Stjórn Samorku mótmælir harðlega úrskurði umhverfisráðherra um að fella úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar, um að ekki skuli fara fram sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar Suðvesturlínur, styrkingu raforkuflutningskerfis á Suðvesturlandi og öðrum framkvæmdum sem tengjast álveri í Helguvík. Skorar stjórn samtakanna á ráðherra að draga úrskurðinn til baka nú þegar, en ella mun hann tefja framkvæmdir um ófyrirséðan tíma auk þess að valda ómældum viðbótarkostnaði. Fram hefur komið að úrskurður ráðherra hefur að engu lögbundin tímamörk og gengur að auki gegn fyrri úrskurði umhverfisráðherra frá apríl 2008. Úrskurðurinn nú er því dæmi um afleita stjórnsýslu og algert virðingarleysi við lög í landinu. Slíkt starfsumhverfi er engum fyrirtækjum boðlegt.
Minnt er á að allar umræddar framkvæmdir fara að sjálfsögðu í umhverfismat en hugsanleg ákvörðun um sameiginlegt umhverfismat byggir á heimildarákvæði í lögum og slíka ákvörðun ber að taka að höfðu samráði við framkvæmdaraðila. Ekkert slíkt samráð hefur átt sér stað. Engin leið er að úrskurða heildstætt um hvaða framkvæmdir tengjast með þessum hætti en þær sem vísað er til eru mjög mislangt á veg komnar. Bent er á að umræddar flutningslínur munu geta flutt raforku til hvers kyns nýrrar iðnaðarstarfsemi á Suðurnesjum og frá hvaða virkjun sem er í landinu, þar með taldar nýjar virkjanir sem reistar kunna að verða í framtíðinni, þess vegna hinum megin á landinu. Vandséð er hvernig á að vera hægt að framkvæma sameiginlegt umhverfismat þar sem hugsað er fyrir öllum slíkum tengingum.
Fjórðungs hækkun orkuverðs?
Ennfremur lýsir stjórn Samorku verulegum áhyggjum af boðuðum umhverfis-, auðlinda- og orkusköttum, sem skila eiga ríkissjóði 16 milljarða tekjum á næsta ári. Skattheimtan hefur ekki verið útfærð ennþá en færi slík skattheimta beint út í verðlagið myndi það þýða 20-25% hækkun orkuverðs (á rafmagni og heitu vatni), að jafnaði, til heimila og fyrirtækja. Íslendingar hafa lengi búið að grænustu orku í veröldinni en jafnframt einhverri ódýrustu orku á Vesturlöndum. Nú stefnir í að hún verði eingöngu áfram sú grænasta. Slíkar skattahækkanir munu skerða samkeppnishæfni íslenskra orkufyrirtækja og draga úr ágæti Íslands sem fjárfestingarkosts fyrir hvers kyns framleiðslustarfsemi.
Í nýrri skýrslu AtvinnuLífsins Skóla er fjallað um raforkuverð á Íslandi 1997 – 2008 og áhrif aukinnar raforkusölu til orkufreks iðnaðar á raforkuverð á almennum markaði. Skýrslan verður kynnt og rædd á morgunverðarfundi Samorku í Háteigi á Grand Hótel Reykjavík miðvikudaginn 7. október.
Dagskrá
08:00 Morgunverður
08:30 Fundur hefst
Jóhannes Geir Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri ALS, kynnir skýrslu
Jón Þorvaldur Heiðarsson, lektor við viðskipta- og raunvísindadeild Háskólans á
Akureyri, fjallar um málefnið.
Umræður
09:30 Fundarlok
Fundarstjóri: Steinunn Valdís Óskarsdóttir, alþingismaður
Fundurinn er öllum opinn og aðgangur ókeypis, en nauðsynlegt er að skrá þátttöku í síma 588 4430 eða með tölvupósti til the@samorka.is.
Ekkert er því til fyrirstöðu að nota endurnýjanlega orku Íslendinga til að knýja álver að mati Rajendra Pachauri, formanns loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna. Í samtali við fréttastofu RÚV segir Pachauri Íslendinga leiðtoga í baráttunni fyrir minni losun gróðurhúsalofttegunda.
Dr. Rajendra Pachauri er heimskunnur vísindamaður í alþjóðlegum umræðum um loftslagsbreytingar. Hann tók meðal annars við friðarverðlaunum Nóbels árið 2007 fyrir hönd Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna. Pachauri, sem staddur var hér á landi í boði Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands, hélt erindi í Háskóla Íslands um samspil vísinda og stjórnmálamanna. Hann hitti síðan íslenska vísindamenn og áhrifamenn hér á landi.
Pachauri segir aukna vitund hafa verið á alþjóðavettvangi um þessi mál í heiminum, ekki aðeins meðal almennings heldur yfirvalda.
Pachauri segir Íslendinga í forystu á þessu sviði þar sem þeir eigi miklar endurnýjanlegar orkuauðlindir og skilji mikilvægi þess að nota þær. Þeir geti miðlað þessu til annarra landa.
Sjá fréttina á vef Ríkisútvarpsins.
„Komandi vetur verður landsmönnum mjög erfiður efnahagslega og því er brýnt að hefja nú þegar þær aðgerðir sem kveðið er á um í stöðugleikasáttmála aðila vinnumarkaðarins, ríkisvaldsins og sveitarfélaga frá því í sumar. Í aðdraganda samkomulagsins var sett fram sú sameiginlega sýn að skapa 15.000 störf fram til ársins 2013 en sá árangur næst ekki nema hagvöxtur verði óvenju mikill, eða 4-4,5% á hverju ári. Til að hagvöxtur hefjist á ný liggja fjárfestingar í orkugeiranum og tengdum iðju- og gagnaverum beinast við.“ Þetta segir Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, m.a. í leiðara fréttabréfs samtakanna.“ Sjá nánar á vef Samtaka atvinnulífsins.
Ágæt arðsemi af orkusölu
Áherslan fremur á lág verð í ýmissi veitustarfsemi
Fullyrt að arðsemin sé mest af stóriðjusölu
og lykill að lágu raforkuverði undanfarinna ára
Arðsemi af raforkusölu hefur verið ágæt hér á landi, skv. samantekt Melland Partners að beiðni Landsvirkjunar, og ef horft er til arðsemi af rekstri Nesjavallavirkjunar Orkuveitu Reykjavíkur. Meðalarðsemi eigin fjár Landsvirkjunar var 17,2% árin 2003 til 2007, sem er mun hærra en gerist í Bandaríkjunum og Evrópu, ef marka má nýlega áfangaskýrslu Sjónarrandar ehf. fyrir fjármálaráðuneytið. Svipað má segja ef horft er á arðsemi heildarfjármagns Nesjavallavirkjunar Orkuveitu Reykjavíkur, sem er um 14%, en arðsemi bandarískra orkufyrirtækja var á þessum tíma að jafnaði um 10% og evrópskra um 13%. Þá segir HS Orka óhætt að fullyrða að arðsemi fyrirtækisins af orkusölu til stóriðju hafi verið nokkuð meiri en af annarri starfsemi fyrirtækisins og hafi jafnframt verið lykillinn að lágu raforkuverði undanfarinna ára. Almenn arðsemi íslenskra veitufyrirtækja er hins vegar ekki há, en fyrirtækin eru flest alfarið í eigu opinberra aðila og áherslan hefur gjarnan verið á lág verð og öfluga þjónustu hita-, vatns-, fráveitna, fremur en háa arðsemi fjármagns. Sama virðist raunar gilda um sölu á raforku til almennings, en hún er t.d. um fimmfalt dýrari í Kaupmannahöfn en í Reykjavík.
Fráleitar ályktanir Sjónarrandar
Á dögunum skilaði Sjónarrönd ehf. áfangaskýrslu um arðsemi af raforkusölu til stóriðju, sem unnin var fyrir fjármálaráðuneytið. Þar eru meðal annars dregnar ályktanir um lága arðsemi af orkusölu til stóriðju með því að horfa til arðsemi af rekstri veitufyrirtækja, sem er algerlega fráleit nálgun. Jafn fráleitt er að bera síðan saman almenna arðsemi íslenskra orkufyrirtækja (sem mörg eru jafnframt í ýmis konar veiturekstri) við arðsemi orkufyrirtækja sem skráð eru á hlutabréfamarkaði í Evrópu og Bandaríkjunum. Í áfangaskýrslu Sjónarrandar er notast við rangar tölur, mismunandi uppgjörsaðferðum blandað saman, ólík tímabil borin saman, rangar ályktanir dregnar, gjörólík fyrirtæki borin saman sem væru þau sambærileg og almennt séð óhemju langt seilst í leit að einhverjum neikvæðum hliðum á orkusölu til stóriðju. Samorka vonar að betur verði vandað til verka við endanlegan frágang skýrslunnar.
Sjá athugasemdir Samorku við skýrsludrög Sjónarrandar.
Sjá athugasemdir frá Melland Partners, unnar að beiðni Landsvirkjunar
Sjá athugasemdir Orkuveitu Reykjavíkur
Sjá athugasemdir HS Orku
Trúnaður ríkir um orkuverð í samningum við ýmis fyrirtæki og stofnanir hér á landi, fyrirtæki í stóriðju þar með talin, en framleiðsla og sala á raforku eru samkeppnissvið. Íslenskir orkusalar hafa aðspurðir sagt orkuverð til stóriðju hérlendis vera nálægt meðallagi þess verðs sem slík fyrirtæki greiða á heimsvísu. Í nýrri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um áhrif stóriðjuframkvæmda á íslenskt efnahagslíf, sem unnin er fyrir iðnaðarráðuneytið, er m.a. komið inn á þetta mál. Í skýrslunni segir meðal annars (bls. 16): „Raforkuverð til álvera á Íslandi er bundið í langtímasamningum og er það verð ekki gert opinbert. Út frá ársreikningum Landsvirkjunar má þó ætla að það hafi hin síðustu ár verið á bilinu 25-28 US mill á kWst. Til samanburðar má nefna að samkvæmt World Bureau of Metal Statistics var meðalverð í heiminum árið 2007 27 US mill á kWst. Verð hér virðist því vera á sama bili og annars staðar að jafnaði.“
Samorka hefur engar frekari upplýsingar um raforkuverð til stóriðju og getur því ekki staðfest þessa ályktun Hagfræðistofnunar. Hins vegar er ástæða til að vekja athygli á þessari niðurstöðu stofnunarinnar þar sem því er iðulega haldið fram að orkuverð til stóriðju sé með lægsta móti hérlendis.
Ódýr orka til heimila hérlendis
Um 80% raforkunnar hér á landi fara til stóriðju. Raforkuverð til heimila og almenns atvinnurekstrar er mun lægra hérlendis en í flestum okkar nágrannalöndum, eins og Samorka hefur ítrekað vakið athygli á (sjá t.d. þessa frétt). Þannig kostar meðalheimilisnotkun á rafmagni í Reykjavík einungis um fjórðung af því sem hún kostar í Kaupmannahöfn. Ennfremur hefur almennt raforkuverð árum saman farið lækkandi hér á landi, að teknu tilliti til þróunar vísitölu verðlags, samhliða aukinni raforkusölu til stóriðju (sjá samantekt frá síðasta aðalfundi Samorku hér). Þrátt fyrir að allt þetta liggi fyrir vilja sumir halda því fram að almenningur sé að niðurgreiða raforkuna til stóriðjunnar. Vandséð er hvernig það ætti að geta staðist, í ljósi framangreindra atriða.
Morgunblaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar:
Á dögunum voru kynnt drög að skýrslu sem unnið er að fyrir fjármálaráðuneytið, þar sem fjallað er um arðsemi af orkusölu til stóriðjufyrirtækja. Drögin voru kynnt í aðdraganda verslunarmannahelgar, nánast í skjóli hásumarleyfistímans, en þeim hafði þó verið skilað til ráðuneytisins í maí. Ekkert samband var haft við orku- né stóriðjufyrirtæki við gerð skýrsludraganna. Hér er ekki ætlunin að ræða efnislega um innihald skýrslunnar, það hefur þegar verið gert að hluta á öðrum vettvangi og verður gert nánar síðar, enda af nógu að taka. En það sem vekur ekki síst athygli er mönnun vinnunnar.
Afrek í takmörkun á trúverðugleika
Á Íslandi – líkt og sjálfsagt víðast hvar – tekur fjöldi hagfræðinga virkan þátt í opinberri umræðu um efnahagsmál. Segja má að í stórum hópi all kunnra hagfræðinga hérlendis séu um fimm til sex manns sem (mis)ítrekað hafa lýst verulegum efasemdum um arðsemi orkusölu til stóriðju. Að skýrslunni sem fjármálaráðuneytið bað um hafa komið heilir fjórir hagfræðingar, sem hlýtur að teljast all vel í lagt með svona vinnu. Sérstaka athygli vekur hins vegar að allir fjórir koma þeir úr fyrrnefndum fimm til sex manna hópi annars stórs mengis þjóðþekktra hagfræðinga. Þetta verður að teljast alveg sérstakt afrek í takmörkun á trúverðugleika. Allir hafa þessir fjórir skýrsluhöfundar áður ítrekað dregið sambærilegar ályktanir, í mis ítarlegum skrifum og erindum, og kynntar voru á dögunum í annars lítt frágengnum skýrsludrögum. Frá upphafi lá þar með algerlega ljóst fyrir hverjar þeirra helstu niðurstöður yrðu og því vandséð hví ákveðið var að ráðstafa opinberum fjármunum til þessarar vinnu. Verður kannski næst ákveðið að láta vinna skýrslu um kosti og galla loftrýmisgæslu á vegum NATO í íslenskri lofthelgi, og leitað til Samtaka hernaðarandstæðinga um gerð hennar? Er þetta það sem átt er við með hugtakinu „nýja Ísland“ í frösum opinberrar umræðu?
Í júlílok var lögð fram áfangaskýrsla Sjónarrandar ehf sem unnin er að beiðni fjármálaráðuneytisins um mat á arðsemi orkusölu til stóriðju, þar er einnig fjallað um arðsemi íslenskra orkufyrirtækja og gerður samanburður við önnur fyrirtæki hérlendis og fyrirtæki í Bandaríkjunum og Evrópu. Að auki er fjallað um kostnað vegna nýtingu náttúrugæða, þjóðhagslega hagkvæmni stóriðju o.fl.
Það sem fyrst vekur athygli er að skýrslan er unnin af aðilum sem hafa áður lýst efasemdum um verkefni tengd stóriðju og verður því að skoðast sem tilraun þeirra til þess að árétta áður sagða og gerða hluti.
Skýrslan virðist við fyrsta yfirlestur vera ónákvæm, bæði hvað varðar efnistökin sjálf sem og framsetningu.
Samanburður orkufyrirtækja hér og erlendis er fráleitur, þar sem um er að ræða starfsemi í opinberri eigu annarsvegar og skráð einkafyrirtæki hinsvegar. Krafa um arðsemi orku- og veitufyrirtækja hér á landi sem þjóna almenna markaðinum er fyrst og fremst lágt verð og góð þjónusta. Einkaaðilar gera hinsvegar kröfu um að fjármagn þeirra vaxi í samræmi við ávöxtun fjár á fjármagnsmörkuðum. Þar að auki virðast vera alvarlegar villur í efnistökum svo sem mismunandi reikningsskilaaðferðir og skörun á tímabilum. Ef verið er að óska eftir meiri ávöxtun fjár er eina sýnilega leiðin að hækka verðið.
Hvað varðar ávöxtun fjár til stóriðju er ekki tekið á því sérstakleg, heldur er gerður samanburður á ávöxtun fjár Landsvirkjunar í heild, þar sem einnig eru sömu villurnar hvað varðar aðferðir og tímabil.
Vangaveltur skýrsluhöfunda um verðmæti náttúrugæða, mengunarkvóta og ábata þjóðarbúsins af erlendri fjárfestingu eru gamalkunnar og hafa verið viðraðar áður í þeirra skrifum og athöfnum.
Samorka mun fara betur yfir innihald skýrslunnar að loknum sumarleyfum, gera athugasemdir og leggja til leiðréttingar á þeim þáttum sem ranglega er farið með.
Ef svona úttekt á að vera trúverðug og nýtanleg til stefnumótunar verður hún að vera unnin í þeirri sátt sem aðeins gagnkvæmt traust getur myndað. Það er langur vegur frá því að slíkt náist með því að fela aðilum sem þegar hafa mótað sér skoðanir um tilveru þeirrar starfsemi sem um ræðir ásamt væntanlegum niðurstöðum rannsóknarinnar. Það hefði líka verið jafn fráleitt að fela einhverju orku- eða stóriðjufyrirtæki að gera slíka úttekt.
Þá hefur Samorka sent fjármálaráðuneytinu fyrirspurn þar sem óskað er svara við spurningum sem vaknað hafa um tilurð og innihald skýrslunnar.
Skýrslan í heild er vistuð á heimasíðu fjármálaráðuneytis og má nálgast á slóðinni: http://www.fjarmalaraduneyti.is/frettir/frettatilkynningar/frettatilkynningar/nr/12348
Dagana 8. og 9. september stendur norræna ráðherranefndin fyrir ráðstefnu og sölusýningu þar sem fjallað verður um markaðslausnir vegna hlýnunar loftslags. Fjallað verður um hlut endurnýjanlegrar orku, orkunýtingu, viðskipti með losunarkvóta, leiðir til að minnka losun í samgöngum og margt fleira, auk þess sem fjöldi fyrirtækja kynnir vörur sínar og þjónustu á þessu sviði. Erindi á ráðstefnunni flytja m.a. yfirmaður orkumála í framkvæmdastjórn ESB, framkvæmdastjóri Umhverfisstofnunar Evrópu, forstjórar Vattenfall, DONG og Danfoss, framkvæmdastjóri World Wildlife Fund, loftslags- og orkumálaráðherra Danmerkur og fjöldi annarra.
Sjá nánari upplýsingar hér á vefsíðu ráðstefnunnar.
Í Bændablaðinu sem út kom 14. maí s.l. er grein um fósturdauða í ám og gemlingum, eftir Gunnar Björnsson bónda og fósturtalningamann í Sandfellshaga í Öxarfirði. Greinin fjallar á greinagóðan hátt um þetta mikla vandamál íslensks sauðfjárbúskapar og er athyglisverð.
Eftir afar fróðlega lýsingu á fósturtalningu og fósturdauða er í greininni grafist fyrir um ástæður vandans. Þar er komist að þeirri niðurstöðu að orsakanna sé helst að leita hjá framleiðendum rafmagns og dreifiveitum. Í umfjölluninni um rafmagnið í greininni er farið slíkum orðum um þennan meinta orsakavald, að fullkominni rýrð er kastað á trúverðuleika greinarinnar í heild og er það miður. Skilja má greinina svo að rafmagnið sé stórkostlega gölluð vara og að þeir sem beri ábyrgð á framleiðslu rafmagnsins, dreifingu, flutningi og sölu þess séu lítt viðræðuhæfir um gæði þessarar vöru. Þá er einnig lítið gert úr starfssemi þeirra eftirlitsstofnana ríkisins sem fylgjast eiga með gæðum og afhendingaröryggi rafmagnsins og fullyrt að þessir aðilar hafi ekki þann mælabúnað sem til þurfi til að fylgja málum eftir. Síðan er vitnað í hóp góðviljaðra manna sem reki fyrirtæki á þessu hátæknisviði og veiti þá þjónustu sem dugi, enda ráði þeir einir yfir mælitækjum sem dugi. Undirritaður leyfir sér ekki að gera lítið úr þekkingu téðra manna eða hæfileikum þeirra á þessu sviði, en fullyrðir þó að hjá veitufyrirtækjunum eru líka menn með þekkingu á sviði jarðtenginga, menn með reynslu og metnað til að leggja sig fram við að vinna störf sín samkvæmt þeim reglum og þeim stöðlum sem í gildi eru hér á landi og eru þær sömu reglur sem gilda í okkar heimshluta.
Það er markmið með jarðtengingum neysluveitna að koma í veg fyrir slys og eignatjón. Þessu markmiði ná veiturnar með því að ganga frá jarðtengingum samkvæmt þeim ströngu reglum sem um slíkt gilda. Vissulega má lengi auka og bæta við jarðtengingar, þ.e. að ganga lengra en kröfur eru gerðar um. Þegar slíkt er gert, þá er mikilvægt að það sé gert af kunnáttumönnum og þess gætt sérstaklega að ekki sé hróflað við grundvallartengingum veitukerfanna, sem eru eins og áður segir til að verjast slysum og tjóni og eru framkvæmdar samkvæmt viðurkenndum vísindum. Umfjöllunin um rafsegulsviðið og þá hugsanlega hættu af völdum þess hefur á stundum farið fram á öðrum nótum en gengur og gerist um raunvísindi almennt. Sumsstaðar ræða menn um „rafmengun“ eins og í umræddri blaðagrein í Bændablaðinu, í öðrum skrifum og skýrslum hafa sést orðin rafskítur eða óþverri. Svona umfjöllun er ekki mjög trúverðug og rétt að taka fram að í umfjöllun um málefni sem fjalla um orsakir sjúkdóma manna og dýra, jafnvel líf eða dauða þeirra, þá er mikilvægt að ganga fram með hógværð og fullyrða ekki meira en hægt er að standa undir. Það er þekkt og eðlilegt að þeir sem berjast við erfiða sjúkdóma eru tilbúnir til að ganga langt í aðgerðum til að verja sig og sína við slíkar aðstæður. Því er það mikilvægt að þeir sem veita þjónustu og ráðgjöf á slíkum sviðum starfi samkvæmt bestu þekkingu hvers tíma. Þeir sem fara aðrar leiðir, leiðir sem flokkast undir tilraunastarfssemi eða ný vísindi, þurfa að gera viðkomandi aðilum glögga grein fyrir takmörkunum sínum og varast að kasta rýrð á þá sem halda sig við hinar viðurkenndu aðferðir.
Hér eru hlekkir inn á aðrar greinar sem Samorka hefur áður birt á heimasíðu sinni:
Gtrein Sigurðar Guðmundssonar landlæknis.
Grein Gunnlaugs Björnssonar stjarneðlisfræðings
Grein í Morgunblaðinu eftir Sigurð Sigurðsson dýralækni, um lambadauða.
Grein í mbl. 15/6 2009 um niðurstöður rannsókna Sigurðar dýralæknis