Fréttablaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar:
Orkunýting og hagsmunir almennings
Umhverfisráðherra gagnrýndi á dögunum skrif undirritaðs um ýmis lagafrumvörp, í grein hér í Fréttablaðinu. Ekki er ætlunin að fjalla frekar um umrædd frumvörp hér. Hins vegar talar ráðherrann í nafni hagsmuna almennings og nefnir m.a.s. til sögunnar hugtakið sérhagsmuni, að því er virðist yfir málflutning Samorku fyrir hönd orkufyrirtækjanna. Vandséð er hvernig hagsmunir orkufyrirtækja landsmanna geta talist til sérhagsmuna, en það hugtak er jú gjarnan notað í samhengi þröngra hagsmuna afmarkaðs hóps og þá jafnvel á kostnað fjöldans eða til skerðingar á réttindum hans. En hugum aðeins að orkunýtingu og hagsmunum almennings, fer þetta ekki saman?
Leyfisveitingar stjórnvalda
Í fyrsta lagi má nálgast spurninguna út frá leyfisveitingaferlinu. Orkufyrirtæki virkja engar auðlindir án ýmissa leyfisveitinga frá hvoru tveggja ráðherra og viðkomandi sveitarstjórnum. Lýðræðislega kjörnir fulltrúar – fulltrúar almennings – veita þannig virkjunarleyfi, framkvæmdaleyfi, breyta skipulagi o.s.frv. Varla fara þeir gegn hagsmunum almennings.
Fyrirtæki í almannaeigu
Í öðru lagi eru orkufyrirtækin flest í eigu ríkis eða sveitarfélaga og stjórnir þeirra því skipaðar af lýðræðislega kjörnum fulltrúum almennings, í ríkisstjórn eða viðkomandi sveitarstjórnum. Varla fara þessar stjórnir gegn hagsmunum almennings.
Vilji heimamanna
Í þriðja lagi er iðulega mjög mikill stuðningur meðal almennings og sveitarstjórna á tilteknum svæðum við nýjar virkjanir, sem oft eru um leið forsenda mikillar atvinnuuppbyggingar á umræddum svæðum. Um þetta eru þekkt dæmi í dag á fleiri en einum stað á landinu. Andstaða við framkvæmdirnar á samt auðvitað fullan rétt á sér, en slík barátta verður ekki sjálfkrafa flokkuð sem hagsmunir almennings.
Efnahagsáhrifin
Loks eru það svo efnahagsáhrifin. Á dögunum talaði forsætisráðherra um sex til sjö þúsund ársverk á næstu árum við uppbyggingu virkjana og tengdra fjárfestinga í iðnaði. Landsvirkjun kynnti nýlega framtíðarsýn þar sem arð- og skattgreiðslur fyrirtækisins til ríkissjóðs munu innan fimmtán ára nema 4-8% af landsframleiðslu. Allar slíkar tölur eru auðvitað háðar tilteknum forsendum en engum dylst að frekari uppbygging virkjana og tengds iðnaðar getur skilað gríðarlegum efnahagsávinningi fyrir íslenskt samfélag. Einhverjir munu þó eflaust harma einhverjar umræddra framkvæmda út frá sjónarhorni náttúruverndar, þótt útfærsla virkjana taki ávalt mið af slíkum sjónarmiðum. En því verður varla haldið fram að slík uppbygging, að fengnum öllum nauðsynlegum leyfum frá lýðræðislega kjörnum fulltrúum almennings, gangi gegn hagsmunum almennings.
Nýting orkuauðlindanna og hagsmunir almennings fara þannig afar vel saman.
Sjötta Vorfundi Samorku á Akureyri er lokið og Samorka þakkar þátttakendum öllum, sýnendum, starfsfólki Hofs, Ferðaskrifstofu Akureyrar og öðrum þeim sem að fundinum komu kærlega fyrir þeirra þátt í afar vel heppnaðri dagskrá. Þátttakendur voru á þriðja hundrað en alls tóku um 350 manns þátt í dagskránni að mökum og sýnendum meðtöldum. Erindi fundarins eru birt hér á vef Samorku.
Þriðjudaginn 19. apríl s.l. voru opnuð tilboð í sameiginleg innkaup dreifiveitna á ljósaperum. Alls bárust átta verðtilboð frá sex bjóðendum. Fyrst og fremst er hér um að ræða götuljósaperur, en einnig aðrar perugerðir sem veiturnar nota í sínum rekstri , alls um 21700 stk. á ári í þrjú ár. Verðtilboð voru á bilinu 18,9 til 33,2 Mkr. Lægsta tilboð átti Jóhann Ólafsson & Co, umboðsaðili fyrir OSRAM perur.
Fréttablaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar:
Sífellt flóknara starfsumhverfi
Regluverk orkunýtingar er óhemju flókið, sem og starfsumhverfi orku- og veitufyrirtækja almennt. Nefna má dæmi um að ein og sama framkvæmdin hafi þurft að fara yfir tuttugu sinnum til umsagnar hjá sömu opinberu aðilunum. Hér gefur að líta einfaldaða mynd af regluverki orkuöflunar, sem verkfræðistofan Efla vann fyrir Samorku fyrir þremur árum síðan. Síðan þá hafa ýmsar breytingar orðið sem síst einfalda þetta ferli eða rekstur þessara fyrirtækja. Samorka, Samtök atvinnulífsins, Jarðhitafélag Íslands og stýrihópur ríkisstjórnarinnar um mótun heildstæðrar orkustefnu eru dæmi um aðila sem mælt hafa með einföldun þessa regluverks, með aukna skilvirkni að leiðarljósi. Ekkert lát er hins vegar á lagafrumvörpum – stjórnarfrumvörpum – sem enn flækja þetta ferli og/eða starfsumhverfi orku- og veitufyrirtækjanna almennt. Ef einungis er horft til núverandi þings má nefna eftirtalin dæmi:
- Frumvarp forsætisráðherra til breytinga á upplýsingalögum, þar sem fyrirtæki í opinberri eigu að 75% hluta eða meira eru sett undir upplýsingalög, nema að fenginni undanþágu ráðherra. Vandséð er hvernig fyrirtæki í raforkuframleiðslu og -sölu, samkeppnisstarfsemi að lögum, geta lotið ákvæðum upplýsingalaga, nema með gríðarlegum tilkostnaði og óhagræði.
- Frumvarp iðnaðarráðherra um verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og háhitasvæða, þar sem í raun er gerð sú eftirábreyting á vinnu við gerð rammaáætlunar að öll svæði sem hlotið hafa einhvers konar friðlýsingu eru undanskilin, nema heimildar til orkuvinnslu sé sérstaklega getið í friðlýsingarskilmálum. Enginn veit hvað þetta ákvæði þýðir í raun, enda friðlýsingarskilmálar gríðarlega misjafnir, utan að þetta mun fyrirfram útiloka fjölda álitlegra virkjanakosta, þar með talið að minnsta kosti þriðjung alls virkjanlegs háhita sem enn er ónýttur í landinu.
- Frumvarp iðnaðarráðherra um vatnalög og rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, þar sem lögð er til veruleg stytting leyfilegs leigutíma orkuauðlinda í eigu opinberra aðila. Slík stytting myndi leiða til hærri ávöxtunarkröfu samfara styttri afskriftatíma og með tímanum til hærra orkuverðs á Íslandi, til heimila, fyrirtækja og stofnana.
- Frumvarp iðnaðarráðherra til breytinga á vatnalögum, þar sem lagt er til nýtt ákvæði um tilkynningaskyldu allra framkvæmda sem tengjast vatni og vatnafari, að því er virðist einnig minniháttar viðhaldsframkvæmda sem vel rúmast innan þegar útgefinna framkvæmdaleyfa.
- Frumvarp umhverfisráðherra um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, þar sem kæruaðild er opnuð öllum hvað varðar ákvarðanir um matsskyldu framkvæmda, sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum og leyfisveitingar matsskyldra framkvæmda. Þarna skal lögð til hliðar krafan um málsaðild kærenda líkt og finna má í stjórnsýslulögum og víðar, þvert gegn áliti réttarfarsnefndar. Ekkert hinna Norðurlandanna hefur enda kosið að fara þessa leið sem leitt getur til algerrar holskeflu kærumála sem gætu nær lamað umrædda úrskurðarnefnd, ef marka má afgreiðslutíma forvera hennar, og sett þannig framkvæmdir í algert uppnám. Tekið skal fram að almenningi gefast ítrekuð færi á gerð athugasemda við umrædd mál fyrr í ferlinu.
- Þá hefur umhverfisráðuneytið kynnt drög að frumvarpi til breytinga á náttúruverndarlögum þar sem lögð er til veruleg fjölgun þeirra tegunda náttúrufyrirbæra sem njóta skuli sérstakrar verndar. Ennfremur er þar lagt til að orðalagið um að forðast skuli röskun víki fyrir orðalagi um að óheimilt sé að raska slíkum fyrirbærum nema brýna nauðsyn beri til. Brýn nauðsyn er afar stíf krafa þegar heimila á framkvæmdir, eða hafna þeim.
Verulegt áhyggjuefni
Vissulega má ýmislegt gott segja um sum þessara mála og eðli málsins samkvæmt eru þau öll vanreifuð hér í svo stuttri samantekt. Eftir stendur þó að nær stöðugur straumur stjórnarfrumvarpa sem flækja starfsumhverfi orku- og veitufyrirtækja er verulegt áhyggjuefni. Orkunýting og rekstur orku- og veitufyrirtækja verða sífellt flóknari, þyngri í vöfum og kostnaðarsamari. Afleiðingarnar eru meðal annars sífellt lengri framkvæmdatími, sífellt aukin óvissa um afhendingartíma og sífellt aukinn kostnaður – sem aftur leiðir óhjákvæmilega til hærri verða til neytenda.
—————-
Greinin birtist í eilítið styttri útgáfu í Fréttablaðinu, en í fullri lengd (þ.e. með skýringarmynd og tilvísun í hana) á Vísi.is.
Fróðleg erindi voru flutt á vorfundi Jarðhitafélags Íslands, þar sem iðnaðarráðherra boðaði m.a. að einfalda mætti regluverk orkunýtingar, forstöðumaður Auðlindaréttarstofnunar HR benti á skort á lagaheimildum íþyngjandi stjórnvaldsákvarðana og forstjóri HS Orku gaf stefnu stjórnvalda falleinkunn – út frá sjónarmiði orkunýtingar. Sjá nánar á vefsíðu Jarðhitafélagsins.
Ársfundur Landsvirkjunar verður haldinn á Grand Hótel Reykjavík föstudaginn 15. apríl undir yfirskriftinni Arður í orku framtíðar. Fundurinn hefst kl. 14 og eru allir velkomnir. Sjá nánar á vef Landsvirkjunar.
Vorfundur Jarðhitafélags Íslands verður haldinn þriðjudaginn 12. apríl í húsakynnum Orkuveitu Reykjavíkur að Bæjarhálsi 1 og hefst kl. 14:00. Yfirskrift fundarins er Stendur jarðhitinn í stjórnkerfinu? Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra ávarpar fundinn og erindi flytja þau Kristín Haraldsdóttir forstöðumaður Auðlindaréttarstofnunar HR og Júlíus J. Jónsson forstjóri HS Orku. Gunnar Tryggvason úr stýrihóp um mótun heildstæðrar orkustefnu og Svanfríður Jónasdóttir formaður verkefnisstjórnar rammaáætlunar taka þátt í pallborðsumræðum. Sjá nánar á vefsíðu Jarðhitafélagsins.
Reglugerð nr. 401/2005 um vatnsveitur sveitarfélaga hefur verið breytt á þá leið að við 23. gr. um tengingu heimæðar bætist (á eftir Tenging vatnslagna við vatnsveitukerfi skal gerð í samræmi við tengiskilmála viðkomandi veitu): eða sameiginlega tengiskilmála Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja, fyrir vatnsveitur. Sjá tilkynningu innanríkisráðuneytis hér.
Tæknilega tengiskilmála vatnsveitna má nálgast hér á vef Samorku, þ.e. 1. kaflann (skilmálana sjálfa). Verið er að leggja lokahönd á 2. kafla, tengi- og kerfismyndir, en 3. kafli, leiðbeiningar, er væntanlegur síðar.
Miðvikudaginn 23. mars, kl 12:15, verður haldinn opinn fundur á vegum Lagastofnunar Háskóla Íslands þar sem fjallað verður um tilskipun 2009/72/EB um sameiginlegar reglur um innri markað ESB fyrir raforku, sem kom til framkvæmda innan ESB nú í byrjun mars. Einnig verður fjallað um samkeppnisreglur ESB og íslenska löggjöf á þessu sviði. Samorka hefur styrkt rannsóknarstöðu við Lagastofnun til að rannsaka raforkulöggjöf ESB og Íslands. Fundurinn verður haldinn í stofu 101 í Lögbergi. Sjá nánar á vefsíðu Lagastofnunar.
Hellisheiðarvirkjun hefur aftur verið opnuð fyrir gesti og er það fyrirtækið Orkusýn sem sér um móttöku gesta. Virkjunin, með tilheyrandi margmiðlunarsýningu og leiðsögn, er opin kl. 9-17 alla virka daga. Sjá nánar á vefsíðu Orkusýnar.