaginn 2. september

Samorka skipuleggur sérstaka afmælisdagskrá í tilefni af 100 ára afmæli hitaveitu á Íslandi, á alþjóðlegu ráðstefnunni 11th International Symposium on Central Heating and Cooling í Reykjavík. Ráðstefnan stendur yfir dagana 31. ágúst til 2. september, en afmælisdagskrá verður þriðjudaginn 2. september kl. 13:20 – 15:00. Ráðstefnan fer öll fram á ensku og ráðstefnugjald er kr. 55.000, en ókeypis er inn á afmælisdagskránna og allir velkomnir.

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra opnar afmælisdagskrá Samorku en síðan mun Ólafur G. Flóvenz, forstjóri ÍSOR, fjalla um jarðhita á Íslandi; Sveinn Þórðarson sagnfræðingur mun fjalla um 100 ára sögu hitaveitunnar; Haukur Jóhannesson, fagsviðsstjóri á ÍSOR, fjallar um jarðhitaleit; og loks mun Guðmundur Ómar Friðleifsson fjalla um íslenska djúpborunarverkefnið, sem hann hefur starfað að um árabil.

Nánari upplýsingar um ráðstefnuna í heild má nálgast hér.

Dagskrá afmælisdagskrárinnar má nálgast hér.

Alþjóðleg ráðstefna um hitaveitur, Reykjavík, 1.-2. september

Mánudaginn 1. og þriðjudaginn 2. september nk. verður haldin alþjóðleg ráðstefna um hitaveitur í Reykjavík (auk þess sem boðið verður upp á skoðunarferð sunnudaginn 31. ágúst). Nánar til tekið er um að ræða 11th International Symposium on District Heating and Cooling, sem Háskóli Íslands heldur í samstarfi við Nordic Energy Research og Samorku. Fundirnir verða haldnir á háskólatorgi HÍ. Þáttakendur verða hátt á annað hundrað og fyrirlesarar koma víðs vegar að úr heiminum. Allar nánari upplýsingar er að finna á vef ráðstefnunnar (sjá t.d. drög að dagskrá á vinstri spalta). Í tilefni af 100 ára afmæli hitaveitu á Íslandi í ár skipuleggur Samorka sérstaka dagskrá um hitaveitur og nýtingu jarðhita á Íslandi, eftir hádegi þriðjudaginn 2. september.

Gert út á gúrkuna

Grein Gústafs Adolfs Skúlasonar í 24 stundum:

Nú árið er liðið og enn kominn tími á „aðgerðabúðir“ nokkurra Íslendinga og erlendra gesta þeirra, í einhvers konar mótmælaskyni gegn uppbyggingu iðnaðar á Íslandi. Margt fólk er í sumarfríum og svokölluð gúrkutíð hjá fjölmiðlum. Athygli þeirra er því tryggð og við fáum stöðugt fréttir af aðgerðum og jafnvel aðgerðaleysi aðgerðahópsins. 

Auðvitað er allt gott um það að segja ef fólk kýs að eyða sínum frítíma í að mótmæla framkvæmdum sem því hugnast jafn illa og raun ber vitni. Sá réttur er mikilvægur hluti af okkar samfélagsskipan. Hið sama gildir hins vegar um eignarréttinn og um lög og reglu almennt. Fólk getur valið að sýna því umburðarlyndi ef aðrir tjá skoðanir sínar með því að hefta för þess eða skemma eigur þess, en væntanlega kæra sig nú fæstir um mikið af slíku. Engin atvinnustarfsemi á að þurfa að þola uppákomur sem ógna jafnvel öryggi á vinnustöðum og hafa umtalsverðan kostnað í för með sér.

Mótmæla vopnaframleiðslu í Svíþjóð
En þá að málflutningnum. Ef þetta fólk er svona mikið á móti varningi sem hægt er að nota í hergagnaiðnaði, hví fer það þá ekki til Bretlands, Svíþjóðar eða annarra landa þar sem framleidd eru vopn, og mótmælir þar? Já, ál er notað í einhver hergögn, eins og svo margt annað. Vopnasalar borða líka fisk. Er þá næsta skref að mótmæla útflutningi sjávarafurða til Svíþjóðar? Og ef ál er svona slæmt, getum við þá treyst því að þetta fólk noti ekki farsíma, ipod-tæki, flugvélar, lyf í álpakkningum og svo framvegis? Og svo eru það loftslagsmálin, þeirra vegna má samkvæmt þessu fólki ekki nýta hreinu endurnýjanlegu orkuna hérlendis!

Trúlega er það eðlilegt fréttamat að segja frá slíkum uppákomum, í gúrkutíð. Hins vegar væri það nú óskandi að fjölmiðlar létu sér kannski hver og einn nægja eins og eitt viðtal um málstað þessa fámenna aðgerðahóps að þessu sinni.

Ha, umhverfissinnar?

Grein Gústafs Adolfs Skúlasonar í Morgunblaðinu:

Hingað til lands er nánast stöðugur straumur fólks sem vill fræðast um nýtingu endurnýjanlegra orkulinda. Hvergi í heiminum er enda hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í orkunotkun jafn hátt og hér, við búum jú að gríðarlega öflugum endurnýjanlegum orkulindum í vatnsafli og jarðvarma. Þúsundir venjulegra ferðamanna heimsækja íslenskar virkjanir í hverjum mánuði en hingað streyma líka erlendir gestir frá orkufyrirtækjum, verkfræðistofum, iðnfyrirtækjum ýmiss konar, fjölmiðlum, sveitarstjórnum, ríkisstjórnum og opinberum og fjölþjóðlegum stofnunum ýmiss konar þar sem fram fer stefnumótun á sviðum orku- og umhverfismála. Starfsfólk íslensku orkufyrirtækjanna tekur vel á móti þessum gestum, sem oft eru í fylgd með forystufólki úr íslenskum stjórnmálum og stjórnsýslu. Hrifningin er iðulega afar mikil, allir virðast öfunda okkur af grænu orkunni sem ekkert land nýtur nærri jafn mikils aðgangs að. Hlýnun jarðar er jú rakin til losunar svokallaðra gróðurhúsalofttegunda en hún stafar öðru fremur af brennslu jarðefnaeldsneytis á borð við olíu og kol, sem flest ríki þurfa að brenna til að framleiða raforku.

Svo fregnar þetta fólk að sumar þessar glæsilegu virkjanir séu nokkuð umdeildar hér innanlands, hér sé haldið uppi háværri gagnrýni á nýtingu þessarar grænu orku. Nú, hvaðan kemur sú gagnrýni? Frá þeim sem tala í nafni umhverfisverndar. Ha? Hvernig þá? Umhverfisverkefni heimsbyggðar eru jú fyrst og síðast loftslagsmálin og endurnýjanleg græn orka er jú það sem heiminn vanhagar helst um í stað reykspúandi kolaorkuvera. Jú, áherslan sé á náttúruvernd, virkjanirnar séu harðlega gagnrýndar á þeim forsendum að lítt röskuðum landsvæðum sé meðal annars varið til þessarar nýtingar orkulindanna.

Dularfullt samhengi sjónarmiða
Hér skal ekki gert lítið úr þeim sjónarmiðum að sumum náttúrusvæðum beri eins og hægt er að hlýfa við hvers kyns ágangi mannsins. Hins vegar virðist sem sumt af því fólki sem talar í nafni umhverfisins vilji ekki heimila neinar virkjanaframkvæmdir neins staðar, að minnsta kosti ekki í þágu iðnaðar. Sama fólk talar síðan iðulega um loftslagsmál og gagnrýnir að hér séu reist iðjuver sem menga andrúmsloftið, þótt ljóst sé að mengunin yrði átta eða níu sinnum meiri ef notuð væri orka frá kolaorkuverum erlendis. Þetta fólk notar síðan auðvitað öll sömu tól og tæki og við hin, framleidd úr afurðum sömu iðjuveranna og það gagnrýnir. Og hverjir fá svo heiðurinn af því að reyna að útskýra þetta dularfulla samhengi sjónarmiða fyrir erlendu gestunum? Jú, oft eru það saklausir gestgjafarnir, starfsfólk íslenskra orkufyrirtækja. Og satt best að segja þá gengur það iðulega hreint ekki vel.

Raforka í samgöngum-tengiltvinnbílar

Raforka í samgöngum-tengiltvinnbílar

Á nýafstöðnum ársfundi evrópsku rafveitusamtakanna Eurelectric, var m.a. fjallað um rafvæðingu í framtíðinni og sjálfbæra raforkumarkaði. Markmið ESB í orkumálum voru fyrirferðamikil og þá einkum útblástur gróðurhúsalofttegunda, skattlagning orku sem gefur frá sér mengandi lofttegundir og viðskipti með losunarkvóta. Orka í samgöngum var töluvert fyrirferðamikil og var nokkur samhljómur í umfjölluninni þess efnis að sú þróun sem orðið hefði á ökutækjum og búnaði þeirra á seinustu árum kallaði á spurningar “hvaða og hvenær” en ekki “hvort” eitthvað kæmi í stað jarðefnaeldsneytis.

Tengiltvinnbílar – Athyglisverð skýrsla

Í pallborðsumræðum koma fram hjá fulltrúa World Wide Fund for Nature (WWF) að á þeirra vegum hafi verið gerð mjög ítarleg athugun á mögulegum orkugjöfum framtíðarinnar. Skýrslan fjallar um olíu- og orkuiðnaðinn út frá þeim möguleikum sem við höfum í dag. Skýrslan, sem heitir “Plugged In – The End of the Oil Age” fer nánast yfir alla hugsanlega og óhugsanlega möguleika til orkunotkunar í samgönum og kemst að mjög afgerandi niðurstöðu. Hún er vel og læsilega skrifuð, sett upp á einfaldan skipulagðan hátt og mjög auðveld aflestrar. Skýrsluna má nálgast með því að SMELLA HÉR

Þess má einnig geta að veitt eru verðlaun fyrir verkefni sem talin eru til ávinnings fyrir þróun raforkubúskapar framtíðarinnar og hlaut Toyota þau að þessi sinni fyrir framlag sit til tengiltvinnbílatækninnar.

 

EB.

Hjörleifur B. Kvaran nýr í stjórn Samorku, Tryggvi Þór Haraldsson nýr varaformaður

Á sérstökum auka-aðalfundi Samorku var Hjörleifur B. Kvaran, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, kjörinn nýr meðstjórnandi í stað Guðmundar Þóroddssonar sem nýlega sagði sig frá stjórnarsetu. Þá var Guðmundur Davíðsson, framkvæmdastjóri Hitaveitu Egilsstaða og Fella, kjörinn nýr varamaður í stjórn í stað Hreins Hjartarsonar sem nýlega sagði sig frá setu sem varamaður í stjórn samtakanna. Á stjórnarfundi í kjölfarið var Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri Rarik, kjörinn varaformaður en Guðmundur Þóroddsson hafði gegnt því embætti. Tryggvi gegndi áður embætti ritara stjórnar og tók Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets, við því. Júlíus Jónsson, forstjóri Hitaveitu Suðurnesja gegnir áfram embætti gjaldkera og Franz Árnason, forstjóri Norðurorku, gegnir áfram embætti formanns, en til þess embættis er kosið beint á aðalfundi. Sjá nánar um skipan stjórnar Samorku.

Tækniskólinn hefur starfsemi

Fjöltækniskóli Íslands og Iðnskólinn í Reykjavík hafa verið sameinaðir í Tækniskólann ehf. Nýtt nafn skólans er Tækniskólinn, skóli atvinnulífsins og er hann stærsti framhaldsskóli landsins. Gert er ráð fyrir að um 1.800 nemendur stundi nám í dagsskóla á haustönn. Innritun í nýja skólann hefur gengið vel og hafa fleiri umsóknir borist í skólann en samanlagt í Iðnskólann í Reykjavík og Fjöltækniskóla Íslands seinustu ár.  Tækniskólinn er einkarekinn og er rekstrarfélagið í eigu Samtaka iðnaðarins, Landssambands íslenskra útvegsmanna, Samorku, Samtaka íslenskra kaupskipaútgerða og Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík. Sjá nánar um opnunarhátíð skólans á vef Samtaka iðnaðarins.

Óttast upphrópanir og firru

„Að sjálfsögðu er það hið besta mál að halda tónleika til stuðnings náttúrunni. Ísland hefur jú mjög græna ímynd, því við erum land hreinu orkunnar,“ segir Gústaf Adolf Skúlason, aðstoðarframkvæmdastjóri Samorku, í samtali við Morgunblaðið vegna svokallaðra Náttúrutónleika. Tekur hann fram að hann óttist engu að síður að umræðan um virkjanir og náttúruvernd verði of einsleit og uppfull af upphrópunum. „Það er stundum tilhneiging til þess að velmeinandi baráttufólk fyrir umhverfismálum grípi til frasa sem ekki eigi við rök að styðjast,“ segir Gústaf og nefnir sem dæmi um slíkar upphrópanir þá firru að bráðum verði búið að virkja allt Ísland, að raforka til stóriðju sé niðurgreidd og að álfyrirtæki séu hergagnaframleiðendur.