Aðalfundur Samorku verður haldinn föstudaginn 20. febrúar á Grand Hótel Reykjavík. Venjuleg aðalfundarstörf hefjast kl. 10:30, en skráning kl. 10:00. Opin dagskrá hefst kl. 13:30.
13.30 Opin dagskrá aðalfundar aðalfundar Samorku
Fundarsetning
Nýkjörinn formaður Samorku
Ávarp iðnaðar- og viðskiptaráðherra
Ragnheiður Elín Árnadóttir
Raforkukerfi í vanda
Ragnar Guðmannsson, yfirmaður stjórnstöðvar Landsnets
Hömlur á þróun atvinnulífs
Óli Grétar Blöndal Sveinsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Landsvirkjunar
Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri í Fjarðabyggð
Bjarni Th. Bjarnason, sveitarstjóri í Dalvíkurbyggð
15:00 Kaffiveitingar í fundarlok
Menntaverðlaun atvinnulífsins verða afhent á Hilton Reykjavík Nordica fimmtudaginn 19. febrúar. Óskað er eftir tilnefningum um fyrirtæki sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála fyrir 19. janúar. Menntafyrirtæki og menntasproti ársins 2015 verða útnefnd en fyrirtæki sem tilnefnd eru verða að uppfylla ákveðin viðmið. Sjá nánar á vef Samtaka atvinnulífsins.
Opnað hefur verið fyrir útdrætti úr erindum fyrir norrænu fráveituráðstefnuna – NORDIWA 2015. Ráðstefnan verður haldin 4.-6. nóvember 2015 í Bergen og tekur Samorka þátt í skipulagningu ráðstefnunnar. Opnað verður fyrir skráningar á ráðstefnuna í lok janúar. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu NORDIWA 2015.
Morgunblaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar:
Aftur í átt til sáttar
Fregnir af því að meirihluti atvinnuveganefndar Alþingis hyggist leggja til að átta orkukostir verði færðir úr biðflokki í nýtingarflokk rammaáætlunar hafa sums staðar vakið hörð viðbrögð. Því er jafnvel haldið fram að með þessu verði rofin „sátt“ um þennan málaflokk. Sú sátt var hins vegar rofin í ágúst 2011. Í janúar 2013 var síðan gengið enn lengra gegn meintri sátt um málaflokkinn. Tillagan sem nú er til umræðu miðar að því að færa rammaáætlun aftur í átt að þeirri sátt sem hún átti að geta orðið, eftir að verkefnisstjórn 2. áfanga skilaði sínum faglegu niðurstöðum.
Eftir um átta ára faglega vinnu skilaði verkefnisstjórnin 2. áfanga af sér röðun 69 orkukosta til tveggja ráðherra í ágúst 2011. Efst var raðað þeim kostum sem taldir voru vænlegastir til orkunýtingar, neðst þeim sem helst var talin ástæða til að vernda. Í verkefnisstjórninni sátu fulltrúar mismunandi aðila og á vegum hennar störfuðu fjórir faghópar. Fagleg niðurstaða verkefnisstjórnar var forsenda sáttar. Nú átti einungis eftir að raða kostunum í nýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk.
Sáttin rofin
Í lokuðu ferli innan tveggja ráðuneyta var kostunum raðað í flokka. Ekki varð þó niðurstaðan þannig að efstu kostirnir færu í nýtingarflokk, neðstu í verndarflokk og afgangurinn, úr miðjunni, í biðflokk. Nei, tólf af þessum 69 kostum rötuðu á einhvern hátt niður listann. Kostir sem raðað hafði verið ofarlega (frá sjónarhorni orkunýtingar) af verkefnisstjórn höfnuðu í biðflokki, jafnvel í verndarflokki. Einn kostur sem raðað hafði verið fremur neðarlega hafnaði í biðflokki, annars færðust orkukostirnir (tólf) eingöngu niður listann. Þarna var sáttin rofin.
Í janúar 2013 samþykkti Alþingi síðan sex breytingar á þeim drögum að röðun í flokka sem getið er hér að framan. Sex orkukostir voru færðir úr nýtingarflokki í biðflokk. Enginn var færður í aðra átt.
Ljóst er að Alþingi fer með það vald að raða orkukostum í flokka. En forsenda sáttar um málið hlýtur að vera fólgin í því að Alþingi fylgi faglegum tillögum verkefnisstjórnar. Það var ekki gert í janúar 2013, heldur höfðu þá fyrst tólf og síðar sex kostir verið færðir niður listann, í átt frá orkunýtingu. Sú tillaga sem nú er til umræðu snýst um að hverfa aftur í átt að niðurstöðu verkefnisstjórnar 2. áfanga rammaáætlunar, sem byggði á faglegri vinnu til átta ára. Það væri stórt skref í átt til sáttar um málið.
Á haustfundi Landsvirkjunar komu m.a. fram áhugaverðar upplýsingar um fjárhagsstöðu fyrirtækisins, eftirspurn eftir raforku frá áliðnaði, kísiliðnaði og gagnaverum, um áhrif hærra raforkuverðs, krefjandi markaðsumhverfi, sæstreng, rammaáætlun og um virkjunarkosti til athugunar á sviði vatnsafls, jarðhita og vindorku. Glærur fundarins má nálgast hér á vef Landsvirkjunar.
Árið 2013 samþykkti allsherjarþing Sameinuðu Þjóðanna að 19. nóvember yrði skilgreindur sem alþjóðlegur dagur salerna. Samkvæmt nýjustu tölum frá UN water þá skortir yfir 2,5 milljarð einstaklinga fullnægjandi aðgengi að salernisaðstöðu. Heilbrigðisvandamálin vegna þessa eru eins og gefur að skilja gríðarleg. Samorka vill í tilefni dagsins vekja athygli á herferð UN Water til að taka á þessu máli og hvetja alla áhugasama til að taka þátt og hjálpa til. Frekari upplýsingar má finna á heimasíðu UN Water:
Skráning á World Geothermal Congress (WGC) 2015, heimsþing Alþjóða jarðhitasambandins (IGA), er í fullum gangi. Heimsþingið fer fram í Ástralíu dagana 19.-24. apríl 2015. Frekari upplýsingar um skráningu má finna á heimasíðu WGC 2015.
Samorka styður í umsögn sinni tillögu til þingsályktunar þess efnis að orkukosturinn Hvammsvirkjun verði færður úr biðflokki rammaáætlunar aftur í nýtingarflokk, þar sem hann var áður flokkaður fyrir afgreiðslu Alþingis í janúar 2013. Samorka beinir því jafnframt til Alþingis að ályktað verði um að snúa aftur til faglegrar niðurstöðu fyrri verkefnisstjórnar og færa alla þá sex orkukosti sem Alþingi færði úr nýtingarflokki í biðflokk, þvert á faglegar niðurstöður verkefnisstjórnar, til baka í nýtingarflokk.
Jafnframt verði ályktað þess efnis að núverandi verkefnisstjórn ljúki því verkefni sem henni var falið í skipunarbréfi, að forgangsraða vinnu við þá tvo aðra kosti sem jafnframt var fjallað um sérstaklega í nefndaráliti þáverandi meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis við afgreiðslu málsins í janúar 2013. Til vara gerir Samorka tillögu um að Alþingi beini því til verkefnisstjórnar að ljúka hið fyrsta umfjöllun um alla framangreinda átta kosti, sbr. fyrrnefnt nefndarálit og skipunarbréf ráðherra. Loks gerir Samorka tillögu um að í framhaldinu verði vinnu verkefnisstjórnar forgangsraðað þannig að fjallað verði um þá kosti sem best hafa verið rannsakaðir og lengst eru komnir í undirbúningi, í ljósi þess tímahraks sem vinnan er komin í.
Sjá nánar í umsögn Samorku um þingsályktunartillöguna.
Landsnet hefur ákveðið að hefja undirbúning mats á umhverfisáhrifum Sprengisandslínu, 220 kV háspennulínu milli Suður- og Norðurlands. Því er ætlað að kanna nánar umhverfisáhrif línunnar og leggja mat á kosti um leiðarval og útfærslur. Þegar er gert ráð fyrir háspennulínu og vegi um þetta svæði í aðalskipulagi viðkomandi sveitarfélaga og einnig er gert ráð fyrir háspennulínu og vegi yfir Sprengisand í gildandi svæðisskipulagi Miðhálendis Íslands til 2015. Sjá nánar á vef Landsnets.
Haustfundur JHFÍ fór fram þann 23.10.2014 og var fundurinn ár tileinkaður störfum Sverris Þórhallssonar. Fundinn þótti vel heppnaður en hann sátu yfir 100 manns og var fullt út úr dyrum. Erindi sem flutt voru á fundinum má finna á heimasíðu Jarðhitafélagsins: