Bretar áhugasamir um sæstreng

Sæstrengur til flutnings á raforku milli Íslands og Bretlands var helsta umfjöllunarefni ráðstefnu Bresk-íslenska verslunarráðsins, sem haldin var í húsakynnum Bloomberg fréttaveitunnar í London. Á ráðstefnunni kom fram að mikill áhugi er á verkefninu í Bretlandi, en erindi fundarins, umfjöllun Bloomberg o.fl. má nálgast hér á vef Bresk-íslenska verslunarráðsins. Þannig greinir Bloomberg frá miklum áhuga fjárfesta á að koma að fjármögnun slíks sæstrengs. Á ráðstefnunni sagðist breski þingmaðurinn og fyrrum orkumálaráðherrann Charles Hendry sannfærður um að í Bretlandi væri pólitískur vilji til staðar til að skoða málið í þaula.

Áhugi hjá National Grid – breska flutningsfyrirtæki raforku
Paul Johnson, forstöðumaður þróunar hjá National Grid (flutningsfyrirtæki raforku í Bretlandi) sagði frekari tengingar um sæstrengi hluta af þeirri lausn sem Bretland þurfi á sviði orkumála, í því skyni að efla orkuöryggi og auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa. Þá sagði hann stýranleika vatnsaflsins nákvæmlega það sem helst vantaði í breska kerfið, enda vindorkan t.d. hverfulli. Johnson sagði sæstreng milli Íslands og Bretlands vera mjög kostnaðarsamt verkefni og að National Grid þyrfti að greina verkefnið mun betur áður en það myndi ákveða að taka þátt í slíkri fjárfestingu. Hann sagði fyrirtækið hins vegar hafa fulla trú á verkefninu, að það væri tæknilega framkvæmanlegt og ætti að geta reynst hagkvæmt fyrir alla aðila.

Sem fyrr segir má nálgast erindi fundarins, umfjöllun Bloomberg o.fl. hér á vef Bresk-íslenska verslunarráðsins. Glærur Paul Johnson eru nr. 18-25 (í pdf-skjalinu með glærum fundarins).

Samráð og lög um náttúruvernd

Fréttablaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar:

Samráð og lög um náttúruvernd

Mikið hefur verið rætt og ritað um allt hið mikla samráð sem viðhaft hafi verið við gerð lagafrumvarps um náttúruvernd á síðasta kjörtímabili. Frumvarpið varð að lögum en gildistökunni var frestað og nú hefur verið boðað að lagt verði til að lögin verði afturkölluð og núgildandi lög, frá árinu 1999, gildi þannig áfram. Samráð er hins vegar teygjanlegt hugtak. Eitt er að gefa aðilum færi á að setja fram sjónarmið, annað er að tekið sé tillit til þeirra sjónarmiða.

Þröngur hópur höfunda
Mikil vinna var lögð í gerð frumvarpsins. Meðal annars var unnin svokölluð hvítbók um náttúruvernd í því sambandi, tæpar 500 blaðsíður að lengd. Hvítbókina vann hins vegar afar þröngur hópur fólks. Starfsfólk umhverfisráðuneytisins og stofnana þess, háskólafólk sem mikið hefur unnið fyrir ráðuneytið og fulltrúi frjálsra félagasamtaka á sviði náttúruverndar. Enginn fulltrúi atvinnulífs, sveitarfélaga, útivistarfólks og þannig mætti áfram telja. Þetta er ekki uppskriftin að víðtækri sátt um þennan málaflokk.

Lítið gert með athugasemdir
Hvítbókin fór í umsagnarferli en óljóst er hvað gert var við umsagnirnar því hún kom aldrei út aftur í breyttu formi. Síðar gaf ráðuneytið út drög að frumvarpi til umsagnar, sem bar öll einkenni hvítbókarinnar hvað sem umsögnum um hana leið. Aftur stóð undirritaður að gerð umsagnar en ekki var að sjá að tekið hefði verið tillit til efnisatriða hennar þegar frumvarpið var síðar lagt fram á Alþingi. Enn hófst þá umsagnarferli en nú á vegum Alþingis. Frumvarpið tók síðan litlum breytingum í meðförum þingsins.

Hér verða ekki raktar þær fjölmörgu og alvarlegu athugasemdir sem Samorka, Samtök atvinnulífsins, Samband íslenskra sveitarfélaga, samtök útivistarfólks og fjöldinn allur af öðrum aðilum gerði við þetta frumvarp. Hér skal það hins vegar áréttað að hið meinta víðtæka samráð sem sagt er hafa verið viðhaft einkenndist allt þetta langa ferli af því sama: Lítið sem ekkert tillit var tekið til ítrekaðra og alvarlegra athugasemda þessara fjölmörgu aðila.

Sæstrengur, stöðuskjal Samorku

Lagning sæstrengs til Evrópu hefur lengi verið til skoðunar á Íslandi. Ljóst er að mikil tækifæri  geta falist í lagningu slíks strengs, en áætlað er að nettó útflutningstekjur gætu orðið allt að 76 milljarðar króna á ári. Um leið er ýmsum spurningum ósvarað og enn mikil óvissa um ýmsar forsendur. Samorka hefur tekið saman stutt skjal um stöðu málsins, þar sem finna má aðgengileg svör við ýmsum algengum spurningum um hugsanleg áhrif af lagningu sæstrengs. Stöðuskjalið má nálgast hér.

Skýrsla GAMMA: Sæstrengur hagkvæmur fyrir íslensk heimili

Íslendingar eru mestu raforkuframleiðendur heims ef miðað er við höfðatölu og hafa álíka hagsmuni af hækkun raforkuverðs og hækkun fiskverðs. Heimilin nýta aðeins 5% raforkunnar, sem er unnin á Íslandi, þar sem 90% landsmanna hafa aðgang að hitaveitu. Með tilkomu sæstrengs mun raforkuverð á Íslandi til heimila áfram vera lágt og jafnvel óbreytt frá því dag kjósi stjórnvöld það. Tiltölulega auðvelt er að endurdreifa hagnaði orkufyrirtækja til heimilanna; til dæmis mætti tryggja þeim óbreytt raforkuverð, lækka skatta eða greiða þeim út arð í einhverju formi. Einnig væri hægt að niðurgreiða sérstaklega raforku til þeirra 9 þúsund heimila er nýta rafkyndingu með svipuðum hætti og gert er nú.

Tvöföldun tekna Landsvirkjunar gæti skilað tekjuauka til íslensks samfélags upp á um 40 milljarða á ári, sem jafngildir um það bil árlegu heildarframlagi ríkisins til reksturs á Landspítalanum. Þetta kemur fram í skýrslu sem fjármálafyrirtækið GAMMA vann fyrir Landsvirkjun til að greina áhrif sæstrengs á hag íslenskra heimila. Sjá nánar hér á vef Landsvirkjunar.

Ný virkjun í Glerá

Framkvæmdastjóri Fallorku ehf. og bæjarstjórinn á Akureyri hafa undirritað samning um að Fallorka reisi og reki 3,3 MW vatnsaflsvirkjun í Glerá ofan bæjarins. Meginmarkmið með framkvæmdinni er að nýta endurnýjanlega náttúruauðlind til að framleiða raforku á hagstæðu verði fyrir viðskiptavini Fallorku sem eru að stórum hluta Akureyringar, að því er fram kemur í frétt hér á vef Akureyrarbæjar.