Viðbúnaður Veitna vegna kuldakasts
Veitur hafa virkjað viðbragðsáætlun í rekstri hitaveitunnar vegna kuldakastsins sem nú stendur yfir á höfuðborgarsvæðinu.
Rennsli í hitaveitukerfi Veitna á höfuðborgarsvæðinu hélt áfram að aukast í nótt eftir metrennsli í gær. Jafnaðarrennslið nemur um 16.400 rúmmetrum þá klukkutíma sem notkunin er mest. Megin skýringin er aukin kynding húsa og varmatap úr þeim vegna kuldans.
Spáð er áframhaldandi frosti næstu daga og vegna þessa hafa Veitur virkjað viðbragðsáætlun sína. Gangi veðurspáin eftir gæti komið til skerðinga á afhendingu á heitu vatni til stærri notenda á föstudag, á meðal þeirra eru sundlaugarnar.
Förum vel með heita vatnið
Veitur hvöttu fólk í gær til að fara vel með heita vatnið og huga að því hvort hugsanlega sé vatni sóað á heimilum þess eða vinnustöðum. Um 90% af hitaveituvatninu eru notuð til húshitunar. Fólk getur sparað heitt vatn og þar með kyndikostnað sinn með því að gæta að því að gluggar séu ekki opnir og útidyr ekki látnar standa opnar lengur en þörf er á. Þá skipta einnig máli stillingar ofna – að óþarflega heitt vatn renni ekki frá þeim – og að ofnarnir séu ekki byrgðir, til dæmis með síðum gluggatjöldum eða húsgögnum. Þá eru heitir pottar við heimili talsvert þurftafrekir á vatnið. Fleiri sparnaðarráð er að finna á vef Veitna.
Stækkuð varmastöð í haust
Uppbygging stendur yfir í hitaveitu Veitna á höfuðborgarsvæðinu. Talsverð aukning varð á notkun á heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu á árinu 2018. Árið var mun kaldara en árin á undan, fólksfjölgun var mikil og mikið byggt af húsnæði. Aukning notkunar á heitu vatni var þó umfram það sem þessu svaraði. Á meðal yfirstandandi fjárfestinga Veitna er tenging eldri borhola við hitaveituna, sverun aðalæða en mestu mun skipta stækkun varmastöðvar í Hellisheiðarvirkjun. Hún var upphaflega ráðgerð árið 2023 en var flýtt til haustsins 2019. Gangi langtímaspár um heitavatnsnotkun eftir duga þessar aðgerðir fram undir miðjan næsta ártug. Spár Veitna í þessum efnum eru endurskoðaðar tvisvar á ári.