Orkustofnun samþykkir kerfisáætlun Landsnets
Orkustofnun hefur samþykkt kerfisáætlun Landsnets fyrir tímabilið 2018-2027 og felur samþykkið í sér ígildi leyfis fyrir framkvæmdum á framkvæmdaáætlun flutningsfyrirtækisins.
„Samþykki Orkustofnunar á kerfisáætlun 2018-2027 er mikilvægur áfangi í því verkefni sem framundan er í uppbyggingu raforkuinnviða landsins. Með uppbyggingunni verður flutningskerfið betur í stakk búið til að mæta framtíðaráskorunum þar sem verkefnin eru fjölmörg víðsvegar um landið“ segir Sverrir Jan Norðfjörð, framkvæmdastjóri þróunar- og tæknisviðs Landsnets.
Samkvæmt raforkulögum hefur Orkustofnun það hlutverk að fara yfir og meta kerfisáætlun Landsnets með hliðsjón af markmiðum raforkulaga um öryggi, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar, hagkvæmni, gæði raforku og stefnu stjórnvalda um lagningu raflína. Mat Orkustofnunar á framkvæmdum á framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar kemur í stað leyfisveitinga stofnunarinnar fyrir einstökum framkvæmdum. Þannig felur samþykki Orkustofnunar á kerfisáætlun í sér ígildi leyfis fyrir framkvæmdum á framkvæmdaáætlun flutningsfyrirtækisins.
Landsnet skal árlega leggja fram kerfisáætlun til samþykktar hjá Orkustofnun sem felur í sér tvo megin þætti:
• Langtímaáætlun sem sýnir þá hluta í meginflutningskerfinu sem fyrirhugað er að byggja upp eða uppfæra á næstu tíu árum.
• Framkvæmdaáætlun sem sýnir áætlaðar fjárfestingar í flutningskerfinu sem Landnet hyggst ráðast í á næstu þremur árum.