Ísland önnur umhverfisvænsta þjóð heims
Ísland er önnur umhverfisvænsta þjóð heimsins samkvæmt nýrri umhverfisvísitölu Yale háskólans í Bandaríkjunum. Þessi skemmtilega staðreynd þarf ekki endilega að koma á óvart því staða Íslands er mjög sterk í alþjóðasamhengi vegna gnægðar vistvænnar orku hér á landi.
Hlutfall endurnýjanlegrar orku við rafmagnsframleiðslu og húshitun er ríflega 99% á Íslandi og vegur þyngst í að skila Íslandi svo ofarlega á lista. Einnig er hlutfall útblásturs gróðurhúsalofttegunda vegna bruna jarðefnaeldsneytis við raforku- og varmaframleiðslu 0%. Í öðrum löndum Evrópu nær þessi tala allt að 80%.
Finnland kemur best út samkvæmt vísitölunni og Danmörk og Svíþjóð koma fast á hæla Íslandi.
Þorsteinn Þorsteinsson hjá Markaðsrýni vakti nýlega athygli á þessa nýju vísitölu Yale, Yale‘s Environmental Performance Index (EPI).
Þótt að vísitalan sýni hversu framarlega Ísland er þegar kemur að loftslagsmálum, þá má ná enn betri árangri. Eins og staðan er í dag er hlutfall endurnýjanlegrar orku í samgöngum lágt í samanburði við önnur lönd, eða 3,3%, en rafbílum fer þó hratt fjölgandi. Þarna liggja langstærstu tækifæri Íslands í loftlagsmálum; Að skipta um orkugjafa í bíla- og skipaflota landsins og minnka þannig útblástur gróðurhúsalofttegunda allverulega.
Hægt er að skoða skýrslu Yale í heild sinni á vefnum og lesa sér betur til um forsendur og niðurstöður EPI.