Þeistareykjavirkjun gangsett
17. aflstöð Landsvirkjunar að Þeistareykjum var gangsett í dag við hátíðlega athöfn. Um er að ræða þriðju jarðvarmastöð fyrirtækisins, en fyrir eru Kröflustöð og gamla gufustöðin í Bjarnarflagi.
Þeistareykjastöð er fyrsta jarðvarmastöð sem Landsvirkjun byggir frá grunni.
Þeistareykjastöð verður 90 MW. Hún er reist í tveimur 45 MW áföngum og var vélasamstæða 1 gangsett í dag og tengd við flutningskerfi Landsnets. Fjármála- og efnahagsráðherra, Benedikt Jóhannesson, og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, gangsettu virkjunina í sameiningu.
Hörður Arnarson forstjóri sagði í ávarpi sínu að framkvæmdin hefði tekist vel og lögð hefði verið mikil áhersla á samskipti og samráð og umhverfis- og öryggismál.
Í ávarpi sínu sagði Þórdís Kolbrún iðnaðarráðherra að um þjóðhagslega hagkvæman virkjunarkost væri að ræða, sem myndi auka hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa og hafa jákvæð áhrif í víðtækum skilningi.
Mikil áhersla er lögð á varfærna uppbyggingu og nýtingu jarðvarmans á svæðinu, en fyrir liggur mat á umhverfisáhrifum fyrir allt að 200 MW virkjun á svæðinu. Uppsetning á vélasamstæðu 2 er nú í fullum gangi og er stefnt að því að orkuvinnsla hennar hefjist í apríl 2018.
Nánari upplýsingar um sögu virkjunarinnar má sjá á vef Landsvirkjunar.