Bryndís Ísfold nýr forstöðumaður hjá Orkuveitu Reykjavíkur
Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður Samskipta og samfélags hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Einingin er ný og hlutverk hennar er að sjá um samskipta- og markaðsmál hjá samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur. Auk móðurfélagsins tilheyra henni dótturfyrirtækin Veitur, Orka náttúrunnar, Gagnaveita Reykjavíkur og CarbFix.
Bryndís er með BA gráðu í stjórnmálafræði og BS gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands. Þá lauk hún meistaragráðu í herferðastjórnun frá Fordham University í New York. Síðustu tvö árin hefur hún starfað sem ráðgjafi og við stjórnendaþjálfun hjá ráðgjafafyrirtækinu Aton.JL, meðal annars fyrir fyrirtæki innan samstæðu OR. Þá er hún aðjúnkt við Háskólann á Bifröst og kennir nemendum í Miðlun og almannatengslum við skólann.
Bryndís Ísfold bjó og starfaði í Bandaríkjunum í fimm ár þar sem hún vann sem ráðgjafi fyrir frambjóðendur og félagasamtök, meðal annars á sviðum umhverfismála og mannréttindamála. Áður en hún fluttist utan starfaði hún hér á landi við almannatengsl og blaðamennsku. Bryndís var varaborgarfulltrúi og sat í ýmsum ráðum og nefndum hjá Reykjavíkurborg til ársins 2009 og gegndi starfi framkvæmdastjóra Já Ísland í rúm tvö ár.