Þeistareykjavirkjun hlaut gullverðlaun IPMA
Þeistareykjavirkjun, jarðvarmavirkjun Landsvirkjunar á Norðausturlandi, hefur hlotið gullverðlaun Alþjóðasamtaka verkefnastjórnunarfélaga – IPMA Global Project Excellence Award. Verðlaunin eru stærstu verðlaun sem veitt eru í fagi verkefnastjórnunar á heimsvísu. Meginstef verðlaunanna í ár var sjálfbærni.
Þeistareykjavirkjun hlaut verðlaunin í flokknum „Large-Sized Projects“ – stór verkefni. Úrskurður dómnefndar tilgreinir sem helstu styrkleika verkefnisins framúrskarandi samskipti við hagsmunaaðila á undirbúnings- og framkvæmdastigi og samhentan verkefnishóp með áherslur á öryggis- og umhverfismál, í anda stefnu Landsvirkjunar um ábyrga nýtingu endurnýjanlegra orkuauðlinda með sjálfbærni að leiðarljósi.
Verðlaunin þykja mikill heiður fyrir Landsvirkjun og alla þá sem að verkefninu komu; starfsfólk, ráðgjafa og verktaka.
Um IPMA-verðlaunin
Hin alþjóðlega IPMA-verðlaunahátíð fór nú fram í 18. skipti og var haldin í Mexíkó í ár. Yfir 250 fagmenn á sviði verkefnastjórnunar, hvaðanæva að úr heiminum, sóttu hátíðina. Landsvirkjun sendi inn umsókn um að taka þátt í samkeppninni í mars á þessu ári og í framhaldinu kom hingað til lands fimm manna sendinefnd á vegum IPMA til að taka verkefnið út. Í úttektinni fólst meðal annars heimsókn á verkstað og ítarleg samtöl við innri og ytri hagsmunaaðila verkefnisins.
Um Þeistareykjastöð
Þeistareykjastöð er fyrsta jarðvarmastöðin sem Landsvirkjun hefur byggt frá grunni en hún samanstendur af tveimur 45 MW vélasamstæðum og er því alls 90 MW. Frá upphafi hönnunar og undirbúnings að uppbyggingu stöðvarinnar var meginmarkmiðið að reisa hagkvæma og áreiðanlega aflstöð sem tekur mið af umhverfi sínu og náttúru. Rekstur stöðvarinnar hefur gengið vel og er virkni búnaðar umfram væntingar.
Frumkvæði að nýtingu náttúruauðlindarinnar á Þeistareykjum kom frá heimamönnum, en sveitarfélög og íbúar stofnuðu Þeistareyki ehf. árið 1999. Landsvirkjun kom fyrst að verkefninu árið 2005 en hefur frá árinu 2011 haft forgöngu um undirbúning og framkvæmd þess.
Rannsóknir á jarðhitasvæðinu á Þeistareykjum teygja sig áratugi aftur í tímann. Við mat á umhverfisáhrifum var miðað við allt að 200 MW virkjun á svæðinu, en núverandi verkefni var um byggingu 90 MW virkjunar í tveimur áföngum. Framkvæmdir stóðu í rúm þrjú ár.
Þeistareykjastöð er fyrsta jarðvarmastöð í heimi sem metin hefur verið samkvæmt drögum að nýjum GSAP-matslykli um sjálfbærni jarðvarmavirkjana (Geothermal Sustainability Assessment Protocol). Niðurstöður matsskýrslunnar gáfu til kynna að undirbúningsferlið við Þeistareykjastöð hafi almennt fallið vel að alþjóðlegum viðmiðum um sjálfbæra þróun samkvæmt sjálfbærnisvísum lykilsins. Af þeim 17 vísum sem metnir voru fengu 11 þeirra hæstu einkunn sem lykillinn veitir, eða „proven best practice.“ Þá þykir verkefnið til fyrirmyndar m.a. hvað varðar samskipti og samráð við hagsmunaraðila og nýtingu á jarðhitaauðlindinni.