Hitaveitur spara landsmönnum 112 milljarða á ári, í erlendum gjaldeyri

Ef borið er saman við olíukyndingu spöruðu landsmenn alls um 2.300 milljarða króna (í erlendum gjaldeyri) á árunum 1914 – 2012, núvirt, með notkun jarðhita til húshitunar. Sparnaður ársins 2012 nam 112 milljörðum króna, yfir 6% af landsframleiðslu. Þetta má lesa í ársskýrslu Orkustofnunar fyrir árið 2013 (sjá bls. 13). Hreinna andrúmsloft er síðan mikilvægur bónus í þessu sambandi.

Raforkukerfi í vanda

Fréttablaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar:

 

Raforkukerfi í vanda

Nú berast fregnir af fjölda áhugasamra fjárfesta sem margir munu þurfa á talsverðri raforku að halda, náist samningar um orkukaup. Ýmsir álitlegir virkjanakostir eru til staðar, þótt margir þeirra hafi ratað niður lista rammaáætlunar eftir að faglegri vinnu fyrri verkefnisstjórnar lauk. Dæmi eru um að öflug iðnfyrirtæki og fiskimjölsverksmiðjur óski eftir aukinni raforku hið fyrsta. Alla jafna er næg orka til í kerfinu til að mæta slíkum óskum, en þá þarf einnig að vera hægt að flytja orkuna. Hvað stærri viðskiptavini varðar þá er til lítils að reisa nýjar virkjanir ef ekki er hægt að flytja orkuna til kaupandans.

Hamlar þróun atvinnulífs
Nú er svo komið að flutningskerfi raforku annar víða ekki þeirri eftirspurn sem til staðar er og hamlar það þannig þróun atvinnulífs og byggðar. Framleiðslugeta sumra virkjana er vannýtt, heilir landshlutar búa við takmarkanir í flutningsgetu og ekki er hægt að flytja orku þaðan sem hún er næg yfir til annarra landshluta vegna veikleika í flutningskerfinu. Ekki verður flutningsfyrirtækið, Landsnet, sakað um skort á framkvæmdavilja. Skipulags- og leyfisferlin eru hins vegar afar tafsöm og margir aðilar sem geta komið í veg fyrir eða tafið framkvæmdir.
 
Þá hefur andstaða við háspennulínur farið vaxandi og víða eru gerðar kröfur um að flutningskerfið verði lagt í jörðu. Nú er reyndar svo komið að meginþorri dreifikerfis raforku, á lægri spennu, er þegar í jörðu hérlendis og nær öll endurnýjun sem fram fer á kerfinu er í formi jarðstrengja. Kostnaður við lagningu jarðstrengja á hárri spennu (220 kV) er hins vegar alla jafna margfalt hærri en við lagningu háspennulína. Raunar geta strengirnir haft mun meiri og óafturkræfari umhverfisáhrif en háspennulínur, svo sem ef grafa þarf margra metra breiða skurði gegnum hraun, en það er önnur umræða. Landsneti ber samkvæmt ákvæðum raforkulaga að byggja flutningskerfið upp á hagkvæman hátt og fyrirtækið því ekki í stöðu til þess að taka ákvarðanir um margfalt kostnaðarsamari fjárfestingar en ella, án stefnumörkunar þess efnis af hálfu stjórnvalda.
 
Staðan er því þannig að á meðan ekki er mörkuð skýr opinber stefna um jarðstrengi eða loftlínur og að óbreyttu skipulags- og leyfisferli mun flutningskerfi raforku áfram, og í vaxandi mæli, hamla þróun atvinnulífs og byggðar víða um land. Sem dæmi má nefna allan þorra Norður- og Austurlands.

Jarðarstund og íslensk orka

Laugardaginn 29. mars er svokölluð Jarðarstund (Earth Hour) skipulögð í þúsundum borga um heim allan. Um er að ræða öflugt framtak skipulagt af umhverfissamtökunum World Wildlife Fund og er tilgangur þess að minna fólk á stöðu loftslagsmála og hlýnun jarðar, m.a. með því að draga úr notkun raflýsingar. Losun gróðurhúsalofttegunda stafar öðru fremur af brennslu jarðefnaeldsneyta og víða um heim er raforka unnin með brennslu þeirra. Hér á landi eru dæmi um aðila sem hyggjast sýna þessu góða framtaki stuðning í verki. Ólíkt flestum öðrum ríkjum búum við Íslendingar hins vegar svo vel að hér er öll raforka (99,9%) framleidd með nýtingu vatnsafls eða jarðhita. Við Íslendingar getum því kveikt okkar ljós án nokkurra áhrifa á andrúmsloft jarðar, en við deilum þessu andrúmlofti með öllu mannkyninu og hljótum því að fagna þessu góða framtaki víða um heim.

Málþing VAFRÍ um vatns- og fráveitumál

Vatns- og Fráveitufélag Íslands (VAFRÍ) stendur fyrir málþingi um nýjar rannsóknir og stefnur í vatns- og fráveitumálum þriðjudaginn 8. apríl frá kl. 15-16:30 í HT-101 í Háskólatorgi. Reynir Sævarsson, fagstjóri vatns- og fráveitna hjá EFLU, mun kynna verkefni sem styrkt var af Nýsköpunarsjóði námsmanna um hreinsun frárennslis á köldum svæðum. Síðan mun Sveinn Þórólfsson, prófessor í NTNU Noregi, fjalla um orku í vatns- og fráveitum sem tengist höfuðþema dags vatnsins í ár. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu VAFRÍ.

ESB-ríkin með 14% hlut endurnýjanlegrar orku, Ísland með 76%

Hlutur endurnýjanlegra orkugjafa í endanlegri orkunotkun aðildarríkja ESB var að meðaltali 14,1% árið 2012, samkvæmt nýbirtum tölum evrópsku hagstofunnar Eurostat. Er þetta aukning um 8,3% frá árinu 2004. Flest aðildarríkin hafa náð ágætum árangri í að auka þetta hlutfall í samræmi við áætlun ESB fyrir hvert ríki, en sem kunnugt er stefnir ESB á að meðaltalið verði 20% árið 2020. Um þessar mundir er rætt um nýtt markmið fyrir árið 2030 og hefur framkvæmdastjórnin lagt til að stefnt verði á 27%.

Hæsta hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í orkunotkun innan ESB er í Svíþjóð eða 51%, en næst kemur Lettland með 36%, Finnland með 34% og Austurríki með 32%. Lægst er hlutfallið á Möltu, 1,4%, en næst koma Lúxemborg með 3,1% og Bretland með 4,2%. Öll eiga þessi þrjú ríki langt í langt að ná sínum markmiðum fyrir árið 2020. Til samanburðar má geta þess að á Íslandi er þetta hlutfall 76% og í Noregi er það 64,4%. Á Íslandi eru 99,9% allrar raforku framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum sem og um 99% allrar orku til húshitunar, en við flytjum inn jarðefnaeldsneyti einkum til notkunar í samgöngum og sjávarútvegi.

Sjá tölur Eurostat um hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í aðildarríkjum ESB.

Traustur rekstur og sterkari fjárhagur Orkuveitu Reykjavíkur

Hagræðing í rekstri Orkuveitu Reykjavíkur og umfangsmiklar ráðstafanir, sem stjórn fyrirtækisins og eigendur þess (Reykjavíkurborg, Akraneskaupstaður og Borgarbyggð), samþykktu á árinu 2011 hafa skilað mun meiri og skjótari árangri en gert var ráð fyrir þá. Rekstrarhagnaður ársins 2013 var 17,2 milljarðar króna, skuldir lækkuðu um tæpa 40 milljarða og eigið fé jókst um rúma 20 milljarða króna á árinu. Frekari upplýsingar um ársreikning Orkuveitu Reykjavíkur árið 2013 má finna á heimasíðu Orkuveitunnar.

Knýjandi þörf á stefnumótun stjórnvalda í jarðstrengjamálum

Á meðan niðurstaða fæst ekki í stefnumótun í jarðstrengjamálum er þess ekki að vænta að frekari uppbygging hefjist á næstunni í meginflutningskerfis raforku á Íslandi. Brýnt er því að stjórnvöld marki sem allra fyrst stefnu sem Landsnet getur haft að leiðarljósi í þessu mikilvæga máli, því rekstur raforkukerfisins er orðinn óviðunandi og aðgangur að öruggri raforku háður búsetu.

Þetta er meðal þess sem fram kom á almennum kynningarfundi sem fram fór samhliða aðalfundi Landsnets. Sjá nánar á heimasíðu Landsnets.

Vatn og orka – Dagur vatnsins 2014

Grein Sigurjóns N. Kjærnested í Bændablaðinu

Á laugardaginn næstkomandi, 22. mars, verður haldinn hátíðlegur alþjóðlegur dagur vatnsins, en haldið er upp á hann á hverju ári um heim allan í þeim tilgangi að vekja athygli á mikilvægi vatnsauðlindarinnar og sjálfbærri nýtingu hennar.  Í ár er þema dagsins „ vatn og orka“,  með áherslu á mikilvægi vatns við flutning og framleiðslu á orku á sjálfbæran hátt. Af þessu tilefni er gagnlegt fyrir okkur Íslendinga að horfa yfir sviðið og meta hvar við stöndum í þessum málum, sérstaklega í ljósi þess að undanfarin ár hefur talsvert borið á gagnrýni á nýtingu orkuauðlinda hérlendis.  Öll málefnaleg gagnrýni á auðvitað rétt á sér og getur veitt hollt aðhald. En hvar stöndum við Íslendingar í þessu samhengi?

Þegar staðreyndirnar eru skoðaðar kemur fljótt og skýrt í ljós að þegar kemur að framleiðslu og flutningi orku á sjálfbæran hátt erum við á margan hátt í algerum sérflokki. Má þar t.d. skoða hitaveiturnar okkar. Á árinu 2012 var hlutfallsleg skipting húshitunar á Íslandi þannig að rúm 89% nýttrar orku var í formi jarðhita og 10% með rafmagni, þ.e. yfir 99% af orku nýttrar til húshitunar á Íslandi var í formi endurnýjanlegrar orku. Árið 1970 var þetta sama hlutfall um 53% með olíu, 5% með rafmagni og 42% með jarðhita.  Jákvæðar afleiðingar þessarar þróunar eru m.a. gríðarlegur gjaldeyrissparnaður fyrir þjóðina, lægri kostnaður heimila vegna húshitunar og mun minni losun á gróðurhúsalofttegundum.

Það sem hefur verið umdeildara en nýting jarðvarmaorku til húshitunar er virkjun hennar og vatnsafls til rafmagnsframleiðslu. Þrátt fyrir að kannanir sýni að mikill meirihluti landsmanna sé fylgjandi nýtingu bæði vatnsaflsins og jarðvarmans, þá hefur gagnrýni á nýtingu þeirra á tíðum verið áberandi, sérlega í fjölmiðlum. Þess vegna er svo áhugavert að skoða hvernig haldið er upp á dag vatnsins á alþjóðavettvangi. Á þessu ári sameinast alþjóðlegar stofnanir, stjórnvöld, fyrirtæki og umhverfisverndarsamtök víða um heim í þeirri viðleitni að vekja athygli á og styðja við flutning og framleiðslu á orku með vatni, á sjálfbæran hátt. Sem er nákvæmlega það sem við gerum hér á landi og þar sem við stöndum svo framarlega.  Staðreyndirnar tala sýnu máli:

  • Við nánast alla rafmagnsframleiðslu hér á landi er notast við endurnýjanlegar orkuauðlindir. Hlutfall endurnýjanlegrar orku af heildarframleiðslu rafmagns, sem Evrópuþjóðir berjast við að ná upp í 20%, er nánast 100% hjá okkur.
  • Yfir 85% frumorkunotkunar á Íslandi er endurnýjanleg orka – og þá er tekið tillit til allrar orkunotkunar í hvaða formi sem er. Þessi tala mun svo með tímanum breytast til batnaðar, með aukinni notkun raforku í samgöngum.
  • Íslensk orkufyrirtæki eru í fremstu röð í heiminum þegar kemur að sjálfbærri nýtingu vatnsaflsins. Má þar nefna sem dæmi nýlega úttekt á rekstri Blöndustöðvar Landsvirkjunar, sem unnin var af erlendum sérfræðingum samkvæmt alþjóðlegum matslykli um sjálfbærni vatnsaflsvirkjana. Þar kom í ljós að m.t.t. sjálfbærrar nýtingar er Blönduvirkjun framúrskarandi – í raun með einn hæsta árangur í slíktri úttekt sem um getur.
  • Þegar kemur að því að nýta jarðvarmaorku á sjálfbæran hátt standa fáir – ef nokkrir – okkur framar. Við erum t.d. frumkvöðlar þegar kemur að líkanagerð, niðurdælingu og heildstæðri nálgun að sjálfbærri nýtingu auðlindarinnar. Einnig er vert að minnast á innlend rannsóknarverkefni sem eru einstök í heiminum, eins og t.d. SulFix verkefni Orkuveitu Reykjavíkur, Landsvirkjunar og HS Orku þar sem unnið er að því farga brennisteinsvetni frá Hellisheiðarvirkjun með hagkvæmum, árangursríkum og umhverfisvænum hætti.

Í kynningu á degi vatnins 2014 á heimasíðu  UN Water, sem er stofnun á vegum Sameinuðu þjóðanna sem sér um öll ferskvatns tengd verkefni þar, eru sýndar þrjár myndir og er ein af þeim frá Íslandi, af Nesjavallavirkjun. Væntanlega hafa sérfræðingarnir að baki kynningu UN Water ekki hugsað sig tvisvar um að setja mynd af íslenskri jarðvarmavirkjun þar. Þegar kemur að því sem dagur vatnsins í ár snýst um þá erum við Íslendingar í fremstu röð. Það sem meira er, það að við séum til fyrirmyndar í þessum efnum er viðurkennt og óumdeilt á alþjóðavettvangi.

Verum stolt af því sem við gerum vel, verum stolt af vatninu og okkar framúrskarandi veitum og virkjunum.

Landsvirkjun semur við United Silicon

Landsvirkjun  hefur undirritað raforkusölusamning við United Silicon hf. Samkvæmt samningnum mun Landsvirkjun útvega rafmagn fyrir kísilmálmverksmiðju sem United Silicon mun reisa í Helguvík á Suðurnesjum. Gert er ráð fyrir að verksmiðjan hefji starfsemi á fyrri helmingi ársins 2016 og noti 35 MW af afli. Sjá nánar á vef Landsvirkjunar.