Orkuskipti í samgöngum stærsta tækifærið
Í dag koma þjóðarleiðtogar saman í New York á Degi jarðar og undirrita Parísarsamkomulagið um sameiginleg markmið þjóða heimsins í loftslagsmálum. Stóra tækifærið fyrir Ísland í loftslagsmálum er að skipta um orkugjafa í samgöngum þar sem hægt væri að koma í veg fyrir tæplega 20% af árlegum útblæstri gróðurhúsalofttegunda hér á landi. En þrátt fyrir kjöraðstæður hvað varðar aðgengi að endurnýjanlegum orkugjöfum er þróunin í orkuskiptum mjög hæg á Íslandi.
Ísland er fremst í flokki þjóða hvað varðar hlutfall endurnýjanlegrar orku við rafmagnsframleiðslu og húshitun og af því geta Íslendingar verið stoltir. Við ættum auðveldlega að geta vermt efsta sætið þegar kemur að notkun endurnýjanlegrar orku í samgöngum, því hér eigum við gnægð af henni. Svo er hins vegar ekki. Af nýskráðum bílum hér á landi eru aðeins tæplega 4% rafbílar. Til samanburðar má nefna að í Noregi eru tveir af hverjum þremur nýskráðum bílum vistvænir.
Heildarútblástur Íslands nemur 4,5 milljónum tonna á ári hverju og þar af er hlutur samgangna rétt um 18% af heild, eða 800 þúsund tonn. Það er öllum í hag, Íslendingum og heimsbyggðinni allri, að setja í forgang hér á landi að gera samgöngur umhverfisvænni.