Landsvirkjun og PCC Bakki Silicon undirrita raforkusölusamning

Landsvirkjun og fyrirtækið PCC Bakki Silicon hf hafa undirritað samning um sölu raforku. Samkvæmt samningnum mun Landsvirkjun útvega rafmagn fyrir kísilmálmverksmiðju sem PCC Bakki Silicon áformar að reisa við Bakka við Húsavík. Gert er ráð fyrir að verksmiðjan hefji starfsemi snemma á árinu 2017. Verksmiðjan mun framleiða allt að 36 þúsund tonn af kísilmálmi og nota 58MW af afli sem unnið verður með endurnýjanlegum hætti í jarðvarma- og vatnsaflsvirkjunum. Sjá nánar á vef Landsvirkjunar.

Norræna drykkjarvatnsráðstefnan – Opnað fyrir skráningu

Opnað hefur verið fyrir skráningu á norrænu drykkjarvatnsráðstefnuna, sem haldin verður í níunda skiptið í Helsinki í Finnlandi 2.-4. júní næstkomandi.

Nánari upplýsingar má finna a heimasíðu ráðstefnunnar eða í meðfylgjandi bækling.

Forskráningu lýkur 31. mars og eru þeir sem hafa áhuga á að taka þátt hvattir til að nýta sér hagstæðari kjör sem fylgja henni. Tekin hafa verið frá hótelherbergi fyrir tilvonandi þátttakendur á ráðstefnunni og er hægt að nálgast upplýsingar um þau í meðfylgjandi bækling eða hjá Samorku.

Þess má geta að Samorka tekur þátt í skipulagningu ráðstefnunnar, en fyrir hönd fagsviðs vatnsveitna Samorku
situr Sigurjón N. Kjærnested í skipulagsnefnd fyrir ráðstefnuna.

 

Ársfundur SvensktVatten 2014

Ársfundur SvensktVatten, sænsku vatns- og fráveitusamtakanna, árið 2014 fer fram 13.-14. maí næstkomandi í borginni Jönköping.

Dagskrá fundarins í ár einkennist af því að kosningaár er í Svíþjóð og því verða tekin fyrir ýmis mál sem tengast aðkomu stjórnvalda að vatns- og fráveitumálum.

Frekari upplýsingar um fundinn og skráningu má finna á heimasíðu samtakanna.

Búðarhálsstöð gangsett

Búðarhálsstöð, nýjasta aflstöð Íslendinga, hefur verið gangsett. Stöðin er staðsett á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu og verður rekin samhliða öðrum aflstöðvum Landsvirkjunar á svæðinu. Uppsett afl hennar er 95 MW og hún framleiðir um 585 GWst af rafmagni á ári inn á orkukerfi landsmanna. Sjá nánar á vef Landsvirkjunar.

Orka náttúrunnar setur upp tíu hraðhleðslustöðvar

Þriðjudaginn 11. mars mun Orka náttúrunnar taka í notkun fyrstu hraðhleðslustöð fyrir rafbíla hér á landi, við höfuðstöðvar fyrirtækisins að Bæjarhálsi 1. Stöðin er sú fyrsta af tíu sem komið verður upp á næstu mánuðum víðsvegar um sunnan- og vestanvert landið og er átakið unnið í samstarfi við B&L og Nissan í Evrópu. Jafnframt heldur ON málþing í tengslum við opnunina sem hægt er að skrá sig á hér á vef fyrirtækisins.

Framúrskarandi árangur Blöndustöðvar í sjálfbærri nýtingu vatnsafls

Nýleg úttekt á rekstri Blöndustöðvar Landsvirkjunar, sem unnin var samkvæmt alþjóðlegum matslykli um sjálfbærni vatnsaflsvirkjana (Hydropower Sustainability Assessment Protocol), leiddi í ljós að Blöndustöð hefur náð framúrskarandi árangri hvað varðar sjálfbæra nýtingu vatnsafls. Á mörgum sviðum þykja starfsvenjur Blöndustöðvar þær bestu sem fyrirfinnast. Sjá nánar á vef Landsvirkjunar.

Vísindadagur OR og ON

Vísindadagur Orkuveitu Reykjavíkur og Orku Náttúrunnar verður haldinn á Bæjarhálsi 1 föstudaginn 14. mars. Kynnt verða áhugaverð rannsóknar­verkefni sem unnin eru í samvinnu við Orkuveituna og Orku náttúrunnar. Allir eru velkomnir og aðgangur ókeypis.

Fyrir skráningu og nánari upplýsingar, sjá á vef Orkuveitunnar