Samtök atvinnulífsins ásamt SVÞ, SAF, SF, LÍÚ, SFF, SI, og Samorku og efna til Menntadags atvinnulífsins mánudaginn 3. mars 2014 á Hilton Reykjavík Nordica kl. 13-16.30. Menntun og fræðsla sem nýtist öllu atvinnulífinu verður þar í kastljósinu en þetta er í fyrsta sinn sem fulltrúar ólíkra atvinnugreina halda sameiginlegan menntadag. Sjá nánar á vef Samtaka atvinnulífsins.
Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra mun í næsta mánuði funda með orkumálaráðherra Bretlands, m.a. til að ræða um hugsanlegan raforkustreng milli Íslands og Bretlands. Þetta kom fram í ávarpi ráðherra á aðalfundi Samorku. Ráðherrann tók undir með ályktun aðalfundar Samorku og sagði mikilvægt að skoða forsendur þessa verkefnis vel og vandlega. Hún sagði vinnu þegar hafna í ráðuneytinu á grundvelli álits ráðgjafarhóps og nefndarálits atvinnuveganefndar Alþingis og tók fram að hún teldi rétt að forræði málsins færðist algerlega til stjórnvalda.
Ragnheiður Elín tók jafnframt undir með ályktun aðalfundar Samorku um mikilvægi þess að sátt næðist um rammaáætlun. Sagðist hún ekki hafa farið leynt með að henni þætti nauðsynlegt að endurskoða nokkur atriði þeirrar rammaáætlunar sem samþykkt var á liðnu ári, á skjön við faglega vinnu sem unnin var fyrir meðferð málsins á Alþingi.
Loks fjallaði ráðherrann um mikilvægi uppbyggingar flutningskerfis raforku á Íslandi og í því sambandi m.a. um væntanlegt frumvarp til breytinga á raforkulögum þar sem efla á formlega stöðu kerfisáætlunar Landsnets.
Erindi ráðherra er væntanlegt á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.
Ísland er mjög dreifbýlt land og víðast hvar er viðtaki frárennslis mjög öflugur miðað við byggðina. Hlutfallslega er mikið vatn í frárennsli hérlendis, sem stafar af mikilli vatnsnotkun auk húshitunar með jarðhitavatni. Mikilvægt er að bæta mat á viðtökum og ákvæðum um þynningarsvæði. Ef viðtakinn (yfirleitt sjórinn) ræður við að taka við öllu lífræna efninu, til hvers þá að leggja í mikinn kostnað með tilheyrandi mengun til að fanga, flytja og urða hluta þess?
Þetta er meðal þess sem fram kom í erindi Reynis Sævarssonar, fagstjóra vatns- og fráveitna hjá Eflu verkfræðistofu, á aðalfundi Samorku. Reynir segir jafnframt mikilvægt að tryggja að regluverkið loki ekki á grænar lausnir í skólphreinsun, sem mikið eru notaðar í nágrannalöndum okkar en nánast ekkert hérlendis. Þá sé óraunhæft að gera sömu kröfur til sjávarþorpa hérlendis og gerðar séu til borga í miðri Evrópu, t.d. hvað varðar gerla og lífræna mengun.
Sjá erindi (glærur) Reynis.
Um helming allra 900 ársverka á íslenskum verkfræðistofum og ráðgjafarfyrirtækjum má rekja til orkutengdra verkefna. Þar af eru tæp 150 ársverk í erlendum verkefnum. Alls starfa um eitt þúsund verkfræðingar, tæknifræðingar og raunvísindafólk hjá orkufyrirtækjum, veitufyrirtækjum og í orkutengdum greinum hérlendis. Þá er fróðlegt að sjá hvernig fjöldi nemenda í verk- og tæknifræði hefur þróast algjörlega í takti við aukna raforkuframleiðslu í landinu. Þetta kom fram í erindi Guðrúnar Sævarsdóttur, forseta verk- og tæknifræðideildar Háskólans í Reykjavík, á aðalfundi Samorku.
Guðrún segir þekkingarstörf ekki verða til í tómarúmi. Uppbygging þekkingar kringum grunnatvinnuvegi leiði af sér tækifæri á öðrum sviðum og orkugeirinn hafi byggt upp sterkan þekkingargrunn á Íslandi.
Sjá erindi (glærur) Guðrúnar.
Ályktun aðalfundar Samorku, 21. febrúar 2014:
Tenging við raforkukerfi Evrópu verði skoðuð af alvöru
Tenging Íslands við raforkukerfi Evrópu hefur nú verið til skoðunar um nokkurra ára skeið. Í júní í fyrra skilaði ráðgjafarhópur iðnaðar- og viðskiptaráðherra skýrslu um raforkustreng til Evrópu þar sem kemur fram að „vísbendingar [séu] um að slík framkvæmd gæti reynst þjóðhagslega arðsöm að nokkrum skilyrðum uppfylltum, m.a. ef tækist að semja við gagnaðila um hagstæð kjör á seldri orku með tiltölulega miklu öryggi og til nokkuð langs tíma.“ Ráðgjafarhópurinn lagði einróma til að könnunarviðræður verði hafnar við breska hagsmunaaðila til þess að skýra betur hvort hægt sé að ná samkomulagi um raforkusölu um sæstreng og í framhaldi af því meta þjóðhagsleg áhrif og áhættu verkefnisins.
Verkefnið yrði stærsta og flóknasta fjárfesting í sögu landsins og gæti haft mikil jákvæð áhrif á íslenskt samfélag. Fjölmörgum áleitnum spurningum er hins vegar enn ósvarað, t.d. hvaðan kæmi orkan, áhrif á raforkuverð á Íslandi og áhrif á starfsumhverfi orkufreks iðnaðar. Samorka hvetur til þess að málið verði skoðað af mikilli alvöru og forsendur verkefnisins treystar áður en ákvörðun er tekin um hvort ráðast eigi í það.
Raunhæfar kröfur til fráveiturekstrar
Dæmi eru um að hér séu kröfur til meðhöndlunar á fráveituvatni mun stífari en þekkjast í okkar samanburðarlöndum, en þó með afar takmarkað umhverfisverndargildi. Þannig eru dæmi um 250% stífari kröfur er varða hreinsun á fráveituvatni sem losa á í yfirborðsvatn, en gerðar eru til hreinleika baðvatns í Evrópusambandinu. Samorka leggur áherslu á mikilvægi þess að hér séu gerðar raunhæfar kröfur til þessa rekstrar, þannig að uppfyllt verði eðlileg skilyrði en ekki gerðar kröfur að nauðsynjalausu sem hafa í för með sér fjárfestingar umfram eðlilega fjárfestingargetu veitufyrirtækja og sveitarfélaga.
Loks ítrekar Samorka mikilvægi þess að sátt náist um rammaáætlun og um nauðsynlega uppbyggingu á flutningskerfi raforku.
Á aðalfundi Samorku voru endurkjörin til setu í stjórn samtakanna þau Guðrún Erla Jónsdóttir framkvæmdastjóri Orkuveitu Húsavíkur, Kristján Haraldsson orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða og Þórður Guðmundsson forstjóri Landsnets. Þá var Helgi Jóhannesson forstjóri Norðurorku endurkjörinn sem varamaður í stjórn. Öll voru þau kjörin til tveggja ára.
Áfram sitja jafnframt í stjórn, kjörnir til tveggja ára á aðalfundi 22. febrúar 2013:
Aðalmenn:
Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK, formaður stjórnar
Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar
Júlíus J. Jónsson, forstjóri HS Veitna
Varamenn:
Dagur Jónsson, vatnsveitustjóri Vatnsveitu Hafnarfjarðar
Guðmundur Davíðsson, framkvæmdastjóri Hitaveitu Egilsstaða og Fella
Jarðlagnanámskeið Samorku var haldið mánudaginn 17. febrúar síðastliðinn. Námskeiðið var vel sótt, yfir 60 manns tóku þátt, og komust mun færri að en vildu.
Samorka vill koma á framfæri þökkum, bæði til þátttakenda, og til leiðbeinenda fyrir framúrskarandi fyrirlestra. Ennfremur þakkar Samorka Orkuveitu Reykjavíkur fyrir góða samvinnu við að halda námskeiðið.
Vegna mikillar eftirspurnar er nú til skoðunar að halda námskeiðið aftur á næstunni og er frekari fregna að vænta af því.
Fyrir hönd Samorku
Sigurjón N. Kjærnested – Framkvæmdastjóri veitusviðs
Menntaverðlaun atvinnulífsins verða veitt í fyrsta sinn mánudaginn 3. mars, á menntadegi atvinnulífsins á Hilton Reykjavík Nordica, til fyrirtækja sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála. Fjögur fyrirtæki eru tilnefnd sem Menntafyrirtæki ársins og fjögur fyrirtæki eru tilnefnd sem Menntasproti ársins, Landsnet þar á meðal. Sjá nánar á vef Samtaka atvinnulífsins.
Aðalfundur Samorku verður haldinn á Grand Hótel Reykjavík föstudaginn 21. febrúar. Venjuleg aðalfundarstörf hefjast kl. 11:00, en skráning kl. 10:30.
13:30 Opin dagskrá aðalfundar Samorku
Setning: Tryggvi Þór Haraldsson, formaður Samorku
Ávarp: Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra
Erindi: Orkugeirinn, veitufyrirtæki og tækniþekking á Íslandi
Guðrún A. Sævarsdóttir, forseti tækni- og verkfræðideildar
Háskólans í Reykjavík
Erindi: Raunhæfar kröfur til fráveiturekstrar
Reynir Sævarsson, fagstjóri vatns- og fráveitna, Eflu verkfræðistofu
15:00 Kaffiveitingar í fundarlok
Landsnet hefur tekið í notkun nýtt launaflsvirki við Grundartanga. Þetta er stærsta einstaka verkefni Landsnets á liðnum árum og nam heildarkostnaður rúmum tveimur milljörðum króna. Launaflsvirkið bætir verulega rekstur raforkuflutningskerfis Landsnets, eykur afhendingaröryggi og gerir Landsneti kleift að flytja meiri orku inn á Grundartangasvæðið. Sjá nánar á vef Landsnets.