Orkuveita Reykjavíkur og dótturfélög ætla draga úr útblæstri jarðhitalofts við orkuvinnslu ON á háhitasvæðum, styðja við vistvæna samgöngumáta starfsmanna og endurheimta votlendi með því að grafa ofan í skurði á landareignum OR.
Þetta kemur fram í loftlagsmarkmiðum OR samstæðunnar þar sem fyrirtækið skuldbindur sig til að minnka kolefnisspor samstæðunnar um helming til ársins 2030.
Einnig á að auka endurvinnsluhlutfall útgangs og draga úr matarsóun.
Nánar er fjallað um markmiðin á heimasíðu OR.
Það kostar fimmfalt meira á ári að hita húsið sitt í Helsinki en í Reykjavík. Húshitunarkostnaður er langlægstur á Íslandi og er þrefalt minni en þar sem næstódýrast er að hita.
Þetta kemur fram í nýrri samantekt Samorku um húshitunarkostnað á Norðurlöndum. Stuðst er við tölur frá stærstu veitufyrirtækjum í hverri höfuðborg.
Árlegur kostnaður við að hita heimili á Íslandi er rúmar 85 þús krónur á ári fyrir íbúa á höfuðborgarsvæðinu . Íbúi í Helsinki þarf að borga hátt í hálfa milljón árlega, eða um 428 þús krónur. Í Stokkhólmi er næstdýrast að hita húsið sitt eða rúmlega 300 þús krónur á ári. Íbúar í Kaupmannahöfn og Osló borga svipað á ári, eða tæplega 300 þús krónur.
Skattar vega nokkuð þungt á húshitunarreikningi Norðurlandabúa, en auk virðisaukaskatts er innheimtur sérstakur orkuskattur. Á Íslandi er hann 2% á heitt vatn.
Langflest heimili landsins eru hituð upp með heitu vatni (jarðhita), eða 90%. Í Reykjavík er þetta hlutfall 100%. Auk þess að vera ódýr kostur, er jarðhiti endurnýjanlegur og umhverfisvænn orkugjafi. Á hinum Norðurlöndum er að mestu notast við raforku eða jarðefnaeldsneyti við upphitun húsa.
Jarðhitafélag Íslands veitir í ár háskólanemum, í fögum tengdum jarðhita, styrk til að sækja alþjóðlegar jarðhitaráðstefnur. Styrknum er ætlað að nýtast til að greiða ferða- og uppihaldskostnað og/eða ráðstefnugjöld.
Um er að ræða 2 styrki til framhaldsnema í háskólanámi (MS/Ph.D) að upphæð allt að kr. 300.000 fyrir hvern styrk. Stjórn félagsins mun velja styrkþega úr hópi umsækjenda.
Eftirtalin atriði geta orðið til að styrkja einstakar umsóknir:
– Umsækjandi verði með erindi eða annað slíkt hlutverk á viðkomandi ráðstefnu.
– Nám umsækjanda sé komið vel á veg.
– Umsækjandi sé í fullu námi.
– Lokaverkefni umsækjanda eða efni erindis geti haft hagnýtt gildi hérlendis.
– Umsækjandi búi að starfsreynslu tengdri jarðhitanýtingu.
– Umsækjandi sé félagsmaður í Jarðhitafélagi Íslands.
Umsóknum um styrki fyrir árið 2016 ber að skila til Sigurjóns Norberg Kjærnested, ritara stjórnar Jarðhitafélagsins, í netfangið sigurjon@samorka.is (eða með pósti til Sigurjóns á skrifstofu Samorku, merkt v. Jarðhitafélags Íslands, Borgartúni 35, 105 Reykjavík), eigi síðar en mánudaginn 12. september 2016. Umsóknum fylgi upplýsingar um námsferil, efni og stöðu lokaverkefnis eða ráðgerðs erindis á ráðstefnu, hagnýtt gildi verkefnis hérlendis, starfsreynslu tengda jarðhitarannsóknum eða -nýtingu ef við á, ásamt upplýsingum um þá ráðstefnu sem viðkomandi hyggst sækja.
Frumkvöðlar í orkutengdri nýsköpun eru hvattir til að sækja um hjá Startup Energy Reykjavík, en umsóknarfrestur rennur út þann 14. ágúst.
Á Startup Energy Reykjavík verða sjö verkefni valin til þátttöku. Hljóta þau fjárfestingu frá styrktaraðilum og handleiðslu frá sérfræðingum til áframhaldandi þróunar. Startup Energy hefst í september og stendur yfir til loka nóvember 2016.
Nánari upplýsingar um Startup Energy Reykjavík, sérfræðinga, styrktaraðila og hverjir geti sótt um má sjá á heimasíðu verkefnisins.
Þjóðhagslegur ábati af sæstreng milli Íslands og Bretlands gæti verið um 400 milljarðar króna og haft jákvæð áhrif á árlega landsframleiðslu um 1,2-1,6%. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Kviku og alþjóðlega ráðgjafafyrirtækisins Pöyry. Niðurstaðan er háð ýmsum forsendum, m.a. að Bretar veiti umtalsverðan fjárhagslegan stuðning til uppbyggingu sæstrengsins.
Nánari upplýsingar má finna á vef Kviku og þar má einnig finna skýrsluna í heild sinni.
Virkjunarkostir landsmanna eru fjölmargir með mismunandi stofnkostnað, rekstrarkostnað, orkuvinnslugetu, nýtingu og fleira. Vatnsaflsvirkjanir hafa almennt verið ódýrari í stofnkostnaði á hvert uppsett megavatt (MW) en á móti hafa jarðhitavirkjanir skilað hærri nýtingu. Flókið getur verið að leggja mat á hagkvæmni þegar um ólíka kosti er að ræða.
Samorka leggur hér fram aðferðarfræði og útreikning á mismunandi hagkvæmni virkjunarkosta sem til umfjöllunar eru í 3. áfanga rammaáætlunar. Aðferðarfræðin kallast LCOE, eða Levelized Cost of Energy. Hún er vel þekkt á alþjóðavettvangi í skýrslum um orkumál þó að ekki hafi hún verið notuð hingað til hér á landi. Með LCOE er hægt að nota „sömu mælistiku“ í samanburði ólíkra virkjunarkosta. Skýrsluna vann Kristján B. Ólafsson, rekstrarhagfræðingur.
Í fyrirliggjandi skýrslu þriðja áfanga rammaáætlunar, sem nú er í umsagnarferli, var einungis tekið tillit til niðurstaðna frá faghópum 1 og 2, sem fjalla um náttúru- og menningarminjar og auðlindanýtingu aðra en orkunýtingu. Ekki er stuðst við niðurstöður frá faghópum 3 og 4, sem áttu að fjalla um efnahags- og samfélagsleg áhrif af virkjanakostum. Að mati Samorku vantar mikið upp á ef ekki er tekið tillit til þeirra þátta. Þeir ættu að vera mikilvægur hluti af heildarmyndinni líkt og sjónarmið náttúruverndar og annarrar nýtingar á borð við ferðaþjónustu.
Skýrslan sýnir að allt að alls getur munað tugum, jafnvel yfir hundrað milljörðum króna, á samanlögðum stofnkostnaði við virkjanakosti í núgildandi nýtingarflokki annars vegar og ef valdir væru hagkvæmustu kostirnir hins vegar. Hún sýnir einnig að árlegur kostnaður við orkuframleiðslu er mörgum milljörðum króna meiri við kosti í núverandi orkunýtingarflokki en við hagkvæmustu uppröðun. Að sjálfsögðu koma fleiri sjónarmið en hagkvæmni virkjanakosta við sögu við röðun virkjunarkosta. Samorka ítrekar hins vegar áherslu á mikilvægi þess að jafnframt verði horft til hagkvæmni, sem og efnahags- og samfélagslegra áhrifa við röðun virkjunarkosta.
Samorka vonast til að skýrslan varpi ljósi á hvernig meta má hagkvæmni mismunandi virkjunarkosta sem til umfjöllunar eru í þriðja áfanga rammaáætlunar. Aðferðafræði LCOE getur komið að góðu gagni við frekari úrvinnslu, stefnumörkun og röðun virkjunarkosta.
Uppfærsla 11. júlí: Því miður skiluðu töflur á síðu 12 og 13 sér ekki rétt inn í skýrsluna. Uppfærða útgáfu af henni má finna hér: LCOE skýrsla (PDF 2 MB)
Íslensk heimili greiða um 28 þúsund krónur á ári fyrir kalt vatn. Í Stokkhólmi er greitt sama verð, en á hinum Norðurlöndum þarf að borga allt að þrisvar sinnum meira.
Í Osló kostar hljóðar reikningur fyrir kalda vatnið upp á um 46 þúsund krónur á ári og í Helsinki 50 þúsund krónur. Kaupmannahöfn sker sig úr, en þar þarf að punga út um 100 þúsund krónum á hverju ári. Tæplega helmingur af þeirri upphæð eru skattar, en auk virðisaukaskatts sem hin Norðurlöndin leggja á kalda vatnið rukka Danir einnig sérstaka vatnsskatta.
Miðað er við reikning fyrir 100 fermetra íbúð og þrjá íbúa. Á Íslandi er víðast hvar greitt fast verð fyrir kalt vatn óháð magni og miðast upphæðin við fasteignamat. Á hinum Norðurlöndunum er greitt eftir notkun. Íslendingar nota töluvert meira magn af vatni á mann en aðrir Norðurlandabúar.
Orkusjóður auglýsir styrki til uppbyggingar á innviðum fyrir rafbíla á vef sínum. Umsóknarfrestur er til 1. október 2016. Sjá nánar á vef Orkusjóðs.
Hægt er að binda koltvísýring sem steintegund í basaltberglögunum við virkjun ON á Hellisheiði að 95 prósentum á tveimur árum en ekki öldum eða árþúsundum eins og áður var talið. Þetta kemur fram í grein í Science, sem er eitt útbreiddasta og þekktasta vísindatímarit heims. Greinin fjallar um CarbFix loftslagsverkefnið sem unnið hefur verið að við jarðgufuvirkjun Hellisheiðarvirkjun frá árinu 2007. Sjá nánar hér á vef ON.
Ísland er með lægsta hlutfall útblásturs gróðurhúsalofttegunda (CO2) vegna bruna jarðefnaeldsneytis við raforku- og varmaframleiðslu í Evrópu, eða 0%. Eistland stendur verst af Evrópulöndunum, en þar er tæplega 80% af öllum útblæstri tilkominn vegna raforku- og varmaframleiðslu. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Alþjóðabankanum (World Bank).
Í fjölmörgum löndum eru yfir 50% af heildarútblæstri vegna raforku- og varmaframleiðslu, meðal annars í Finnlandi og Póllandi, og verður verðugt verkefni að minnka það hlutfall verulega. Í Danmörku er hlutfallið 49%.
Mikill munur er á þeim löndum sem lægsta hlutfallið hafa. Ísland og Lúxemborg skera sig úr, með 0% og 8% útblásturs vegna raforku- og varmaframleiðslu. Þar næst kemur Frakkland með 17%, Svíþjóð hefur hefur fjórða lægsta hlutfallið, eða 25% og í Belgíu er hlutfallið 27%.
Á Íslandi er notað jarðefnaeldsneyti við raforku- og varmaframleiðslu í undantekningartilfellum, en magnið er það lítið að það mælist ekki í úttekt Alþjóðabankans.