Rafmagn – einn mikilvægasti þáttur daglegs lífs
Morgunblaðsgrein Eiríks Hjálmarssonar, formanns kynningarhóps Samorku:
Rafmagnið er á meðal mikilvægustu þátta daglegs lífs. Við á norðlægum slóðum kunnum hvað best að meta það á dimmum og köldum vetrum. Í dag, 23. janúar, er á Norðurlöndum og raunar víðar í Evrópu haldið upp á árlegan rafmagnsdag þegar sjónum er beint að því sem rafmagnið, þessi ósýnilega nauðsynjavara, hefur gert okkur mögulegt.
Við upphaf 20. aldar tóku húsverkin hjá hverri fjölskyldu um 54 klukkutíma á viku. Nærri allur vökutími fólks fór í að elda, þrífa og kynda og þetta er náttúrlega fyrir utan vinnutíma fólks. Undir lok aldarinnar tóku þessi störf 15 klukkutíma á viku, þökk sé heimilistækjunum öllum, sem knúin eru rafmagni. Rafmagnið hefur þannig fært okkur einfaldara, öruggara og ylríkara líf þar sem ljóss nýtur á dimmustu vetrardögum.
Það sem meira máli skiptir, þá hefur rafmagnið fært okkur betri heilsu og meira langlífi. Það þarf ekki annað en að líta til þeirra rafknúnu lækningatækja, sem bjargað hafa mörgu mannslífinu; öndunartækja, hjartastuðtækja og fjölbreyttra mælitækja sem gera læknum og hjúkrunarfólki starfið léttara og skilvirkara. Við sjálf getum líka fylgst betur með eigin heilsu með hjálp rafknúinna blóðþrýstingsmæla og hjartsláttarteljara.
Norðurlandabúar hafa notið rafmagns frá því um 1870 og Íslendingar frá því við upphaf 20. aldar. Í fyrstunni lýsti það upp vinnustaði, heimili og götur en nú knýr það upplýsingakerfin okkar, iðnaðinn, heimilistækin og í auknum mæli farartækin. Samfélag dagsins reiðir sig algjörlega á rafmagn og ekki bara til að létta störfin heldur ekki síður til afþreyingar og samskipta.
Orkufyrirtækin á Norðurlöndum leika lykilhlutverk í efnahag hvers lands. Hvert ár er milljörðum varið til fjárfestinga í framleiðslu rafmagns, flutningsvirki og dreifikerfin. Það í sjálfu sér skapar störf auk þess að gera aðgang fólks að rafmagni á viðráðanlegu verði greiðari.
Í síauknum mæli er rafmagnið sem framleitt er á Norðurlöndum grænt og frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Nú þegar teljast 2/3 hlutar raforkuframleiðslunnar á Norðurlöndum endurnýjanlegir og 88% er hlutfall kolefnishlutlausrar framleiðslu. Á Íslandi er þetta 100%. Þarna eru Norðurlönd í fararbroddi.