„Evrópumeistarar í notkun kerfisvarna“

Raforkunotendur utan Suðvesturlands búa við minni gæði rafmagns og meiri líkur á truflunum og skerðingum í raforkuafhendingu en notendur Suðvestanlands. Þetta kom fram í erindi Ragnars Guðmannssonar, yfirmanns stjórnstöðvar Landsnets, á aðalfundi Samorku, þar sem hann fjallaði einkum um flutning raforku inn á Norður- og Austurland. Ragnar greindi m.a. frá því að við aðstæður eins og í dag, loðnuvertíð og lágt útihitastig, á sér stað mikill flutningur raforku til Austurlands og því fylgdi  mikil hætta á truflunum, jafnvel skerðingum. Kerfið er svo veikt, að farið er að tala um að Íslendingar (Landsnet) séu orðnir Evrópumeistarar í notkun kerfisvarna og í álagsstýringum flutningskerfis. Slík álagsstýring felst í skerðingum á orkuafhendingu og tilflutningi á álagi á milli svæða. Þá myndast  svokallaður „eyjarekstur“ í raforkukerfinu, sem er afar áhættusamur og ótryggur. Þessi vandi sem upp er kominn verður ekki lagfærður, nema með verulegu átaki í gerð öflugra flutningslína.

Nauðsynlegt að styrkja kerfið
Í kerfisáætlun Landsnets er fjallað um mismunandi valkosti til að auka og tryggja orkuflutninginn. Helstu kostir eru hálendislína og öflug styrking byggðalínu. Til að ná fram ásættanlegu öryggi raforkuafhendingar á Norður- og Austurlandi verður að bregðast fljótt og vel við með línustyrkingum. Þannig styrkist atvinnulífið þar sem afhendingaröryggi raforku er núna óviðunandi.

Sjá erindi Ragnars.

Iðnaðarráðherra: Vonbrigði með rammaáætlun

Í ávarpi sínu á aðalfundi Samorku sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, brýnt að styrkja flutningskerfi raforku. Hún tók heils hugar undir ályktun aðalfundar Samorku í þeim efnum, þar sem vonir eru bundnar við frumvarp hennar um eflingu kerfisáætlunar og tillögu hennar til þingsályktunar um málefni loftlína og strengja. Sjálf sagðist ráðherrann binda vonir við að umrædd þingmál yrðu afgreidd á yfirstandandi vorþingi.

Jafnframt tók Ragnheiður Elín undir ályktun aðalfundar Samorku um stöðu rammaáætlunar og sagði að áfangaskýrsla verkefnisstjórnar 3. áfanga, þar sem lagt er til að (einungis) Hvammsvirkjun verði færð í nýtingarflokk hefði valdið sér töluverðum vonbrigðum. Lýsti hún stuðningi við fyrirliggjandi breytingartillögu meirihluta atvinnuveganefndar, þar sem lagt er til að fleiri kostir verði færðir í nýtingarflokk, enda yrði núverandi eftirspurn eftir orku ekki mætt án nýrra virkjana.

Ennfremur ræddi ráðherrann um jöfnunargjald á raforkudreifingu o.fl. Erindi ráðherra má nálgast hér á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Ályktun aðalfundar Samorku: Raforkukerfi í alvarlegum vanda, þrír nýir skattar, fleiri orkukosti í nýtingarflokk

Ályktun aðalfundar Samorku, 20. febrúar 2015:

Raforkukerfi í alvarlegum og vaxandi vanda

Aðalfundur Samorku fagnar frumvarpi iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem styrkir kerfisáætlun Landsnets, sem og tillögu til þingsályktunar um málefni loftlína og strengja. Íslenska raforkukerfið er í alvarlegum og sífellt vaxandi vanda vegna hindrana í vegi uppbyggingar og eðlilegs viðhalds á flutningskerfi raforku. Fjöldi fyrirtækja verður fyrir tjóni og uppbygging atvinnulífs heilla landshluta býr við takmarkanir af þessum sökum. Óskandi er að sterkari staða kerfisáætlunar og skýrari leiðsögn stjórnvalda hvað varðar loftlínur og strengi muni einfalda nauðsynlega uppbyggingu og viðhald og þannig tryggja betur afhendingaröryggi raforku sem verið hefur óviðunandi víða um land undanfarin ár.

Þrír nýir skattar
Aðalfundur Samorku lýsir áhyggjum af því sem virðist vera orðin ný stefna stjórnvalda, að fjármagna almennar aðgerðir eða breytingar í stjórnsýslu með nýjum álögum á orku- og veitufyrirtæki. Þrír nýir skattar á umrædd fyrirtæki eru nú í undibúningi innan stjórnarráðsins eða til afgreiðslu á Alþingi.* Í öllum tilvikum er um að ræða almennar aðgerðir stjórnvalda, sem sannarlega hafa ýmislegt til síns ágætis en ættu að mati Samorku einfaldlega að fjármagnast með almennu skattfé ríkissjóðs. Þjónusta orku- og veitufyrirtækja kemur vissulega við sögu á flestum sviðum atvinnulífs og daglegs lífs landsmanna. Það gerir rekstur þeirra ekki að almennum skattstofni fyrir öll þessi sömu svið atvinnu- og mannlífs í landinu. Það er enda ljóst að viðskiptavinirnir, heimilin og atvinnulífið í landinu, bera á endanum allan slíkan kostnað sem lagður er á orku- og veitufyrirtækin.

Vantar orkukosti í nýtingarflokk
Loks hvetur aðalfundur Samorku þingheim til að færa fleiri orkukosti í nýtingarflokk rammaáætlunar og leiðrétta þannig þær breytingar sem gerðar voru af hálfu stjórnvalda að loknu faglegu ferli verkefnisstjórnar 2. áfanga. Vaxandi fjöldi fjárfesta óskar nú eftir samningum um raforkukaup í magni sem engin leið verður að mæta á komandi árum án fjölgunar vænlegra orkukosta í nýtingarflokki rammaáætlunar.

————————–
* Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp til laga um nýtt jöfnunargjald á dreifingu raforku (107. mál), en gjaldið leggst á dreifiveitur raforku. Einnig liggur fyrir Alþingi frumvarp til breytinga á lögum um stjórn vatnamála (511. mál), þar sem kynnt er til sögunnar ný gjaldtaka sem leggst á vatnsafls- og jarðhitavirkjanir, hitaveitur, vatnsveitur og fráveitur. Loks mun í undirbúningi að taka upp nýtt netöryggisgjald á grundvelli laga um almannavarnir. Á gjaldið að leggjast á orku- og veitufyrirtæki, fjarskiptafyrirtæki, fjármálafyrirtæki og rekstraraðila flugleiðsöguþjónustu.

 

Bjarni Bjarnason nýr formaður Samorku

Á aðalfundi Samorku 2015 var Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, kjörinn nýr formaður samtakanna. Hann tekur við af Tryggva Þór Haraldssyni, forstjóra RARIK, sem gegnt hefur embætti formanns sl. fjögur ár, og var jafnframt kjörinn til áframhaldandi setu í stjórn Samorku. Þá var Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, kjörinn nýr í stjórn samtakanna.

Jafnframt voru endurkjörnir til stjórnarsetu þeir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, og Júlíus J. Jónsson, forstjóri HS Veitna.  Dagur Jónsson, vatnsveitustjóri Hafnarfjarðar, og Guðmundur Davíðsson, framkvæmdastjóri Hitaveitu Egilsstaða og Fella voru kjörnir til áframhaldandi setu sem varamenn í stjórn. Áfram sitja jafnframt í stjórn, kjörin til tveggja ára á aðalfundi 2014, þau Guðrún Erla Jónsdóttir, forstjóri Orkuveitu Húsavíkur, og Kristján Haraldsson, orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða. Ennfremur var á aðalfundi 2014 kjörinn til tveggja ára sem varamaður Helgi Jóhannesson, forstjóri Norðurorku. Þórður Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Landsnets, sagði sig frá stjórnarsetu um nýliðin áramót, þegar hann lét af störfum hjá Landsneti.

Stjórn Samorku skipa því, að loknum aðalfundi 20. febrúar 2015:

Aðalmenn:
Bjarni Bjarnason, Orkuveitu Reykjavíkur, formaður stjórnar
Guðmundur Ingi Ásmundsson, Landsneti
Guðrún Erla Jónsdóttir, Orkuveitu Húsavíkur
Hörður Arnarson, Landsvirkjun
Júlíus J. Jónsson, HS Veitum
Kristján Haraldsson, Orkubúi Vestfjarða
Tryggvi Þór Haraldsson, RARIK

Varamenn:
Dagur Jónsson, Vatnsveitu Hafnarfjarðar
Guðmundur Davíðsson, Hitaveitu Egilsstaða og Fella
Helgi Jóhannesson, Norðurorku

Raforkukerfi í vanda – opin dagskrá aðalfundar Samorku 20. febrúar

Yfirskrift opinnar dagskrár aðalfundar Samorku er Raforkukerfi í vanda. Erfið staða flutningskerfis raforku verður þar til umfjöllunar og þær hömlur sem sú staða hefur á þróun atvinnulífs víða um land. Um þessi mál munu fjalla yfirmaður stjórnstöðvar Landsnets, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Landsvirkjunar, bæjarstjóri Fjarðabyggðar og sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar. Þá munu nýr formaður Samorku sem og iðnaðar- og viðskiptaráðherra ávarpa fundinn, sem haldinn verður á Grand Hótel Reykjavík föstudaginn 20. febrúar. Opna dagskráin hefst kl. 13:30, en venjuleg aðalfundarstörf félaga að Samorku hefjast með skráningu kl. 10:00.

Smellið á myndina, eða hér, til að fá dagskrána í stærri útgáfu.

Rétt nálgun Orkustofnunar

 

Fréttablaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar:

Orkustofnun hefur lagt fjölda orkukosta fyrir verkefnisstjórn rammaáætlunar til umfjöllunar. Sumir umræddra kosta eru lagðir fram að frumkvæði orkufyrirtækja, aðrir að frumkvæði Orkustofnunar. Mörgum kostanna hefur áður verið raðað í nýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk í ferli rammaáætlunar, aðrir koma nú nýir til umfjöllunar í verkefnisstjórn.

Orkustofnun hefur hlotið talsverða gagnrýni fyrir þetta verklag, að láta kosti sem þegar hefur verið raðað í verndarflokk fylgja með á þessum lista (líkt og kosti í nýtingarflokki). Jafnvel er talað um að vegið sé að friði um rammaáætlun eða hann sagður úti vegna þessa verklags stofnunarinnar. Stutta svarið við þessari gagnrýni er tvíþætt. Í fyrsta lagi er stofnunin þarna að vinna sína vinnu í samræmi við 9. gr. laga nr. 48/2011 um rammaáætlun. Í öðru lagi var allur friður um rammaáætlun rofinn í tvöföldu pólitísku ferli sumarið 2011 og í janúar 2013, þegar orkukostir sem fyrri verkefnisstjórn hafði talið vænlega til nýtingar rötuðu í átt frá nýtingu til verndar. Fyrst tólf kostir í lokuðu ferli innan tveggja ráðuneyta, síðan sex kostir í meðförum Alþingis.

Sáttin löngu rofin
Nú er það vissulega svo að Alþingi hefur úrslitavaldið um röðun orkukosta í nýtingarflokk, biðflokk eða verndarflokk hverju sinni. En forsenda almennrar sáttar um þetta ferli er fólgin í faglegum niðurstöðum verkefnisstjórnar. Eftir átta ára faglega vinnu fyrri verkefnisstjórnar varð niðurstaðan á hinum pólitíska vettvangi sú sem fyrr segir. Þar var sáttin rofin.

Aðferðafræði verkefnisstjórnar um rammaáætlun byggist að stórum hluta á innbyrðis samanburði orkukosta. Ef ætlast er til að ekki sé hirt um að hafa verðmæta kosti út frá verndarsjónarmiðum með í þeim samanburði þá væri e.t.v. einfaldast að sleppa líka þessu ferli gagnvart vænlegustu orkukostunum. Vandséð er hvernig ætti að skilgreina slíkt regluverk. Þess vegna er það rétt stjórnsýsla af hálfu Orkustofnunar, og í algeru samræmi við lögin um rammaáætlun, að leggja þennan lista fram með þessum hætti. Hins vegar er rétt að minna á að röðun orkukosts í nýtingarflokk þarf engan veginn að þýða að ráðist verði í umræddar framkvæmdir. Meti eitthvert orkufyrirtæki kostinn hagkvæman og eftirsóknarverðan er t.d. lýðræðislegt ferli mats á umhverfisáhrifum framkvæmda eftir, leyfisveitingar og skipulagsferli. Nýtingarflokkur er því í raun listi yfir orkukosti sem heimilt er að halda áfram að skoða.

Að gefnum tilefnum: Röðun í nýtingarflokk þýðir ekki að virkjun rísi

Samorka vill að gefnum tilefnum minna á að ákvörðun um að raða orkukosti í nýtingarflokk rammaáætlunar þarf alls ekki að þýða að umrædd virkjun eigi eftir að rísa. Að lokinni röðun í nýtingarflokk tekur við vandað, faglegt og lýðræðislegt stjórnsýsluferli mats á umhverfisáhrifum framkvæmda, auk skipulagsferla og ferla leyfisveitinga. Út úr þeim ferlum getur hæglega komið sú niðurstaða að ekkert verði af umræddum framkvæmdum, eða að á upphaflegum hugmyndum verði gerðar verulegar breytingar og kveðið á um að grípa þurfi til ýmiss konar mótvægisaðgerða. Hið sama á raunar við um röðun í verndarflokk rammaáætlunar. Sú röðun hefur í för með sér að hefja eigi undirbúning friðlýsingar á grundvelli laga um náttúruvernd eða á grundvelli þjóðminjalaga. Einnig þar er um að ræða vandað og lýðræðislegt stjórnsýsluferli.

Vinna verkefnisstjórnar rammaáætlunar fer meðal annars fram á grundvelli laga um mat á umhverfisáhrifum áætlana. Ferli umhverfismats framkvæmda tekur við síðar, hafi umræddum kosti verið raðað í nýtingarflokk og kjósi orkufyrirtæki að þróa kostinn áfram. Sama á við um skipulagsferli. 

Ómakleg gagnrýni
Í vikunni hefur heyrst hávær gagnrýni á Orkustofnun fyrir þann lista yfir orkukosti sem stofnunin hefur lagt fyrir verkefnisstjórn rammaáætlunar til umfjöllunar, sem sumum hafði áður verið raðað í verndarflokk og öðrum áður í nýtingarflokk. Orkustofnun er þarna að vinna sína vinnu samkvæmt 9. gr. laga nr. 48/2011 um rammaáætlun. Fjöldi kosta er til umfjöllunar en aðferðafræði rammaáætlunar byggir að verulegu leyti á innbyrðis samanburði orkukosta. Meðal annars þess vegna er eðlilegt að vænlegustu og hagkvæmustu orkukostirnir séu þar til umfjöllunar jafnframt kostum sem sjálfsagt fáir styðja að verði nýttir til orkuframleiðslu. Þannig næst eðlilegur samanburður og eðlilegt samhengi í starfið.

Einnig hefur heyrst hávær gagnrýni á boðaða breytingartillögu meirihluta atvinnuveganefndar Alþingis við tillögu til þingsályktunar um rammaáætlun. Þar virðist vera ríkjandi það sjónarmið að Alþingi hafi ekki heimild til að gera breytingar á framlögðu þingmáli ráðherra, sem er sjónarmið sem vissulega vekur athygli.

Því miður hefur mikið borið á gífuryrðum í þessari umræðu, meðal annars af hendi aðila sem hljóta að vita vetur. Fullyrðingar um að með þessu sé verið að vega að öllum friði um rammaáætlun og hann sé jafnvel úti fyrir vikið vekja furðu, enda einfaldlega um eðlileg stjórnsýsluferli að ræða á grundvelli viðkomandi laga.

Hér má sjá einfaldaða mynd Eflu verkfræðistofu af ferli orkuöflunar, eins og það lítur að loknu ferli rammaáætlunar.