Lykillinn að árangri í loftslagsmálum
Á dögunum kynntu stjórnvöld uppfærða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Þar má sjá metnaðarfullar og fjölbreyttar aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á næstu árum.
Orku- og veitufyrirtæki landsins láta sig þessi mál mikið varða enda er hrein orka og traustir orkuinnviðir um allt land lykillinn að árangri í loftslagsmálum. Á aðalfundi Samorku var eftirfarandi ályktun samþykkt.
Í fremstu röð í orkuskiptum
Samorka fagnar markmiðum stjórnvalda í loftslagsmálum og þeim aðgerðum sem boðaðar hafa verið í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Að skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir endurnýjanlega orkugjafa í samgöngum er lykilatriði í því að Ísland geti staðið við þau markmið og þar með alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum. Til þess þarf öfluga innviði og nægt framboð af innlendri, grænni orku sem ætlunin er að komi í stað jarðefnaeldsneytis. Orkuskipti í samgöngum eru þjóðhagslega hagkvæm og ávinningur fyrir loftslagið er mikill. Ísland á að vera í fremstu röð í þessari þróun og ráðast í orkuskipti af fullum þunga. Í því felast tækifæri fyrir fólk og fyrirtæki.
Styrking innviða nauðsynleg
Atburðir síðustu mánaða hafa minnt á mikilvægi rafmagns og hitaveitu í okkar daglega lífi og starfi. Mikilvægið fer vaxandi með aukinni rafvæðingu samfélagsins auk þess sem þörf fyrir heitt vatn eykst eftir því sem þjóðin vex og dafnar. Það sama á við um þörfina fyrir heilnæmt drykkjarvatn og uppbyggingu fráveitu. Sterkir innviðir með nægilegri afkastagetu þjóna íbúum og atvinnulífi um allt land og eru hornsteinn þjóðaröryggis og lífsgæða. Núverandi regluverk framkvæmda styður ekki við nauðsynlegt viðhald og styrkingu orkuinnviða. Nauðsynlegt er að bæta úr því.
Græn orka til framtíðar
Í dag er hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa á Íslandi með því hæsta sem gerist í heiminum og hagnýting grænna orkuauðlinda hefur lagt grunninn að lífsgæðum og verðmætasköpun í landinu síðustu hundrað árin. Til að svo megi áfram vera þarf að skapa samstöðu um aðgengi þjóðarinnar að orkulindum sínum enda nauðsynlegt að horfa áratugi fram í tímann og geta mætt orkuþörf og orkuöryggi heimila og atvinnulífs til framtíðar.
Tækniþróun og nýsköpun mun leiða af sér betri orkunýtingu og nýjar lausnir til sparnaðar, en því til viðbótar mun þurfa aukna endurnýjanlega orku til að uppfylla þarfir heimila og atvinnulífs auk markmiða um græna framtíð fyrir núverandi og komandi kynslóðir.
Samorka lýsir yfir áhyggjum af því að markvisst er unnið að því að takmarka orkunýtingu á sífellt stærra landsvæði sem ríkt er af endurnýjanlegum orkulindum. Áður en frekari ákvarðanir um slíkar takmarkanir eru teknar er nauðsynlegt að því sé svarað hvaðan hreina orkan, sem uppfylla á þarfir samfélagsins nú og til framtíðar, eigi að koma.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 10. júlí 2020.