Framtíðaráhrif loftslagsbreytinga, opinn fundur Landsvirkjunar 22. maí

Föstudaginn 22. maí býður Landsvirkjun til opins fundar um hnattrænar loftslagsbreytingar og hvernig fyrirtæki geta unnið gegn áhrifum þeirra. Fundurinn fer fram í Hörpu og hefst kl. 8:30. Fundinn ávarpa m.a. Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra, Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar, Halldór Björnsson veður- og haffræðingur hjá Veðurstofu Íslands og Halldór Þorgeirsson forstöðumaður stefnumörkunar hjá skrifstofu rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Sjá nánar hér á vef Landsvirkjunar.

Orkuveita Reykjavíkur tilnefnd til umhverfisverðlauna

Orkuveita Reykjavíkur er á meðal þeirra sem tilnefnd eru til náttúru- og umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2015. Þema verðlaunanna í ár er losun gróðurhúsalofttegunda. Verðlaunin eru veitt fyrirtæki, samtökum eða einstaklingi sem sett hefur gott fordæmi með þróun vöru eða uppfinningar eða öðrum skapandi aðgerðum sem stuðla að minni losun gróðurhúsalofttegunda á Norðurlöndum til framtíðar. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Orkuveitu Reykjavíkur.

Námskeið Set ehf., HEF & Samorku á Egilsstöðum

Set ehf. í samstarfi við Hitaveitu Egilsstaða og Fella og Samorku, hélt dagana 11.-12. maí síðastliðna námskeið á Egilsstöðum. Fyrri daginn var farið yfir samsetningu og frágang á einangrun hitaveituröra, og á seinni deginum var farið yfir samsuðu á PE plaströrum, þ.e. spegilsuðu, rafsuðu og þráðsuðu. Námskeiðið tókst vel upp og var mikil ánægja með það, bæði hjá skipuleggjendum og þátttakendum. Vakin er athygli á því að samskonar námskeið verða haldin í haust, bæði á Akureyri og á suðvesturhorninu. Myndir af námskeiðinu má sjá hér á heimasíðu HEF

Orkukostir færðir aftur í nýtingarflokk

Nú er til umfjöllunar á Alþingi tillaga til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, rammaáætlun. Í því samhengi er ástæða til að minna á að við afgreiðslu 2. áfanga rammaáætlunar á Alþingi í janúar 2013 voru sex orkukostir færðir úr nýtingarflokki í biðflokk. Um er að ræða Hvammsvirkjun, Holtavirkjun, Urriðafossvirkjun, Hágönguvirkjun I og II og Skrokkölduvirkjun. Áður höfðu tólf orkukostir verið færðir í átt frá nýtingu til verndar í lokuðu ferli innan tveggja ráðuneyta.

Samorka hefur ítrekað gagnrýnt þessa meðhöndlun á faglegum niðurstöðum 2. áfanga verkefnisstjórnar. Undir þá gagnrýni hafa ýmsir aðrir tekið, t.d. Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands. Samorka hefur þó aldrei haldið því fram að Alþingi hefði ekki lagalega heimild til að gera umræddar breytingar. Forsenda sáttar um málaflokkinn hefði hins vegar, að mati Samorku, falist í því að fylgt yrði faglegum niðurstöðum verkefnisstjórnar 2. áfanga rammaáætlunar.

Hagavatnsvirkjun og Hólmsárvirkjun við Atley
Tveir aðrir orkukostir, Hagavatnsvirkjun og Hólmsárvirkjun við Atley, höfðu talsverða sérstöðu í niðurstöðum verkefnisstjórnar og í umfjöllun nefndarálits þáverandi meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, þar sem tiltekin gögn höfðu misfarist í fórum verkefnisstjórnar og ákveðnum fyrirvörum því ekki svarað. Báðir fengu kostirnir engu að síður jákvæða umfjöllun í verkefnisstjórn og í kjölfarið hefur komið í ljós að þegar lágu fyrir gögn sem svara með jákvæðum hætti fyrrnefndum fyrirvörum. Í skipunarbréfi núverandi verkefnisstjórnar, dags. 25. mars 2013, var henni gert að skila áfangaskýrslu innan árs þar sem sérstaklega skyldi gerð grein fyrir ofangreindum átta orkukostum. Síðar var gefinn út viðauki við skipunarbréfið, dags. 12. júlí 2013, þar sem verkefnisstjórn var falið að fjalla svo fljótt sem auðið væri um umrædda átta kosti.

Samkvæmt breytingartillögu við þingsályktunartillöguna sem nú er til umfjöllunar á Alþingi verða alls fimm af þessum átta orkukostum færðir í nýtingarflokk. Að mati Samorku væri rétt að færa alla átta kostina í nýtingarflokk, en sex þeirra hafði þegar verið raðað þangað fyrir afgreiðslu Alþingis í janúar 2013 og um hina tvo gilda afar sérstakar aðstæður og ekki efni til að viðkomandi kostum sé haldið í biðstöðu til fjölda ára.

Nýtingarflokkur ekki sama og virkjunarframkvæmdir
Rétt er að minna á, að röðun orkukosts í nýtingarflokk rammaáætlunar þýðir ekki að hafist verði handa við að virkja. Að lokinni röðun í nýtingarflokk tekur við vandað, faglegt og lýðræðislegt stjórnsýsluferli mats á umhverfisáhrifum framkvæmda, auk skipulagsferla og ferla leyfisveitinga. Út úr þeim ferlum getur hæglega komið sú niðurstaða að ekkert verði af umræddum framkvæmdum, eða að á upphaflegum hugmyndum verði gerðar verulegar breytingar og kveðið á um að grípa þurfi til ýmiss konar mótvægisaðgerða.

Þættirnir Orka Landsins á N4

Sjónvarpsstöðin N4 mun á næstunni sýna þættina Orka Landsins, sem fjalla um orkunýtingu og veitustarfsemi í landinu. Þættirnir eru unnir í samstarfi við Samorku, Orkustofnun og Orkusetur. Fyrsti þátturinn verður sýndur á N4 mánudaginn 18.maí kl. 18.30 (endursýndur á klukkustunda fresti) og fjallar um vatn. Næstu 6 mánudaga heldur þáttaröðin áfram og þá verður fjallað um raforku, jarðvarma og eldsneyti. Hér má sjá stiklu úr þáttunum og frekari upplýsingar má nálgast á heimasíðu N4.

Virkjun sjávarorku verði hagkvæm um eða eftir miðja öldina

Gróft reiknað er kostnaður við virkjun sjávarorku nú um 20 sinnum hærri en við hefðbundna vatnsaflsvirkjun. Mikil framþróun er hins vegar í rannsóknum á beislun sjávarorku og má reikna með að á næstu 30 árum verði miklar framfarir á þessu sviði. Fyrirsjáanlegt er því að kostnaður við virkjun sjávarorku mun fara lækkandi samhliða því að spár gera ráð fyrir að orkuverð muni hækka. Má því reikna með að virkjun sjávarorku geti orðið hagkvæmur kostur um eða eftir miðja öldina. Þetta eru helstu niðurstöður greinargerðar sem sérfræðingahópur hefur skilað til atvinnuvegaráðuneytisins. Sjá nánar á vef ráðuneytisins.

Horfur á stórauknum arðgreiðslum Landsvirkjunar

Fjárhagsstaða Landsvirkjunar hefur styrkst mikið undanfarin ár og að óbreyttu ætti fyrirtækið að geta greitt 10-20 milljarða króna á ári í arð til eiganda síns, íslenska ríkisins, innan fárra ára. Sú upphæð gæti þó orðið mun hærri við breyttar forsendur, t.d. með tilkomu sæstrengs til Evrópu. Þetta er meðal þess sem fram kom í erindi Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, á ársfundi fyrirtækisins í Hörpu á 50 ára afmælisári þess. Erindi Harðar má nálgast hér á vef Landsvirkjunar, og upptökur af öllum fundinum og erindi hans er að finna hér, m.a. ávarp Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra þar sem hann fjallaði um stofnun sérstaks orkuauðlindasjóðs.

Varaafl og snjallnet á Vestfjörðum

Tekin hafa verið í notkun ný varaaflstöð Landsnets, nýtt tengivirki Landsnets og Orkubús Vestfjarða í Bolungarvík og snjallnetskerfi fyrir Vestfirði, sem er samheiti yfir ýmsar tækninýjungar á sviði flutnings og dreifingar raforku á svæðinu. Þessar framkvæmdir og nýjungar hafa í för með sér að svonefndur straumleysistími styttist til muna og raforkuöryggi Vestfjarða eflist. Aukin raforkuframleiðsla á svæðinu er þó enn talin forsenda þess að hægt verði að tryggja ásættanlegt raforkuöryggi Vestfjarða til framtíðar. Sjá nánar á vef Landsnets.

Námskeið Set ehf. HEF & Samorku á Egilsstöðum 11.-12. maí

Set ehf, í samstarfi við Hitaveitu Egilsstaða og Fella og Samorku, mun dagana 11.-12. maí halda námskeið á Egilsstöðum. Á námskeiðinu verður á einum degi farið yfir samsetningu og frágang á einangrun hitaveituröra, og á öðrum degi farið yfir samsuðu á PE plaströrum, þ.e. spegilsuðu, rafsuðu og þráðsuðu.

Kostnaður við þátttöku er 24.000 kr. fyrir hvern þátttakanda. Takmarkaður fjöldi er á námskeiðið og fer skráning þátttakenda fram hjá Samorku í netfangið the@samorka.is og í síma 588 4430. Við vekjum athygli á því að samskonar námskeið verður einnig haldið í haust, þá bæði í samstarfi við Norðurorku á Akureyri og á suðvesturhorninu.