Ný íslensk rannsókn um hleðslu rafbíla
Tvö hundruð eigendum raf- og tengiltvinnbíla hefur verið boðin þátttaka í rannsókn, sem kanna á hvernig þeir hlaða bílana sína. Niðurstöður rannsóknarinnar munu veita mikilvægar upplýsingar fyrir áframhaldandi orkuskipti í samgöngum hér á landi.
Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja, ásamt nokkrum af aðildarfyrirtækjum sínum, stendur fyrir rannsókninni sem stendur yfir í 12 mánuði og er sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi. Markmið hennar er að afla upplýsinga um áhrif rafbíla á raforkukerfið, hvernig fyrirkomulagi á hleðslu þeirra er háttað og þar með á ákvarðanir um uppbyggingu innviða fyrir orkuskipti í samgöngum.
„Raungögn um hleðsluhegðun eru nauðsynleg til þess að hægt sé að spá fyrir um framtíðarnotkun, álagspunkta og stuðla að því að orku- og veitufyrirtæki verði í stakk búin til þess að mæta orkuskiptunum“, segir Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku. „Og auðvitað til að veita rafbílaeigendum áfram góða þjónustu“.
Raf- og tengiltvinnbílarnir í rannsókninni eru af mismunandi tegundum, ýmist í eigu einstaklinga eða fyrirtækja, eru staðsettir á mismunandi svæðum á landinu og eru hlaðnir ýmist við einbýli, fjölbýli eða vinnustað. Með þessum hætti fást niðurstöður um hvort þarfir þessara hópa séu ólíkar og kröfur til uppbyggingar innviða þar með.
Hlutfall raf- og tengiltvinnbíla af nýskráðum bílum er næsthæst hér á Norðurlöndunum, enda sjá fleiri og fleiri sér hag í því að spara bensínkaup og minnka um leið útblástur gróðurhúsalofttegunda. Þá á uppbygging hleðslustöðva um landið síðustu árin eflaust stóran þátt í því að rafbílar eru orðinn raunhæfur kostur í samgöngum.
Páll segir þessa uppbyggingu hafa verið leidda af orku- og veitufyrirtækjum landsins og rannsóknin sé næsta skref í því verkefni. „Orku- og veitufyrirtæki vilja áfram vera í fararbroddi þegar kemur að þessu mikilvæga samfélagslega verkefni; að skipta út olíunni á bílunum okkar yfir í græna, hagkvæma orkugjafa“.
Allar nánari upplýsingar um rannsóknina má finna á www.samorka.is/hledslurannsokn
Öll meðferð persónuupplýsinga í rannsókninni er í samræmi við persónuverndarlög og verður ekki hægt að rekja niðurstöður til einstakra þátttakenda.