Aðild að ESB: Lítil áhrif á yfirráðarétt og nýtingu orkuauðlinda

Ekki er hægt að halda fram að hugsanleg full aðild Íslands að ESB myndi hafa veruleg áhrif á stöðu okkar og möguleika varðandi yfirráðarétt og nýtingu jarðrænna auðlinda. Þetta er niðurstaða Guðna A. Jóhannessonar orkumálastjóra, sem flutti erindi á aðalfundi Samorku um íslenskar orkulindir og ESB. Guðni sagði þó jafnframt að hugsanlegar viðræður þyrftu að byggja á nákvæmri greiningu á þeirri aðlögun að reglum ESB sem þegar hefur verið samið um og þeim reglum sem eftir er að semja um. Allar helstu lagagerðir ESB á sviði orkumála hefðu þó þegar verið teknar upp í EES-samninginn og innleiddar á Íslandi, sumar þeirra með sérstökum aðlögunum vegna sérstöðu Íslands. Við inngöngu í ESB þyrfti að tryggja í aðildarsamningi að þær aðlaganir giltu áfram, þar sem þær ættu enn við. Fyrirkomulag eignarhalds náttúruauðlinda væri hins vegar ekki viðfangsefni ESB, heldur alfarið á hendi aðildarríkjanna.

Kostir, gallar, tækifæri og ógnanir
Guðni sagði bæði kosti og galla, ógnanir og tækifæri fólgin í hugsanlegri aðild að ESB, fyrir íslenska orkugeirann. Þannig myndi aðild t.d. hafa í för með sér aukna skriffinsku og dýrari stjórnsýslu og samskipti. Eins gætu t.d. ýmsar tilskipanir haft hér áhrif í framtíðinni, t.d. um skattlagningu á orku og um söfnun olíubirgða. Á hinn bóginn væru jafnframt kostir og tækifæri fólgin í aðild að ESB. Þannig gæti aðild t.d. skapað íslenskum orkufyrirtækjum greiðari aðgang að ýmsum verkefnum sem tengdust umhverfisstefnu ESB og áherslunni á endurnýjanlegar orkulindir sem við erum svo rík af. Aðildinni fylgdu einnig m.a. aukin tækifæri til áhrifa á stefnumótun sambandsins og þá væru tækifæri t.d. fólgin í aukinni nýtingu jarðhita í sumum aðildarríkjum ESB og í bættum aðgangi að rannsóknarsamstarfi og loftslagstengdum verkefnum.

Loks kom fram hjá Guðna að á annan tug erlendra fyrirtækja hafa nú þegar óskað upplýsinga vegna hugsanlegrar olíuvinnslu á Drekasvæðinu.

Sjá erindi (glærur) Guðna A. Jóhannessonar.

 

 

 

„Niðurgreiðsluhali“ nýrra hitaveitna að fullu uppgreiddur

Kristján Skarphéðinsson, ráðuneytisstjóri iðnaðarráðuneytis, flutti aðalfundi Samorku ávarp Össurar Skarphéðinssonar utanríkis- og iðnaðarráðherra (sem forfallaðist vegna veikinda). Í ávarpi ráðherra kom m.a. fram að gert er ráð fyrir að nefnd um endurskoðun raforkulaga muni ljúka störfum í haust. Þá kom fram að sá dráttur sem hafði orðið á niðurgreiðslum til nýrra hitaveitna, nefndur „hali“, sem aðalfundur Samorku ályktaði m.a. vegna á aðalfundi 2008, væri nú að fullu uppgreiddur.

Í ávarpi ráðherra var ennfremur fjallað um ýmsar viðræður sem um þessar mundir eiga sér stað um hugsanlega uppbyggingu á orkufrekum iðnaði hérlendis, um samstarf við Mitsubishi um þróun rafmagnsbíla, nýja alþjóðlega stofnun um endurnýjanlega orku, samstarf við vísindastofnanir í Bandaríkjunum um rannsóknir á nýtingu háhita, og um þá framtíðarsýn að Ísland verði sjálfbært orkuríki í krafti bættrar tækni til nýtingar endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum.

Loks kom fram að iðnaðarráðherra hefur ákveðið að styðja við umsókn Jarðhitafélags Íslands um að hýsa World Geothermal Congress á Íslandi árið 2015. Þingið er haldið á fimm ára fresti og ef af verður munu um 2.000 jarðhitasérfræðingar víða að úr heiminum þinga á Íslandi.

Ályktun aðalfundar Samorku: raunlækkun orkuverðs til fjölda ára

Ályktun aðalfundar Samorku, 20. febrúar 2009:

Raunlækkun orkuverðs til fjölda ára

Árum saman hefur verð á bæði heitu vatni og raforku farið lækkandi um land allt, að teknu tilliti til verðlagsþróunar almennt, ef frá eru skilin áhrif kerfisbreytinga sem raforkulög frá árinu 2003 höfðu í för með sér. Verð á raforku til almennra notenda er lægra hérlendis en í helstu samanburðarlöndum og hefur lengi verið. Þetta er ekki sjálfsögð niðurstaða í svo dreifbýlu landi og erfiðu yfirferðar. Sömu sögu má segja um verðlagningu á heitu vatni, sem hefur árum saman farið lækkandi, að teknu tilliti til verðlagsþróunar almennt, enda er húshitunarkostnaður mun lægri hér en í nágrannalöndunum.

Á tímum samdráttar í efnahagslífinu munu íslensk orku- og veitufyrirtæki standa vörð um öfluga grunnþjónustu í samfélaginu, þjónustu á borð við rafmagn, heitt og kalt vatn, og fráveitu. Samorka leggur hins vegar áherslu á að í sumum tilfellum gerir lagaramminn nánast kröfu um taprekstur af veitustarfsemi. Á þetta við um tekjumörk dreifingar og flutnings raforku, sem líkt hefur verið við lögbundinn taprekstur. Nú stendur yfir endurskoðun raforkulaga. Brýnt er að sú vinna skili niðurstöðu um rýmkun tekjumarka dreifingar- og flutningsfyrirtækja, til að koma í veg fyrir áframhaldandi taprekstur á reikning eigendanna.

Orka án losunar
Íslendingar búa að miklum auðlindum á orkusviði og er hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í orkunotkun hvergi hærra en á Íslandi. Afar mikilvægt er að íslenskar endurnýjanlegar orkulindir njóti áfram sömu viðurkenningar og við gerð Kyoto-bókunarinnar við loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna og leggur Samorka áherslu á að íslensk stjórnvöld tryggi eftir fremsta megni að svonefnt íslenskt ákvæði eða sambærilegt verði áfram við lýði. Þessi stefna er í samræmi við markmið loftslagssamningsins og er hluti af lausninni á sviði loftslagsmála. Of þröngar alþjóðlegar skuldbindingar í þessum efnum takmarka að sjálfsögðu tækifæri okkar til að nýta okkar endurnýjanlegu orkulindir, ekki vegna losunar frá orkuverum heldur vegna hugsanlegrar losunar frá þeim atvinnufyrirtækjum sem kynnu að vilja kaupa orkuna.

Erlend fjárfesting mikilvæg
Erlend fjárfesting í íslensku atvinnulífi er e.t.v. mikilvægari en nokkru sinni um þessar mundir. Endurnýjanleg orka er eitt helsta aðdráttaraflið í þeim efnum og ýmis tækifæri fyrir íslenskt efnahagslíf tengd nýtingu hennar við ýmiss konar framleiðslu- og þjónustustarfsemi. Afar mikilvægt er að íslensk stjórnvöld vinni með hugsanlegum fjárfestum og íslenskt laga- og regluumhverfi virki hvetjandi á erlenda fjárfesta.

Vatnsvernd í forgrunn
Aðgangur að hreinu drykkjarvatni er betri hér á landi en víðast hvar annars staðar. Standa þarf vörð um þessa stöðu en undanfarin ár hefur víða gætt tilhneigingar til þess að þrengja að vatnsverndarsvæðum í þágu byggingarframkvæmda. Víða hefur nú hægst á framkvæmdum en áfram er hugað að skipulagsmálum framtíðaruppbyggingar. Samorka hvetur ríki og sveitarfélög til að tryggja að vatnsvernd verði þar höfð í forgrunni.

Óbreytt stjórn Samorku

Á aðalfundi Samorku var sitjandi stjórn endurkjörin, aðal- og varamenn. Áður var Franz Árnason endurkjörinn til formennsku. Stjórnin skiptir að öðru leyti með sér verkum á sínum fyrsta fundi eftir aðalfund, en hana skipa því áfram:

Franz Árnason, Norðurorku, formaður
Friðrik Sophusson, Landsvirkjun
Hjörleifur B. Kvaran, Orkuveitu Reykjavíkur
Júlíus Jónsson, Hitaveitu Suðurnesja
Páll Pálsson, Skagafjarðarveitum
Tryggvi Þór Haraldsson, Rarik
Þórður Guðmundsson, Landsneti
 
Varamenn:
Dagur Jónsson, Vatnsveitu Hafnarfjarðar
Guðmundur Davíðsson, Hitaveitu Egilsstaða og Fella
Kristján Haraldsson, Orkubúi Vestfjarða

Stærsti þátturinn í auknu heilbrigði og bættum lífsgæðum þjóðarinnar

Heilbrigðisvísindastofnun Háskólans á Akureyri hefur að beiðni Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja, unnið skýrslu um heilsufarsáhrif heitavatnsnotkunar á Íslandi. Skýrslugerðin tengist 100 ára afmæli hitaveitu á Íslandi, sem fagnað var árið 2008. Skýrsluhöfundar komast meðal annars að þeirri niðurstöðu að uppbygging hitaveitna á Íslandi á síðustu öld sé án efa sá atburður Íslandssögunnar sem stuðlað hafi hvað mest að auknu heilbrigði og lífsgæðum þjóðarinnar. Fjallað er um hreinna andrúmsloft, betur hituð hýbýli, sundlaugamenningu, heilsuböð, bættan þrifnað, lækningamátt og forvarnagildi heitra baða og margt fleira. Fram kemur að árleg heildarlosun CO2 á Íslandi er um 45% lægri en ef kynt væri með olíu. Hér á eftir er gripið niður í texta skýrslunnar:

Bætt aðstaða til almenns þrifnaðar
Flest samfélög eiga það sammerkt að vilja efla heilbrigði þegna sinna þar sem heilbrigði er jafnan talið  til æðstu gæða. Frá fornu fari hefur jarðhiti verið notaður á Íslandi til að efla heilbrigði landsmanna eins og fram kemur í fornsögum. Með tilkomu hitaveitna og ótakmarkaðs og ódýrs heits rennandi vatns breyttist aðstaða til almenns þrifnaðar verulega og segja má að lífshættir Íslendinga hafi trauðla breyst meira við aðra einstaka viðburði. 

Heilnæmara andrúmsloft en með olíu- og kolakyndingu
Kyndingu með olíu, kolum og gasi fylgir alla jafna verulegur útblástur ýmissa gastegunda og jafnframt fíngert ryk og sót sem valdið geta margháttuðum sjúkdómum. Fullyrða má að hitaveituvæðing hefur aukið loftgæði til mikilla muna og ferskara andrúmsloft er ótvíræð lífsgæði og hefur bein áhrif á heilbrigði fólks. Um 90% íslensku þjóðarinnar búa nú við jarðvarmahitaveitur og eru áhrifin á heilbrigði og umhverfi veruleg. Árleg heildarlosun CO2 á Íslandi er um 45 % lægri en ef kynt væri með olíu. Með tilkomu hitaveitna hættir þrifnaður að vera lúxus forréttindahópa og verður þess í stað lífsgæði hins almenna borgara.

Um 160 sundlaugar
Sundlaugamenningin sem þróast hefur á Íslandi er einstök og hvergi í heiminum eru upphitaðar útisundlaugar jafnalgengar og óþekkt að almenningssundlaugar séu reknar við eins lágt útihitastig og hér er. Um 160 sundlaugar eru í rekstri hér á landi og langflestar hitaðar með jarðhita.  Það tilsvarar um einni sundlaug á hverja 2000 íbúa og lætur nærri að hver landsmaður fari um 15 sinnum í sund á ári. Hitaveituvatn á Íslandi hefur mjög breytilega efnasamsetningu og flokkast sumt undir heilsuvatn samkvæmt slíkum stöðlum og er sambærilegt við vatn í þekktum erlendum heilsuhælum.

Heit böð gegn sjúkdómum og streitu
Heit böð eru notuð með góðum árangri í meðferð ýmissa sjúkdóma s.s. giktarsjúkdóma, húðsjúkdóma og til að lina verki. Heit böð af hæfilegu hitastigi hafa jákvæð áhrif á ósjálfráða taugakerfið, innkirtlakerfið og ónæmiskerfið og leiða til aukins jafnvægis, draga úr meinafræðilegri starfsemi, auka eigin lækningamátt líkamans og styrkja hann gegn innri og ytri áreiti. Mild hreyfing, eins og sund, í 30 mínútur á dag styrkir þar að auki ónæmiskerfið og minnkar líkurnar á ýmsum sýkingum. Þá getur sundferð ásamt hæfilegri dvöl í heitum potti aukið vellíðan og jákvæðar tilfinningar með tilheyrandi jákvæðri virkni á ónæmiskerfið. Heitt vatn minnkar stirðleika sem er eitt af þeim vandamálum sem fólk með gigt glímir við. Við hreyfingu í heitu vatni liðkast fólk og hreyfigetan eykst. Það leiðir svo til aukins styrks, betra jafnvægis, aukins úthalds og betri þyngdarstjórnunar. Mikilvægt hlutverk heita vatnsins varðandi heilbrigði er þó ekki síst fólgið í því að minnka streitu sem er ein öflugasta forvörn gegn sjúkdómum.

Höfundar skýrslunnar um heitt vatn og heilbrigði eru Hrefna Kristmannsdóttir og Sigríður Halldórsdóttir, prófessorar við Háskólann á Akureyri.

Skýrsluna Heitt vatn og heilbrigði má nálgast hér, á pdf-formi.

Fullyrðingar um raforkuverð

Morgunblaðsgrein Gústaf Adolfs Skúlasonar:

Á dögunum ritaði Gísli Hjálmtýsson, framkvæmdastjóri Thule Investments, grein í Morgunblaðið þar sem hann fullyrðir að íslensk orkufyrirtæki selji orkuna til lægstbjóðenda. Látið er í veðri vaka að nægt framboð sé á hugsanlegum kaupendum orkunnar á mun hærra verði, en að af einhverjum ástæðum kjósi íslensku orkufyrirtækin fremur að selja á lægri verðum. Vandséð er hvers vegna svo ætti að vera. Hins vegar er í grein Gísla vísað til dæmis af mjög háu verði á endurnýjanlegri orku í Þýskalandi. Þar mun vera um mistök að ræða. Í stað 20 evrusenta reiknar Gísli með 2 evrum á hverja kílóvattstund. Þess má geta að af þessum 20 evrusentum kemur meirihlutinn í formi niðurgreiðslna þýska ríkisins, enda um endurnýjanlega orku að ræða sem flest aðildarríki ESB þurfa að stórefla. Hér á landi er öll raforka hins vegar endurnýjanleg og þarf ekki niðurgreiðslur til.

Arðbær viðskipti
Trúnaður ríkir um verðákvæði í samningum um sölu á raforku til stóriðju, líkt og gildir raunar um raforkusölu til fjölda íslenskra fyrirtækja enda samkeppni í framleiðslu og sölu á raforku hérlendis. Engu að síður hefur komið fram að verðið á raforku til stóriðju er í meðallagi hátt hérlendis í alþjóðlegum samanburði. Er þá byggt á niðurstöðum óháðra alþjóðlegra ráðgjafarfyrirtækja. Einhverjir kunna að gagnrýna þessa niðurstöðu um raforkuverð sem er í meðallagi hátt á heimsvísu. Þarna er hins vegar einfaldlega um að ræða samninga í viðskiptum. Hér á landi hefur launakostnaður til dæmis verið hár og flutningsleiðir langar með hvoru tveggja hráefni og afurðir. Aðalatriðið er að samningarnir sem um ræðir eru eðli málsins samkvæmt sameiginleg niðurstaða raforkusala og raforkukaupenda um arðbær viðskipti og verðmætasköpun.

Gísli leggur til að orkan verði seld í minni einingum og til skemmri tíma, til að fá fram hæsta mögulega verð. Því er til að svara að auðvitað skoða íslensk orkufyrirtæki alla slíka möguleika í sinni ákvarðanatöku um virkjanir og orkusölu. Fráleitt er að gefa í skyn að íslensk orkufyrirtæki gætu selt á mun hærri verðum en kjósi einfaldlega að selja á lægri verðum.

Af fjárfestingarsamningum og sprotastuðningi

Grein Gústafs Adolfs Skúlasonar í Morgunblaðinu:

Á dögunum gerði iðnaðarráðherra fjárfestingarsamning við Norðurál vegna fyrirhugaðs álvers í Helguvík. Slíkir samningar hafa áður verið gerðir hér og í þeim felst einkum tvennt.  Annars vegar einhverjar undanþágur eða lækkanir á greiðslum opinberra gjalda á borð við vörugjöld af þeim risavöxnu fjárfestingum sem slíkum verkefnum fylgja. Hins vegar staðfestingu á tilteknum skattaprósentum eða öðrum atriðum í rekstrarumhverfinu. Hvoru tveggja eru alþekktar leiðir sem opinberir aðilar fara, víða um heim, til þess að stuðla að fjárfestingu í atvinnulífi. Hér felur hið fyrrnefnda í sér að ríkisvaldið afsalar sér litlu hlutfalli af annars stórum upphæðum sem það síðar innheimtir í tengslum við risavaxnar erlendar fjárfestingar í íslensku atvinnulífi. Hið síðarnefnda getur verið forsenda þess að erlend fyrirtæki leggi í eða nái að fjármagna slíkar fjárfestingar, ekki síst ef traust á fjárfestingarumhverfinu er af einhverjum ástæðum takmarkað. Þessum samningum hefur með öðrum orðum verið ætlað að liðka fyrir ákvörðunum um risavaxnar erlendar fjárfestingar í íslensku atvinnulífi, með tilheyrandi skatttekjum hins opinbera, verðmætasköpun, fjölgun starfa og auknum gjaldeyristekjum þjóðarbúsins. Ekki er um að ræða fjárútlát ríkisins, heldur samkomulag um tilteknar ívilnanir í opinberum gjöldum af risavöxnum fjárfestingum.

Ágæt sátt um sprotastuðning
Önnur tegund opinbers stuðnings við uppbyggingu atvinnulífs er fólgin í ýmiss konar beinum og óbeinum stuðningi við svonefnd sprotafyrirtæki. Er þá ýmist um að ræða bein fjárframlög úr opinberum sjóðum, afslætti af tilteknum opinberum gjöldum, niðurgreidda starfsaðstöðu og rekstrarráðgjöf, eða liðkanir á borð við nýjar heimildir til að nýta atvinnuleysisbætur sem eins konar niðurgreiðslu á launagreiðslum til starfsfólks. Ágæt sátt ríkir um slíkar aðgerðir og þótt fæst þessara fyrirtækja nái á endanum að þroskast í arðbæran rekstur eru sem betur fer til glæsileg og öflug fyrirtæki í ýmsum greinum sem farið hafa af stað með slíkum stuðningi. Hér er oft um að ræða bein framlög úr opinberum sjóðum sem oft skila sér ekki til baka eða einungis að mjög takmörkuðu leyti. Í tilfelli fjárfestingarsamninganna  er um að ræða ákveðinn afslátt af greiðslum erlendra fyrirtækja til íslenska ríkisins, afslátt af miklum greiðslum sem fylgja risavaxinni fjárfestingu með tilheyrandi tekjustreymi. Agn til að landa stórfiski, svo vísað sé í hugtakanotkun iðnaðarráðherra.

Gagnrýni á fölskum forsendum
Allt er þetta gott og blessað og öllu er þessu ætlað að efla íslenskt atvinnulíf, efla hér verðmætasköpun, fjölga störfum og svo framvegis. Ólíkt stuðningi við sprotafyrirtæki hafa hins vegar fjárfestingarsamningarnir stundum verið gagnrýndir harðlega. Nú má vissulega finna til hugmyndafræðilegar forsendur fyrir slíkri gagnrýni, sem væntanlega yrðu þá kenndar við hreinræktaða frjálshyggju. Furðu sætir hins vegar að oft eru það áköfustu talsmenn sprotastuðningsins sem hæst hafa gegn fjárfestingarsamningunum. Fólk getur auðvitað haft einhverjar ástæður fyrir að vera einhvern veginn mótfallið tilteknum atvinnugreinum. En það er ekki trúverðugt að klæða þá afstöðu í búning grundvallarandstöðu við að hið opinbera liðki til fyrir fjárfestingum með því að afsala sér litlum hluta gríðarhárra tekna. Ekki ef á sama tíma er mælst til beinna opinberra fjárútláta til annars konar atvinnuuppbyggingar.

Rafmagnið ódýrast á Íslandi

Rafmagnsverð í höfuðborgum Norðurlanda
Miðað við heimilisnot án húshitunar, 4000  kWh/ár

  
Samorka hefur borið saman rafmagnskostnað heimila í höfuðborgum Norðurlandanna. Gerður er samanburður á kostnaði heimila sem nota 4000 kWh á ári (ekki upphitunarkostnaður).

Notast er við opinberar reiknivélar í hverju landi vegna sölu á samkeppnismarkaði, en upplýsingar á heimasíðum dreififyrirtækjanna í borgunum varðandi flutnings-og dreifingarkostnað. Söluverð miðast við rafmagnsverð 14. nóvember 2008 og samning um eins árs viðskipti, gengi á ísl. krónu er einnig miðað við þann dag, en vegna bankakreppunnar og gengisbreytinga er gengi 1. júlí einnig haft til samanburðar.

Niðurstöður sýna að fyrir kreppu var heimilisrafmagnið ódýrast í Helsinki og Reykjavík fylgdi fast á eftir, síðan Ósló og Stokkhólmur og dýrast var það í Kaupmannahöfn. En eftir gengisfallið á íslensku krónunni er staðan sú að Reykjavík er með ódýrasta heimilisrafmagnið, svo Helsinki, síðan Ósló, þá Stokkhólmur og dýrust er Kaupmannahöfn.

Athygli vekur hve verðið í Kaupmannahöfn er mikið hærra en í hinum borgunum. Einnig er það sérstakt í Helsinki, að þar fer verðið eftir „hreinleika“ rafmagnsins, þetta lága rafmagnsverð er í framleiðslu 3,6% frá endurnýtanlegum orkugjafa, 75% frá kolaorkuveri og 21,4% frá kjarnorkuframleiðslu. Síðan hækkar verðið eftir hreinleika orkunnar og er um 15% dýrara fyrir það sem kallað er 100 % endurnýtanleg orkuframleiðsla. Það þarf ekki að taka fram að á Íslandi er raforkan unnin 100% með umhverfisvænni vatns- og jarðhitaorku. Í Noregi er rafmagnið einnig framleitt með vatnsaflsvirkjunum, en nokkuð er þó flutt inn frá öðrum löndum og getur því verið framleidd á ýmsan hátt. Í Svíþjóð er mikil kjarnorkuframleiðsla, ásamt vatnsafli og í Danmörku eru kolaorkuver, vindorkuver og ýmsar aðra framleiðsluaðferðir, ásamt innflutningi á rafmagni frá nágrannalöndunum.

Reiknitafla: Smella hér          Línurit: Smella hér

Pétur Kristjánsson leysir Maríu Jónu af, til eins árs

María Jóna Gunnarsdóttir, deildarstjóri frá-, vatns- og hitaveitudeildar Samorku fór í ársleyfi þann 1. nóvember sl., vegna doktorsnáms. Pétur Kristjánsson, rekstrartæknifræðingur, leysir Maríu af á skrifstofu Samorku. Pétur starfaði sem rekstrarstjóri Vatnsveitu Reykjavíkur frá árinu 1983 til ársins 2000 eða þar til vatnsveitan sameinaðist Orkuveitu Reykjavíkur. Þar hélt hann áfram við sömu störf sem deildarstjóri Dreifingar OR með umsjón og ábyrgð á dreifikerfi kalda vatnsins. Þann 1. júlí 2003 tók Pétur við starfi deildarstjóra Innkaupastjórnunar OR og kemur úr því starfi til að leysa Maríu af.

Pétur hefur komið að starfi Samorku í gegnum árin. Hann hefur verið fulltrúi í nefndum, starfað að starfsnámi í jarðlagnatækni, skrifað kafla í Vatnsveituhandbók Samorku og haldið fyrirlestra á námskeiðum og ráðstefnum Samorku, hér heima og erlendis.

Samorka býður Pétur velkominn til starfa, jafnframt því sem Maríu Jónu er óskað velgengni í sínu námi.