Ályktað um raforkumarkaðinn án skoðunar á tölulegum gögnum
Skýrsla Lars Christensen um íslenska orkumarkaðinn var til umfjöllunar á fundi Samtaka iðnaðarins í dag. Í skýrslunni er bryddað uppá umræðu um ýmis áhugaverð atriði um íslenskan orkumarkað og mikilvægi orkugeirans fyrir íslenskt efnahagslíf tíundað. Samorka fagnar slíkri umræðu, sem er bæði nauðsynleg og þörf í tengslum við síbreytilegan og kvikan orkumarkað, en samtökin vilja gjarnan vekja athygli á nokkrum atriðum varðandi skýrsluna.
Fræðileg nálgun
Í skýrslunni fjallar höfundur á fræðilegan hátt um möguleikann á að Landsvirkjun geti beitt sterkri stöðu sinni á markaði til að hafa áhrif til hækkunar á raforkuverðum hérlendis, umfram eðlilega þróun verðlags á markaði. Með sama hætti er á fræðilegan hátt velt vöngum yfir mögulegum kostnaðaráhrifum fyrir flutning raforku ef Landsnet tryggir ekki með nægilega skýrum hætti kostnaðaraðhald í sínum rekstri. Þó kom fram að Landsnet er, líkt og önnur slík flutningsfyrirtæki í Evrópu, undir ströngu eftirliti Orkustofnunar sem setur fyrirtækinu tekjumörk og skilgreinir hagræðingarkröfu.
Ályktanir ekki studdar tölulegum gögnum
Út frá þessum fræðilegu vangaveltum eru síðan settar fram hugmyndir í formi eins konar ályktana. En þessar fræðilegu vangaveltur eru ekki studdar neinum gögnum í skýrslunni. Þannig er einfalt að nálgast evrópskan samanburð um verð á raforku, a.m.k. til heimila og lítilla og meðalstórra fyrirtækja, hjá t.d. evrópsku hagstofunni Eurostat. Hið sama má segja um kostnað við raforkuflutning, t.d. hjá Evrópusamtökum flutningsfyrirtækja, ENTSO-E. Hvorugt er gert í skýrslunni.
Raforkukostnaður lægstur hér, flutningskostnaður vel undir evrópsku meðaltali
Samorka hefur nýlega vakið athygli á nýjum tölum þessara stofnana sem sýna að raforkukostnaður íslenskra heimila er sá lægsti í Vestur-Evrópu, og raforkan sjálf næst ódýrust í allri álfunni. Svipaða sögu má segja um lítil og meðalstór fyrirtæki. Upplýsingar um verð í langtímasamningum til stóriðju eru ekki aðgengilegar með sambærilegum hætti í evrópskum samanburði, en samanburður á kostnaði raforkuflutnings sýnir að þar er Ísland langt undir meðaltalskostnaði í Evrópu. Að mati Samorku hefði verið við hæfi að greining hagfræðingsins á íslenskum raforkumarkaði styddist við einhver slík gögn. Verðin eru mjög samkeppnishæf hérlendis, skv. þessum opinberu evrópsku samanburðartölum, þrátt fyrir að hér hafi eftirspurnin um talsverða hríð verið umfram framboð og allar horfur á að svo verði hér áfram, líkt og fjallað er um í nýlegri skýrslu iðnaðarráðherra um raforkumál.
Þá gerir skýrsla Christensens enga tilraun að meta hvort og þá hversu mikið raforkuverð hérlendis séu umfram kostnaðarverð og ekkert er fjallað um raforkuöryggi sem er stærsta viðfangsefni íslensks raforkumarkaðar og raunar eitt stærsta viðfangsefni stjórnvalda víða í Evrópu.
Ýmislegt fleira mætti tína hér til, en að mati Samorku er afar langsótt að draga miklar ályktanir um íslenskan raforkumarkað út frá slíkri nálgun, sem ekki styðst við nein töluleg gögn um markaðinn hérlendis.