Jarðhitafélag Íslands heldur aðalfund sinn þriðjudaginn 30. apríl í höfuðstöðvum Orkuveitu Reykjavíkur. Að loknum venjulegum aðalfundarstörfum fjallar Bjarni Már Júlíusson, verkefnastjóri, um brennisteinsvetni og Þráinn Friðriksson, jarðefnafræðingur hjá ÍSOR, fjallar um förgun affallsvatns frá jarðhitavirkjunum. Sjá nánar á vef Jarðhitafélags Íslands.
Föstudaginn 12. apríl verður opinn ársfundur Orkuveitu Reykjavíkur haldinn í höfuðstöðvum fyrirtækisins að Bæjarhálsi 1. Fjallað verður um stöðu og horfur og m.a. munu tveir gestir ræða hlutverk Orkuveitunnar, þeir Andri Snær Magnason rithöfundur og Þorsteinn Víglundsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Sjá nánar á vef Orkuveitunnar.
Fimmtudaginn 11. apríl stendur Vatns- og fráveitufélag Íslands fyrir málþingi um veika hlekki í vatnsöflun, í samstarfi við Samorku o.fl. Málþingið verður haldið í húsakynnum Háskólans í Reykjavík og hefst kl. 13:00. Fjallað verður um vatnsöflun, vatnsforða, dreifingu o.fl. Sjá dagskrá og upplýsingar um skráningu.
Stefán Már Stefánsson prófessor við Lagadeild Háskóla Íslands fjallar um íslenskar lagareglur, þjóðréttarsamninga, reglur ESB og EES-samningsins, eignarétt og stjórnunarrétt að auðlindum landsins o.fl. á fundi Lagastofnunar miðvikudaginn 20. mars. Sjá nánar á vef HÍ.
Úthlutunarnefnd á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins óskar eftir tilnefningum um fyrirtæki eða stofnun, sem vegna verka sinna og athafna á síðasta ári er þess verðug að hljóta umhverfisviðurkenninguna Kuðunginn fyrir árið 2012. Tillögur berist ráðuneytinu eigi síðar en 3. apríl. Sjá nánar á vef ráðuneytisins.
Gústaf Adolf Skúlason hefur tekið við stöðu framkvæmdastjóra Samorku af Eiríki Bogasyni, sem látið hefur af störfum að eigin ósk. Gústaf hefur gegnt stöðu aðstoðarframkvæmdastjóra samtakanna frá ársbyrjun 2007, en starfaði áður m.a. sem forstöðumaður hjá Samtökum atvinnulífsins, sérfræðingur á skrifstofu Alþingis og sem stundakennari við Háskóla Íslands. Gústaf er stjórnmálafræðingur að mennt, með BA gráðu frá Háskóla Íslands og M.Sc. gráðu frá London School of Economics.
Eiríkur mun áfram sinna verkefnum fyrir Samorku næstu misseri, einkum er varða málefni hita-, vatns- og fráveitna. Hann er rafmagnstæknifræðingur að mennt og hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra Samorku frá stofnun samtakanna árið 1995. Áður gegndi hann m.a. starfi veitustjóra í Vestmannaeyjum og sat í stjórn annars tveggja forvera Samorku, Sambands íslenskra rafveitna. Eiríkur er 66 ára gamall og lætur alfarið af störfum fyrir Samorku í byrjun næsta árs.
Styrkja þarf flutningkerfið verulega á komandi árum ef það á að vera í stakk búið til þess að mæta kröfum nútíma samfélags og ekki hamla þróun byggðar. Meðal annars er byggðalínan fulllestuð og framleiðslugeta sumra virkjana því vannýtt. Takmörkuð flutningsgeta gerir flutningskerfið vanbúið til að takast á við meiriháttar áföll. Gæði og öryggi orkuflutnings fullnægja ekki stöðlum og þessi staða hamlar þróun sumra byggða. Þetta kom fram í erindi Guðmundar Inga Ásmundssonar, aðstoðarforstjóra Landsnets, á aðalfundi Samorku. Hann segir uppbyggingu kerfisins hafa tafist, m.a. vegna andstöðu við háspennulínur. Gera þurfi úrbætur á skipulags- og leyfisferlinu þannig að það verði skilvirkara og tekið verði tillit til markmiða raforkulaga á öllum stigum skipulags- og leyfisferla.
Fiskimjölsverksmiðjur rafvæðast, ef flutningskerfið annar því
Að líkindum verða allar fiskimjölsverksmiðjur landsins rafvæddar á næstu árum að sögn Guðmundar Inga, ef flutningskerfi raforku annar því. Olíukostnaður myndi þá minnka um fimm milljarða á ári og útblástur CO2 um 120 þúsund tonn. Mögulegt er að tveir þriðju þessa magns verði að raunveruleika á næstu þremur árum ef tekst að auka flutningsgetuna til verksmiðjanna.
77 milljarða fjárfesting
Fram kom í erindi Guðmundar Inga að gríðarleg endurnýjun er nauðsynleg við uppbyggingu kerfisins og áætlun gerir ráð fyrir fjárfestingu sem nemur 77 milljörðum króna næstu tíu árin. Þar er miðað við uppbyggingu á loftlínum. Verði farin leið jarðstrengja verður kostnaðurinn mun meiri.
Sjá erindi Guðmundar Inga Ásmundssonar.
Í ávarpi sínu á aðalfundi Samorku fjallaði Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, m.a. um rammaáætlun, eignarhald orkufyrirtækja, sæstreng til Evrópu, orkuskipti og raflínur í jörð. Steingrímur sagðist algerlega ósammála ályktun aðalfundar Samorku þar sem lýst er vonbrigðum með rammaáætlun. Hann fjallaði um tækifæri með orkuútflutningi um sæstreng, en sagði jafnframt að ýmsu að hyggja í því sambandi. Sjá ræðupunkta Steingríms á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.
Ályktun aðalfundar Samorku:
Miklar fjárfestingar framundan – hámörkun arðsemi
Miklar fjárfestingar eru framundan við flutningskerfi raforku, sem þörf er á að efla og endurnýja. Á sama tíma hafa komið fram kröfur um að farin verði leið jarðstrengja í stað loftlína, sem á svo hárri spennu er alla jafna miklum mun dýrari framkvæmd. Aðalfundur Samorku minnir á að verulegur kostnaður við nauðsynlega endurnýjun flutningskerfisins birtist í reikningum til heimila, fyrirtækja og stofnana. Allar ákvarðanir um að fara leiðir sem fela í sér tugi milljarða króna í viðbótarkostnað munu óumflýjanlega endurspeglast í hærri reikningum til sömu aðila.
Þá hvetur Samorka til þess að hérlendis fari fram víðtæk og opin umræða um leiðir til hámörkunar á arðsemi og verðmætasköpun af sölu endurnýjanlegrar orku. Athygli vekur að Norðmenn telja sín tækifæri af sölu endurnýjanlegrar orku jafn verðmæt og af sölu á olíu, en hérlendis er orkugetan í endurnýjanlegri orku þreföld á hvern íbúa miðað við Noreg. Íslendingar búa því að gríðarlegum tækifærum á þessu sviði.
Vonbrigði með rammaáætlun
Aðalfundur Samorku lýsir yfir vonbrigðum með niðurstöðu Alþingis um rammaáætlun, sem víkur í veigamiklum atriðum frá faglegri niðurstöðu verkefnisstjórnar. Margir hagkvæmustu og best rannsökuðu orkukostirnir, sem verkefnisstjórn raðaði ofarlega út frá sjónarhorni nýtingar, höfnuðu ýmist í biðflokki eða verndarflokki. Vandséð er að sátt geti orðið um þessa niðurstöðu, að mati Samorku.