Konur meirihluti stjórnar Samorku

Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri, var í dag kjörin fulltrúi Landsvirkjunar í stjórn Samorku á aðalfundi samtakanna.

Þá voru einnig endurkjörin í stjórn þau Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, og Jóhanna B. Hansen, bæjarverkfræðingur Mosfellsbæjar.

Í stjórn sitja jafnframt áfram þau Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku og Guðrún Erla Jónsdóttir, stefnustjóri Orkuveitu Reykjavíkur og Helgi Jóhannesson, forstjóri Norðurorku og formaður stjórnar. Þá verður Inga Dóra Hrólfsdóttir, framkvæmdastjóri Veitna, áfram fulltrui fyrirtækisins í stjórn Samorku.

Hörður Arnarson, forstjóri, tekur sæti varafulltrúa Landsvirkjunar í stjórn Samorku. Ásdís Kristinsdóttir, forstöðumaður, verður áfram varafulltrúi Veitna og þá sitja áfram þau Guðbjörg Marteinsdóttir, RARIK, Jón Tryggvi Guðmundsson, Selfossveitum og Elías Jónatansson, Orkubúi Vestfjarða, sem varamenn í stjórn Samorku.

Konur skipa nú í fyrsta sinn meirihluta aðalmanna stjórnar Samorku. Að varamönnum meðtöldum er jafnt hlutfall kynja.

Stjórn Samorku, að loknum aðalfundi 2018, skipa:

Aðalmenn:

Ásgeir Margeirsson, HS Orku
Guðmundur Ingi Ásmundsson, Landsneti
Guðrún Erla Jónsdóttir, Orkuveitu Reykjavíkur
Helgi Jóhannesson, Norðurorku, formaður stjórnar
Inga Dóra Hrólfsdóttir, Veitum
Jóhanna B. Hansen, Mosfellsbæ
Ragna Árnadóttir, Landsvirkjun

Varamenn:

Ásdís Kristinsdóttir, Veitum
Elías Jónatansson, Orkubúi Vestfjarða
Guðbjörg Marteinsdóttir, RARIK
Hörður Arnarson, Landsvirkjun
Jón Tryggvi Guðmundsson, Selfossveitum

Landsnet Menntasproti ársins

Við afhendingu Menntasprotans í dag

Landsnet er menntasproti ársins 2018. Allan sólarhringinn vinna starfsmenn í stjórnstöð fyrirtækisins við að stýra raforkukerfi Íslands sem er flóknasta kerfi landsins. Landsnet ber einnig ábyrgð á því að sinna viðhaldi þess og rekstri þannig að það virki, að tryggja að landsmenn geti haft ljósin kveikt þegar þeim hentar og að hjól atvinnulífsins snúist.

„ Við erum stolt af því að hafa fengið þessa viðurkenningu og lítum á hana sem hvatningu til að gera enn betur. Hjá okkar starfar frábær hópur fólks með fjölbreyttan bakgrunn sem vinnur að flóknum og áhugaverðum verkefnum sem lúta að þróun, uppbyggingu og rekstri raforkukerfisins. Við flytjum rafmagn alla daga og vinnum stundum við hættulegar aðstæður. Í því samhengi skiptir menntun og þjálfun miklu máli – með góðum vinnustað náum við þeim markmiðum sem við höfum sett okkur en það er tryggja okkur öllum rafmagnaða framtíð,“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets.

Hjá Landsneti vinna um 120 starfsmenn og fyrirtækið er með starfsstöðvar í Reykjavík, á Akureyri og Egilsstöðum. Landsnet vinnur með Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík og Rafiðnaðarskólanum og nemendum býðst að vinna hagnýt lokaverkefni sem nýtast samfélaginu.

Fyrirtækið tekur einnig þátt í mikilvægum erlendum rannsóknarverkefnum. Til dæmis stærsta rannsóknarverkefni sinnar tegundar í heiminum sem kostar um 14 milljónir evra og miðar að því að auka áreiðanleika flutningskerfa á sama tíma og kostnaði samfélagsins er haldið í lágmarki.

Menntasproti ársins 2018 from Samtök atvinnulífsins on Vimeo.

Þá var Iceland Travel valið menntafyrirtæki ársins.

Í dómnefnd sátu Guðný B. Hauksdóttir, framkvæmdastjóri mannauðsmála hjá Alcoa Fjarðaáli sem var menntafyrirtæki ársins 2017, Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandair Hotels sem var Menntafyrirtæki ársins 2016, Sigurður Steinn Einarsson aðstoðarmaður forstjóra hjá Síldarvinnslunni á Neskaupstað sem var Menntasproti ársins 2015 og Ragnheiður H. Magnúsdóttir viðskiptastjóri hjá Marel sem var menntafyrirtæki ársins 2014.

Menntadagur atvinnulífsins er samstarfsverkefni Samorku, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins. Hjá aðildarfyrirtækjum samtakanna starfar um 70% launafólks á almennum vinnumarkaði, rúmlega 100 þúsund manns

Hvað verður um starfið þitt?

Hvað verður um starfið þitt? er yfirskrift Menntadags atvinnulífsins sem verður haldinn í Hörpu fimmtudaginn 15. febrúar kl. 8.30-12. Dagurinn, sem nú er haldinn í fimmta sinn, er að þessu sinni tileinkaður hlutverki skólakerfis og atvinnulífs við að búa fólk undir þær tæknibreytingar sem standa yfir.

Samtök atvinnulífsins og aðildarsamtök hafa hvatt fyrirtæki til dáða til að mennta starfsfólk sitt, til dæmis með árlegu vali á menntafyrirtæki ársins. Fjölmörg íslensk fyrirtæki eru til fyrirmyndar þegar kemur að menntun starfsmanna sinna. Menntafyrirtæki síðustu ára – Samskip, Marel, Icelandair hótel og Alcoa fjarðaál – eru þar fremst meðal jafningja. Þann 15. febrúar mun síðan enn eitt fyrirtækið bætast í hóp þessara fyrirmynda í atvinnulífinu.

Enn eru nokkur sæti laus. Hægt er að sjá dagskrá Menntadagsins og skrá sig á síðu SA. Aðgangur er ókeypis og öllum opinn.

Ásmundur nýr forstöðumaður upplýsingatækni Landsnets

Ásmundur Bjarnason er nýráðinn forstöðumaður upplýsingatækni hjá Landsneti.

Landsnet hefur ráðið Ásmund Bjarnason í starf forstöðumanns upplýsingatækni þar sem hann mun stýra uppbyggingu og þróun á upplýsingakerfum Landsnets.

Ásmundur er menntaður rekstrarverkfræðingur M.Sc. frá Álaborgarháskóla og tölvunarverkfræðingur frá HÍ. Hann hefur undanfarið ár starfað við upplýsingatækniráðgjöf hjá KPMG á Íslandi og þar á undan var hann forstöðumaður upplýsingatækni hjá Sjóvá.

 

ON tekur í notkun tvær nýjar hlöður

Gunnar Þorsteinsson, oddviti Grímsnes- og Grafningshrepps, opnar hlöðuna á Minni-Borg ásamt Ásdísi Thelmu Einarsdóttur frá ON.

Orka náttúrunnar virkjaði tvær nýjar hlöður fyrir rafbílaeigendur á dögunum. Önnur þeirra var sett upp á Stöðvarfirði í lok janúar, en hin er við Minni-Borg í uppsveitum Suðurlands. Fyrrnefnda hlaðan er liður í því verkefni ON að opna hringveginn fyrir rafbíla, en sú síðari er sett upp þar sem eru vinsælar sumarbústaðarbyggðir og þar með gott öryggisatriði fyrir íbúa og gesti.

Hlöðunum á eftir að fjölga talsvert á þessu ári og hringnum verður lokað fyrir páska.

Nýr raforkusamningur Landsvirkjunar og Advania Data Centers

Eyjólfur Magnús Kristinsson, forstjóri Advania Data Centers, og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, skrifuðu undir.

Landsvirkjun og hátæknifyrirtækið Advania Data Centers hafa undirritað rafmagnssamning um afhendingu á 30 MW til gagnaversins á Fitjum í Reykjanesbæ. Unnið er að mikilli stækkun gagnaversins og er ráðgert að umsvif Advania Data Centers þrefaldist. Starfsmenn gagnaveranna verða um 50 talsins og áætluð velta á árinu er um sex milljarðar króna.

Samningurinn gerir Advania Data Centers kleift að mæta sívaxandi eftirspurn eftir ofurtölvuafli og sérfræðiþjónustu í blockchain-tækni.

Endurnýjanleg orka og íslenskt veðurfar eiga þátt í að skapa hagstæðar aðstæður í gagnaverinu á Fitjum. Meðal þess sem laðar erlenda viðskiptavini til Advania Data Centers er að gagnaverið nýtir kalda loftið til að kæla tækjabúnað sem hitnar gríðarlega við notkun. Loftkælingin kemur í veg fyrir að eyða þurfi mikilli orku í að kæla búnaðinn og því er hagkvæmara að knýja hann á Íslandi en víða annars staðar í heiminum.

Orkan sem samningurinn nær til verður afhent úr núverandi aflstöðvakerfi Landsvirkjunar, sem rekur 14 vatnsaflsstöðvar, þrjár jarðvarmastöðvar og tvær vindmyllur. Þá stendur yfir stækkun Búrfellsvirkjunar sem áætlað er að gangsetja í sumar.

#MeToo: Stjórn Samorku hvetur til aðgerða

Stjórn Samorku hvetur aðildarfyrirtæki samtakanna til þess að taka ákall #metoo umræðunnar föstum tökum.

Frásagnir kvenna um áreitni og mismunun koma frá fjölbreyttum starfsstéttum og má því miður gera ráð fyrir að úrbóta sé einnig þörf innan orku- og veitustarfseminnar.

Kynferðisleg áreitni, ofbeldi og mismunun á aldrei rétt á sér og stjórn Samorku hvetur stjórnendur til að beita sér fyrir úrbótum og bættum samskiptum á sínum vinnustað. Þannig geti starfsfólk mætt öruggt og óttalaust til vinnu.

Konum hefur fjölgað mikið í orku- og veitustarfsemi á síðustu árum og til þess að sú góða þróun geti haldið áfram eru úrbætur á þessu sviði mikilvægar. Orku- og veitustarfsemi á að vera öruggur og eftirsóknarverður starfsvettvangur fyrir alla.

Jafnvægi í rekstri Landsnets

Hagnaður Landsnets nam tæpum þremur milljörðum króna á árinu 2017  og er það mikill viðsnúningur frá árinu áður, þegar um 1,4 milljarða tap var á rekstrinum.

Þetta kemur fram í ársreikningi Landsnets fyrir árið 2017 sem samþykktur var í dag.

Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, segir ánægjulegt að reksturinn sé í takt við áætlanir og nú stöðugur í stað mikilla sveiflna áður. Þakkar hann helst endurfjármögnun langtímalána á hagstæðum kjörum, færslu yfir í bandaríkjadali ásamt endurbótum á ferlum fyrir það jafnvægi í rekstri sem vænst var til. Áhætta félagsins vegna gjaldmiðla hefur minnkað töluvert og eru áhrif af styrkingu krónunnar ekki mikil í rekstrinum. 2017 var eitt af stærstu framkvæmdaárum fyrirtækisins og var framkvæmdakostnaðurinn að mestu í samræmi við áætlanir þrátt fyrir miklar tafir í stórum verkefnum , segir Guðmundur Ingi jafnframt í fréttatilkynningu frá Landsneti.

Hægt er að kynna sér ársreikninginn og frekari stiklur á helstu atriðum hans á heimasíðu Landsnets.

Sigurlilja ráðin hagfræðingur Samorku

Sigurlilja Albertsdóttir hefur verið ráðin hagfræðingur Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja.

Sigurlilja hefur starfað hjá Utanríkisráðuneytinu sem sérfræðingur á sviði stefnumótunar og fjármála frá árinu 2016 og þar áður sem sérfræðingur þjóðhagsútreikninga á efnahagssviði hjá Hagstofu Íslands frá árinu 2010. Þá hefur hún einnig starfað sem sérfræðingur við Hagstofu EFTA í Lúxemborg.

Sigurlilja er með B.Sc. í verkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og M.Sc. í þjóðhagfræði frá Háskóla Íslands.

Stefanía G. Halldórsdóttir til Landsvirkjunar

 

Stefanía G. Halldórsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar.

Hlutverk sviðsins er að hámarka tekjur Landsvirkjunar til langs tíma. Í því felst þróun, kynning og sala á orkuvörum og þjónustu, samskipti við núverandi og væntanlega viðskiptavini vegna samninga og reksturs þeirra og greining viðskiptatækifæra.

Framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs heyrir undir forstjóra Landsvirkjunar.

Stefanía starfaði hjá CCP Games í átta ár, síðast sem framkvæmdastjóri CCP á Íslandi og þar áður sem yfirþróunarstjóri CCP í Shanghai í Kína og þróunarstjóri á Íslandi. Stefanía starfaði áður hjá Orkustofnun í átta ár meðal annars sem yfirverkefnisstjóri og sérfræðingur hjá vatnamælingum og hjá HugurAx, sem verkefnisstjóri í viðskiptagreind.

Stefanía er með M.Sc. umhverfisfræði og B.Sc. í landfræði frá Háskóla Íslands. Hún er stjórnarformaður Icelandic Startups og stjórnarformaður Almannaróms, félags um máltækni á Íslandi.

Stefanía er gift Snorra Árnasyni, verkfræðingi, og eiga þau þrjú börn.