Ársfundur Samorku 2020 í máli og myndum
Orkuskipti í samgöngum voru í brennidepli á ársfundi Samorku, sem fram fór þriðjudaginn 8. september í Norðurljósasal Hörpu. Dagskráin innihélt erindi um allar hliðar orkuskipta; á landi, í lofti og á legi og innlendir sem erlendir sérfræðingar fluttu erindi. Á fundinum voru kynntar niðurstöður úr nýrri greiningu Samorku um nauðsynlegar aðgerðir svo ná megi markmiðum stjórnvalda um orkuskipti í samgöngum árið 203o.
Fundurinn var heldur óvenjulegur í ár því engir voru gestirnir í salnum í ljósi aðstæðna, en hins vegar var metfjöldi sem fylgdist með í gegnum netið.
Hér fyrir neðan má sjá ljósmyndir og upptökur af erindum fundarins.
Fundurinn hófst á stuttu myndbandi um orkuskipti í samgöngum og um hvað þau snúast.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, ávarpaði fundinn og ræddi um mikilvægi orkuskipta í samgöngum í því markmiði að Ísland verði kolefnishlutlaust land.
Íslendingar hafa áður gengið í gegnum orkuskipti; fyrst með rafvæðingu atvinnu- og heimilislífs og svo þegar við nýttum jarðhitann til hitaveitu. Helgi Jóhannesson, formaður stjórnar Samorku, fór yfir ávinninginn sem þessi fyrri orkuskipti hafa fært okkur í erindi sínu.
Orkuskipti í samgöngum innanlands gegna lykilhlutverki í því að Ísland standist alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum. Auður Nanna Baldvinsdóttir, formaður orkuskiptahóps Samorku og viðskiptaþróunarstjóri hjá Landsvirkjun og Sigurjón Kjærnested, forstöðumaður fagsviða hjá Samorku, greindu frá niðurstöðum nýrrar greiningar á hvað þurfi til svo orkuskipti geti orðið að veruleika, til dæmis hvað varðar innviða- og orkuþörf.
Hér eru helstu niðurstöður greiningarinnar settar fram á einni mynd:
Colin McKerrecher, sérfræðingur hjá Bloomberg New Energy Finance (BNEF), kynnti nýja skýrslu um þróun orkuskipta í bílum.
Rafbílavæðing hefur jákvæð áhrif í heild þegar til lengri tíma er litið, þegar litið er til helstu þjóðhagslegra stærða og fjárhagslegra hagsmuna neytenda. Auk þess skilar hún umtalsverðum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta eru helstu niðurstöður greiningar sem unnin var af HR og HÍ fyrir Samorku, Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Grænu orkuna, Íslenska Nýorku og Orkusetur. Ingvar Freyr Ingvarsson, hagfræðingur Samorku, fór yfir niðurstöður rannsóknarinnar í erindi sínu.
Með aukinni rafbílavæðingu og orkuskiptum í samgöngum þarf að tryggja að innviðir raforkukerfis á Íslandi séu undirbúnir fyrir aukið álag sem fylgir í kjölfarið. Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja, ásamt nokkrum af aðildarfyrirtækjum sínum, stóð fyrir nýrri rannsókn á fyrirkomulagi hleðslu raf- og tengiltvinnbíla á Íslandi sem ekki verið framkvæmd hérlendis áður. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa mikilvægar upplýsingar um áhrif rafbíla á raforkukerfið, hvernig fyrirkomulagi á hleðslu þeirra er háttað og þar með á ákvarðanir um uppbyggingu innviða, svo rafbílaeigendur fái sem besta þjónustu um leið og þeim fjölgar. Scott Lepold, frá GeoTab/FleetCarma og Kjartan Rolf Árnason, orkuskiptahópi Samorku og forstöðumaður kerfisstýringar hjá RARIK, fóru yfir niðurstöður rannsóknarinnar í erindi sínu.
Hafnir geta gegnt lykilhlutverki í því að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda í framtíðinni og hjálpað til við að skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir græna orku. Ditlev Engel, framkvæmdastjóri DNV-GL, kynnti niðurstöður nýrrar skýrslu fyrirtækisins sem unnin var í samstarfi við Eurelectric.
Olav Mosvold Larsen, sérfræðingur hjá Avinor, sagði frá rafvæðingu flugs í Noregi og framtíðarsýn Avinor um orkuskipti í flugrekstri.
Danir horfa til þess að grænt eldsneyti sem framleitt er úr grænni orku muni spila lykilhlutverk í umskiptum frá jarðefnaeldsneyti og muni skipta verulegu máli í þeirri vegferð að uppfylla markmið Danmerkur í loftslagsmálum. Í erindinu fór Morten Stryg, aðalráðgjafi hjá Dansk Energi, yfir niðurstöður greiningar Energinet og Dansk Energi um hvernig grænt eldsneyti getur orðið einn af hornsteinum danska orkugeirans til framtíðar og hvaða atriði skipta sköpum til að tryggt sé að þessi orkuskipti geti átt sér stað í Danmörku.
Ljósmyndarinn Eyþór Árnason festi stemninguna á mynd.