Ljósastauraútboð Samorku

Föstudaginn 14. febrúar voru opnuð tilboð í ljósastaura sem Samorka stóð að fyrir hönd dreifiveitna rafmagns. Sjö boð bárust og voru upphæðirnar frá kr. 88 milljónum til 120 milljóna. Unnið er að yfirferð og samanburði á tilboðunum og verður fljótlega gengið til samninga við þann bjóðanda sem best kemur út úr þeirri skoðun.

Landsnet og PCC semja um orkuflutning fyrir kísilver á Bakka

Landsent hefur undirritað samkomulag um raforkuflutninga við PCC BakkiSilicon hf., dótturfyrirtæki þýska félagsins PCC SE, sem hyggst byggja kísilver á Bakka við Húsavík. Þetta er fyrsti samningurinn sem Landsnet gerir vegna fyrirhugaðrar iðnaðaruppbyggingar á Bakka. Áætluð aflþörf fyrsta áfanga verksmiðunnar er 52 megavött (MW) og miðast samkomulagið við að starfsemin hefjist árið 2017. Sjá nánar á vef Landsnets.

Menntafyrirtæki ársins?

Samtök atvinnulífsins (SA), Samorka og önnur aðildarfélög SA efna til Menntadags atvinnulífsins mánudaginn 3. mars 2014 á Hilton Reykjavík Nordica kl. 12.30-16.30. Menntun og fræðsla sem nýtist öllu atvinnulífinu verður þar í kastljósinu en þetta er í fyrsta sinn sem fulltrúar ólíkra atvinnugreina halda sameiginlegan menntadag.

Efling menntunar á öllum skólastigum og framhaldsfræðslu er brýnt hagsmunamál fyrirtækja og eykur samkeppnishæfni þeirra. Á Menntadeginum munu forsvarsmenn fjölbreyttra fyrirtækja fjalla um mikilvægi menntunar starfsfólks og nauðsynlegar breytingar á menntakerfinu. Greint verður frá könnun um viðhorf framhaldsskólanema til bóknáms og verknáms og erlendar fyrirmyndir skoðaðar.

Á menntadeginum verða Menntaverðlaun atvinnulífsins veitt í fyrsta sinn til fyrirtækja sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála. Óskað er eftir tilnefningum um fyrirtæki til að vera tilnefnt annað hvort til verðlauna sem Menntafyrirtæki ársins eða Menntasproti ársins. Þrjú fyrirtæki verða tilnefnd í hvorum hópi.

Menntafyrirtæki ársins:
Fyrirtæki sem verða tilnefnd til verðlauna sem Menntafyrirtæki ársins þurfa að leggja áherslu á mikilvægi menntunar. Í fyrirtækinu verður að vera til staðar skýr mennta- og fræðslustefna og henni fylgt eftir. Við mat á tilnefningum verða gæði fræðslunnar metin og kannað hvort mennta- og fræðslustefnan hafi eflt menntun innan fyrirtækisins og jafnframt aukið  samkeppnisforskot þess.

Menntasproti árins:
Verkefni eða fyrirtæki sem verða tilnefnd til verðlauna sem Menntasproti ársins þurfa að hafa aukið áherslu á fræðslu- og menntamál innan fyrirtækisins. Við mat á tilnefningum verður skoðað hvort farnar hafi verið nýjar leiðir við eflingu menntunar innan fyrirtækisins og hver aukningin er í þátttöku starfsmanna.

Gerð verða stutt kynningarmyndbönd um fyrirtækin sex sem verða tilnefnd til Menntaverðlauna atvinnulífsins. Þar verður sérstaða þeirra dregin fram og fyrirmyndarstarf þeirra kynnt í aðdraganda Menntadagsins og á deginum sjálfum. Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, mun tilkynna um sigurvegara á Menntadeginum og afhenda verðlaun í hvorum flokki fyrir sig.

Vinsamlegast sendið tilnefningar í tölvupósti á sa@sa.is ekki síðar en 26. janúar 2014, merkt Menntadagur – tilnefning.

Orka náttúrunnar tekur til starfa

Um áramót tók Orka náttúrunnar við rekstri virkjana Orkuveitu Reykjavíkur og allri raforkusölu. Fyrirtækið er opinbert hlutafélag alfarið í eigu Orkuveitunnar og er sett á fót til að uppfylla ákvæði raforkulaga um aðskilnað sérleyfis- og samkeppnistarfsemi. Viðskiptavinir Orku náttúrunnar eru um 75.000 talsins og eru viðskiptin misjafnlega umfangsmikil, allt frá heimilum til álvers. Framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar er Páll Erland. Sjá nánar á vef ON.

Norðurorka tekur yfir fráveitu Akureyrarbæjar

Norðurorka hf. hefur tekið yfir rekstur á fráveitu Akureyrarbæjar. Sameining veitna á Akureyri hefur gerst í nokkrum áföngum. Árið 1993 voru Vatnsveita Akureyrar og Hitaveita Akureyrar sameinaðar og árið 2000 bættist Rafveita Akureyrar við og til varð sameinað veitufyrirtæki Akureyringa, Norðurorka. Síðan þá hafa veitur í nágrannasveitarfélögum sameinast Norðurorku hf. og verulegur árangur náðst með bættri nýtingu allra forða fyrirtækisins og framlegð aukist verulega á tímabilinu. Sjá nánar á vef Norðurorku.

Sæstrengur: Hefjum könnunarviðræður

Fréttablaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar:

Sæstrengur: Hefjum könnunarviðræður

Margt hefur verið rætt og ritað að undanförnu um lagningu raforkustrengs til Evrópu. Í grein í Fréttablaðinu þann 16. desember lýsir Páll J. Pálsson alþingismaður t.d. verulegum efasemdum um slíkar hugmyndir. Varar hann meðal annars við umræðu um auðfenginn gróða, minnir á háan stofnkostnað og varar við áhrifum á raforkuverð hér innanlands og þrýstingi um auknar virkjanaframkvæmdir.

Hér skal tekið undir það að tilkoma 700-900 MW sæstrengs myndi væntanlega hafa einhver áhrif til hækkunar á raforkuverðum hér innanlands. Í ljósi hærri orkuverða í gegnum sæstrenginn myndu jafnframt tilteknir virkjanakostir verða hagkvæmir, sem ekki eru það í dag. Erfitt er þó að fullyrða um þessi verðáhrif enda flutningsgeta strengsins takmörkuð og þá er sjálf orkan og sala hennar gjarnan innan við helmingur raforkureikninga heimila og fyrirtækja (afgangurinn er flutningur, dreifing og skattar). Loks eru ýmsar leiðir til að endurdreifa auknum hagnaði orkuframleiðenda til eigenda sinna, sem í flestum tilvikum er íslenskur almenningur. Hvað stofnkostnaðinn varðar þá eru ýmsir möguleikar uppi varðandi fjármögnun sæstrengs, en allir byggja þeir þó á aðkomu erlends áhættufjármagns. Enginn er að leggja til að íslenska ríkið fjármagni eða ábyrgist slíka framkvæmd.

Fyrir liggur að bresk stjórnvöld hafa sýnt málinu áhuga. Fyrir liggur sú stefna breskra stjórnvalda að hvetja til aukinna fjárfestinga í orkuframboði, ekki síst á sviði endurnýjanlegrar orku. Fyrir liggur að bresk stjórnvöld hafa lýst sig reiðubúin að tryggja þar ákveðin lágmarksverð til langs tíma, allt að 35 ára. Fyrir liggur að umrædd verð eru líklega margfalt hærri en íslensk orkufyrirtæki eru að afla í dag. Loks liggur fyrir að íslenskir orkuframleiðendur myndu að sjálfsögðu aldrei fá alla þessa upphæð beint til sín, verulegur hluti verðsins myndi ávallt renna til þeirra sem fjármagna sæstrenginn.

Fleiri tugir milljarða?
Hagfræðistofnun Háskóla Íslands metur það svo að ávinningurinn gæti orðið verulegur, eða nettó útflutningstekjur á bilinu 4-76 milljarðar króna á ári. Það er afar breitt bil. Leiðin til að þrengja þetta bil vegna ákvörðunartöku er meðal annars fólgin í því að taka upp könnunarviðræður við bresk stjórnvöld annars vegar, og að kanna möguleika varðandi aðkomu fjárfesta að verkefninu hins vegar. Verði niðurstaðan t.d. helmingur efri markanna í mati Hagfræðistofnunar, eða um 40 milljarðar í nettó útflutningstekjur á ári, til fyrirtækja sem flest eru í eigu almennings, þá hefur verið lagt upp í leiðangra af mun minna tilefni. Leiði slík athugun lítil tækifæri í ljós þá er a.m.k. kominn raunverulegur grundvöllur fyrir ákvörðun um að leggja þessa umræðu til hliðar. Slíkan grundvöll ákvarðanatöku í þessu máli finnum við Íslendingar ekki í samtali við okkur sjálf.

Höfum það loks hugfast að áætlað er að um 40% af orkusölunni um strenginn yrði orka sem í dag nýtist ekki hérlendis, orkugeta sem þarf að vera til staðar í kerfinu sem eins konar varaafl í okkar enn sem komið er lokaða raforkukerfi.

160 formleg erindi vegna einnar virkjunar

Á 10 ára tímabili voru send 160 formleg erindi til stjórnsýslustofnana vegna leyfiveitingaferla fyrir Hellisheiðarvirkjun. Þetta kom m.a. fram í erindi Auðar Andrésdóttur, sviðsstjóra hjá Mannviti, sem kynnti vinnu starfsskilyrðahóps Jarðvarmaklasans á haustfundi Jarðhitafélags Íslands sem haldinn var í samvinnu við Íslenska orkuháskólann. Á vettvangi klasans er unnið að tillögum til úrbóta á sviði leyfiveitingaferla. Sjá erindi fundarins á vef Jarðhitafélagsins.