Niðurgreidd raforka til garðyrkjubænda

Grein Gústafs Adolfs Skúlasonar, aðstoðarframkvæmdastjóra Samorku, í Morgunblaðinu:

Í Kastljósi Ríkissjónvarpsins á miðvikudag kom enn og aftur fram sú skoðun að rétt væri að garðyrkjubændur fengju raforku á sama verði og stóriðjufyrirtæki greiða. Þetta hljómar eflaust vel, öll viljum við hag garðyrkjunnar sem mestan. Hins vegar eru garðyrkjubændur í þeirri stöðu að fá nú þegar verulegar niðurgreiðslur úr ríkissjóði á raforku til lýsingar, samkvæmt samningi við landbúnaðarráðuneytið. Aðrar niðurgreiðslur úr ríkissjóði vegna raforkunotkunar snúa annars vegar að húshitun þar sem ekki er aðgangur að hitaveitu, og hins vegar að kostnaði við dreifingu á raforku á tilteknum svæðum. Engar aðrar atvinnugreinar njóta ríkisstuðnings við raforkukaup líkt og garðyrkjubændur. Tillaga um að garðyrkjubændur njóti sama raforkuverðs og stóriðja er því í raun tillaga um frekari niðurgreiðslur frá hinu opinbera við þessa tilteknu atvinnugrein.

Garðyrkjubændur eru góðir viðskiptavinir raforkufyrirtækja og auðvitað myndu þeir gjarnan vilja fá enn lægri verð. Öll myndum við gjarnan vilja fá lægri verð í okkar innkaupum. Garðyrkjubændur hér á landi greiða raunar miklum mun lægra raforkuverð en keppinautar þeirra í nágrannalöndunum gera, og þarf ekki fyrrnefndar niðurgreiðslur til. Hins vegar eru engar viðskiptalegar forsendur fyrir því að bera saman raforkuverð til garðyrkjubænda annars vegar og til stóriðju hins vegar.

Stöðug raforkukaup stóriðju
Sæmilega stór garðyrkubóndi kaupir ekki einn þúsundasta hluta af þeirri raforku sem meðalstórt álver kaupir. Þá kaupir stóriðjan raforkuna í 24 klukkustundir á sólarhring og 365 daga á ári, alls 8.760 klukkustundir á ári, skuldbundið til margra ára og jafnvel til áratuga. Garðyrkjubændur undirgangast engar slíkar skuldbindingar. Þeir nota gjarnan raforku til lýsingar í um 5.500 klukkustundir á ári. Raforku þarf að nota jafnóðum og hún er framleidd, en rekstur virkjananna er ekki mjög kostnaðarsamur hér á landi (ólíkt því sem er víða erlendis, þar sem kolum eða olíu er brennt til að framleiða raforku). Þess vegna eru mikil verðmæti í þessum stóru sölusamningum við stóriðjufyrirtækin. Ennfremur ber að nefna að dreifingin er jafnan um þriðjungur af raforkuverði til fyrirtækja og heimila. Stóriðjan tekur hins vegar við orkunni beint af flutningskerfinu og greiðir því sjálf dreifingarkostnaðinn.

Loks skal minnt á að það hér að þótt leynd hvíli yfir sjálfu raforkuverðinu til stóriðjufyrirtækjanna, þá gildir sú leynd um ýmis fleiri fyrirtæki og stofnanir hér á landi sem leitað hafa tilboða og gert samninga um sín raforkukaup. Slík leynd er algenga reglan um innihald viðskiptasamninga, líka hjá öðrum fyrirtækjum í opinberri eigu. Arðsemi þessarar raforkusölu til stóriðju er hins vegar góð, og þær upplýsingar skipta eigendur orkufyrirtækjanna mestu.

Olíukyndingar saknað?

Grein Gústafs Adolfs Skúlasonar, aðstoðarframkvæmdastjóra Samorku, í Morgunblaðinu:

Þórólfur Matthíasson hagfræðiprófessor gagnrýnir í Morgunblaðsgrein það sem hann kallar „offjárfestingu í hitaveitum og skyldum rekstri,“ sem og fleiri viðbrögð Íslendinga við olíukreppum áttunda áratugarins. Raunar gagnrýnir prófessorinn æði margt í til þess að gera stuttri grein og er ekki ætlunin að ræða öll þau atriði hér. Áratugum saman hefur hitaveituvæðingin sparað Íslendingum tugi milljarða króna á ári hverju sem ella hefðu getað farið í innflutning á olíu til húshitunar. Vissulega myndum við líklega fremur notast við rafkyndingu að mestu í stað olíu í dag, en sú lausn er mun dýrari en jarðhitaveitan og þá væri jafnframt minna framboð af raforku til annarra nota sem því næmi, til dæmis í iðnaði. Engu að síður er áhugavert að setja kostnaðardæmið upp sem olíu annars vegar og jarðhitaveitu hins vegar. Þetta dæmi var reiknað í sumar sem leið og niðurstaðan varð sú að mismunurinn næmi 417 milljónum evra á ári hverju, eða 54 milljörðum króna. Síðan þá hefur olían raunar lækkað talsvert í verði en krónan líka og spurning hvort hægt sé að velja raunhæft gengi til slíkra útreikninga í dag.

Hér er ekki ætlunin að fara út í ítarlegar vangaveltur um fjárfestingarstefnu og verðtryggingu á áttunda áratug síðustu aldar. Það hitaveituátak sem ráðist var í má hugsanlega gagnrýna út frá einhverjum hagfræðilegum nálgunum, þar sem væntanlega er þá horft til arðsemi á eitt hundrað mánaða tímabili eða svo. Ráðist var í þetta átak víða um land og með mismiklum stuðningi stjórnvalda. Olíukreppan skall hér á í kjölfar þeirra erfiðleika sem Vestmannaeyjagosið hafði í för með sér. Að sjálfsögðu lágu engar upplýsingar fyrir um hvernig olíuverð myndi þróast í framtíðinni. Niðurstaðan er hins vegar sú að í dag státum við af einhverju hagkvæmasta og mengunarsnauðasta orkukerfi sem um getur í víðri veröld og draga verður í efa að landsmenn sakni olíukyndingarinnar, sem enn var til dæmis við lýði í stórum hluta Vesturbæjar Reykjavíkur í byrjun áttunda áratugar síðustu aldar.

„Brýnt að nýta tímann vel til að undirbúa framkvæmdir“

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Gústaf Adolf Skúlason, aðstoðarframkvæmdastjóri Samorku, að mikilvægt sé að nýta þetta óvissuástand sem nú ríki vel til að undirbúa framkvæmdir. Margir horfi nú til framkvæmda við virkjanir og stóriðju og nokkur slík verkefni séu þegar í undirbúningi. Gústaf fjallar í viðtalinu um mikilvægi þess að stofnanir og sveitarfélög vinni með fyrirtækjunum að undirbúningi slíkra verkefna, en tekur fram að orkufyrirtækin séu ekki að biðja um neina afslætti af gildandi lögum og reglum á sviði umhverfismála. Hins vegar segir hann lagaumgjörð slíkra framkvæmda mjög flókna og að mikilvægt sé að einfalda hana, þótt það sé ekki verkefnið nú til skemmri tíma litið.

Viðtal Viðskiptablaðsins við Gústaf Adolf Skúlason, aðstoðarframkvæmdastjóra Samorku:

„Þessa dagana fer mestöll orka íslensks atvinnulífs og stjórnvalda í eins konar slökkvistarf þar sem reynt er að bregðast við fjármálakreppunni, slökkva elda, halda viðskiptum við útlönd í sem eðlilegustum farvegi og bjarga verðmætum. Á sama tíma er hins vegar hafin umræða um það uppbyggingarstarf sem fram undan er í íslensku atvinnulífi og þar horfa margir til nýtingar á okkar ríku endurnýjanlegu orkuauðlindum. Jafnvel er talað um að hraða verði framkvæmdum við virkjanir og stóriðju,“ sagði Gústaf Adolf Skúlason, aðstoðarframkvæmdastjóri Samorku, í samtali við Viðskiptablaðið en hann telur að stofnanir ríkisins verði að breyta vinnubrögðum sínum og hætta að afgreiða mál eins og ekkert liggi á. Hann tekur þó fram að ekki sé  verið að biðja um neinn afslátt nú á gildandi lögum og reglum, einungis að framkvæmd regluumhverfisins sé skilvirk og að unnið sé með atvinnulífinu.

„Ljóst er að möguleikar okkar á orkusviðinu eru mjög miklir og sjaldan ef nokkurn tíma hefur verið jafn mikil þörf á erlendri fjárfestingu í íslensku atvinnulífi. Fjöldi verkefna er þegar kominn talsvert áleiðis í undirbúningi sem kunnugt er, verkefni sem geta verið forsenda fyrir erlendri fjárfestingu upp á hundruð milljarða króna í íslensku atvinnulífi og auknum útflutningstekjum í kjölfar uppbyggingarinnar. Sagan sýnir að erlend  fjárfesting hefur að langstærstum hluta einskorðast við orkufrekan iðnað. Tölur nokkurra síðustu ára sýna reyndar meiri erlenda fjárfestingu hér tengda fjármálafyrirtækjum en stóriðju, en þar er mikið til um að ræða fjárfestingar tengdar eignarhaldsfélögum í íslenskri eigu, skráðum erlendis, sem því miður eru afar misjafnlega stödd í dag.“

Gústaf benti á að nýleg dæmi væru um stórar lántökur íslenskra orkufyrirtækja erlendis á mjög góðum kjörum. “Þó má gera ráð fyrir að erfitt gæti orðið að fjármagna stórar framkvæmdir á viðunandi kjörum allra næstu vikur, á meðan rykið er að setjast á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og staðan hér að skýrast. Hins vegar er brýnt að nýta þennan tíma vel til að undirbúa framkvæmdir, ganga frá leyfisveitingum, skipulagsmálum og þess háttar.”

Flókið lagaumhverfi
Að sögn Gústafs getur undirbúningur að byggingu virkjana og flutningsvirkja fyrir raforku tekið mjög langan tíma. Regluumhverfið er enda afar flókið og oft gengur afgreiðsla hægt innan þess flókna ramma. „Sem dæmi um þetta flókna umhverfi má nefna að Hellisheiðarvirkjun var yfir tuttugu sinnum á borði Umhverfisstofnunar, í einu eða öðru samhengi, á undirbúnings- og framkvæmdatíma. Orkufyrirtækin hafa ekki verið að biðja um neinn afslátt af sjálfsögðum kröfum um tillit til umhverfisins og ein ástæða þess langa tíma sem getur tekið að undirbúa virkjanaframkvæmdir er einmitt þær ráðstafanir sem oft er verið að grípa til á frumstigum vegna umhverfismála. Hins vegar teljum við að það hljóti að vera svigrúm til að einfalda eitthvað þetta ferli og stytta umsagnarfresti. Það getur hreinlega ekki verið nauðsynlegt að ein framkvæmd, þótt hún sé stór, þurfi að vera yfir tuttugu sinnum á borði einnar og sömu stofnunarinnar.“

Gústaf sagði að einföldun á regluverkinu væri þess vegna mjög mikilvægt verkefni, en til skemmri tíma er mikilvægast að sveitarfélög og stofnanir ríkisins vinni með atvinnulífinu í þessum efnum. „Fyrirtækin upplifa það oft svo að sumar stofnanir taki afar langan tíma í afgreiðslu mála, algerlega að nauðsynjalausu. Erindum er jafnvel ekki svarað. Allar tafir af slíkum sökum geta kostað mikla peninga. Þá getur það skipt miklu máli og sparað bæði fé og fyrirhöfn ef sveitarfélög sýna sveigjanleika og samstarfsvilja á þessu sviði. Verkefnið fram undan er þess vegna að hraða undirbúningi framkvæmda og þar skiptir miklu máli að stofnanir ríkis og sveitarfélög vinni með fyrirtækjunum.“

ESB: Kjarnorkan inn úr kuldanum

Forgangsröðunin breytist hratt á tímum alþjóðlegrar fjármálakreppu, segir formaður umhverfisnefndar Evrópuþingsins. Hann segir erfiðara en áður að leggja áherslu á kostnaðarsamar aðgerðir á sviði loftslagsmála, svo dæmi sé tekið. Forseti framkvæmdastjórnar ESB tekur undir, en varar þó við þessari umræðu, þar sem loftslagsmálin geti orðið margfalt kostnaðarsamara viðfangsefni en núverandi fjármálakreppa. Enginn vilji sé þó fyrir því að setja einhliða svo stífar reglur að ESB flytji út losun gróðurhúsalofttegunda en flytji inn atvinnuleysi. Hann segir ljóst að kjarnorkan geti gegnt mikilvægu hlutverki í viðleitni ESB til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, en talsmenn kjarnorkuiðnaðarins hafa lengi kvartað undan því að þeirra hlutur njóti ekki sannmælis í umræðum um orku- og loftslagsmál á vettvangi ESB.

Fjallað var um leiðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í evrópskum orkuiðnaði, á ráðstefnu Businesseurope, Eurelectric og Foratom í Brussel á dögunum. Framkvæmdastjórn ESB hefur sett sér metnaðarfull markmið á sviðum orku- og loftslagsmála, m.a. um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda (um 20% fyrir árið 2020) og um aukinn hlut endurnýjanlegra orkugjafa í orkunotkun ESB. Er markið sett á 20% hlut þeirra árið 2020 [þetta hlutfall er 80% á Íslandi í dag, enda Ísland óvenju auðugt af endurnýjanlegum orkulindum]. Tillögurnar eru nú til meðferðar í Evrópuþinginu og tvísýnt um framvindu þeirra, en um 1.200 breytingartillögur hafa þar verið lagðar fram við frumvarpið. Óhætt er að segja að alþjóðlega fjármálakreppan hafi sett svip sinn á umræður á fyrrnefndri ráðstefnu. Sama má segja um kjarnorkuna.

Talsmenn kjarnorkuiðnaðarins innan ESB hafa lengi kvartað yfir því að kjarnorkan njóti ekki sannmælis í umfjöllun og stefnumótun sambandsins í orku- og loftslagsmálum. Um 30% af þeirri raforku sem notuð er innan ESB er framleidd í kjarnorkuverum. Fram kom á ráðstefnunni að ein leið til að ná markmiðinu um 20% minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda væri einfaldlega sú að auka raforkuframleiðslu í kjarnorkuverum um 50%. Umræðan snerist hins vegar nær alfarið um mun dýrari lausnir á sviðum endurnýjanlegra orkugjafa, en innan ESB er ekki síst horft til tækifæra á sviði vindorku (á umræddri ráðstefnu bar vatnsafl t.d. á góma í 2-3 af um 25 erindum, jarðvarma í tveimur).

Flytja út losun og flytja inn atvinnuleysi?
Miroslav Ouzký, formaður umhverfisnefndar Evrópuþingsins, sagði í erindi sínu að forgangsröðunin breyttist hratt á tímum alþjóðlegrar fjármálakreppu. Stjórnmálamenn legðu nú áherslu á að vernda störf, ekki á umhverfis- og loftslagsmál, a.m.k. ekki þeir sem vildu ná endurkjöri. Gert-Jan Koopman, forstöðumaður á efnahagsmálaskrifstofu framkvæmdastjórnar ESB, benti á að tvennt hefði breyst frá því að metnaðarfullar tillögur framkvæmdastjórnarinnar voru kynntar. Gríðarleg hækkun hefði orðið á orkuverði og mikil áföll átt sér stað á sviði efnahagsmála. Útfærslan væri vissulega öll til skoðunar og ekki vænlegt að ESB setti svo strangar reglur að iðnfyrirtæki veldu sér einfaldlega önnur lönd fyrir sína starfsemi. Ekki væri því áhugi fyrir að flytja út losun gróðurhúsalofttegunda en flytja inn atvinnuleysi í staðinn. José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, tók undir þau orð í lokaávarpi ráðstefnunnar. Hins vegar værum við í dag mikið að tala um fjármálakreppu til skamms tíma, en loftslagsvandinn væri til langs tíma. Ef því væri frestað um of að takast á við hann yrði hann á endanum margfalt kostnaðarsamari en nokkur fjármálakreppa. Barroso sagði ljóst að kjarnorka væri orkugjafi sem ekki fæli í sér losun gróðurhúsalofttegunda og sem væri samkeppnishæfur í verði. Því yrði að halda þeim valkosti opnum, þ.e. kjarnorkunni, fyrir þau aðildarríki sem vildu fara þá leið.

Nordic Climate Solutions – ráðstefna og sölusýning í Kaupmannahöfn 25-26. nóvember

Dagana 25. og 26. nóvember stendur norræna ráðherranefndin fyrir ráðstefnu og sölusýningu þar sem fjallað verður um markaðslausnir vegna hlýnunar loftslags. Kynntar verða lausnir í orkumálum, fjallað um áhrif á stjórnun, fjallað um ólíka markaði o.s.frv., en þátttakendur koma víðs vegar að úr heiminum. Samorka er í hópi fjölda samstarfsaðila ráðstefnunnar og geta félagsmenn Samorku nálgast boðsmiða á skrifstofu samtakanna (tala við Þórhildi, ath., mjög takmarkað upplag) og þannig fengið fellt niður ráðstefnugjaldið sem nemur 450 evrum.

Sjá nánar um Nordic Climate Solutions hér á vef ráðstefnunnar.

Af „þekkingargreinum“ í atvinnulífi

Grein Gústafs Adolfs Skúlasonar í Viðskiptablaðinu:

Því er iðulega fleygt í opinberri umræðu um atvinnumál að leggja beri áherslu á „þekkingargreinar“. Einhverra hluta vegna eru alltaf sömu fyrirtækin nefnd til sögunnar hér á landi sem þekkingarfyrirtæki, glæsileg iðnfyrirtæki með öflugt rannsóknar- og þróunarstarf. Þó sér hver maður að margs konar rekstur krefst mikillar þekkingar. Til dæmis ef sjá á erlendum viðskiptavinum fyrir ákveðnu magni af tiltekinni fisktegund af tilteknum gæðum í hverri viku árið um kring. Sama gildir um þróun og framleiðslu á nýrri sælgætistegund sem síðan rokselst, rekstur á flugfélagi, banka o.s.frv.

Allar greinar eru „þekkingargreinar“
Allar atvinnugreinar eru þekkingargreinar í einhverjum skilningi. Vissulega er meiri fjármunum varið í rannsóknir og þróun í sumum greinum eða að minnsta kosti í sumum fyrirtækjum en í öðrum. Og vissulega er menntunarstig hærra í sumum fyrirtækjum en víða annar staðar, þegar horft er til formlegrar menntunar. En alls staðar er samt byggt á uppsafnaðri þekkingu og ástæðulaust að nota þetta hugtak yfir fáar útvaldar greinar í almennri umræðu um atvinnumál.

Hver greinin öðrum háð
Annað vandamál við að draga fyrirtæki og jafnvel atvinnugreinar í dilka er að þær eru hver annarri háðar. Þannig þarf togaraútgerð t.d. væntanlega að eiga viðskipti við matvöruverslun, rafverktaka, viðskiptabanka, kerfisstjóra, veitingaþjónustu, símafyrirtæki, bifreiðarstjóra, flugfélög, ritfangaverslun o.s.frv. Vandséð er að velja megi eina grein úr þessari mynd og úrskurða að hún sé öðrum greinum mikilvægari.

Innan orkugeirans var um tíma mikil þreyta með umfjöllun sem gerði lítið úr þeirri þekkingu sem þar er að finna, þar sem orkufyrirtækjum var iðulega stillt upp andspænis svonefndum þekkingarfyrirtækjum. Þessi umræða hefur breyst nokkuð eftir að betur kom fram hvernig íslensk orkufyrirtæki hafa upp á að bjóða þekkingu á nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa sem eftirspurn er eftir um víða veröld. Til að bregðast við þessari umræðu tók Samorka þó saman að árið 2006 voru til dæmis fimm hundruð ársverk verk- og tæknifræðinga innt af hendi innan greinarinnar hér á landi, hátt á þriðja hundrað af fólki með aðra háskólamenntun og tæp fimm hundruð ársverk fólks með iðnmenntun. Jafnframt var hins vegar athygli vakin á því að svonefndir „ófaglærðir“ innan greinarinnar eru iðulega með mikla þjálfun að baki og óvenju háan starfsaldur. Þar er að sjálfsögðu til staðar verðmæt þekking og reynsla. Og auðvitað eru öll önnur fyrirtæki háð þjónustu orkufyrirtækja, eins og þau eru sjálf háð þjónustu svo margra annarra fyrirtækja úr öðrum greinum.

Ekkert fyrirtæki getur sem sagt þrifist án annarra fyrirtækja úr öðrum atvinnugreinum. En má ekki samt velja einhverjar greinar og setja markið á að efla þær? Maður hittir varla svo nýútskrifaða viðskiptafræðinga úr tilteknum háskóla hér á landi að þeir haldi ekki yfir manni ræðu um að Íslendingar verði að feta í fótspor Finna og Íra, veðja á nýsköpun, menntun og „þekkingargreinar“. Nú er kannski skiljanlegt að háskólaprófessorar vilji draga fram mikilvægi formlegrar menntunar og ekki skal hér lítið gert úr því.

Eigum „við“ að velja greinar?
En er það hlutverk stjórnvalda að velja og hafna við hvaða löglegu iðju fólk starfar? Í hverju fyrirtækin fjárfesta? Ef viðurkennt erlent fyrirtæki bankar hér upp á með marga tugi milljarða króna sem það vill fjárfesta fyrir í íslensku atvinnulífi, er einhver sérstök ástæða til annars en að taka vel á móti þessu fyrirtæki, kynna því okkar lög og reglur (til dæmis um umhverfismál) og óska því velgengni í að fóta sig hér? Iðulega heyrist sagt að „við“ eigum að setja áhersluna á annars konar störf, aðrar greinar. En mega þau fyrirtæki ekki bara koma líka? Hver erum þessi „við“ sem oft er rætt um í slíku samhengi?

Auðvitað á að halda hér úti öflugu menntakerfi og auðvitað á að skapa fyrirtækjum samkeppnishæft rekstar- og nýsköpunarumhverfi. En til lengri tíma getur enginn opinber aðili spáð fyrir um hvar tækifærin verði helst í framtíðinni. Það eina sem við vitum er að öll munu fyrirtækin þurfa á viðskiptum við önnur fyrirtæki úr ólíkum greinum að halda, vegna þeirrar þjónustu sem þau hafa þekkingu til að veita.

Hvernig á að lesa efnagreiningar á neysluvatni

Leiðbeiningar um hvernig eigi að lesa út úr efnagreiningum er komnar á vefsíðu Samorku og er hluti af Vatnsveituhandbók. Í  neysluvatnsreglugerð nr. 536/2001 er krafa um efnagreiningu á nær fimmtíu eftirlitsþáttum.   Nokkuð flókið er fyrir leikmann að lesa út úr því en leiðbeiningunum er ætlað að aðstoða vatnsveitufólk við það. Gefin er stutt lýsing á hverjum eftirlitsþætti, uppruna hans í neysluvatni og áhrif á heilsufar og bragðgæði.

 Smella hér

Heita silfrið – Hitaveita á Íslandi í 100 ár

Samorka hefur gefið út blað í tilefni af 100 ára afmæli hitaveitu á Íslandi. Heita silfrið heitir blaðið og er því dreift með Morgunblaðinu í dag, 25. september. Í blaðinu er fjallað um sögu hitaveitu á Íslandi, rætt við fjölda fólks um þau auknu lífsgæði sem hitaveitunni fylgja, fjallað um sögu jarðhitanýtingar á Íslandi, þróun þekkingar á þessu sviði, ungbarnasund, ferðaþjónustu, jarðhitaleit og margt fleira. Umsjón, textagerð og umbrot voru í höndum Athygli ehf. Ávarp Franz Árnasonar, formanns Samorku og forstjóra Norðurorku, fer hér á eftir.

Blaðið má nálgast hér á pdf-formi (7,6 mb).

 

 

Ávarp Franz Árnasonar, formanns Samorku:

Bætt heilsufar og almenn lífsgæði

Flest getum við Íslendingar nú á dögum flokkað það sem sjálfsögð lífsgæði að geta hitað hýbýli okkar með ódýru heitu vatni, sótt heitar sundlaugar allt árið um kring, brætt snjó í gangstéttum og götum og andað um leið að okkur hreinu og heilnæmu lofti. Að baki þessum þægindum liggur hins vegar eitt hundrað ára saga hugvits, frumkvæðis og framkvæmdaþreks, varðandi nýtingu jarðhita sem við njótum ávaxtanna af í öllu okkar daglega lífi.

Saga jarðhitanýtingar á Íslandi er trúlega um það bil jafn löng og saga byggðar í landinu. Í sögulegum heimildum má finna fjölda dæma um nýtingu jarðhita til þvotta, baða, eldamennsku, iðnaðar og heilsueflingar. Mynjar benda  til að Snorri Sturluson hafi á sínum tíma leitt heitt vatn í hús, líklega þó aðallega til þvotta. Elsta þekkta dæmið um nýtingu jarðhita til húshitunar á Íslandi er hins vegar að finna í Mosfellsbæ, nánar til tekið á bænum Syðri-Reykjum. Árið 1908 virkjaði Stefán B. Jónsson á Syðri-Reykjum hver til húshitunar og lagði „nútíma“ hitakerfi í íbúðarhús sitt. Í tilefni þessa ákvað Samorka að halda upp á 100 ára afmæli hitaveitu á Íslandi nú í ár.

Hlýrri hýbýli, hreinna loft, útivist…
Samorka vill á þessum tímamótum einkum beina sjónum fólks að því mikilvæga hlutverki sem heita vatnið hefur gegnt í því skyni að bæta heilsufar og almenn lífsgæði Íslendinga. Er þar meðal annars horft til betri hitunar hýbýla, heilnæmara andrúmslofts og aukinna tækifæra til útivistar og hreyfingar tengdum sundlaugamenningu. Fyrir fáum áratugum gegndi olía stóru hlutverki í húshitun á Íslandi, og kol ef horft er lengra aftur á síðustu öld. Fyrir utan minni mengun getum við jafnframt glaðst yfir því að undanfarna áratugi hefur hitaveitan sparað Íslendingum tugi milljarða króna á ári hverju, sem ella hefðu farið í innflutning á olíu. Í dag væri líkast til notast við raforku í auknum mæli í stað olíu ef ekki nyti við hitaveitunnar. Til þess þyrfti að virkja ár og háhitasvæði sem er mun dýrara en virkjun lághita fyrir hitaveitu. Þetta mundi jafnframt draga úr öðrum möguleikum til raforkunýtingar enda jafngildir sú orka sem nýtt er hjá hitaveitum í dag  600 MW að meðaltali  og á álagstímum að vetralagi allt að 1000MW eða fast að tveimur Kárahnúkavirkjunum. Hitaveitan hefur því ekki eingöngu haft í för með sér bætt lífsgæði, heldur jafnframt séð þjóðinni fyrir ódýrri húshitun, sparað gríðarlegar fjárhæðir í erlendum gjaldeyri og verið vettvangur þekkingaruppbyggingar sem nú er forsenda útrásarverkefna víða um heim.

Aldarafmælis minnst
Samorka minnist 100 ára afmælisins með ýmsu móti á þessu ári. Má þar nefna gerð heimildamyndar fyrir sjónvarp, uppsetningu útilistaverks í samstarfi við bæjarstjórn Mosfellsbæjar, samantekt Háskólans á Akureyri um heilsufarsáhrif heitavatnsnotkunar á Íslandi, fjölþjóðlega ráðstefnu í samstarfi við Háskóla Íslands og Nordic Energy Research, að ógleymdri útgáfu þessa blaðs. Þá gaf Íslandspóstur út frímerki í tilefni 100 ára afmælisins í maí síðastliðnum. Einstakar hitaveitur hafa einnig minnst þessara tímamóta með ýmsum hætti.

Á 100 ára afmælinu minnum við á þau lífsgæði sem hitaveitunum fylgja, horfum með þakklæti aftur til frumkvöðla hitaveituvæðingar og veltum fyrir okkur framtíðaráskorunum á borð við hitaveituvæðingu á svokölluðum köldum svæðum.

Franz Árnason

Samorka og úrskurður umhverfisráðherra

Grein Gústafs Adolfs Skúlasonar í Morgunblaðinu:

Umhverfisráðherra fjallar í Morgunblaðsgrein um ályktun stjórnar Samorku vegna úrskurðar ráðherrans um sameiginlegt umhverfismat vegna virkjana, háspennulína og álvers á Norðausturlandi. Í ályktuninni er meðal annars vakin athygli á að úrskurðurinn geti haft í för með sér að minnsta kosti eins árs tafir á framkvæmdum og valdið orkufyrirtækjum og viðkomandi sveitarfélögum aukakostnaði sem nemi hundruðum milljóna króna. Skorað er á stjórnvöld að endurskoða ákvörðun sína, enda úrskurðurinn afar íþyngjandi. Úrskurður ráðherra byggir á heimildarákvæði í lögum, ekki skýrum lagafyrirmælum.

Umhverfisráðherra segir tvennt undra sig í ályktun Samorku. Annars vegar að samtökin „skuli ekki styðja þá ákvörðun stjórnvalda að gera það sem í þeirra valdi stendur til að tryggja lágmörkun umhverfisáhrifa framkvæmda vegna álvers á Bakka.“ Samorka gerir að sjálfsögðu engar athugasemdir við að reynt sé að lágmarka umhverfisáhrif af byggingu álvers á Bakka. Samorka gerir hins vegar athugasemdir við að orkufyrirtækin fái ekki að framfylgja þeirri yfirlýstu stefnu sinni að rannsaka og undirbúa virkjanir og háspennulínur óháð því hver kemur á endanum til með að kaupa orkuna. Engan veginn er sjálfgefið að tengja fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir á Norðausturlandi við áætlanir um byggingu álvers á Bakka. Þá aðskilja tugir kílómetra umrædd framkvæmdasvæði. Athygli vekur hins vegar að framkvæmdir sem beinlínis tengjast fyrirhuguðu álveri á Bakka, til dæmis hafnarframkvæmdir, eru ekki hluti af þessum úrskurði um sameiginlegt matsferli. Hafa verður í huga að rannsóknir og undirbúningur vegna virkjanaframkvæmda og orkuflutnings taka miklum mun lengri tíma en undirbúningur og bygging til dæmis verksmiðju eða netþjónabús.

Yfirlýsingu fagnað
Hitt sem undrar ráðherrann er að Samorka skuli álykta með þessum hætti „þegar fulltrúar þeirra í samráðsferlinu vissu fullvel að lausn var í sjónmáli sem tryggir allt í senn, hagsmuni náttúrunnar, hagsmuni almennings og hagsmuni fyrirtækjanna sem í hlut eiga.“ Nú ber sannarlega að fagna því ef slík lausn er í sjónmáli. Þegar stjórn Samorku samþykkti sína ályktun höfðu viðræður farið fram en þær höfðu ekki skilað ásættanlegri niðurstöðu. Þegar þetta er ritað eru umrædd fyrirtæki enn ekki sannfærð um að búið sé að finna ásættanlega niðurstöðu. Sem fyrr segir þá fagnar Samorka hins vegar öllum yfirlýsingum ráðherra um lausn á þessu máli, enda miklir hagsmunir í húfi.

Ráðstefna um orkugjafa framtíðar í samgöngum, 18.-19. september á Hilton Nordica

Dagana 18. og 19. september heldur Framtíðarorka ráðstefnuna Driving Sustainability öðru sinni í Reykjavík, á Hilton Hótel Nordica. Á ráðstefnunni munu m.a. fulltrúar bílaframleiðendanna Toyota, Ford og Mitsubishi veita innsýn í tæknilausnir sem miða að sjálfbærum samgöngum og standa munu neytendum til boða á næstu árum. Stærstu orkufyrirtæki Norðurlanda, Vattenfall í Svíþjóð og Dong Energy í Danmörku, munu skýra ráðstefnugestum frá áætlunum sínum um rafmagnsvæðingu í samgöngum. Sjá nánar á vef ráðstefnunnar.